Hoppa yfir valmynd

839/2019. Úrskurður frá 28. október 2019

Úrskurður

Hinn 28. október 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 839/2019 í máli ÚNU 19050010.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 10. maí 2019, kærði A ákvörðun Grindavíkurbæjar um synjun beiðni um sundurliðaða útreikninga álagningar fasteignagjalda ársins 2019 vegna [fasteignar] í [hverfi] í Grindavík.

Í kæru kemur fram að kærandi telji misræmi á milli skráningar húsa á lóð [fasteignar] og því hafi kærandi óskað eftir sundurliðuðum upplýsingum um álagningu fasteignagjalda vegna [fasteignar] fyrir árið 2019. Kærandi vísar í skýrsluna „Húsakönnun í [hverfi]: Verndarsvæði í byggð“ sem unnin var fyrir Grindavíkurbæ árin 2017-2018. Þar séu upplýsingar um og ljósmyndir af tveimur geymsluhúsum á lóð [fasteignar], annað [x] m2 og hitt [x] m2. Kærandi kveður geymsluhúsin ekki hluta af fasteignamati eins og það er skráð í fasteignaskrá og að ósamræmi á milli skýrslunnar og fasteignaskrár sýni að húsin hafi verið án álagningar fasteignagjalda í áratug. Þar sem Grindavíkurbær hafi ekki veitt kæranda sundurliðaðar upplýsingar um álagningu fasteignagjalda fyrir viðkomandi lóð sé ógerningur að sannreyna þetta.

Meðfylgjandi kæru eru tölvupóstsamskipti á milli kæranda og Grindavíkurbæjar, dags. 11. apríl 2019, þar sem kærandi óskar fyrrnefndra upplýsinga. Í svörum sveitarfélagsins er vísað í almennar reglur um fasteignaskatt, kæranda bent á að út frá þeim geti hann reiknað út fasteignagjagjöld en tekið fram að séu eignir ekki skráðar í Landskrá fasteigna eða hafi ekki fasteignamat sé óheimilt að leggja á þær fasteignaskatt. Þá er einnig vísað til fyrra máls kæranda fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál og tekið fram að svör sveitarfélagsins muni vera þau sömu og í fyrra máli.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 14. maí 2019, var kæran kynnt Grindavíkurbæ og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Í umsögn sveitarfélagsins, dags. 24. maí 2019, kemur fram að farið sé eftir reglugerð um fasteignaskatt nr. 1160/2015 og að sveitarfélögum sé óheimilt annað en að fara eftir Landskrá fasteigna við innheimtu fasteignagjalda. Þá segir að í fylgigögnum með kæru komi fram upplýsingar um fasteignamat viðkomandi eignar, sem sé grunnur að álagningu fasteignagjalda 2019, einnig að álagningarreglur Grindavíkurbæjar séu aðgengilegar á heimasíðu bæjarins og að út frá þessum upplýsingum geti hver sem er reiknað álögð fasteignagjöld viðkomandi eignar.

Fram kemur að sveitarfélagið sjái ekki ástæðu til þess að leggja í aukavinnu vegna þessa, þ.e. útbúa ný skjöl eða gögn vegna málsins, enda sé það ekki skylt skv. upplýsingalögum nr. 140/2012. Kærandi hafi þær upplýsingar sem liggi til grundvallar álagningar fasteignagjalda og því sé ekki um að ræða synjun á upplýsingabeiðni af hálfu sveitarfélagsins. Enn fremur séu álagningarseðlar ekki vistaðir sjálfstætt í álagningarkerfi fasteignagjalda og til þess að kalla fram álagningarseðil eignar þurfi að setja af stað vinnslu í álagningarkerfinu sem svo sendi tölvupóst með slóð að niðurstöðu vinnslunnar til þess sem setur vinnsluna af stað. Þá er vísað til þess að við endurskoðun á ársuppgjöri Grindavíkurbæjar fari endurskoðendur bæjarins yfir verklag og álagningu fasteignagjalda og ekkert í þeirri yfirferð gefi til kynna að alvarlegar ásakanir kæranda eigi við rök að styðjast.

Umsögn Grindavíkurbæjar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 31. maí 2019, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 14. júní 2019, er vísað til svara Grindavíkurbæjar í fyrra máli, ÚNU 18050003. Þau svör hafi orðið til þess að „hægt var að upplýsa og sannreyna að a.m.k. 2 hús höfðu staðið í skjóli yfirhylminga stjórnsýslu Grindavíkurbæjar, án álagningu fasteigna í rúman áratug, með vitund og vitneskju slökkvistjóra og byggingarfulltrúa Grindavíkurbæjar.“ Þá er fjallað um breytingar sem orðið hafa á skráningu [… fasteignar] í fasteignaskrá og kröfur þær sem settar voru fram í kæru eru ítrekaðar.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Grindavíkurbæjar á beiðni um aðgang að sundurliðuðum útreikningum álagðra fasteignagjalda árið 2019 vegna [fasteignar] í [hverfi] í Grindavíkurbæ.

Í umsögn Grindavíkurbæjar, dags. 24. maí 2019, er vísað til þess að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga á almenningur á rétt til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum í vörslum stjórnvalda með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna. Stjórnvöldum er hins vegar hvorki skylt að útbúa ný skjöl né taka saman tölulegar upplýsingar úr skjölum sínum á grundvelli ákvæðisins, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga er tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja hjá stjórnvöldum á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma.

Af hálfu Grindavíkurbæjar hefur komið fram að það krefðist sérstakrar vinnu að útvega umbeðin gögn. Álagningarseðlar eigna séu ekki fyrirliggjandi því þeir séu ekki vistaðir sjálfstætt í álagningarkerfi fasteignagjalda. Til að kalla fram álagningarseðil eignar þurfi því að setja af stað vinnslu í álagningarkerfinu sem svo sendir, til þess sem þessa vinnslu setur af stað, tölvupóst með slóð að niðurstöðu vinnslunnar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sér ekki ástæðu til að draga þær skýringar Grindavíkurbæjar í efa.

Í málinu liggur fyrir að skjalið sem kærandi óskar eftir er ekki fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu heldur þarf að útbúa það sérstaklega svo unnt sé að afgreiða gagnabeiðni kæranda. Hér ræður ekki úrslitum þótt unnt sé að búa skjalið til með tiltölulega einfaldri aðgerð. Gagnagrunnur og álagningarkerfi fasteignagjalda tilheyrir Þjóðskrá þó að Grindavíkurbær, líkt og önnur sveitarfélög, hafi aðgang að honum. Úrskurðarnefndin tekur þó fram að sveitarfélaginu er heimilt að afgreiða gagnabeiðni kæranda með því að framkalla viðkomandi álagningarseðil, sbr. 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga, enda standi aðrar lagareglur ekki í vegi fyrir því, þar á meðal ákvæði laga um þagnarskyldu og persónuvernd.

Samkvæmt framangreindu verður lagt til grundvallar að umbeðin gögn kæranda séu ekki fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Hið sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. að ræða og ber úrskurðarnefnd um upplýsingamál að vísa kæru þar að lútandi frá.

Úrskurðarorð:

Kæru A á hendur Grindavíkurbæ, dags. 10. maí 2019, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir                      Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira