Hoppa yfir valmynd

872/2020. Úrskurður frá 14. febrúar 2020

Úrskurður

Hinn 14. febrúar 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 872/2020 í máli nr. ÚNU 19100003.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 2. október 2019, kærði A, blaðamaður, afgreiðslu ríkislögreglustjóra á beiðni hans um aðgang að gögnum. Málavextir eru þeir að þann 23. september 2019, ritaði kærandi embættinu bréf þar sem fram kom að honum hefði borist ábending um að lögreglustjóri hefði þurft að taka á máli um [...]. Samkvæmt ábendingunni hefði [...].

Í kjölfarið óskaði kærandi eftir svörum við því hvort slíkt mál hefði komið á borð ríkislögreglustjóra, ef svo væri hvort um fleiri en eitt tilvik væri að ræða, hvar og hvenær tilvikið hefði átt sér stað, hvort það lægi fyrir hversu umfangsmikil [...] hefði verið og þá [...], hvort farið hefði verið fram á að viðkomandi endurgreiddi söluhagnað og hvaða [...] hefði verið um að ræða. Degi síðar, 24. september 2019, var kæranda svarað þannig að embættið veitti ekki upplýsingar um málefni er varðaði einstaka starfsmenn embættisins.

Samdægurs svaraði kærandi því að fyrirspurnin lyti að því hvort slíkt mál hefði komið upp en ekki hefði verið óskað eftir því að embættið tjáði sig um málefni einstakra starfsmanna. Þann 1. október 2019, svaraði embætti ríkislögreglustjóra því að beiðni kæranda um aðgang að umbeðnum upplýsingum væri synjað með vísan til 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga en upplýsingarnar lytu að starfssambandi í skilningi ákvæðisins. Þá væri það mat embættisins að ekki væri unnt að veita kæranda aukinn aðgang að upplýsingunum, sbr. 11. gr. laganna.

Í kæru segir m.a. að óskað sé eftir gögnum með umbeðnum upplýsingum með vísan til upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá sé óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 2. október 2019, var kæran kynnt ríkislögreglustjóra og embættinu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar. Jafnframt var óskað eftir afritum af gögnum sem kæran lyti að.

Í umsögn ríkislögreglustjóra, dags. 18. október 2019, kemur fram að kæranda hafi verið synjað um svör við erindinu með vísan til 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en svör við erindi kæranda feli í sér upplýsingar um málefni einstakra starfsmanna. Þá er vísað til svars embættisins frá 1. október hvað varði rökstuðning fyrir ákvörðun embættisins en um sé að ræða beiðni um upplýsingar er lúti í eðli sínu að starfssambandi.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum sem geyma upplýsingar um hvort mál vegna [...] hafi verið til meðferðar hjá embættinu. Embætti ríkislögreglustjóra reisti ákvörðun sína um synjun beiðni um aðgang að gögnum með umbeðnum upplýsingum á 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga þar sem beiðnin taki til upplýsinga sem varði starfssamband starfsmanna og embættisins.

Kærandi vísar til þess að ekki sé óskað eftir upplýsingum um málefni tiltekins starfsmanns heldur aðeins eftir upplýsingum um hvort mál um [...] hafi komið upp. Í því sambandi athugast að upplýsingalög veita rétt til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum, sbr. t.d. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Lögin leggja því skyldu á þá sem undir þau falla að taka afstöðu til þess hvort beiðandi eigi rétt til aðgangs að gögnum sem geyma umbeðnar upplýsingar.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er þeim sem falla undir lögin skylt að veita almenningi, sé þess óskað, aðgang að fyrirliggjandi gögnum með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr laganna.

Í 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga segir orðrétt:

„Réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lög þessi taka til skv. 2. gr. tekur ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti.“

Í athugasemdum við ákvæði 1. mgr. 7. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur meðal annars eftirfarandi fram um regluna:

„Ákvæði 7. gr. frumvarpsins er þannig upp byggt að í 1. mgr. er lögð til sú meginregla að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki almennt ekki til upplýsinga um þau málefni starfsmanna þeirra aðila sem falla undir ákvæði frumvarpsins, sbr. 2. gr., sem lúta að umsóknum um störf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Í 2. mgr. eru síðan ákveðnar og skýrt afmarkaðar undanþágur frá þessari reglu vegna starfsmanna stjórnvalda, í 3. mgr. er heimild vegna upplýsinga um viðurlög sem æðstu stjórnendur hafa sætt, en í 4. mgr. eru undanþágur frá þessari reglu vegna starfsmanna einkaréttarlegra lögaðila í opinberri eigu, sbr. 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Með þessu móti er fært að taka skýra afstöðu til þess hvaða upplýsingar um málefni starfsmanna lúti ákvæðum upplýsingalaga um aðgangsrétt og hverjar ekki.“

Í athugasemdum við 1. mgr. 7. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir eftirfarandi um orðasambandið „starfssambandið að öðru leyti“:

„Með gögnum í málum sem varða starfssambandið að öðru leyti, sbr. niðurlag 1. mgr. 7. gr., er átt við gögn í málum þar sem teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur starfsmanna. Þau rök búa hér að baki að rétt sé veita starfsmanni ákveðið öryggi í starfi og varðveita trúnað í vinnusambandinu sem ella væri hætta á að brysti ef veittur yrði aðgangur að gögnum í slíkum málum. Af þessu leiðir enn fremur að opinberir aðilar ættu síður möguleika á því að laða til sín og halda hjá sér hæfu starfsfólki. Til mála er varða starfssambandið teljast t.d. mál þar starfsmaður hefur þurft að sæta frádrætti frá launum, ákvarðanir stjórnenda um sveigjanlegan vinnutíma og um aukastörf, sbr. IV. kafla laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og enn fremur mál er lúta að aðfinnslum og áminningu eða eftir atvikum starfslokum. Í 3. mgr. er gert ráð fyrir því að heimild til að veita aðgang að upplýsingum í slíkum málum taki einvörðungu til æðstu stjórnenda.“

Með vísan til athugasemda við 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ljóst að upplýsingar um hvort embættið hafi haft til meðferðar mál vegna [...] embættis ríkislögreglustjóra séu upplýsingar um starfssamband viðkomandi starfsmanns og embættisins í skilningi ákvæðisins. Í ljósi atvika málsins telur úrskurðarnefndin að staðfesting upplýsinga um hvort mál af þeim toga hafi yfir höfuð komið til meðferðar hjá embættinu fela í sér upplýsingar um starfsamband tiltekins starfsmanns. Samkvæmt framangreindu verður ekki hjá því komist að staðfesta ákvörðun embættis ríkislögreglustjóra um að synja beiðni kæranda um aðgang að upplýsingunum.

Úrskurðarorð

Staðfest er ákvörðun embættis ríkislögreglustjóra um synjun beiðni kæranda, A, dags. 23. september 2019, um aðgang að gögnum með upplýsingum um hvort til meðferðar hafi verið mál um [...].


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum