Hoppa yfir valmynd

877/2020. Úrskurður frá 26. febrúar 2020

Úrskurður

Hinn 26. febrúar 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 877/2020 í máli ÚNU 19090010.

Kæra og málsatvik

Með erindi til Herjólfs ohf., dags. 25. janúar 2019, óskaði A eftir nöfnum umsækjenda um stöður kokka, matráða, þerna og þjónustufólks á nýjum Herjólfi. Þann 6. febrúar kærði kærandi afgreiðslutöf félagsins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Þann 19. ágúst 2019, synjaði Herjólfur ohf. beiðninni á grundvelli 7. gr. upplýsingalaga.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að nöfnum umsækjenda um tiltekin störf hjá Herjólfi ohf. en beiðni kæranda var synjað á grundvelli 7. gr. upplýsingalaga.

Upplýsingalög nr. 140/2012 taka skv. 2. mgr. 2. gr. til aðila sem teljast að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera, ríkisins eða sveitarfélaga. Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er tekið fram að skylt sé, ef þess sé óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6. - 10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum.

Í 7. gr. upplýsingalaga er fjallað um rétt almennings til aðgangs að upplýsingum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lögin taka til samkvæmt 2. gr. laganna. Er meginreglan sú að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna taki ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Í 2.- 4. mgr. 7. gr. koma fram undantekningar frá þessari reglu.

Í 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga koma fram fimm undantekningar frá meginreglunni þegar um er að ræða opinbera starfsmenn. Kemur þar fram í 2. tölul. að skylt sé að veita upplýsingar um nöfn og starfsheiti umsækjenda um starf, þegar umsóknarfrestur er liðinn. Í 4. mgr. 7. gr. er að finna tvær undantekningar frá meginreglunni í tilviki starfsmanna lögaðila sem falla undir upplýsingalög. Segir þar að skylt sé að veita upplýsingar um nöfn starfsmanna og starfssvið, sbr. 1. tölul. og launakjör æðstu stjórnenda og upplýsingar um menntun þeirra, sbr. 2. tölul. málsgreinarinnar.

Samkvæmt framangreindu er gerður greinarmunur á þeim upplýsingum sem skylt er að veita aðgang að eftir því hvort um sé að ræða opinbera starfsmenn eða starfsmenn lögaðila. Ekki er skylt að veita aðgang að upplýsingum um nöfn umsækjanda í starf hjá lögaðilum sem falla undir upplýsingalög, öfugt við það sem gildir um umsækjendur í starf hjá hinu opinbera. Því er staðfest ákvörðun Herjólfs um að synja beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um nöfn þeirra sem sóttu um stöður kokka, matráða, þerna og þjónustufólks hjá félaginu.

Úrskurðarorð:

Staðfest er synjun Herjólfs ohf. á beiðni A um nöfn umsækjenda um stöður kokka, matráða, þerna og þjónustufólks hjá Herjólfi ohf.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Kjartan Bjarni Björgvinsson

 

Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira