Hoppa yfir valmynd

900/2020. Úrskurður frá 20. maí 2020

Úrskurður

Hinn 20. maí 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 900/2020 í máli ÚNU 19120012. 

 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 16. desember 2019, kærði A afgreiðslu Seðlabanka Íslands á beiðni um aðgang að gögnum.

Með erindi, dags. 25. október 2019, beindi kærandi spurningum í fimm tölusettum liðum til seðlabankastjóra. Fimmti liðurinn fól í sér beiðni um aðgang að öllum samskiptum starfsmanna og lögmanna bankans við þrotabú FSP Holding ehf. Með svarbréfi, dags. 21. nóvember 2019, var meðal annars tekið fram varðandi þennan lið að Seðlabankinn vísaði til þagnarskylduákvæðis 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands og 9. gr. upplýsingalaga.

Í kæru kemur fram að kærandi telji 9. gr. upplýsingalaga ekki eiga við samkvæmt orðanna hljóðan, með vísan til greinargerðar með lögum nr. 72/2019 sem breyttu ákvæðinu. Hvað þagnarskylduákvæði 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 varðar tekur kærandi fram að þrotabú FSP Holding ehf. sé ekki viðskiptamaður Seðlabanka Íslands og samskipti bankans við þrotabúið fjalli alls ekki um málefni bankans sjálfs.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 17. desember 2019, var Seðlabanka Íslands kynnt kæran og veittur frestur til að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn bankans, dags. 17. janúar 2020, kemur fram að við nánari skoðun málsins hafi komið í ljós að ekki sé unnt að verða við beiðni kæranda af þeirri einföldu ástæðu að gögnum sem kæran lýtur að sé ekki til að dreifa hjá bankanum. Umbeðin samskipti hafi einungis átt sér stað með óformlegum hætti og ekki skrifleg eða skráð sérstaklega af hálfu bankans, enda hafi ekki verið um að ræða tilvik sem myndu teljast falla undir 27. gr. upplýsingalaga, sem taki einungis til skráningarskyldu um tiltekin málsatvik í málum þar sem taka eigi ákvarðanir um rétt eða skyldu manna.

Með bréfi, dags. 17. janúar 2020, var kæranda kynnt umsögn Seðlabanka Íslands og veittur frestur til að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Athugasemdir kæranda bárust þann 22. janúar 2020. Þar kemur fram að beiðni kæranda hafi ekki lotið einvörðungu að gögnum sem geymd eru í Seðlabanka Íslands. Beiðnin hafi varðað afrit af öllum samskiptum starfsmanna og lögmanna bankans við þrotabú FSP Holding ehf., óháð geymslustað þeirra. Seðlabankinn geti ekki skotið sér undan upplýsingaskyldu með því að vísa til þess að lögmaður bankans geymi gögnin. Í þessu tilfelli hafi lögmaður bankans ekki einungis haft stöðu lögmanns heldur einnig gegnt trúnaðarstörfum fyrir bankann sem stjórnarmaður í Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. og Austurbraut ehf. Fyrrnefnda félagið hafi fallið undir upplýsingalög. Gögn varðandi samskipti við þrotabú FSP Holding ehf., sem séu í vörslu lögmannsins, falli því jafnframt undir lögin.

Kærandi tekur fram að upphaflega hafi Seðlabanki Íslands eða félag á vegum bankans enga kröfu átt á hendur FSP Holding ehf. Seðlabanki Íslands hafi hins vegar ákveðið að kaupa slíka kröfu af Íslandsbanka. Útilokað sé að þrotabú FSP Holding ehf. hafi ekki verið send skrifleg tilkynning um kröfuhafaskiptin. Eftir skiptin hafi lögmannsstofan haft náið samráð fyrir hönd Seðlabankans við þrotabúið um málefni þess. Þannig hafi fulltrúi lögmannsstofunnar farið með umboð þrotabúsins á hluthafafundum í Austurbraut ehf. Vandséð sé hvernig öll þessi samskipti hafi getað verið munnleg. Að minnsta kosti séu umboðin skrifleg samkvæmt lögum um einkahlutafélög. Ef öll þessi samskipti hafi verið munnleg hafi Seðlabankanum í öllu falli borið að halda til haga mikilvægum upplýsingum um samskipti við þrotabú FSP Holding ehf., sbr. lög nr. 72/2019 um breytingu á upplýsingalögum.

Með erindi, dags. 2. apríl 2020, óskaði kærandi upplýsinga um afgreiðslu málsins hjá úrskurðarnefndinni. Jafnframt kom kærandi því á framfæri að félagið Austurbraut ehf. hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta og því enn síður ástæða til þess að umbeðnum gögnum væri haldið leyndum.

Með erindi til Seðlabanka Íslands, dags. 8. maí 2020, óskaði úrskurðarnefndin m.a. eftir afstöðu bankans til þess hvort hann teldi að gögn er heyrðu undir beiðni kæranda kynnu að vera í fórum lögmanna sem starfa fyrir bankann, þ.e. gögn sem varði starfsemi bankans og honum sé eða hafi verið rétt að skrá og varðveita í samræmi við ákvæði laga um opinber skjalasöfn nr. 77/2014. Seðlabankinn sinnti ekki beiðni úrskurðarnefndarinnar.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum um samskipti Seðlabanka Íslands við þrotabú eignarhaldsfélags. Af hálfu bankans hefur komið fram að ekki sé hægt að verða við beiðninni þar sem gögn sem hún lýtur að séu ekki fyrirliggjandi hjá bankanum.

Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er tekið fram að skylt sé, ef þess er óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Í athugasemdum við 1. mgr. 5. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga er tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. Stjórnvöldum sé ekki skylt að útbúa ný gögn á grundvelli upplýsingalaga.

Hvað sem þessu líður telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að gögn er heyra undir starfsemi stjórnvalds og því er skylt að hafa í vörslum sínum kunni að teljast fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga, enda þótt þau hafi ekki verið skráð réttilega eða geymd innan veggja stjórnvaldsins sjálfs. Vísast um þetta m.a. til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 1. apríl 2020 í máli nr. 887/2020. Horfir nefndin í því sambandi til þess að í slíkum tilvikum kunni stjórnvaldinu engu að síður að vera hægt um vik að nálgast gögnin og taka afstöðu til réttar borgaranna til aðgangs að þeim í samræmi við ákvæði upplýsingalaga.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að rengja þær staðhæfingar Seðlabanka Íslands að engin gögn er varða beiðni kæranda séu skráð og til staðar í bankanum sjálfum.

Úrskurðarnefndin tekur fram að tilefni er til að fallast á það með kæranda að skylda bankans til að skrá og varðveita gögn á grundvelli upplýsingalaga, laga um opinber skjalasöfn og annarra laga nær ekki einungis til þeirra verkefna sem fastráðnum starfsmönnum er falið að sinna heldur einnig til þeirra gagna sem kunna að verða til vegna þeirra verkefna Seðlabanka Íslands sem útvistað er til verktaka. Þá tekur skráningarskylda bankans ekki einungis til mála þar sem taka á ákvörðun um rétt eða skyldu manna, svo sem bankinn virðist byggja á í umsögn sinni, heldur ber jafnframt að gæta þess að haldið sé til haga mikilvægum upplýsingum, m.a. um samskipti við almenning og önnur stjórnvöld samkvæmt 2. mgr. 27. gr. upplýsingalaga, sbr. einnig 2. mgr. 23. gr. laga um opinber skjalasöfn.

Af þessu leiðir m.a. að ef utanaðkomandi aðili annast ákveðna þætti í verkefnum stjórnvalds þarf að sjá til þess að sá aðili hagi störfum sínum, vörslu og skilum gagna með fullnægjandi hætti. Ef til verða gögn af hálfu þess aðila, sem skylt er að skrá og varðveita í skilningi framangreindra laga, ber stjórnvaldi að sjá til þess að gögnin séu skráð og varðveitt. Hafi Seðlabanki Íslands ekki gætt þess að haga skráningu um samskipti bankans í tengslum við slitameðferð þrotabús FSP Holding ehf. í samræmi við ákvæði upplýsingalaga og laga um opinber skjalasöfn um skráningar- og varðveisluskyldu, er það ámælisvert. Rétt er að minna á að varðveisla gagna í samræmi við fyrirmæli 26. og 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, er m.a. forsenda þess að upplýsingaréttur almennings geti orðið raunhæfur og virkur.

Af gögnum málsins verður ekki séð að Seðlabanki Íslands hafi í tilefni af beiðni kæranda kannað hvort gögn er féllu undir beiðnina væru í fórum lögmanna er störfuðu fyrir bankann og honum hafi verið skylt að varðveita. Enn fremur, ef sú væri raunin, hvort bankanum væri hægt um vik að nálgast gögnin og taka afstöðu til réttar kæranda til aðgangs að þeim. Eins og rakið er í lýsingu á málsmeðferð hér að framan sinnti Seðlabanki Íslands ekki beiðni úrskurðarnefndarinnar um upplýsingar þar að lútandi.

Með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefnd um upplýsingarmál sig ekki hafa forsendur til þess að staðfesta ákvörðun Seðlabanka Íslands með vísan til þess að þau gögn sem kærandi óskar eftir séu ekki fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga. Er það niðurstaða nefndarinnar að Seðlabankinn skuli taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar og kanna hvort gögn er falli undir beiðnina, og bankanum sé skylt að halda utan um, séu í fórum lögmanna bankans og þá hvort bankanum sé unnt að nálgast gögnin, skoða þau og taka afstöðu til réttar kæranda til aðgangs að þeim.

Úrskurðarorð:

Beiðni A, dags. 25. október 2019, um samskipti Seðlabanka Íslands við þrotabú FSP Holding ehf. er vísað til Seðlabankans til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.

Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum