Hoppa yfir valmynd

906/2020. Úrskurður frá 8. júní 2020

Úrskurður

Hinn 8. júní 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 906/2020 í máli ÚNU 20030001.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 2. mars 2020, kærði A, f.h. Stapa ehf., synjun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á beiðni hans um gögn.

Aðdragandi málsins var að þann 15. janúar 2019 óskaði kærandi eftir upplýsingum frá ráðuneytinu um samning ráðuneytisins við Náttúrufræðistofnun Íslands og Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR). Ráðuneytið svaraði þann 27. febrúar 2019 og afhenti kæranda gögn varðandi málið. Í svarinu kom fram að ÍSOR hefði í fórum sínum ákveðna korta- og gagnagrunna. Með erindi, dags. 20. mars 2019, óskaði kærandi eftir upplýsingum um hvernig eða með hvaða lagastoð þeir korta- og gagnagrunnar hefðu endað hjá ÍSOR en erindinu var ekki svarað. Þann 4. desember 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp úrskurð
nr. 854/2019, þar sem beiðni kæranda var vísað til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.

Í erindi ráðuneytisins til kæranda, dags. 10. febrúar 2020, kemur fram að lög um Íslenskar orkurannsóknir, nr. 86, og lög um Orkustofnun, nr. 87, séu frá árinu 2003. Fjallað hafi verið um bæði frumvörpin samhliða á Alþingi enda hafi með frumvörpunum Orkustofnun verið skipt upp með því að aðskilja rannsóknarsvið hennar frá stofnuninni og mælt fyrir um að sérstök stofnun væri með þau verkefni. Í bráðabirgðaákvæði laga um Orkustofnun komi fram að iðnaðarráðuneytið skuli ákvarða hvaða eignir og skuldir skuli fylgja hvorri stofnun. Jafnframt sé í bráðabirgðaákvæðinu mælt fyrir um að gagnasöfn og rannsóknarniðurstöður sem kostaðar hafi verið með opinberu fé skuli áfram tilheyra Orkustofnun.

Þá segir að bæði Orkustofnun og ÍSOR hafi heyrt undir iðnaðarráðuneytið, nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, allt til síðari hluta árs 2012 þegar stofnunin hafi verið flutt til þáverandi umhverfisráðuneytis, nú umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Þau atvik sem legið hafi að baki skiptingu eigna og skulda þessara tveggja stofnana, ásamt meðferð rannsóknarniðurstaða og gagnasafna, sbr. ákvæði I. til bráðabirgða í lögum um Orkustofnun, nr. 87/2003, hafi átt sér stað rúmlega níu árum áður en umhverfis- og auðlindaráðuneytið tók við málefnum ÍSOR. Framangreint ákvæði til bráðabirgða mæli fyrir um að skipting eigna og skulda skuli eiga sér stað fyrir atbeina þáverandi iðnaðarráðherra í samráði við Orkustofnun. Þar sé einnig mælt fyrir um ákveðna meðferð rannsóknaniðurstaða og gagnasafna sem fjármögnuð hafi verið með opinberu fé. Gera megi ráð fyrir að skilgreining á því hvaða rannsóknarniðurstöður og gagnasöfn hafi verið fjármögnuð með opinberu fé, og hver ekki, hafi farið fram á svipuðum tíma og skipting á eignum, skuldum og öðrum verkefnum milli þessara stofnana.

Þrátt fyrir ítarlega leit hafi ekki fundist nein gögn í málaskrá umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem varpað geti frekara ljósi á framangreind málefni og þá gagnabeiðni sem kærandi hafi beint að ráðuneytinu í tengslum við korta- og gagnagrunna ÍSOR og snúi m.a. að framangreindu ákvæði til bráðabirgða.

Í kæru kemur fram að kærandi telji ráðuneytið ekki hafa veitt honum efnisleg svör.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt umhverfis- og auðlindaráðuneytinu með bréfi, dags. 2. mars 2020, og því veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Í umsögn ráðuneytisins, dags. 16. mars 2020, er forsaga málsins rakin. Ráðuneytið endurtekur efni bréfsins frá 10. febrúar 2020 og ítrekar að það hafi afhent kæranda öll gögn sem fyrir hendi eru í málaskrá ráðuneytisins og snúi að upphaflegum fyrirspurnum kæranda og framhaldsfyrirspurnum, er snúi sérstaklega að gögnum varðandi það með hvaða hætti og á grundvelli hvaða lagastoðar ÍSOR hafi komist yfir tiltekna gagna- og kortagrunna. Þar sem ráðuneytið hafi þegar afhent kæranda öll gögn í málaskrá þess vegna málsins og kæranda hafi verið tilkynnt um það með formlegum hætti fari ráðuneytið fram á að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Umsögn ráðuneytisins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 17. mars 2020, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda segir að Orkustofnun hafi afhent þá samninga sem að baki gagnagrunnunum liggi. Af þeim gögnum sem kærandi hafi fengið sjái hann ekki að lögð hafi verið fram gögn sem sýni fram á lagastoðir varðandi notkun ÍSOR á gagnagrunnum Orkustofnunar.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um afgreiðslu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á beiðni kæranda um gögn er varða notkun ÍSOR á gagnagrunnum frá Orkustofnun.

Í bréfi, dags. 10. febrúar 2020, og í umsögn ráðuneytisins í tilefni af kærunni upplýsti ráðuneytið kæranda um atriði sem varða umrædda gagnagrunna og aðdraganda þess að þeir lentu í fórum ÍSOR. Ráðuneytið hefur jafnframt lýst því yfir að þrátt fyrir leit í málaskrárkerfi þess hafi ekki fundist frekari gögn er varði málið enda sé um að ræða atburði sem áttu sér stað níu árum áður en ráðuneytið fékk málaflokkinn á sitt borð. Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til að rengja þessar fullyrðingar ráðuneytisins.

Af 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á því formi sem óskað er. Þegar svo háttar til að gögn eru ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða ákvörðun um að synja um aðgang að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð

Kæru A, f.h. Stapa ehf., dags. 2. mars 2020, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira