Hoppa yfir valmynd

917/2020. Úrskurður frá 14. júlí 2020

Úrskurður


Hinn 14. júlí 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 917/2020 í máli ÚNU 20020023.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 27. febrúar 2020, kærði A afgreiðslu Fjársýslu ríkisins á beiðni hans um aðgang að gögnum. Aðdragandi málsins er sá að kærandi óskaði þann 9. ágúst 2019 eftir upplýsingum frá Fjársýslu ríkisins um innkaup lögreglu á vörum til reksturs rannsóknarlögreglu á tímabilinu frá janúar til apríl 2017. Með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 859/2019 var beiðni kæranda vísað aftur til meðferðar hjá Fjársýslu ríkisins.

Í kæru segir að þrátt fyrir ítrekun og kröfu um svar og aðgang að gögnum hafi ekkert svar borist frá Fjársýslu ríkisins. Því sé afgreiðsla stofnunarinnar kærð á ný. Þess sé krafist að málið sé endurupptekið og veittur verði aðgangur að gögnum.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Fjársýslu ríkisins með bréfi, dags. 27. febrúar 2020, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var óskað eftir afriti af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Þann 10. mars 2020 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál afrit af bréfi Fjársýslu ríkisins til kæranda. Í því segir meðal annars að þann 16. janúar 2020 hafi stofnuninni borist ítrekun frá kæranda þar sem sérstaklega hafi verið tekið fram að óskað væri eftir gögnum um rannsóknardeild, sem væri sameiginleg með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra. Óskað hafi verið eftir gögnunum fyrir tímabilið janúar til apríl 2017.

Þá kemur fram að í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 859/2019 hafi verið farið yfir fyrirliggjandi gögn hjá Fjársýslunni. Þrátt fyrir að lögregluembættin hafi ekki verið í þjónustu stofnunarinnar á því tímabili sem spurt var um þá hafi stofnunin aðgang að bókhaldskerfi stofnananna á tímabilinu og afritum af þeim reikningum sem séu til á rafrænu formi. Í bókhaldinu sé rannsóknardeild lögreglunnar ekki afmörkuð sérstaklega þannig að Fjársýslan geti án aðstoðar embættanna tekið út þau gögn sem óskað sé eftir. Fjársýslan hafi ekki upplýsingar um hvaða reikningar tilheyri hvaða verkefni umfram það hvernig bókhaldinu sé skipt upp í viðföng og sé rannsóknardeildin ekki sérstaklega skilgreind sem viðfang í bókhaldi. Stofnunin hafi því óskað eftir upplýsingum frá embættunum um hvað tilheyri rannsóknardeildinni þannig að hægt sé að svara fyrirspurninni efnislega. Stofnunin geti ekki tekið ákvörðun um rétt til umbeðinna gagna án þess að sjónarmið embættanna liggi fyrir og hafi stofnunin óskað eftir þeim. Þau þurfi að liggja fyrir áður en ákvörðun sé tekin um veitingu umbeðinna upplýsinga. Vegna anna hjá lögreglunni hafi ekki tekist að afgreiða beiðnina en þegar upplýsingar frá embættunum liggi fyrir muni beiðnin vera afgreidd.

Fjársýslan afgreiddi beiðni kæranda með bréfi, dags. 7. maí 2020. Þar eru kæranda afhentir listar með upplýsingum um vöru- og þjónustukaup er tilheyra rannsóknardeildum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og ríkislögreglustjóra hins vegar, frá og með 1. janúar til og með 30. apríl 2017. Fram kemur að Fjársýslan hafi aðgang að bókhaldi ríkisaðila og færslum í ljósi lögbundins hlutverks stofnunarinnar. Hins vegar hafi þessi lögregluembætti ekki verið í þjónustu Fjársýslunnar á því tímabili sem spurt sé um. Farið hafi verið yfir fyrirliggjandi gögn hjá Fjársýslunni og við þá yfirferð hafi komið í ljós að stofnunin hafi ekki upplýsingar um hvað í bókhaldi embættanna falli undir fyrirspurnina. Þær upplýsingar sem óskað var eftir hafi því ekki verið fyrirliggjandi. Fjársýslan hafi þó óskað eftir aðstoð viðkomandi embætta þannig að hægt væri að svara fyrirspurninni efnislega og óskað jafnframt eftir yfirferð embættanna á rétti til viðkomandi gagna. Úrvinnsla upplýsinganna hafi tekið nokkurn tíma hjá embættunum en nú liggi upplýsingarnar fyrir.

Fram kemur að embættin hafi farið yfir upplýsingarnar með tilliti til réttar almennings til aðgangs samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012. Óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, sbr. 9. gr. upplýsingalaga og falli upplýsingar um bankareikninga þar undir, sbr. úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 661/2016 og 666/2016. Sanngjarnt sé og eðlilegt að upplýsingar um veitanda keyptrar þjónustu séu afmáðar fyrir afhendingu gagna til kæranda. Með sömu rökum sé sanngjarnt að upplýsingar um nöfn og símanúmer starfsmanna rannsóknardeilda séu afmáð þar sem þau komi fram í færslum í bókhaldi vegna kaupa á vörum og þjónustu. Þá kemur fram að skráningarnúmer bifreiða sem notaðar hafi verið á tímabilinu, en séu nú í eigu annarra, hafi verið afmáðar. Um sé að ræða bæði einkaaðila og lögaðila sem ekki hafi nein tengsl við embættin. Því hafi öll skráningarnúmer bifreiða verið afmáð úr gögnunum. Vísað er til 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga þessu til stuðnings.

Þá kemur fram að umbeðin gögn geymi upplýsingar um mál sem hafi verið til rannsóknar á tilgreindu tímabili og gætu mögulega enn verið til rannsóknar. Einnig hafi umbeðin gögn að geyma vísbendingar um hvernig lögregla beitir þeim rannsóknarúrræðum sem í framkvæmd þyki eðlilegt að fari leynt og séu samkvæmt upplýsingalögum undanþegin þeim, sbr. ákvæði 1. mgr. 4. gr. laganna. Að auki sé vísað til 1. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Í þeim færslum sem kærandi hafi verið upplýstur um og innihaldi upplýsingar um bankareikninga, skráningarnúmer bifreiða, nöfn starfsmanna og kennitölur, símanúmer, málsnúmer mála, staðarheiti og staðsetningar utan höfuðborgarsvæðis og heiti deilda, hafi þær upplýsingar verið afmáðar.

Að lokum kemur fram að upplýsingarnar séu fengnar frá embættum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra og að Fjársýslan hafi ekki lagt frekara mat á þær. Ef kærandi hafi spurningar varðandi upplýsingarnar sé bent á að beina þeim til embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eða embættis ríkislögreglustjóra.

Með bréfi, dags. 12. maí 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til afgreiðslu Fjársýslu ríkisins.

Í svari kæranda, dags. sama dag, segir meðal annars að kærandi hafi óskað eftir upplýsingum um kaup rannsóknardeilda lögreglu á vöru og þjónustu frá aðilum og að hann telji sig eiga rétt á því að vita hvaða einstaklingar og fyrirtæki hafi tekið við greiðslu peninga úr ríkissjóði fyrir þessa þjónustu. Upplýsingar sem Fjársýslan hafi afhent kæranda uppfylli ekki ákvæði laga um bókhald nr. 145/1994. Ekki megi rekja viðskipti og notkun fjármuna út frá gögnunum í samræmi við 6. gr. laganna. Þá sýni gögnin ekki nafn, kennitölu eða virðisaukaskattsnúmer seljanda vöru og þjónustu til stofnunar ríkisins í samræmi við 8. gr. laganna. Upplýsingar sem Fjársýslan hafi sent kæranda séu einn óskiljanlegur grautur án dagsetninga og númera. Þess sé krafist að fá upplýsingarnar eins og lög um bókhald mæli fyrir um og önnur lög. Enn fremur eigi að merkja skýrslur og skjöl ríkisstofnana sem leynt eigi að fara sem trúnaðarmál eða varðveita utan laga nr. 145/1994, um bókhald. Að lokum er ítrekuð krafa um aðgang að upplýsingum sem séu á ábyrgð Fjársýslunnar sem hafi bæði yfirfarið og skráð bókhaldsgögnin samkvæmt lögum um bókhald áður en þau voru send Ríkisendurskoðun.

Með bréfi, dags. 22. júní 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir upplýsingum frá Fjársýslu ríkisins um hvort gögnin sem kærandi hefði fengið afhent væru þau sömu og send voru úrskurðarnefndinni, þ.e. yfirlit yfir færslur frá janúar til apríl 2017 frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og yfirlit fyrir sama tímabil frá ríkislögreglustjóra. Þá sendi úrskurðarnefndin Fjársýslunni afrit af athugasemdum kæranda, dags. 12. maí 2020.

Svar Fjársýslu ríkisins barst með bréfi, dags. 30. júní 2020. Í bréfinu ítrekar stofnunin að upplýsingarnar sem kærandi óskar eftir séu ekki fyrirliggjandi hjá stofnunninni. Fjársýslan hafi ekki upplýsingar um hvað úr bókhaldi stofnananna tilheyri rannsóknardeildum eða hvort í bókhaldinu sé að finna gögn sem falli undir undanþágur frá upplýsingalögum. Á því tímabili sem beiðnin nái til hafi stofnanirnar sjálfar séð um bókhaldið, geymt frumrit reikninga og hafi ekki skannað þá inn í bókhaldskerfi. Stofnunin vilji að sjálfsögðu uppfylla sínar skyldur en þessar upplýsingar séu klárlega ekki fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga og stofnuninni því ekki fært að veita þær. Það hafi þó verið niðurstaða Fjársýslunnar að fá aðstoð embættanna við að svara beiðni kæranda. Fylgiskjölin sem fylgdu svarinu hafi borist stofnuninni frá viðkomandi embættum og séu þau alfarið á ábyrgð þeirra. Ef þau gögn séu ekki fullnægjandi sé eðlilegt að kærandi snúi sér til þessara embætta.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Fjársýslu ríkisins á beiðni kæranda um upplýsingar frá stofnuninni um innkaup lögreglu á vörum til reksturs rannsóknarlögreglu á tímabilinu frá janúar til apríl 2017. Í svarbréfi Fjársýslunnar við beiðni kæranda, dags. 7. maí 2020, kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og ríkislögreglustjóri hins vegar hafi unnið lista með upplýsingum um vöru- og þjónustukaup er tilheyri rannsóknardeildum embættanna frá og með 1. janúar til og með 30. apríl 2017 og voru listarnir afhentir kæranda.

Kærandi telur afgreiðslu Fjársýslunnar ófullnægjandi, meðal annars þar sem gögnin sem honum voru afhent sýni ekki nafn, kennitölu og virðisaukaskattsnúmer seljanda vöru og þjónustu.

Af 1. mgr. 5. gr. upplýsinglaga nr. 140/2012 leiðir að sé þess óskað er skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Ekki er skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr. en málsgreinin tekur til þeirrar skyldu að veita aðgang að öðrum hlutum gagns ef takmarkanir 6.-10. gr. eiga aðeins við um hluta gagns. Í athugasemdum við ákvæði 1. mgr. 5. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 er tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma.

Fjársýsla ríkisins ber því við að stofnunin hafi ekki upplýsingar um hvað úr bókhaldi stofnananna tilheyri rannsóknardeildum og því sé henni ekki fært að afgreiða beiðni kæranda. Fjársýslan hafi hins vegar óskað eftir því að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóri tækju saman umbeðnar upplýsingar og í kjölfarið sent kæranda þau yfirlit sem embættin hefðu sent stofnuninni. Í svari Fjársýslunnar til kæranda kemur enn fremur fram að tilteknar upplýsingar hafi verið afmáðar úr gögnunum. Í listunum sem Fjársýslan afhenti kæranda og úrskurðarnefndinni verður þó ekki séð að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóri hafi afmáð upplýsingar úr þeim heldur verður frekar ráðið að ákveðið hafi verið að tiltaka ekki upplýsingarnar í þeim listum sem unnir voru úr bókhaldskerfum. Í yfirlitunum koma fram upphæðir færslna og er í sumum tilfellum tekið fram hvað var keypt en í öðrum ekki. Þá fylgja ekki upplýsingar um dagsetningar kaupa auk þess sem ekki er alltaf tiltekið frá hverjum var keypt.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að rengja staðhæfingar Fjársýslu ríkisins um að upplýsingarnar sem kærandi óskar eftir séu ekki fyrirliggjandi hjá stofnuninni og að vegna þessa sé henni ekki fært, án atbeina lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra, að taka afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt á þeim bókhaldsgögnum sem yfirlitin voru unnin úr. Þrátt fyrir að Fjársýslan hafi aðgang að bókhaldskerfum embættanna, og þeim bókhaldsgögnum sem eru til á rafrænu formi, liggja ekki fyrir þær upplýsingar sem gera stofnuninni kleift að afgreiða beiðni kæranda, þ.e. upplýsingar um hvort fyrirliggjandi bókhaldsgögn tilheyri rannsóknardeildum þessara embætta. Með vísan til framangreinds verður ekki hjá því komist að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Kæranda er enn fremur bent á þann kost að óska eftir upplýsingunum frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra sem unnu þau yfirlit sem Fjársýslan afhenti kæranda.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 27. febrúar 2020, vegna afgreiðslu Fjársýslu ríkisins á beiðni um aðgang að upplýsingum frá Fjársýslu ríkisins um innkaup lögreglu á vörum til reksturs rannsóknarlögreglu á tímabilinu frá janúar til apríl 2017, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum