Hoppa yfir valmynd

923/2020. Úrskurður frá 28. ágúst 2020

Úrskurður

Hinn 28. ágúst 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 923/2020 í máli ÚNU 20070003.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 3. júlí 2020, kærði A, fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu, synjun mennta- og menningarmálaráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að gögnum. Með erindi til ráðuneytisins, dags. 24. júní 2020, óskaði kærandi eftir því að fá afhent lögfræðiálit sem mennta- og menningarmálaráðuneytið aflaði í kjölfar úrskurðar kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 6/2020.

Með erindi, dags. 3. júlí 2020, synjaði mennta- og menningarmálaráðuneytið beiðni kæranda. Fram kemur að synjunin byggist á 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga en samkvæmt ákvæðinu taki réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til bréfaskipta við sérfróða aðila í tengslum við réttarágreining eða til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað. Að baki framangreindri undanþágu búi það sjónarmið að hið opinbera geti, á sama hátt og hver annar aðili að dómsmáli, leitað ráðgjafar sérfróðra aðila án þess að þær upplýsingar sem þannig sé aflað komist til vitundar gagnaðila. Mennta- og menningarmálaráðherra hafi aflað framangreindra lögfræðiálita vegna athugunar á því hvort dómsmál skyldi vera höfðað.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt mennta- og menningarmálaráðuneytinu með bréfi, dags. 6. júlí 2020, og því veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn ráðuneytisins, dags. 9. júlí 2020, er vísað í bréf ráðuneytisins til kæranda, dags. 3. júlí 2020. Þá segir að umbeðin gögn innihaldi greiningu sérfróðra aðila á úrskurði kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 6/2020 og lagalegri stöðu ráðherra í málinu í kjölfar niðurstöðu kærunefndarinnar.

Samkvæmt 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga taki réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til bréfaskipta við sérfróða aðila í tengslum við réttarágreining eða til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað. Sambærilegt ákvæði hafi verið að finna í 2. tölul. 4. gr. eldri upplýsingalaga. Í greinargerð með frumvarpi því er orðið hafi að upplýsingalögum,
nr. 140/2012, segi um 3. tölul. 6. gr.:

„Í 3. tölul. er að finna undantekningu sem er samhljóða 2. tölul. 4. gr. gildandi laga. Hér að baki býr það sjónarmið að hið opinbera geti, á sama hátt og hver annar aðili að dómsmáli, leitað ráðgjafar sérfróðra aðila án þess að þær upplýsingar sem þannig er aflað komist til vitundar gagnaðila. Ber að túlka ákvæðið þannig að það tryggi að hið opinbera standi ekki vegna upplýsingalaga höllum fæti í dómsmálum. Undanþágunni verður aðeins beitt um gögn sem verða til eða aflað er gagngert í þessu skyni og tekur því t.d. ekki til álitsgerða eða skýrslna sérfræðinga sem aflað er við meðferð stjórnsýslumála almennt. Hliðstæð undanþága frá upplýsingarétti aðila máls er í stjórnsýslulögum.“

Í umsögn ráðuneytisins er vísað í greinargerð með frumvarpinu, þar sem segir að í 2. tölul. 4. gr. eldri upplýsingalaga hafi verið mælt fyrir um að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki ekki til bréfaskipta stjórnvalda við sérfróða menn til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað. Sambærilegt ákvæði sé einnig að finna í 16. gr. stjórnsýslulaga. Þá segir að tilgangur þessarar reglu sé að tryggja hinu opinbera, á sama hátt og hverjum öðrum aðila að dómsmáli, rétt til að leita ráðgjafar sérfróðra aðila án þess að þær upplýsingar sem þannig er aflað geti komist til vitundar gagnaðila. Undanþágunni samkvæmt 2. tölul. 4. gr. verði aðeins beitt um gögn sem verði til eða aflað sé gagngert í þessu skyni. Hún taki því ekki til álitsgerða eða skýrslna sérfræðinga sem aflað sé við meðferð stjórnsýslumála almennt. Af framangreindu sé bersýnilega ljóst að þau gögn sem kærandi óski eftir aðgangi að hafi gagngert verið aflað í tengslum við athugun á því hvort mennta- og menningarmálaráðherra myndi höfða dómsmál til ógildingar á úrskurði kærunefndar jafnréttismála. Falli umbeðin gögn því undir 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Mennta- og menningarmálaráðuneytið fari því fram á að úrskurðarnefnd um upplýsingamál staðfesti hina kærðu ákvörðun.

Umsögn ráðuneytisins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 28. júlí 2020, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að lögfræðiálitum sem mennta- og menningarmálaráðherra aflaði í kjölfar úrskurðar kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 6/2020.

Ákvörðun mennta- og menningarmálaráðuneytisins um að synja beiðni kæranda um aðgang að lögfræðiálitunum byggir á undantekningarákvæði 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt undanþáguákvæðinu nær réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til bréfaskipta við sérfróða aðila í tengslum við réttarágreining eða til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga segir:

„Hér að baki býr það sjónarmið að hið opinbera geti, á sama hátt og hver annar aðili að dómsmáli, leitað ráðgjafar sérfróðra aðila án þess að þær upplýsingar sem þannig er aflað komist til vitundar gagnaðila. Ber að túlka ákvæðið þannig að það tryggi að hið opinbera standi ekki vegna upplýsingalaga höllum fæti í dómsmálum. Undanþágunni verður aðeins beitt um gögn sem verða til eða aflað er gagngert í þessu skyni og tekur því t.d. ekki til álitsgerða eða skýrslna sérfræðinga sem aflað er við meðferð stjórnsýslumála almennt. Hliðstæð undanþága frá upplýsingarétti aðila máls er í stjórnsýslulögum.“

Orðalag ákvæðisins og lögskýringargögn benda ekki til þess að gerð sé krafa um að bréfaskiptin eigi sér stað eftir að dómsmál er höfðað eða beinlínis í tilefni af ákvörðun um að höfða eða taka til varna í slíku máli. Samkvæmt sjónarmiðum sem fram koma í bréfi umboðsmanns Alþingis frá 13. desember 2002, í máli nr. 3643/2002, sem lýtur að skýringu sambærilegs ákvæðis í stjórnsýslulögum nr. 37/1993, og þeim athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga ber að skýra ákvæðið með það fyrir augum að tryggja jafnræði á milli aðila máls og viðkomandi stjórnvalds ef til dómsmáls kemur. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið nauðsynlegt að bréfaskipti stjórnvalds við sérfróðan aðila standi í beinum tengslum við mál sem þegar hefur verið höfðað eða þegar hefur verið tekin ákvörðun um að höfða. Undir undanþáguna falla einnig bréfaskipti sem til koma vegna könnunar stjórnvalds á réttarstöðu sinni í tengslum við nærliggjandi möguleika á slíkri málshöfðun, enda lúti þau ekki með beinum hætti að meðferð stjórnsýslumála.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér gögn málsins en um er að ræða tvær lögfræðilegar álitsgerðir, dags. 3. og 8. júní 2020. Af álitsgerðunum sést skýrlega að ráðuneytið aflaði þeirra í kjölfar úrskurðar kærunefndar jafnréttismála frá 27. maí 2020 í máli nr. 6/2020 þar sem mennta- og menningarmálaráðherra var talinn hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 um jafnan rétt og jafna stöðu karla og kvenna við skipun í embætti ráðuneytisstjóra mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Í lögfræðiálitunum er fjallað um meinta annmarka á úrskurði kærunefndarinnar en fyrir liggur að höfðað hefur verið dómsmál til ógildingar úrskurðarins. Úrskurðarnefndin telur samkvæmt framangreindu að ekki leiki vafi á því að heimilt sé að undanþiggja umbeðin gögn upplýsingarétti almennings á grundvelli 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Verður þá að leggja áherslu á að ekki verður annað ráðið af efni þessara lögfræðiálita en að þeirra hafi verið gagngert aflað við athugun á hugsanlegri málshöfðun til ógildingar á úrskurði kærunefndar jafnréttismála. Úrskurðarnefndin tekur fram að jafnvel þótt almenningur kunni að hafa hagsmuni af því að geta kynnt sér slík gögn, og kærandi gegni því hlutverki sem starfsmaður fjölmiðils að miðla upplýsingum um opinber málefni, hefur löggjafinn við setningu upplýsingalaga tekið skýra afstöðu til þess að slík gögn skuli vera undanþegin upplýsingarétti almennings. Verður því ekki hjá því komist að staðfesta ákvörðun ráðuneytisins um að synja beiðni kæranda.

Úrskurðarorð

Staðfest er ákvörðun mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 3. júlí 2020, um að synja beiðni A, fréttamans hjá Ríkisútvarpinu, um aðgang að lögfræðiálitum sem ráðuneytið aflaði í kjölfar úrskurðar kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 6/2020.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Kjartan Bjarni Björgvinsson

 

Sigríður Árnadóttir



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum