Hoppa yfir valmynd

932/2020. Úrskurður frá 20. október 2020

Úrskurður

Hinn 20. október 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 932/2020 í máli ÚNU 20060001.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 5. júní 2020, kærði A afgreiðslu Landspítala á beiðni hennar um upplýsingar úr sjúkraskrá.

Með erindi, dags. 23. september 2019, til Landspítalans óskaði kærandi eftir upplýsingum um það hvort upplýsingar úr sjúkraskrá kæranda hefðu verið sóttar á tímabilinu maí til júlí 2018, hver hefði nálgast þær upplýsingar og hvar það hefði verið gert. Kærandi óskaði einnig eftir upplýsingum um hvort Landspítalinn hefði vitneskju um allan aðgang sem hægt væri að hafa að gögnum í sjúkraskrá, enda hefði kærandi rökstuddan grun um að einhver hefði sótt upplýsingar um sig úr sjúkraskrá. Í framhaldi af þessu fyllti kærandi út rafrænt eyðublað á vef Landspítala með beiðni um afrit af uppflettilista Landspítalans á tilteknu tímabili. Kærandi ítrekaði beiðni sína þann 10. október 2019 en 23. október 2019 fékk kærandi tilkynningu um að umbeðin gögn væru komin inn á pósthólf kæranda á www.island.is.

Þann 8. desember 2019 sendi kærandi víðtækari beiðni og óskaði eftir öllum upplýsingum um sig úr sjúkraskrá. Þar kemur fram að kærandi hafi þegar fengið skrá yfir uppflettingar í kerfinu frá 2018 en vilji fá öll önnur gögn sem til séu um sig, ótengt tímabili. Þá biður kærandi um útskýringar á ýmsum tæknilegum þáttum skráningarinnar, m.a. hvernig það skráist þegar upplýsingum sé breytt eða eytt. Þann 18. mars 2020 hringdi kærandi í Landspítala og samdægurs barst henni tilkynning um að umbeðin gögn væru komin inn á pósthólf kæranda á vefsvæði www.island.is.

Kærandi var í áframhaldandi samskiptum við Landspítalann, bæði símleiðis og með tölvupósti. Kærandi ítrekaði beiðni sína 13. og 20. maí 2020 og kvaðst enn bíða eftir skýringum og upplýsingum, m.a. uppflettilista fyrir árið 2007. Með erindi, dags. 25. maí 2020, var kæranda tilkynnt að starfsmaður miðstöðvar um sjúkraskrárritun hefði reynt að gera uppflettilista frá árinu 2000 til þess dags en aðeins hefði verið hægt að kalla fram upplýsingar frá 2011 og ekki væri vitað hvers vegna.

Í kæru segir að ekki hafi verið með góðu móti hægt að lesa í umbeðinn uppflettilista. Þá hafi kæranda ekki borist svör við spurningum sínum né öll þau gögn sem hún hafi beðið um eða formleg skýring á töfum á afgreiðslu spítalans. Samanburður á „logfærslum“ í uppflettilista sem kæranda hafi borist úr risvef og sjúkraskrárkerfi Landspítalans sýni að gögn vanti og að beiðni kæranda hafi ekki verið virt eða réttur hennar til friðhelgi einkalífs.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Landspítalanum með bréfi, dags. 8. júní 2020, og honum veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn Landspítalans, dags. 16. júní 2020, segir að kærandi hafi verið upplýst um að tafir yrðu á afgreiðslu málsins enda hafi það reynst flókið úrlausnar. Í lok febrúar hafi hefðbundin starfsemi spítalans farið nokkuð úr skorðum vegna Covid faraldursins sem hafi frestað úrvinnslu málsins enn frekar. Í maí hafi verið ráðgert að starfsmaður hefði samband við kæranda símleiðis og upplýsti hana um stöðu málsins en það hafi því miður farist fyrir. Kæranda hafi loks verið svarað með bréfi, dags. 16. júní 2020.

Í bréfi Landspítalans er spurningum kæranda varðandi skráningu í sjúkraskrá svarað. Þá kemur fram að núverandi eftirlitsgátt, sem miðstöð sjúkraskrárritunar notist við, nái aðeins aftur til ársins 2011. Þar sem um mikið magn gagna sé að ræða hafi verið ákveðið að færa þau ekki öll yfir í eftirlitsgáttina. Mögulegt sé að sækja eldri gögn með sérstökum fyrirspurnum í gagnagrunn og sé sú aðgerð framkvæmd af tölvunar- eða kerfisfræðingi í hvert skipti. Sú vinna sé tímafrek og því ekki unnin nema sérstök ástæða sé til. Í bréfi spítalans er öðrum tæknilegri spurningum kæranda einnig svarað.

Með erindi, dags. 29. júní 2020, veitti úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæranda kost á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi bréfs Landspítalans.

Í svari kæranda, dags. 13. júlí 2020, er vísað í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár þar sem fram kemur að sjúklingur hafi rétt á aðgangi að sjúkraskrá í heild og að fá afhent afrit af henni. Í 4. mgr. segi að sjúklingur hafi rétt á að fá upplýsingar frá umsjónaraðila sjúkraskrár um það hverjir hafi aflað upplýsinga úr sjúkraskrá hans og í hvaða tilgangi.

Kærandi kveðst enn ekki hafa fengið heildaruppflettilista frá Landspítalanum en einnig vanti nokkuð af upplýsingum, m.a. um innlögn vegna hálskirtlatöku og upplýsingar um meðferð, læknabréf, nótur og samskipti. Varðandi svar frá Landspítalanum kveðst kærandi ekki hafa verið upplýst um að tafir yrðu á afgreiðslu málsins og skorar hún á Landspítalann að sýna fram á það. Aftur á móti hafi kærandi leitað eftir upplýsingum um það hvar málið væri statt og hafi henni þá verið tjáð að spurningin hafi verið send áfram innan spítalans. Ekki hafi verið tafir á afhendingu uppflettilista en hann hafi þó aðeins náð aftur til ársins 2011. Spurning kæranda um hvort það gæti verið stillingaratriði hvað birtist í uppflettilista, án þess að um sé að ræða breytingu, sé vegna misræmis sem sé í uppflettilistum sem hún hafi fengið. Að lokum segir að kærandi vilji gjarnan fá skýringar á því af hverju það vanti nöfn á einn listann.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um afgreiðslu Landspítalans á beiðni kæranda um lista yfir alla þá sem hafi flett kæranda upp í sjúkraskrá auk allra upplýsinga um kæranda sem skráðar hafi verið í sjúkraskrá.

Samkvæmt 4. mgr. 14. gr. upplýsingalaga fer um aðgang sjúklings að sjúkraskrá eftir ákvæðum laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár.

Í 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. gildandi laga um sjúkraskrár nr. 55/2009 er hugtakið sjúkraskrárupplýsingar skilgreint sem „Lýsing eða túlkun í rituðu máli, myndir, þ.m.t. röntgentmyndir, línurit og mynd- og hljóðupptökur sem innihalda upplýsingar er varða heilsufar sjúklings og meðferð hans hjá heilbrigðisstarfsmanni eða heilbrigðisstofnun og aðrar nauðsynlegar persónuupplýsingar.“ Í 5. tölul. ákvæðisins er hugtakið sjúkraskrá skilgreint sem safn sjúkraskrárupplýsinga.

Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 607/2016 frá 18. janúar 2016 komst úrskurðarnefnd um upplýsingamál að þeirri niðurstöðu að upplýsingar um þá sem hafa aðgang að og opna sjúkraskýrslur sjúklinga eða „uppflettingar“ teljist til sjúkraskrár. Að mati nefndarinnar laut beiðni kæranda í málinu því að upplýsingum um sjúkraskrá kæranda.

Eftir að hafa kynnt sér sjónarmið kæranda og gögn málsins er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að beiðnin lúti alfarið að upplýsingum sem finna má í sjúkraskrá kæranda.

Í 15. gr. a. laga um sjúkraskrár er að finna kæruheimild til embættis landlæknis, þar segir:

„Heimilt er að bera synjun umsjónaraðila sjúkraskrár um aðgang sjúklings að eigin sjúkraskrá í heild eða að hluta eða synjun um að fá afhent afrit af henni undir embætti landlæknis. Sama gildir um synjun umsjónaraðila sjúkraskrár um að veita nánum aðstandanda aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings eða synjun um að fá afhent afrit af henni. Um málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum. Ákvarðanir embættisins um aðgang að sjúkraskrá eru endanlegar á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til ráðherra.“

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur til meðferðar synjanir á beiðnum um aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna. Synjun beiðni um aðgang að upplýsingum úr sjúkraskrá verður því ekki borin undir nefndina, sbr. úrskurði nefndarinnar nr. 607/2016 og A-155/2002. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hvað varðar beiðnir kæranda um útskýringar Landspítalans varðandi skráningu í sjúkraskrá er tekið fram að úrskurðarvald úrskurðarnefndarinnar takmarkast við synjun beiðni um aðgang að gögnum eða synjun á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin hefur ekki eftirlit með því hvernig stjórnvöld sinna almennum fyrirspurnum sem þeim berast.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 5. júní 2020, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum