Hoppa yfir valmynd

940/2020. Úrskurður frá 30. október 2020

Úrskurður

Hinn 30. október 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð  nr. 940/2020 í máli ÚNU 20060003.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 10. júní 2020, kærði A afgreiðslutöf Vinnueftirlits ríkisins á beiðni hans um aðgang að gögnum.

Forsaga málsins er sú að með tölvupósti til Vinnueftirlits ríkisins, dags. 10. október 2019, óskaði kærandi eftir tilteknum upplýsingum varðandi Hjúkrunarheimilið Skjól. Nánar tiltekið laut beiðnin að ábendingum og kvörtunum sem borist hefðu varðandi umræddan vinnustað, bréfi vinnueftirlitsins vegna mönnunar og svörum stjórnenda við ábendingum og kvörtunum til Vinnueftirlitsins.

Með bréfi, dags. 22. október 2019, synjaði Vinnueftirlitið beiðni kæranda með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga auk þess sem vísað var til þess að þagnarskylduákvæði 2. mgr. 83. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, stæði afhendingu gagnanna í vegi. Með bréfi, dags. 21. nóvember 2019, beindi kærandi stjórnsýslukæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál vegna synjunar Vinnueftirlits ríkisins. Með úrskurði, dags. 22. apríl 2020, í máli nr. 892/2020 vísaði úrskurðarnefndin málinu aftur til Vinnueftirlitsins til nýrrar meðferðar þar sem skort hefði á, að mati nefndarinnar, að tekin hefði verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda á grundvelli upplýsingalaga.

Eftir að úrskurðurinn var upp kveðinn hafði kærandi samband við Vinnueftirlitið með tölvupósti, dags. 6. maí 2020, og spurðist fyrir um stöðu málsins. Var fyrirspurninni svarað samdægurs þar sem fram kom að svars væri að vænta eins fljótt og kostur væri. Þegar beiðni kæranda hafði ekki verið afgreidd þann 10. júní 2020 krafðist kærandi þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál skæri úr um rétt hans til aðgangs að umbeðnum gögnum á grundvelli 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 18. júní 2020, var kæran kynnt Vinnueftirliti ríkisins og stofnuninni veittur frestur til að greina frá sjónarmiðum sínum í málinu.

Í umsögn Vinnueftirlitsins, dags. 1. júlí 2020, kemur fram að stofnunin hafi tekið málið til efnislegrar meðferðar að nýju í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar og svarað beiðni kæranda með bréfi, dags. 15. júní 2020. Í bréfinu hafi honum verið tjáð að engin gögn hefðu fundist er vörðuðu umræddan vinnustað á árunum 2015 til 2019. Af þeim sökum væri ekki unnt að verða við beiðninni á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga. Í bréfinu var kæranda veitt færi á að tilgreina nánar þau gögn sem óskað væri eftir. Engin svör munu hins vegar hafa borist.

Með bréfi, dags. 8. júlí 2020, var kæranda gefið færi á að koma að frekari athugasemdum vegna kærunnar í ljósi umsagnar Vinnueftirlitsins. Í bréfi kæranda, dags. 19. júlí 2020, eru gerðar athugasemdir við þá fullyrðingu Vinnueftirlitsins að engum gögnum sé til að dreifa um starfsemi Hjúkrunarheimilisins Skjóls. Í því sambandi er bent á að Vinnueftirlitinu séu með lögum fengin margvísleg verkefni sem feli m.a. í sér almennt eftirlit með vinnustöðum og móttaka tilkynninga um vinnuslys og kvartana. Hafi engin samskipti átt sér stað af hálfu stofnunarinnar við umræddan vinnustað bendi það til þess að stofnunin hafi ekki sinnt lögbundnum skyldum sínum. Þá tekur kærandi fram að honum sé kunnugt um að vinnuslys hafi átt sér stað á vinnustaðnum sem tilkynnt hafi verið til stofnunarinnar. Loks eru gerðar athugasemdir við að Vinnueftirlitið hafi veitt kæranda færi á að tilgreina nánar þau gögn sem óskað væri eftir enda væri slíkt augljóslega tilgangslaust ef engum gögnum væri til að dreifa.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að tilteknum gögnum hjá Vinnueftirliti ríkisins sem varða Hjúkrunarheimilið Skjól.

Í bréfi til kæranda dags. 15. júní 2020 og í umsögn Vinnueftirlits ríkisins í tilefni af kærunni hefur því verið lýst að engin gögn hafi fundist hjá stofnuninni sem varði umræddan vinnustað á árunum 2015-2019. Ljóst er að kærandi dregur í efa réttmæti fullyrðingar Vinnueftirlitsins. Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til annars en að leggja það til grundvallar að gögn sem heyri undir beiðni kæranda séu ekki fyrirliggjandi. Þá hefur nefndin ekki forsendur til að taka afstöðu til þess hvort skráningu Vinnueftirlitsins hafi verið rétt háttað og fellur það utan valdssviðs úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu í þeim ágreiningi.

Af 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á því formi sem óskað er. Þegar svo háttar til að gögn eru ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða ákvörðun um að synja um aðgang að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 10. júní 2020, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson

 

Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira