Hoppa yfir valmynd

941/2020. Úrskurður frá 30. október 2020

Úrskurður

Hinn 30. október 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 941/2020 í máli ÚNU 20070004.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 4. júlí 2020, kærði A afgreiðslu Mosfellsbæjar á beiðni hans um aðgang að gögnum, dags. 27. maí 2020. Með beiðninni óskaði hann eftir aðgangi að öllum gögnum í máli sínu hjá sveitarfélaginu en um er að ræða barnaverndarmál vegna sonar kæranda. Í kæru kvaðst kærandi hafa fengið samantekt af sínum málum en ekki afrit af upprunalegum gögnum. Með kærunni fylgdi yfirlit yfir gögn sem kærandi fékk afhent þann 2. júní 2020.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Mosfellsbæ með bréfi, dags. 8. júlí 2020, og sveitarfélaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar, dags. 15. júlí 2020, segir að kærandi hafi fengið öll gögn frá upphafi máls til málaloka, ásamt yfirliti, send heim til sín þann 2. júní 2020. Þar hafi verið öll gögn sem lutu að barnaverndarmáli kæranda og framvindu þess máls en gögnin hafi verið afhent á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá er tekið fram að Barnaverndarstofa hafi framsent tölvupósta til fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar áður en málið hafi verið opnað formlega hjá Mosfellsbæ sem barnaverndarmál. Um sé að ræða tölvupóstsamskipti á milli Barnaverndarstofu, borgaraþjónustu utanríkisráðuneytis og annarra aðila sem komið hafi að heimferð kæranda og sonar hans til Íslands. Þeir póstar séu almennir vinnupóstar og samskipti milli þeirra stofnana sem komið hafi að heimferðinni en lúti ekki að málsmeðferð hjá fjölskyldusviði Mosfellsbæjar. Barnaverndarstofa hafi haft samband við sveitarfélagið og óskað eftir því að barnaverndaryfirvöld í Mosfellsbæ tækju að sér málið. Með því að áframsenda þessa pósta barnaverndaryfirvöldum í Mosfellsbæ virðist Barnaverndarstofa hafa viljað skýra tilkynningu sína um málið að einhverju leyti. Þessir póstar hafi ekki verið meðal þeirra gagna sem kæranda voru afhent. Ekki hafi þótt við hæfi eða þörf á að afhenda þá, þar sem um væri að ræða samskipti annarra aðila, áður en málið hafi verið tekið til meðferðar hjá fjölskyldusviði Mosfellsbæjar. Enn fremur sé kærandi sjálfur að einhverju leyti þátttakandi í samtölum í þessum tölvupóstum.

Í umsögn Mosfellsbæjar segir jafnframt að haldinn hafi verið einn vinnufundur á Barnaverndarstofu vegna málsins, þar sem leitað hafi verið leiðbeininga vegna barnaverndarmálsins. Mosfellsbær hafi ekki afhent kæranda upplýsingar frá þeim fundi þar sem um hafi verið að ræða fund milli starfsmanna um leiðbeiningar og lög. Annars hafi kærandi fengið öll þau gögn sem að málinu lúti og framvindu þess. Sé það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að afhenda eigi gögn sem ekki hafi verið afhent muni það gert án tafar og sé þá beðist velvirðingar á að það hafi ekki verið gert. Gögnin hafi verið afhent kæranda í góðri trú um að rétt væri að málinu staðið og í þeirri trú að þau vörpuðu fullnægjandi ljósi á málsmeðferð að öllu leyti.

Umsögn Mosfellsbæjar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 27. júlí 2020, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar.

Í athugasemdum kæranda, dags. 4. ágúst 2020, segir að fjölskyldusvið Mosfellsbæjar hafi ekki afhent honum öll gögn málsins og brjóti það m.a. gegn 15. gr. stjórnsýslulaga. Þeim gögnum sem kærandi hafi fengið frá utanríkisráðuneyti, Barnaverndarstofu og fjölskyldusviði Mosfellsbæjar beri ekki saman. Þessir aðilar geti ekki bara ákveðið hvaða gögn kærandi fái og hvaða gögn hann fái ekki.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um afgreiðslu Mosfellsbæjar á beiðni kæranda um öll gögn varðandi barnaverndarmál sonar kæranda hjá sveitarfélaginu. Samkvæmt skýringum Mosfellsbæjar voru öll málsgögn afhent kæranda þann 2. júní 2020, að undanskildum tölvupóstsamskiptum, dags. 6.-23. janúar 2020, sem sveitarfélagið fékk afhent frá Barnaverndarstofu, og fundargerð frá fundi Mosfellsbæjar og Barnaverndarstofu, dags. 21. janúar 2020.

Synjun Mosfellsbæjar á beiðni kæranda að því er varðar tölvupóstsamskiptin byggðist á því að um væri að ræða almenna vinnupósta og samskipti á milli stofnana. Vísað var til þess að gögnin lytu ekki að meðferð málsins hjá fjölskyldusviði Mosfellsbæjar heldur hefðu þau borist frá Barnaverndarstofu, án beiðni frá Mosfellsbæ, áður en málið var tekið til meðferðar hjá fjölskyldusviði Mosfellsbæjar, til þess að upplýsa sveitarfélagið um aðdraganda málsins. Hvað varðar fundargerðina vísaði Mosfellsbær til þess að um hefði verið að ræða vinnufund starfsmanna um leiðbeiningar og lög og fengi kærandi því ekki aðgang að henni.

Um aðgang aðila stjórnsýslumáls að upplýsingum sem tengjast máli hans gildir meginregla 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga, um að aðili máls eigi rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum sem mál varði. Takmarkanir á þeim rétti eru í 15.–17. gr. sömu laga. Upplýsingaréttur aðila máls skv. 15. gr. stjórnsýslulaga er víðtækari en sá réttur sem veittur er með ákvæðum upplýsingalaga. Hvað varðar afmörkun á því hvaða gögn tilheyri stjórnsýslumáli er talið að þar undir falli ekki aðeins þau gögn sem hafa að geyma forsendur ákvörðunar eða niðurstaða er beinlínis reist á heldur einnig önnur gögn sem hafa orðið til við rannsókn máls og hafa efnislega þýðingu eða tengsl við úrlausnarefnið.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda lögin ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Af þessu leiðir að ákvarðanir um aðgang að gögnum í slíkum tilvikum verða ekki bornar undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Sem fyrr segir var kæranda synjað um aðgang að fundargerð, dags. 21. janúar 2020, sem ber yfirskriftina „MINNISBLAÐ: TRÚNAÐARMÁL. VINNUFUNDUR Fundur á BVS um mál.“ Á fundinum voru málefni kæranda og sonar hans rædd og möguleikar á aðstoð við þá. Þá var kæranda einnig synjað um aðgang að tölvupóstsamskiptum sem snúa að heimferðaraðstoð við kæranda og son hans, dags. 6.-23. janúar 2020. Samskiptin eru fyrst og fremst á milli Barnaverndarstofu og borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins en þar er einnig að finna samskipti við Mosfellsbæ, félagsmálaráðuneytið, ræðismann Íslands á erlendri grund og kæranda sjálfan.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að kærandi kunni að eiga rétt til gagnanna á grundvelli 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Á grundvelli síðarnefndu laganna hefur sérstökum aðila, þ.e. úrskurðarnefnd velferðarmála, verið falið að taka afstöðu til ágreinings í barnaverndarmálum, þar með talið ágreinings vegna aðgangs að gögnum, sbr. 6. gr. laga nr. 80/2002. Í ljósi þessa telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að ekki sé rétt að nefndin fjalli efnislega um beiðni kæranda, sbr. 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, heldur beini hann kæru sinni til úrskurðarnefndar velferðarmála. Fari svo að úrskurðarnefnd velferðarmála telji ágreiningin ekki heyra undir þá nefnd þá getur kærandi óskað þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál taki málið fyrir að nýju.

Úrskurðarorð

Kæru A vegna synjunar Mosfellsbæjar á beiðni um aðgang að tölvupóstsamskiptum, dags. 6.-23. janúar 2020, sem varða mál kæranda og sonar hans og fundargerð fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar, dags. 21. janúar 2020, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Kjartan Bjarni Björgvinsson

 

Sigríður ÁrnadóttirÚrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira