Hoppa yfir valmynd

942/2020. Úrskurður frá 30. október 2020

Úrskurður

Hinn 30. október 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 942/2020 í máli ÚNU 20080011.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 14. ágúst 2020, kærði A synjun Herjólfs ohf., dags. 11. ágúst 2020, á beiðni um aðgang að ferilskrá framkvæmdastjóra félagsins. Eins og þetta mál er vaxið taldi úrskurðarnefndin óþarft að beita heimild 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 til að veita Herjólfi ohf. kost á að láta nefndinni í té rökstutt álit á málinu eða afrit af þeim gögnum sem kæra lýtur að. Þá þykir óþarft að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að ferilskrá framkvæmdastjóra Herjólfs ohf. en óumdeilt er að félagði fellur undir upplýsingalög, sbr. 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga
nr. 140/2012. Um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum fer því eftir meginreglu 1. mgr.
5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings með þeim takmörkunum sem greinir í
6.-10. gr. laganna.

Í 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga er sérregla um aðgang almennings að upplýsingum sem felur í sér undantekningu frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna. Reglan er orðuð á þann veg að „réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lögin taka til samkvæmt 2. gr. [taki] ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti“. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekki vafa leika á því að ferilskrá framkvæmdastjóra Herjólfs ohf., sé gagn í máli sem varðar umsókn hans um starf í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga.

Kveðið er á um undantekningar frá framangreindri sérreglu um málefni starfsmanna í 2. – 4. mgr. 7. gr. Í 4. mgr. 7. gr. kemur fram sérregla um aðgang almennings að upplýsingum um atriði sem varða starfsmenn lögaðila sem falla undir upplýsingalög samkvæmt 2. mgr. 2. gr. Í 4. mgr. 7. gr. segir að skylt sé að veita upplýsingar um nöfn starfsmanna og starfssvið, sbr. 1. tölul., og launakjör æðstu stjórnenda og upplýsingar um menntun þeirra, sbr. 2. tölul. málsgreinarinnar. Samkvæmt framangreindu á kærandi því ekki rétt á aðgangi að ferilskrá framkvæmdastjóra Herjólfs ohf. og verður því ákvörðun félagsins staðfest.

Úrskurðarorð

Staðfest er synjun Herjólfs ohf., dags. 11. ágúst 2020, á beiðni A um aðgang að ferilskrá framkvæmdastjóra félagsins.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum