Hoppa yfir valmynd

944/2020. Úrskurður frá 30. október 2020

Úrskurður

Hinn 30. október 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 944/2020 í máli ÚNU 20090002.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 13. ágúst 2020, kærði A synjun Herjólfs ohf., dags. 11. ágúst 2020, á beiðni um aðgang að auglýsingakostnaði félagsins, sundurliðuðum eftir fjölmiðlum, á tímabilinu 1. janúar – 30. júní 2020. Í synjun Herjólfs ohf. segir að umbeðnar upplýsingar liggi ekki fyrir með einföldum hætti og að vinna verði greiningu á bókhaldslyklum félagsins ef draga eigi saman upplýsingarnar. Félagið muni ekki leggjast í þá vinnu núna en vísi til ársreikninga og/eða árshlutauppgjöra sem birt verði á heimasíðu félagsins.

Eins og þetta mál er vaxið taldi úrskurðarnefndin óþarft að beita heimild 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 til að veita Herjólfi ohf. kost á að láta nefndinni í té rökstutt álit á málinu eða afrit af þeim gögnum sem kæra lýtur að. Þá þykir óþarft að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að samantekt með auglýsingakostnaði félagsins, sundurliðuðum eftir fjölmiðlum, á tímabilinu 1. janúar 2020 – 30. júní 2020. Ákvörðun Herjólfs ohf., dags. 11. ágúst 2020, um að synja beiðni kæranda um aðgang að upplýsingunum er byggð á því að vinna þurfi greiningu á gögnunum til að draga saman umbeðnar upplýsingar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að líta verði svo á að með því vísi félagið til þess að umbeðnar upplýsingar séu ekki fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga er meðal annars tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. Upplýsingalög leggja því ekki skyldu á þá aðila sem falla undir lögin til þess að útbúa ný gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna. Eins og atvikum máls þessa er háttað fellst úrskurðarnefnd um upplýsingamál á þá staðhæfingu Herjólfs ohf. að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi og að félaginu sé ekki skylt að taka gögnin saman. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð

Kæru A um aðgang að auglýsingakostnaði félagsins, sundurliðuðum eftir fjölmiðlum, á tímabilinu 1. janúar – 30. júní 2020, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira