Hoppa yfir valmynd

949/2020. Úrskurður frá 23. nóvember 2020

Úrskurður

Hinn 23. nóvember 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 949/2020 í máli ÚNU 20100026.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 934/2020 í máli ÚNU 20070007 og nr. 936/2020 í máli ÚNU 20080002 sem kveðnir voru upp þann 20. október 2020, vísaði úrskurðarnefndin kærum kæranda frá á þeim grundvelli að umbeðin gögn væru ekki fyrirliggjandi. Með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 941/2020 í máli nr. ÚNU 20070004, sem kveðinn var upp þann 30. október 2020, vísaði úrskurðarnefndin kæru kæranda frá á þeim grundvelli að ágreiningur um aðgang að þeim gögnum sem synjað var um aðgang að, heyrði ekki undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Með erindi, dags. 3. nóvember 2020, fór kærandi, A, fram á endurupptöku málanna þriggja. Í erindi kæranda kemur fram að í úrskurði nr. 941/2020 í máli nr. ÚNU 20070004, komi fram að fjölskyldusvið Mosfellsbæjar staðfesti að utanríkisráðuneytið og Barnaverndarstofa hafi logið að úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Eins og þetta mál er vaxið taldi úrskurðarnefndin óþarft að beita heimild 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 til að veita þeim stjórnvöldum sem beiðnum kæranda var beint að, kost á að láta nefndinni í té rökstutt álit á málinu. Þá þykir óþarft að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um hvort skilyrði séu til þess að taka aftur upp mál nr. ÚNU 20070007, sem lauk með úrskurði nr. 934/2020, mál ÚNU 20080002, sem lauk með úrskurði nr. 936/2020 og mál ÚNU 20070004, sem lauk með úrskurði nr. 941/2020.

Fyrirmæli um endurupptöku stjórnsýslumála koma fram í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. þess ákvæðis segir svo:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“

Krafa kæranda um endurupptöku málanna virðist vera á því byggð að niðurstaða þeirra hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál hafa engar nýjar upplýsingar komið fram í málunum sem breytt geta niðurstöðum nefndarinnar í þeim. Því eru ekki uppfyllt skilyrði fyrir endurupptöku málanna samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga.

Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir atvikum að vera rétt og heimilt að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir veltur skylda til slíkrar endurupptöku, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurði hennar séu verulegir annmarkar að lögum. Úrskurðarnefndin telur röksemdir kæranda ekki leiða í ljós slíkar vísbendingar. Með vísan til framangreinds er hafnað beiðni um endurupptöku máls ÚNU 20070007 sem lauk með úrskurði nr. 934/2020, máls ÚNU 20080002, sem lauk með úrskurði nr. 936/2020 og máls ÚNU 20070004, sem lauk með úrskurði nr. 941/2020.

Kæranda er bent á að honum er unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis vegna úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. 4. gr. laga nr. 85/1997.

Úrskurðarorð

Beiðni A, dags. 3. nóvember 2020, um endurupptöku máls ÚNU 20070007, sem lauk með úrskurði nr. 934/2020, máls ÚNU 20080002, sem lauk með úrskurði nr. 936/2020, og máls ÚNU 20070004, sem lauk með úrskurði nr. 941/2020, er hafnað.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Símon Sigvaldason

Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira