Hoppa yfir valmynd

963/2020. Úrskurður frá 17. desember 2020.

Úrskurður

Hinn 17. desember 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 963/2020 í máli ÚNU 20090017.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 11. september 2020, kærði A synjun Herjólfs ohf. á beiðni hans um upplýsingar um heildarlaun framkvæmdastjóra félagsins. Þá óskaði kærandi einnig eftir upplýsingum um hvort launin væru samkeppnishæf miðað við laun framkvæmdastjóra flutningafélaganna Eimskips hf. og Samskips hf.

Í svari Herjólfs ohf. til kæranda, dags. 4. ágúst 2020, segir að félagið muni ekki verða við beiðninni, með vísan til persónuverndarlaga nr. 90/2018 og upplýsingalaga nr. 140/2012, en kæranda sé vísað á upplýsingar í ársreikningi félagsins sem finna megi á heimasíðu þess og heimasíðu sveitarfélagsins. Þar komi fram allar upplýsingar sem félagið geti birt opinberlega um launakostnað stjórnenda félagsins. Í öðru svari Herjólfs ohf. til kæranda vegna sambærilegrar fyrirspurnar kæranda, dags. 4. september 2020, segir að ítrekað hafi verið óskað eftir upplýsingum um laun framkvæmdastjóra Herjólfs og því hafi ávallt verið synjað. Hvað varði fyrirspurn um laun framkvæmdastjóra annarra óskyldra fyrirtækja sé ekki hægt að gera þá kröfu til félagsins að svara slíkri upplýsingabeiðni.

Í kæru, dags. 11. september 2020, og öðrum erindum kæranda til úrskurðarnefndarinnar vegna sama máls segir að framkvæmdastjóri Herjólfs ohf. sé í vinnu hjá opinberu hlutafélagi sem gegni lykilhlutverki í samfélaginu. Laun æðstu stjórnenda Herjólfs ohf. hljóti að vera opinber eins og laun annarra æðstu embættismanna hins opinbera. Félagið sé í 100% eigu Vestmannaeyjabæjar. Þá vísar kærandi í starfskjarastefnu Herjólfs ohf. og segir það verða að teljast ótvíræðir hagsmunir og réttur almennings að hafa vitneskju um hvort staðið sé við þá stefnu sem kjörnir fulltrúar marki í umboði almennings. Slíkt varði við trúverðugleika í samskiptum kjósenda og kjörinna fulltrúa. Jafnframt þurfi að útskýra hvað samkeppnishæf kjör þýði í starfskjarastefnunni. Það varði trúnað kjörinna fulltrúa og kjósenda að samþykktum þeirra sé framfylgt, því beri nauðsyn til að fá upplýst um hvort svo sé.

Eins og þetta mál er vaxið taldi úrskurðarnefndin óþarft að beita heimild 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 til að veita Herjólfi ohf. kost á að láta nefndinni í té rökstutt álit á málinu. Þá þykir óþarft að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða
Í málinu er deilt um afgreiðslu Herjólfs ohf. á beiðni um upplýsingar um heildarlaun framkvæmdastjóra félagsins og hvernig þau samræmist starfskjarastefnu félagsins, einkum í samanburði við laun framkvæmdastjóra annarra félaga.

Upplýsingalög nr. 140/2012 taka samkvæmt 2. mgr. 2. gr. til aðila sem teljast að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera, ríkisins eða sveitarfélaga. Herjólfur ohf. er í eigu Vestmanneyjabæjar og fellur þar af leiðandi undir gildissvið laganna.

Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er tekið fram að skylt sé, ef þess sé óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum.

Samkvæmt 4. tölul. 6. gr. upplýsingalaga tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til gagna sem tengjast málefnum starfsmanna. Í 7. gr. upplýsingalaga er nánar fjallað um upplýsingar um málefni starfsmanna. Samkvæmt ákvæðinu er meginreglan sú að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna taki ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna en í 2.-4. mgr. 7. gr. koma fram undantekningar frá þessari reglu.

Í 4. mgr. 7. gr. kemur fram sérregla um aðgang almennings að upplýsingum um atriði sem varða starfsmenn lögaðila sem falla undir upplýsingalög samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laganna. Þar segir að veita beri almenningi upplýsingar um nöfn starfsmanna og starfssvið, sbr. 1. tölul., og launakjör æðstu stjórnenda og upplýsingar um menntun þeirra, sbr. 2. tölul. málsgreinarinnar. Samkvæmt framangreindu á kærandi rétt á upplýsingum um launakjör æðstu stjórnenda Herjólfs ohf. Verður synjun félagsins því felld úr gildi og lagt fyrir félagið að veita kæranda umbeðnar upplýsingar.

Hvað varðar óskir kæranda um samanburð launa framkvæmdastjóra Herjólfs ohf. við launakjör framkvæmdastjóra annarra félaga verður réttur til slíkra upplýsinga ekki leiddur af 4. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Í svari félagsins við upplýsingabeiðni kæranda kemur fram að ekki sé hægt að verða við beiðninni, um sé að ræða fyrirtæki sem séu óskyld Herjólfi ohf. og ekki sé hægt að gera þá kröfu til Herjólfs ohf. að svara slíkri upplýsingabeiðni.

Af 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á því formi sem óskað er. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til annars en að leggja það til grundvallar að upplýsingar um laun framkvæmdastjóra annarra óskyldra félaga eða samanburður á launakjörum óskyldra aðila séu ekki í vörslum Herjólfs ohf. Þegar svo háttar til að gögn eru ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða ákvörðun um að synja um aðgang að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Með hliðsjón af framangreindu verður þessum hluta kærunnar vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð
Herjólfi ohf. er skylt að veita kæranda, A, upplýsingar um heildarlaun framkvæmdastjóra félagsins.

Kæru, dags. 11. september 2020, er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira