Hoppa yfir valmynd

965/2021. Úrskurður frá 22. janúar 2021.

Úrskurður

Hinn 22. janúar 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 965/2021 í máli ÚNU 20090004.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 3. september 2020, kærði Stúdentaráð Háskóla Íslands, afgreiðslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins á beiðni Stúdentaráðs um aðgang að niðurstöðum könnunar um atvinnumál stúdenta sem mennta- og menningarmálaráðuneytið lét framkvæma í samvinnu við Maskínu í lok maí 2020.

Með tölvubréfi, dags. 12. júní 2020, upplýsti ráðuneytið kæranda um að niðurstöður könnunarinnar lægju fyrir og óskaði kærandi samdægurs eftir því að fá að kynna sér þær. Með tölvupósti, dags. 16. júní 2020, sendi ráðuneytið kæranda skýrslu um könnunina og áttu fulltrúar kæranda fund með starfsmanni ráðuneytisins um niðurstöður könnunarinnar 19. júní 2020. Í kæru kemur fram að starfsmaður ráðuneytisins hafi á fundinum tjáð fulltrúum kæranda að um trúnaðargögn væri að ræða þar sem ekki væri búið að kynna niðurstöðurnar opinberlega.

Með tölvubréfi, dags. 7. júlí 2020, óskaði kærandi eftir upplýsingum hjá ráðuneytinu um hvenær ráðuneytið áformaði að birta opinberlega niðurstöður könnunarinnar. Samkvæmt kærunni og gögnum málsins var beiðni þess efnis ítrekuð á fundi stúdentaráðs með fulltrúum ráðuneytisins sem fram fór 9. júlí 2020 og með tölvupósti, dags. 21. júlí 2020.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 4. september 2020, var kæran kynnt mennta- og menningarmálaráðuneytinu og veittur frestur til að koma á framfæri frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni.

Í umsögn ráðuneytisins, dags. 14. september 2020, er tekið fram að samkvæmt tölvupósti kæranda, dags. 21. júní 2020, til ráðuneytisins lúti beiðni kæranda að því að fá umræddar niðurstöður birtar. Í umsögninni kemur einnig fram að með tölvupósti, dags. 16. júní 2020, hafi ráðuneytið sent kæranda umbeðin gögn og þau því öllum aðgengileg þótt þau hafi ekki verið birt opinberlega á vefsíðu ráðuneytisins. Af þeim sökum telji ráðuneytið ljóst að beiðni kæranda sé ekki gagnabeiðni í skilningi upplýsingalaga heldur ósk um að ráðuneytið birti opinberlega umbeðin gögn. Að mati ráðuneytisins verði ekki séð að leyst verði úr beiðni kæranda á grundvelli upplýsingalaga þar sem kærandi hafi þegar fengið aðgang að umbeðnum gögnum.

Með bréfi, dags. 15. september 2020, var kæranda veitt færi á að koma á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn ráðuneytisins. Í athugasemdum kæranda sem bárust með bréfi, dags. 17. september 2020, kemur fram að samskipti kæranda við ráðuneytið hafi ætíð borið þess merki að umrædd gögn teldust trúnaðargögn sem kæranda væri óheimilt að miðla áfram. Þá kemur fram í athugasemdunum að afgreiðsla ráðuneytisins sé ófullnægjandi þar sem skýrslan sem afhent var gefi ekki rétta mynd af stöðu stúdenta á vinnumarkaði.

Niðurstaða
Í málinu er deilt um afgreiðslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins á beiðni kæranda um aðgang að niðurstöðum könnunar sem ráðuneytið fól Maskínu að framkvæma.

Í málinu liggur fyrir að ráðuneytið afhenti kæranda umbeðin gögn með tölvupósti, 16. júní 2020. Úrskurðarnefndin leggur þann skilning í kæruna að hún lúti að því að kærandi hafi með einhverjum hætti verið beðinn um að gæta trúnaðar um niðurstöður könnunarinnar og telji af þeim sökum afgreiðslu ráðuneytisins ekki fullnægjandi. Þá beinist kæran jafnframt að því að ráðuneytið hafi ekki birt niðurstöður könnunarinnar á vefsíðu sinni.

Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga segir að sé þess óskað sé skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. laganna. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Ekki er þó skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr. Af ákvæðum upplýsingalaga verður hins vegar ekki leidd skylda stjórnvalds til að verða við beiðni um að birta upplýsingar opinberlega umfram það sem leiðir af 13. gr. laganna þar sem fjallað er um birtingu upplýsinga að eigin frumkvæði.

Af 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga leiðir jafnframt að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á því formi sem óskað er. Það fellur þannig utan við úrskurðarvald nefndarinnar að fjalla um ákvörðun ráðuneytisins um að birta ekki könnun að eigin frumkvæði á vefsvæði sínu. Eins og fram hefur komið var kæranda afhent skýrsla um niðurstöður könnunarinnar með tölvupósti, dags. 16. júní 2020. Í athugasemdum kæranda eru gerðar athugasemdir við efni gagnanna og þeirri afstöðu lýst að þau gefi ekki fullnægjandi mynd af stöðu atvinnumála stúdenta. Í ljósi þess sem fram kemur í umsögn ráðuneytisins og með hliðsjón af því hvernig gagnabeiðni kæranda var sett fram telur úrskurðarnefndin ekki unnt að leggja annað til grundvallar en að ráðuneytið hafi afhent kæranda umbeðin gögn. Að mati úrskurðarnefndarinnar liggur því ekki fyrir ákvörðun um að synja um aðgang að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Þá skal tekið fram að í upplýsingalögum er ekki að finna heimild til að binda gögn trúnaði sem afhent eru á grundvelli þeirra nema annað leiði af ákvæðum sérlaga, t.d. sérstök ákvæði um þagnarskyldu. Stjórnvaldi er því almennt ekki heimilt að binda afhendingu gagna því skilyrði að viðtakandi gæti trúnaðar um efni þeirra og eru slík fyrirmæli almennt þýðingarlaus. Í umsögn ráðuneytisins kemur fram að umbeðin gögn hafi verið afhent auk þess sem fram kemur í tölvupósti, sem fylgdi umsögn ráðuneytisins, frá starfsmanni ráðuneytisins sem afgreiddi gagnabeiðnina að kæranda hafi verið frjálst að birta niðurstöður könnunarinnar. Úrskurðarnefndin telur því ekki unnt að leggja annað til grundvallar en að umbeðin gögn hafi verið afhent í samræmi við ákvæði upplýsingalaga eins og rakið er hér að framan. Þá er ekkert í þeim fyrirliggjandi gögnum sem bendir til þess að gerður hafi verið áskilnaður um trúnað við afhending gagnanna.

Úrskurðarorð

Kæru Stúdentaráðs Háskóla Íslands, dags. 3. september 2020, vegna afgreiðslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins á beiðni um aðgang að niðurstöðum könnunar um atvinnumál stúdenta er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira