Hoppa yfir valmynd

968/2021. Úrskurður frá 22. janúar 2021.

Úrskurður

Hinn 22. janúar 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 968/2021 í máli ÚNU 20090022.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 17. september 2021, kærði A afgreiðslu barnaverndar Kópavogs, dags. 14. september 2020, á beiðni hans um aðgang að forsjárhæfnismati sem barnsmóðir kæranda gekkst undir vegna barnaverndarmáls sem varðar börn kæranda.

Upphaflega óskaði kærandi eftir aðgangi að gögnum í barnaverndarmáli er vörðuðu börn hans. Með ákvörðun, dags. 11. júní 2020, synjaði barnavernd Kópavogs að afhenda kæranda forsjárhæfnismat sem barnsmóðir hans gekkst undir í barnaverndarmáli er varðar börn hans. Í ákvörðuninni kemur fram að ákveðið hafi verið að synja um aðgang að gagninu þar sem ekki hafi verið skýrt hvort kærandi ætti að fá aðgang að umræddu mati með tilliti til þeirra upplýsinga sem það hefði að geyma. Í ákvörðun barnaverndar var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 16. júní 2020 vegna ákvörðunar barnaverndar um að synja um aðgang að umræddu gagni. Í úrskurði Úrskurðarnefndar velferðarmála frá 24. ágúst 2020 sem kveðinn var upp í máli kæranda kom fram að ekki yrði séð að barnaverndarnefnd hefði kveðið upp rökstuddan úrskurð um beiðni kæranda um gögn eins og áskilið sé í 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Af þeim sökum hefði ákvörðun barnaverndar Kópavogs verið felld úr gildi og málinu vísað til barnaverndar til löglegrar málsmeðferðar og ákvörðunar að nýju.

Með bréfi, dags. 14. september 2020, var kæranda synjað um aðgang að umbeðnum gögnum á ný. Í ákvörðuninni kemur fram að samkvæmt 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé heimilt að takmarka upplýsingarétt aðila þegar hagsmunir annarra af því að gögn séu ekki afhent eru ríkari en hagsmunir þess sem fer fram á afhendingu þeirra. Þá er vísað til þeirra takmarkana á afhendingu upplýsinga sem leiða af 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá segir í bréfinu að fara þurfi fram mat á hvort vegi þyngra hagsmunir kæranda af því að fá upplýsingar er lúta að forsjárhæfni barnsmóður hans eða hennar af því að upplýsingunum sé haldið leyndum. Að mati barnaverndar Kópavogs vegi hagsmunir barnsmóður kæranda þyngra við matið. Loks er kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt barnavernd Kópavogs með bréfi, dags. 28. september, og sveitarfélaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn barnaverndar Kópavogs, dags. 7. október 2020, er vísað til þess að þar sem barnsmóðir kæranda hafi samþykkt vistun barnanna hjá kæranda til 12 mánaða hafi ekki komið til þess að forsjárhæfnismatið yrði lagt til grundvallar ákvörðunartöku barnaverndar um framhald vistunar utan heimilis. Kæranda var því synjað um afhendingu þess með vísan til 45. gr. barnaverndarlaga þar sem segir að afhenda beri aðilum öll þau gögn sem málið varða og koma til álita við úrlausn þess enda tryggi þeir trúnað. Í kjölfarið hafi kærandi kært synjunina til úrskurðarnefndar velferðarmála sem hafi vísað málinu til nýrrar meðferðar þar sem barnavernd Kópavogs væri eina valdbæra stjórnvaldið sem gæti takmarkað aðgang aðila að gögnum máls, sbr. 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga, þar sem segi að barnaverndarnefnd geti með rökstuddum úrskurði takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef hún telur að það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra eða aðra. Nefndin getur einnig úrskurðað að aðilar og lögmenn þeirra geti kynnt sér skjöl og önnur gögn án þess að þau eða ljósrit af þeim séu afhent. Þá segir í umsögninni að þær aðstæður sem tilteknar séu í ákvæðinu eigi ekki við í þessu máli. Við endurupptöku málsins hjá barnavernd hafi kæranda verið synjað aftur um aðgang á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga þar sem segi að þegar sérstaklega standi á sé stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum. Þá sé samskonar ákvæði að finna í 17. gr. stjórnsýslulaga. Hér hafi því þurft að taka afstöðu til þess hvort kærandi hafi þá ríku hagsmuni af því að fá umrætt forsjárhæfnismat afhent en barnsmóðir hans af því að viðkvæmar persónulegar upplýsingar svo sem niðurstöður sálfræðilegra prófana verði ekki afhentar kæranda. Niðurstaða barnaverndar hafi verið að svo væri ekki með vísan til þess að ekki kom til þess að ákvörðun væri byggð á niðurstöðu forsjárhæfnismatsins og að um svo viðkvæmar upplýsingar væri að ræða um einkamálefni og heilsufar konunnar að óheimilt væri að afhenda þær öðrum. Þá verði líka að líta til þess að forsjárhæfnismatið hafi að geyma upplýsingar um annað barn barnsmóðurinnar sem ekki lúti forsjá kæranda.

Umsögn barnaverndar Kópavogs var kynnt kæranda með bréfi, dags. 15. október 2020, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um afgreiðslu barnaverndar Kópavogs á beiðni kæranda um aðgang að forsjárhæfnismati sem barnsmóðir kæranda gekkst undir vegna barnaverndarmáls sem varðar börn kæranda.

Í synjun barnaverndar Kópavogs og umsögn til úrskurðarnefndarinnar kemur fram sú afstaða að þær aðstæður sem tilteknar séu í 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga eigi ekki við í málinu þar sem ekki hafi komið til þess að forsjárhæfnismatið sem barnsmóðir kæranda gekkst undir yrði lagt til grundvallar ákvörðunartöku barnaverndar um framhald vistunar utan heimilis. Af þeim sökum hafi synjun barnaverndar Kópavogs byggst á 14. gr. upplýsingalaga og 17. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda lögin ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Af þessu leiðir að ákvarðanir um aðgang að gögnum í slíkum tilvikum verða ekki bornar undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Í málinu liggur fyrir að umrætt forsjárhæfnismat var framkvæmt í tilefni af barnaverndarmáli varðandi börn kæranda. Með „barnaverndarmáli“ í skilningi barnaverndarlaga er átt við stjórnsýslumál sem miðar að því marki að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta hvort þörf sé á að beita þeim sérstöku úrræðum sem kveðið er á um í barnaverndarlögum. Barnaverndarmál hefst með formlegri ákvörðun barnaverndarnefndar um könnun máls og lýkur ýmist þegar barnaverndarnefnd telur ekki þörf á frekari afskiptum eða þegar barn er orðið 18 ára. Úrskurðarnefndin telur að gögn málsins bendi til þess að það mál sem hófst með afskiptum barnaverndar Kópavogs af heimili barnsmóður kæranda og varð tilefni þess að aflað var umrædds forsjárhæfnismats hafi falið í sér barnaverndarmál í framangreindum skilningi og sé þar með stjórnsýslumál. Í því sambandi skal einnig bent á að í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála frá 24. ágúst 2020 í máli kæranda nr. 304/2020 var upphafleg ákvörðun barnaverndar Kópavogs felld úr gildi og málinu vísað til baka til nýrrar meðferðar þar sem barnavernd hefði ekki kveðið upp rökstuddan úrskurð um beiðni kæranda í samræmi við 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga.

Um aðgang aðila stjórnsýslumáls að upplýsingum sem tengjast máli hans gildir meginregla 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga, um að aðili máls eigi rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum sem mál varði. Takmarkanir á þeim rétti eru í 15.–17. gr. sömu laga. Upplýsingaréttur aðila máls skv. 15. gr. stjórnsýslulaga er víðtækari en sá réttur sem veittur er með ákvæðum upplýsingalaga. Þá er sérstaklega fjallað um upplýsingarétt og aðgang málsaðila að gögnum barnaverndarmáls í 45. gr. barnaverndarlaga. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að barnaverndarnefnd skuli með nægilegum fyrirvara láta aðilum máls í té öll gögn sem málið varða og koma til álita við úrlausn þess, enda tryggi þeir trúnað. Í 2. mgr. segir að barnaverndarnefnd geti með rökstuddum úrskurði takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef hún telur að það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra eða aðra. Nefndin getur einnig úrskurðað að aðilar og lögmenn þeirra geti kynnt sér skjöl og önnur gögn án þess að þau eða ljósrit af þeim séu afhent.

Í ljósi þess sem að framan er rakið telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að kærandi kunni að eiga rétt til gagnanna á grundvelli 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Á grundvelli síðarnefndu laganna hefur sérstökum aðila, þ.e. úrskurðarnefnd velferðarmála, verið falið að taka afstöðu til ágreinings í barnaverndarmálum, þar með talið ágreinings vegna aðgangs að gögnum, sbr. 6. gr. laga nr. 80/2002. Í ljósi þessa telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að lög standi ekki til þess að nefndin fjalli efnislega um beiðni kæranda, sbr. 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, heldur beini hann kæru sinni til úrskurðarnefndar velferðarmála. Fari svo að úrskurðarnefnd velferðarmála telji ágreiningin ekki heyra undir þá nefnd þá getur kærandi óskað þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál taki málið fyrir að nýju. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð

Kæru vegna synjunar barnaverndar Kópavogs, dags. 14. september 2020, á beiðni um aðgang að forsjárhæfnismati sem barnsmóðir kæranda gekkst undir vegna barnaverndarmáls sem varðar börn kæranda er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira