Hoppa yfir valmynd

977/2021. Úrskurður frá 22. febrúar 2021.

Úrskurður

Hinn 22. febrúar 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð
nr. 977/2021 í máli ÚNU 21010014.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 19. janúar 2021, fór A, fréttamaður, fram á endurupptöku máls ÚNU 20070012 sem lauk þann 20. október 2020 með úrskurði nr. 935/2020. Með úrskurðinum komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að leysa bæri úr beiðni kæranda um aðgang að gögnum fyrirtækjaskrár um raunverulegt eignarhald tiltekinna félaga á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012. Úrskurðarnefndin féllst þannig ekki á að gögnin væru undanþegin upplýsingarétti almennings með vísan til laga nr. 82/2019, um skráningu raunverulegra eigenda. Úrskurðarnefndin taldi að ríkisskattstjóra bæri að veita kæranda aðgang að umbeðnum upplýsingum að undanskildum tilteknum upplýsingum m.a. um upphæðir á hlutafjármiðum. Ákvörðun úrskurðarnefndarinnar var á því að byggð að um væri að ræða upplýsingar sem féllu undir 9. gr. upplýsingalaga.

Með erindi, dags. 19. janúar 2021, fór kærandi fram á endurupptöku málsins. Í erindi kæranda kemur fram að upphæðir þær sem koma fram á hlutafjármiðum sýni hlutafjáreign hvers og eins aðila í tilteknu félagi. Þótt ýmsar fjárhagslegar upplýsingar um einstaklinga séu almennt taldar geta verið viðkvæmar, þar á meðal upplýsingar um launakjör, bankaviðskipti og skuldastöðu, hafi slíkt ekki verið talið gilda um hlutabréfaeign. Þvert á móti hafi sjónarmið um gagnsæi í viðskiptum verið talin vega það þungt að upplýsingar um hlutafjáreign eigi að vera aðgengilegar í opinberum gögnum. Fyrirtækjum sé skylt að skila árlega ársreikningi til opinberrar birtingar hjá ársreikningaskrá. Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra haldi utan um ársreikningaskrána, og ársreikningar séu aðgengilegir á vefsvæði embættisins án endurgjalds. Samkvæmt 3. mgr. 65. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga skuli fyrirtæki láta fylgja með ársreikningi skrá yfir nöfn og kennitölur allra hluthafa félagsins í stafrófsröð, ásamt upplýsingum um hlutafjáreign hvers og eins og hundraðshluta hlutafjár í árslok. Upplýsingar um hlutafjáreign hvers einasta hluthafa í tilteknu félagi séu þannig aðgengilegar öllum á vefsíðu fyrirtækjaskrár. Þá er bent á að þar sem umræddar upplýsingar séu nú þegar aðgengilegar almenningi á opnu vefsvæði geti upphæðir á hlutafjármiðum einfaldlega ekki talist viðkvæmar upplýsingar sem falli undir 9. gr. upplýsingalaga. Í erindinu er þeirri afstöðu lýst að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar um að afmá skuli upphæðir á hlutafjármiðum sé efnislega röng. Hagsmunir almennings af því að fá upplýsingar um upphæðir á umræddum hlutafjármiðum og geta þannig kynnt sér hvernig fyrirtækjaskrá rækir lögbundið hlutverk sitt hljóti því að teljast miklir og vega mun þyngra en hagsmunir hluthafa fyrirtækjanna af því að halda upplýsingunum leyndum, enda séu þeir hagsmunir engir, því sambærilegar upplýsingar séu hvort eð er gerðar opinberar í ársreikningum.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um þá niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál í úrskurði nr. 935/2020 að ríkisskattstjóra bæri að afmá upplýsingar um upphæðir hlutafjármiða.

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku málsins hvað varðar þau gögn sem synjað var um aðgang að, á því að gögnin hafi ekki að geyma upplýsingar sem falli undir 9. gr. upplýsingalaga. Þá séu upplýsingarnar þegar aðgengilegar í ársreikningum félaga sem birtir eru á vefsvæði ársreikningaskrár.

Fyrirmæli um endurupptöku stjórnsýslumála koma fram í 24. gr. stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. þess ákvæðis segir svo:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“

Í fyrrgreindum úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ríkisskattstjóra væri óheimilt að veita kæranda aðgang að upphæðum á hlutafjármiðum með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Nánar tiltekið var það afstaða úrskurðarnefndarinnar að í þeim fælust upplýsingar um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Í tilviki lögaðila væri að mati úrskurðarnefndarinnar um að ræða upplýsingar um mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni þeirra í skilningi 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga.

Sem fyrr segir er beiðni kæranda um endurupptöku málsins einkum reist á því að umræddar upplýsingar séu þegar aðgengilegar í ársreikningaskrá. Með 4. mgr. 109. gr. laga um ársreikninga, þar sem kveðið er á um að birta skuli ársreikninga á opinberu vefsvæði hafi löggjafinn tekið afstöðu til þess að umræddar upplýsingar teljist ekki viðkvæmar. Að mati úrskurðarnefndarinnar breytir það ekki niðurstöðu nefndarinnar að upplýsingar sem gerðar hafa verið aðgengilegar með þeim hætti sem kveðið er á um í 4. mgr. 109. gr. laga um ársreikninga kunni að hafa verið unnar að hluta eða öllu leyti upp úr hlutafjármiðum sem skilað er inn í tengslum við álagningu. Í því sambandi tekur nefndin fram að framangreint ákvæði um birtingu ársreikninga felur ekki í sér að veita beri aðgang að þeim gögnum sem upplýsingar sem fram koma í þeim skuli birt samhliða. Þá er til þess að líta að samkvæmt 3. mgr. 65. gr. laga um ársreikninga er hlutafélögum og einkahlutfélögum eingöngu skylt að upplýsa um að lágmarki tíu stærstu hluthafa eða alla ef hluthafar eru færri en tíu, og hundraðshluta hlutafjár hvers þeirra í lok ársins. Að mati úrskurðarnefndarinnar er úrskurður nr. 935/2020 ekki byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik þannig að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga.

Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir atvikum að vera rétt og heimilt að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir veltur skylda til slíkrar endurupptöku, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurði hennar séu verulegir annmarkar að lögum. Úrskurðarnefndin telur röksemdir kæranda ekki leiða í ljós slíkar vísbendingar. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er hafnað beiðni um endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 935/2020 frá 20. október 2020

Úrskurðarorð:

Beiðni A, dags. 19. janúar 2021, um endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 935/2020 frá 20. október 2020, er hafnað.

Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira