Hoppa yfir valmynd

978/2021. Úrskurður frá 22. febrúar 2021.

Úrskurður

Hinn 22. febrúar 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 978/2021 í máli ÚNU 20080017.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 25. ágúst 2020 kærði A afgreiðslu Lindarhvols ehf. á beiðni, dags. 29. júní 2020, um aðgang að fjórum fundargerðum stjórnar Lindarhvols ehf. þar sem málefni Klakka ehf. voru til umfjöllunar auk greinargerðar setts ríkisendurskoðanda, um starfsemi Lindarhvols ehf.

Með bréfi, dags. 29. júní 2020, óskaði kærandi eftir aðgangi að þeim fjórum fundargerðum stjórnar Lindarhvols ehf. sem hefðu að geyma umfjallanir um málefni Klakka ehf. og ekki hefðu þegar verið afhentar kæranda. Beiðni kæranda var svarað með bréfi, dags. 9. júlí 2020, þar sem fram kom að þegar hefðu verið afhent öll gögn varðandi söluferli Lindarhvols ehf. á nauðasamningskröfum Klakka ehf. sem hefðu fallið undir gagnabeiðni kæranda. Með bréfi, dags. 17. júlí 2020, ítrekaði kærandi fyrri beiðni um afhendingu á fundargerðum stjórnar Lindarhvols ehf. þar sem málefni Klakka ehf. voru til umræðu, öðrum en þeim sem þegar hefðu verið afhentar. Áður hafði kærandi fengið afhentar fundargerðir stjórnar félagsins frá 18. og 20. október 2016. Beiðni kæranda var móttekin af hálfu Lindarhvols ehf., með tölvupósti, dags. 4. ágúst 2020. Því bréfi var ekki svarað og laut kæran því upphaflega að þeim drætti sem orðið hafði á afgreiðslu Lindarhvols ehf. á beiðni kæranda. Í tilefni af kærunni óskaði úrskurðarnefndin eftir umsögn Lindarhvols ehf., með bréfi, dags. 26. ágúst sl. Í umsögn Lindarhvols ehf., dags. 15. september 2020, kom fram að Lindarhvoll ehf. hefði enn ekki synjað beiðni kæranda um þau gögn er kæran sneri að. Vegna anna hjá félaginu hefði beiðnin ekki verið afgreidd fyrr enn með bréfi, dags. 15. september 2020, sem fylgdi umsögninni til úrskurðarnefndarinnar.

Í bréfi Lindarhvols ehf. til kæranda, dags. 15. september 2020, var áréttað að kæranda hefðu þegar verið afhent öll fyrirliggjandi gögn varðandi söluferli félagsins á nauðasamningskröfum Klakka ehf., sem fallið hefðu undir gagnabeiðnir kæranda. Þá var fyrri afstaða félagsins til beiðni kæranda um afhendingu greinargerðar setts ríkisendurskoðanda ítrekuð þar sem greinargerðin félli undir sérstakt þagnarskylduákvæði, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016. Loks var kæranda veittur aðgangur að útdrætti úr fundargerðum Lindarhvols ehf. frá stofnun félagsins þar sem málefni Klakka ehf. voru almennt til umræðu.

Með bréfi, dags. 15. september 2020, var kæranda veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í tilefni af umsögn Lindarhvols ehf. Með bréfi, dags. 30. september 2020, bárust athugasemdir kæranda þar sem fram kom að óskað væri eftir umræddum fundargerðum stjórnar Lindarhvols ehf. í heild sinni, en ekki takmörkuðum útdráttum úr þeim sem ekki veittu fullnægjandi mynd af því sem fram fór á umræddum stjórnarfundum. Í því sambandi var vísað til þess að umrædd beiðni væri í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 727/2018 þar sem Lindarhvoli ehf. var gert að afhenda allar fundargerðir þar sem fjallað var um sölu á eignarhlutunum í Klakka ehf. og tengdum kröfum.

Málsmeðferð

Eins og rakið hefur verið hér að framan laut upphafleg kæra að því að Lindarhvoll ehf. hefði ekki afgreitt beiðni kæranda um gögn. Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni svaraði Lindarhvoll ehf. beiðni kæranda með bréfi, dags. 15. september 2020, þar sem kæranda var veittur aðgangur að útdrætti úr sex fundargerðum stjórnar Lindarhvols ehf. þar sem fjallað var almennt um málefni Klakka ehf. Þá var beiðni kæranda um afhendingu á drögum að greinargerð setts ríkisendurskoðanda um starfsemi Lindarhvols ehf. synjað. Með bréfi, dags. 30. september 2020, sem rakið er hér að framan kom fram sú afstaða kæranda að hann teldi afgreiðslu Lindarhvols ehf. ekki fullnægjandi og þess krafist að félagið veitti kæranda aðgang að umræddum fundargerðum í heild sinni.

Með bréfi, dags. 5. október 2020, var Lindarhvoli ehf. veittur kostur á að koma á framfæri frekari rökstuðningi til nefndarinnar í ljósi athugasemda kæranda frá 30. september 2020. Í umsögn Lindarhvols ehf., dags. 23. október 2020, kom fram að þar sem félagið hefði afhent kæranda gögn í samræmi við beiðni hans bæri að fella niður kæruna hjá nefndinni. Í umsögninni er áréttað að öll gögn sem fjallað var um í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 727/2018 hafi verið afhent. Hins vegar hafi Lindarhvoll ehf. með bréfi, dags. 15. september 2020, afhent útdrætti úr fundargerðum Lindarhvols ehf. þar sem málefni Klakka voru almennt til umræðu í samræmi við beiðni kæranda. Í bréfinu hafi verið ítrekað að ekki væri um að ræða gögn vegna hins opna söluferlis enda hafi þau þegar verið afhent. Félagið hafi litið svo á að með framangreindum útdráttum hafi það orðið við beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum í fundargerðum (öðrum en frá 18. og 20. október 2015) þar sem málefni Klakka voru almennt til umræðu. Þess hafi verið skýrlega getið í svarbréfi félagsins að ef kærandi óski eftir aðgangi að fundargerðunum að öðru leyti þá geti kærandi komið að beiðni þar að lútandi til félagsins. Engin slík beiðni hefði borist Lindarhvoli ehf.

Í umsögninni kemur fram að fyrrnefndir útdrættir úr fundargerðum þar sem fjallað var almennt um nauðungasamningskröfur í Klakka ehf. hafi verið mjög lítið brot af efni fundargerðanna. Tekið er fram að þar sem upplýsingar hafi verið afmáðar á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, hafi slíkt verið auðgreint með hornklofum og þess getið að að því marki sem upplýsingar væru afmáðar væri unnt að bera svar félagsins undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Þá segir að samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga sé Lindarhvoli ehf. ekki heimilt að veita almenningi aðgang að gögnum sem varði mikilvæga virka fjárhags- og viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila eins og við eigi í því tilviki sem um ræði og hafi því upplýsingarnar verið afmáðar.

Hvað varðar beiðni kæranda um afhendingu á drögum að greinargerð setts ríkisendurskoðanda um starfsemi Lindarhvols ehf. er m.a. vísað til þess að með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 827/2019 hafi verið staðfest að fyrrnefnd drög að greinargerð ríkisendurskoðunar væru undirorpin sérstakri þagnarskyldu, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga.

Með bréfi, dags. 19. nóvember 2020, var kæranda veittur kostur á að koma að frekari athugasemdum í ljósi umsagnar Lindarhvols ehf. Í athugasemdum kæranda, dags. 1. desember 2020, er því m.a. mótmælt að Lindarhvoll ehf. hafi afhent kæranda öll umbeðin gögn. Í því sambandi er bent á að kæranda sé kunnugt um að lágmarki eina fundargerð, mögulega tvær, þar sem fjallað sé um sölu á eignarhlutnum og ekki hafa verið afhentar, 4. nóvember 2016 og 9. nóvember 2016. Þá telur kærandi skýrt af síðari erindum til Lindarhvols ehf. að ekki hafi verið óskað eftir útdráttum úr fundargerðum félagsins heldur að afhentar yrðu allar fundargerðir þar sem fjallað væri um sölu á eignarhlutnum. Ekki sé hægt að staðreyna hvenær viðkomandi fundir voru haldnir, hvaða stjórnarmenn sátu fundina, eða lögmæti og framkvæmd fundar að öðru leyti, ef einungis er veittur útdráttur með þeim hætti sem gert var í svari Lindarhvols ehf., dags. 15. september 2020.

Niðurstaða

1.

Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál veitti Lindarhvoll ehf. kæranda aðgang að útdrætti úr sex fundargerðum þar sem málefni Klakka ehf. voru til meðferðar. Í ljósi þess hvernig upplýsingabeiðni kæranda til Lindarhvols ehf. var afmörkuð leggur úrskurðarnefndin til grundvallar að deilt sé um rétt kæranda til aðgangs að þeim hluta umræddra fundargerða þar sem málefni Klakka ehf. voru til umfjöllunar án takmarkana. Nánar tiltekið lýtur kæran að umræddum hlutum eftirfarandi funda stjórnar Lindarhvols ehf.:
1. Fundargerð fundar stjórnar Lindarhvols ehf., dags. 4. maí 2016
2. Fundargerð fundar stjórnar Lindarhvols ehf., dags. 8. júní 2016
3. Fundargerð fundar stjórnar Lindarhvols ehf., dags. 30. júní 2016
4. Fundargerð fundar stjórnar Lindarhvols ehf., dags. 4. ágúst 2016.
5. Fundargerð fundar stjórnar Lindarhvols ehf., dags. 31. ágúst 2016
6. Fundargerð fundar stjórnar Lindarhvols ehf., dags. 5. október 2016.

Félagið hefur í tengslum við fyrri mál sem verið hafa til meðferðar hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál afhent úrskurðarnefndinni afrit af fundargerðum stjórnar Lindarhvols ehf., þ. á m. þeim sem kærandi óskar eftir, og verður farið yfir þær og rétt kæranda til aðgangs að þeim hér á eftir.

2.

Eins og áður segir vísar Lindarhvoll ehf. til 9. gr. upplýsingalaga og telur að í umbeðnum fundargerðum sé að finna upplýsingar um einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga og mikilvæga virka fjárhags- og viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.

Í 9. gr. upplýsingalaga segir orðrétt:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“

Í athugasemdum um ákvæðið er fylgdi frumvarpi til laganna kemur fram að ákvæðið sé til þess að vernda stjórnarskrárvarinn rétt manna til einkalífs annars vegar og hins vegar eðlilega og réttmæta hagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila af því að geta lagt grundvöll að viðskiptalegum ákvörðunum og gerningum. Í athugasemdunum segir enn fremur orðrétt:

„Ákvæði 9. gr. frumvarpsins felur í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna. [...] Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um fjárhagsmálefni einstaklinga. Þannig er t.d. almennt óheimilt að veita upplýsingar um tekjur og fjárhagsstöðu einstaklinga nema það byggist á sérstakri lagaheimild.“

Að því er varðar gögn um fyrirtæki og aðra lögaðila segir í athugasemdum:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.“

Við beitingu ákvæðis 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga gera lögin ráð fyrir að metið sé í hverju og einu tilviki hvort viðkomandi upplýsingar varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi fyrirtækja eða annarra lögaðila að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda þeim tjóni, verði þær gerðar opinberar. Við framkvæmd slíks mats verður að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt það er að tjón muni verða ef aðgangur er veittur að upplýsingunum. Enn fremur verður að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafa fyrir þann lögaðila sem um ræðir á þeim tíma er matið fer fram.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér efni útdráttanna úr fundargerðum Lindarhvols ehf. sem kærandi fékk afhent með hliðsjón af þessum sjónarmiðum. Í þeim er að finna umfjöllun um áform um að auglýsa og setja hlut Klakka ehf. í sölumeðferð og ákvörðun þess efnis sem tekin var í framhaldinu. Þær upplýsingar sem afmáðar voru úr fundargerðunum lúta að málefnum og áformum tengdum öðrum lögaðila sem voru til umfjöllunar samhliða umfjöllun um málefni Klakka ehf. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að telja að þær upplýsingar sem falli undir 9. gr. upplýsingalaga hafi ótvírætt að geyma upplýsingar um svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni þess lögaðila sem um er fjallað að heimilt sé að afmá þær á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Þannig verður ekki hjá því komist að staðfesta ákvörðun Lindarhvols ehf. um að veita aðgang að útdráttum úr umræddum fundargerðum með útstrikunum.

3.

Í kærunni og athugasemdum kæranda er þeirri afstöðu lýst að upphafleg gagnabeiðni kæranda hafi lotið að því að fá afhentar í heild sinni fundargerðir stjórnar Lindarhvols ehf. þar sem fjallað er um málefni Klakka ehf. en ekki eingöngu þá hluta þeirra þar sem málefni Klakka ehf. voru til meðferðar. Í upphaflegri gagnabeiðni kæranda, dags. 29. júní 2020, kemur fram að farið sé fram á aðgang að fundargerðum stjórnar Lindarhvols ehf. þar sem fjallað var um málefni Klakka ehf. Þá segir að nánar tiltekið sé óskað eftir afhendingu á þeim fjórum fundargerðum sem vísað er til í skýrslu Ríkisendurskoðunar og voru ekki afhentar í kjölfar fyrri úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Ljóst er af umsögnum Lindarhvols ehf. að félagið lítur svo á að það hafi tekið afstöðu til beiðni kæranda eins og hún var afmörkuð í upphafi. Lindarhvoll ehf. hafi enn ekki tekið afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt til aðgangs að umræddum fundargerðum í heild sinni. Í svari Lindarhvols ehf. í tilefni af gagnabeiðni kæranda og umsögn til úrskurðarnefndarinnar, 23. október 2020, segir að ef kærandi óskaði eftir fundargerðunum að öðru leyti gæti hann komið beiðni þar að lútandi til félagsins. Slík beiðni hafi hins vegar ekki borist. Að mati úrskurðarnefndarinnar liggur því ekki fyrir synjun um beiðni um gögn sem kæranleg er til úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. Verður því að vísa frá þeim þætti í kærunni sem lýtur að afhendingu umræddra fundargerða í heild sinni. Kæranda er þó bent á að honum er fær sú leið að óska á ný eftir umræddum fundargerðum í heild sinni. Kæranda er í þessu sambandi bent á að úrskurðarnefndin hefur nú með úrskurði sínum nr. 976/2021 tekið afstöðu til afgreiðslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á sambærilegri beiðni varðandi sömu fundargerðir Lindarhvols ehf.

4.

Í málinu er einnig deilt um rétt kæranda til aðgangs að greinargerð setts ríkisendurskoðanda, Sigurðar Þórðarsonar, um starfsemi Lindarhvols ehf. Ákvörðun Lindarhvols ehf. um synjun beiðni kæranda var byggð á ákvæði 3. mgr. 15. gr., sbr. 14. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í nokkrum úrskurðum, nú síðast í málum nr. 827/2019 og 967/2021 tekið afstöðu til þess hvort þau lagaákvæði feli í sér sérstaka þagnarskyldureglu sem takmarki upplýsingarétt almennings en í þeim málum var fjallað um rétt kæranda til aðgangs að umræddri greinargerð hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Í úrskurðinum taldi úrskurðarnefndin ekki annað séð en að ákvæði 3. mgr. 15. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga væri ætlað að taka til draga að greinargerðum ríkisendurskoðanda, einnig þegar slík drög hefðu verið afhent stjórn¬völdum á grundvelli lagaskyldu þar að lútandi.

Í 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga segir að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Með gagnályktun frá ákvæðinu verður að telja að sérstök þagnarskylduákvæði geti, ein og sér, komið í veg fyrir að aðgangur verði veittur að gögnum í vörslum stjórnvalda hvað sem líður ákvæðum upplýsingalaga. Þegar um er að ræða sérákvæði laga um þagnarskyldu, þ.e. þegar upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar, fer það eftir efni og orðalagi þagnarskylduákvæðis hvernig slík ákvæði verða skýrð og samþýdd ákvæðum upplýsingalaga eins og segir í almennum athugasemdum frumvarps þess sem síðar varð að upplýsingalögum nr. 140/2012.

Ríkisendurskoðandi er sjálfstæð eftirlitsstofnun sem starfar á vegum Alþingis í samræmi við ákvæði 43. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, og lög um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Það er hlutverk ríkisendurskoðanda að hafa í umboði Alþingis eftirlit með fjárreiðum ríkisins, stofnana þess og ríkisfyrirtækja, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Í IV. kafla laganna eru málsmeðferðar¬reglur þar sem fram koma ákvæði um þagnarskyldu, hæfi, umsagnarrétt og aðgang að gögnum hjá Ríkisendurskoðun. Í 14. gr. laganna er lögð sú skylda á ríkisendurskoðanda að senda þeim sem sætir athugun eða eftirliti drög að skýrslum eða greinargerðum til umsagnar. Hvað aðgang að gögnum hjá Ríkisendurskoðun varðar kemur fram í 1. málsl. 3. mgr. 15. gr. laganna að skýrslur, greinargerðir og önnur gögn sem ríkisendurskoðandi hefur útbúið og eru hluti af máli sem hann hyggst kynna Alþingi geti fyrst orðið aðgengileg þegar þingið hefur fengið þau afhent. Frá þessari reglu er undantekning í 2. málsl. sömu málsgreinar þar sem fram kemur að drög að slíkum gögnum sem send hafi verið aðilum til kynningar eða umsagnar séu ekki aðgengileg. Þá hefur ríkisendurskoðandi á grundvelli 3. málsl. málsgreinarinnar heimildir til að ákveða að gögn sem hafi verið send stjórnvöldum við undirbúning einstakra athugana og meðan á þeim stendur verði ekki aðgengileg.

Í athugasemdum við 15. gr. frumvarps þess, sem síðar varð að lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, kemur m.a. fram að ófullgerð gögn sem send hafi verið aðila til umsagnar séu í raun vinnugögn sem glati þeirri stöðu þegar þau hafi verið send öðrum, en geti mögulega leitt til þess að röng eða beinlínis villandi umræða fari af stað áður en ríkisendurskoðandi hafi lokið athugun sinni. Slíkt geti valdið óþarfa fyrirhöfn og kostnaði. Mikilvægt sé að ríkisendurskoðandi fái nauðsynlegt ráðrúm til þess að vinna að athugunum sínum og að opinberum hagsmunum verði ekki raskað ef upplýsingar verði t.d. gerðar aðgengi¬legar á rannsóknarstigi. Að lokinni athugun ríkisendurskoðanda reyni á aðgangsrétt skv. 2. mgr. en þar komi fram að sé óskað aðgangs að gögnum sem hafi orðið til í samskiptum ríkisendur¬skoðanda og eftirlitsskylds aðila fari um aðgang að þeim hjá Ríkisendurskoðun eftir ákvæðum upplýsingalaga eða ákvæðum laga um upplýsingarétt um umhverfismál eftir atvikum.

Ákvæði 15. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga ber heitið: Aðgangur að gögnum hjá Ríkisendurskoðun. Þegar 3. mgr. ákvæðisins er skoðuð verður að draga þá ályktun að málsgreinin taki fremur til þeirra gagna sem þar falla undir en þess aðila sem hefur þau gögn í fórum sínum, þ.e. ákvæðið taki til gagnsins sjálfs án tillits til þess hvar gagnið er að finna, svo fremi að ríkisendurskoðandi hafi afhent gagnið öðrum til kynningar eða umsagnar á grundvelli lagaskyldu. Önnur túlkun á ákvæðinu yrði til þess að um leið og ríkisendurskoðandi sendi skjöl á grundvelli lagaskyldu til aðila myndu þau missa stöðu sína sem vinnuskjöl. Með því næðist ekki markmið ákvæðisins sem áður hefur verið lýst. Þá verður einnig dregin sú ályktun af orðalagi ákvæðisins að það nái til slíkra gagna jafnvel þótt lokaeintak greinargerðar í tilefni af athugun ríkisendurskoðanda hafi verið afhent Alþingi og birt opinberlega. Í því sambandi skal tekið fram að slík drög þurfa eðli málsins samkvæmt ekki að fela í sér endanlega útgáfu greinargerðarinnar.

Greinargerðin sem hér um ræðir var send Lindarhvoli ehf. á grundvelli lagaskyldu. Sama á við um afhendingu greinargerðarinnar til Lindarhvols ehf. Þá liggur fyrir að þegar hún var send Lindarhvoli ehf. var hún í drögum og athugun málsins ekki lokið. Af þeim sökum er greinargerðin undirorpin sérstakri þagnarskyldu 3. mgr. 15. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga sem gengur framar rétti almennings til aðgangs að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Á það við jafnvel þótt lokaeintak hennar hafi nú verið afhent Alþingi og birt opinberlega.

5.

Meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni hefur dregist nokkuð. Af því tilefni telur úrskurðarnefndin rétt að taka fram að þær tafir skýrast að nokkru af því að upphafleg kæra til úrskurðarnefndarinnar beindist að þeim töfum sem orðið höfðu á meðferð Lindarhvols ehf. á gagnabeiðni kæranda. Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni var beiðni kæranda svarað af hálfu Lindarhvols ehf. Í kjölfarið lýsti kærandi þeirri afstöðu sinni að hann teldi afgreiðslu Lindarhvols ehf. ekki fullnægjandi. Var kæran því lögð á ný í hefðbundinn farveg kærumála án þess að fyrra málið væri fellt niður og nýtt stofnað sem væri í samræmi við hefðbundið verklag nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Lindarhvols ehf. að veita kæranda aðgang að útdráttum úr fundargerðum þar sem málefni Klakka ehf. voru almennt til umfjöllunar með útstrikunum úr eftirfarandi fundargerðum:

1. Fundargerð fundar stjórnar Lindarhvols ehf., dags. 4. maí 2016
2. Fundargerð fundar stjórnar Lindarhvols ehf., dags. 8. júní 2016
3. Fundargerð fundar stjórnar Lindarhvols ehf., dags. 30. júní 2016
4. Fundargerð fundar stjórnar Lindarhvols ehf., dags. 4. ágúst 2016.
5. Fundargerð fundar stjórnar Lindarhvols ehf., dags. 31. ágúst 2016
6. Fundargerð fundar stjórnar Lindarhvols ehf., dags. 5. október 2016.

Staðfest er ákvörðun Lindarhvols að synja beiðni kæranda, A, um aðgang að greinargerð setts ríkisendurskoðanda, Sigurðar Þórðarsonar, um starfsemi Lindarhvols ehf.

Þeim þætti kærunnar sem varðar afhendingu fundargerða stjórnar Lindarhvols ehf. í heild sinni þar sem málefni Klakka ehf. voru til umfjöllunar er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Símon Sigvaldason Sigríður ÁrnadóttirÚrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira