Hoppa yfir valmynd

983/2021. Úrskurður frá 17. mars 2021.

Úrskurður

Hinn 17. mars 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð
nr. 983/2021 í máli ÚNU20110006.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 2. nóvember 2020, kærðu Neytendasamtökin synjun ríkisskattstjóra á beiðni samtakanna um aðgang að uppfærðu hreyfingayfirliti til 1. september 2020 vegna innheimtu stjórnvaldssekta sem Neytendastofa lagði á fyrirtækið A ehf. 

Með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 926/2020 var lagt fyrir ríkisskattstjóra að afhenda kæranda ýmsar upplýsingar og gögn varðandi greiðslu stjórnvaldssekta sem lagðar voru á fyrirtækið. Á meðal þess sem ríkisskattstjóra var gert að afhenda kæranda var hreyfingayfirlit yfir álagningu dagsekta, innborgana og uppsafnaða stöðu skuldar, dags. 14. febrúar 2020. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar kom fram að ekki væri fallist á að þagnarskylduregla 20. gr. laga nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda, ætti við um hreyfingayfirlitið þar sem beiðni samtakanna var lögð fram áður en lög nr. 150/2019 öðluðust gildi hinn 31. desember 2019. Í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndarinnar afhenti ríkisskattstjóri kæranda gögn, m.a. hreyfingayfirlit fram til 14. febrúar 2020.

Með erindi, dags. 30. september 2020, óskaði kærandi eftir aðgangi að uppfærðu hreyfingayfirliti með stöðu úr tekjubókhaldskerfi ríkisins, dags 1. september 2020. Ríkisskattstjóri synjaði beiðni kæranda með bréfi, dags. 5. október 2020, með vísan til þess að starfsmönnum ríkisskattstjóra bæri í samræmi við 20. gr. laga nr. 150/2019, að halda umbeðnum upplýsingum leyndum að viðlagðri refsiábyrgð. Þar sem gögnin féllu undir sérstaka þagnarskyldureglu 20. gr. laga nr. 150/2019 tækju upplýsingalög nr. 140/2012 ekki til þeirra, sbr. gagnályktun frá 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. laganna.

Í kæru er lögð áhersla á 5. gr. upplýsingalaga er lýtur að því að skylt sé að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál. Ákvarðanir um stjórnvaldssektir á hendur fyrirtækinu séu opinberar upplýsingar. Í ákvörðun Neytendastofu um álagningu stjórnvaldssekta sé fyrirtækið nafngreint og upphæð sekta þar tilgreind. Að mati kæranda sé ekki haldbær rökstuðningur að vísa til þess að uppfært hreyfingayfirlit hafi að geyma upplýsingar sem leynt eigi að fara. Þá segir í kæru að smálánastarfsemi sé ekki leyfisskyld og sæti því ekki eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Að mati kæranda séu því ríkir almannahagsmunir fólgnir í því að fá aðgang að ofangreindum upplýsingum til þess að geta metið hvort beiting sekta sé raunhæft úrræði þegar um sé að ræða ólögmæta fjármálastarfsemi á neytendamarkaði. Í kæru er einnig greint frá því að hreyfingayfirlitið, dags. 14. febrúar 2020, sem kærandi fékk afhent í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar, beri ekki með sér að umrætt fyrirtæki hafi greitt umræddar stjórnvaldssektir. Nauðsynlegt sé að fá afhent uppfært hreyfingayfirlit í því skyni að staðreyna hvort svo sé. Þá segir í kæru að kærandi telji takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna skv. 9. gr. upplýsingalaga eigi ekki við um aðgang að umbeðnum gögnum. Það mat sé í samræmi við niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál í fyrra máli þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að upplýsingarnar féllu ekki undir umrætt undanþáguákvæði 2. málsl. 9. gr. Kærandi líti svo á að umrædd beiðni varði gögn er falli í ljósi framangreinds ekki undir sérstakt þagnarskylduákvæði 20. gr. laga nr. 150/2019 ekki síst sökum þess að hlutaðeigandi félag óskar sérstaklega eftir að því sé komið á framfæri að stjórnvaldssektir hafi verið upp greiddar.

Loks er í kæru bent á að jafnvel þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að uppfært hreyfingayfirlit, dags. 1. september 2020, fæli í sér upplýsingar sem leynt skuli fara á grundvelli þagnarskyldu 20. gr. laga nr. 150/2019 væri eflaust hægt að afmá þann hluta gagnanna og veita samtökunum aðgang að upplýsingum sem staðreyni framangreindar fullyrðingar fyrirtækisins.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 4. nóvember 2020, og honum veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 23. nóvember 2020, er forsaga málsins rakin og vísað til þess að í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 926/2020 hafi kæranda verið send þau gögn sem skylt var að afhenda samkvæmt úrskurðinum, m.a. hreyfingayfirlit, með stöðu úr tekjubókhaldskerfi ríkisins, dags. 14. febrúar 2020. Í umsögninni er vísað til þess að í kæru sem mál þetta lýtur að sé í megindráttum vísað til þess að hreyfingayfirlit það sem þegar er búið að afhenda beri ekki með sér að stjórnvaldssektin hafi verið greidd. Búið sé að meta það svo af úrskurðarnefnd um upplýsingamál að upplýsingar sem þar komi fram verði ekki felldar undir 9. gr. upplýsingalaga og því beri að afhenda kæranda uppfært hreyfingayfirlit sem sé af sama meiði og fyrri beiðni laut að.

Í umsögninni er áréttuð sú afstaða ríkisskattstjóra að seinni beiðni kæranda sem kæra þessi lýtur að sé ekki hluti fyrra máls sem lauk með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 926/2020. Þá segir að lög nr. 150/2019 sem tóku gildi 30. desember 2019 gildi um innheimtu á sköttum, gjöldum og sektum ásamt vöxum, álagi og kostnaði sem lögð eru á af stjórnvöldum og sem innheimtumönnum ríkissjóðs er falið að innheimta, sbr. 1. gr. laganna. Gildissvið laganna nái þannig til innheimtu á stjórnvaldssektum, m.a. til stjórnvaldssekta Neytendastofu og dagsekta Neytendastofu. Eins og fram komi í framangreindum úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál fallist nefndin ekki á að leysa bæri úr ágreiningnum á grundvelli þagnarskylduákvæðis 20. gr. laganna þar sem þau höfðu ekki tekið gildi þegar fyrra erindi kæranda barst ríkisskattstjóra í lok árs 2019. Þegar seinna erindi kærandabarst ríkisskattstjóra höfðu lög nr. 150/2019 tekið gildi og því beri að leysa úr ágreiningi vegna hinnar nýju beiðni á grundvelli þeirra. Í 1. og 2. málsl. 20. gr. laganna kemur fram að á innheimtumanni ríkissjóðs hvíli þagnarskylda skv. X. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og að honum sé óheimilt, að viðlagðri ábyrgð skv. XIV. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um brot í opinberu starfi, að skýra frá því sem hann kemst að í starfi sínu og leynt eigi að fara, þar á meðal um tekjur og efnahag gjaldenda. Þá er tekið fram að ákvæði 20. gr. laga nr. 150/2019 sé sérstök þagnarskylduregla sem mæli fyrir um að innheimtumanni sé óheimilt að viðlagðri refsiábyrgð að skýra frá því sem hann kemst að í starfi sínu og leynt eigi að fara meðal annars um tekjur og efnahag gjaldenda og gengur hún framar ákvæðum upplýsingalaga. Í því sambandi er vísað til 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Ríkisskattstjóri telji að ákvæði 20. gr. laga nr. 150/2019 komi í veg fyrir að heimilt sé að afhenda almenningi hreyfingayfirlit yfir skuldir og skuldastöðu gjaldenda úr tekjubókhaldskerfi ríkisins. Það sé jafnframt mat embættisins að undir hugtökin tekjur og efnahag í skilningi 20. gr. laganna falli skuldastaða við ríkissjóð og innheimtusaga og vandséð sé að upplýsingar um hvernig greiðslum og innheimtu einstakra gjaldflokka sé háttað, eigi erindi við almenning.

Umsögn ríkisskattstjóra var kynnt kæranda með bréfi, dags. 25. nóvember 2020, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar.

Í athugasemdum kæranda, dags. 17. desember 2020, er vísað til þess að á meðan fyrra mál kæranda var til meðferðar hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sem lauk með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 926/2020, hafi kæranda borist upplýsingar frá umræddu fyrirtæki þess efnis að það hefði greitt höfuðstól álagðrar stjórnvaldssektar að fullu. Ljóst væri að hreyfingayfirlit, dags. 14. febrúar 2020, sem ríkisskattstjóra var gert að afhenda, bar það ekki með sér að sektin væri greidd. Þá segir að jafnvel þótt fallist sé á að líta beri á beiðni kæranda sem nýja beiðni sé ekki unnt að skýra ákvæði 20. gr. laga nr. 150/2019 með jafn víðtækum hætti og ríkisskattstjóri haldi fram í umsögn sinni. Að mati kæranda beri að líta til orðalags ákvæðisins sem kveði á um upplýsingar sem leynt eigi að fara. Líkt og fjallað sé um í kæru samtakanna lúti beiðnin að gögnum sem eðlilegt sé að almenningur hafi aðgang að auk þess sem umbeðin gögn staðfesti upplýsingar sem hlutaðeigandi fyrirtæki hafi samþykkt að veita, þ.e. að höfuðstóll hinna álögðu stjórnvaldssekta væri þegar greiddur.

Niðurstaða

1.

Í málinu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að hreyfingayfirliti yfir skuldastöðu og skuldir í fórum ríkisskattstjóra vegna stjórnvaldssekta sem Neytendastofa hefur lagt á fyrirtækið A ehf.

Ríkisskattstjóri byggir á því að 20. gr. laga nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda, gildi um afgreiðslu upplýsingabeiðninnar en lögin tóku gildi þann 30. desember 2019. Ljóst er að beiðni kæranda um uppfært hreyfingayfirlit barst ríkisskattstjóra eftir gildisstöku laganna.

Í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 150/2019 segir eftirfarandi:

„Á innheimtumanni ríkissjóðs hvílir þagnarskylda skv. X. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Innheimtumanni er óheimilt, að viðlagðri ábyrgð skv. XIV. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um brot í opinberu starfi, að skýra frá því sem hann kemst að í starfi sínu og leynt á að fara, þar á meðal um tekjur og efnahag gjaldenda. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af störfum.“

Í 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga segir að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Með gagnályktun frá ákvæðinu verður að telja að sérstök þagnarskylduákvæði geti, ein og sér, komið í veg fyrir að aðgangur verði veittur að gögnum í vörslum stjórnvalda hvað sem líður ákvæðum upplýsingalaga. Þegar um er að ræða sérákvæði laga um þagnarskyldu, þ.e. þegar upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar, fer það eftir efni og orðalagi þagnarskylduákvæðis hvernig slík ákvæði verða skýrð og samþýdd ákvæðum upplýsingalaga eins og segir í almennum athugasemdum frumvarps þess sem síðar varð að upplýsingalögum nr. 140/2012.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að líta beri á tilvitnað ákvæði sem sérstakt ákvæði um þagnarskyldu í framangreindum skilningi, að því er varðar þær upplýsingar sem innheimtumenn ríkissjóðs hafa undir höndum um tekjur og efnahag gjaldenda.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 150/2019 er innheimtumanni ríkissjóðs falið að annast innheimtu skatta og gjalda hver í sínu umdæmi. Með sköttum og gjöldum er átt við hvers konar skatta og gjöld sem lögð eru á lögum samkvæmt. Þá annast innheimtumenn innheimtu sekta sem lagðar eru á af stjórnvöldum og þeim er falið að innheimta. Ljóst er að hreyfingayfirlit það sem kærandi óskar eftir aðgangi að hefur að geyma upplýsingar um innheimtu ríkisskattstjóra sem innheimtumanns í framangreindum skilningi í tilefni af viðurlagaákvörðun Neytendastofu.

Nefndin telur engan vafa leika á því að upplýsingar um skuldastöðu gjaldenda vegna innheimtu stjórnvaldssekta sem innheimtumanni ríkissjóðs er falið að innheimta á grundvelli laga nr. 150/2019 falli undir umrætt ákvæði. Verður réttur til aðgangs að þeim því ekki byggður á ákvæði 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Á það við þrátt fyrir að úrskurðarnefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu í úrskurði í máli nr. 926/2020 að veita bæri aðgang að sambærilegu gagni á grundvelli upplýsingalaga enda höfðu ákvæði 150/2019 ekki tekið gildi á þeim tímapunkti. Þar sem gögn málsins lúta öll trúnaðarskyldu skv. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda sem er sérstakt þagnarskylduákvæði, taka upplýsingalög nr. 140/2012 ekki til þeirra. Ber af þeirri ástæðu að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð

Kæru Neytendasamtakanna, dags. 2. nóvember 2020, vegna synjunar ríkisskattstjóra á beiðni samtakanna um hreyfingayfirlit yfir skuldastöðu A ehf. við ríkissjóð vegna viðurlagaákvörðunar Neytendastofu er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.




Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum