Hoppa yfir valmynd

985/2021. Úrskurður frá 17. mars 2021.

Úrskurður

Hinn 17. mars 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 985/2021 í máli ÚNU 21030010.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 6. mars 2021, kærði A synjun Hafrannsóknarstofnunar á beiðni hans um aðgang að upplýsingum um aflatölur yfir stangveiði síðustu tíu ára fyrir jarðir við Hvítá og Ölfusá.

Kærandi óskaði eftir framangreindum gögnum með bréfi, dags. 10. janúar 2021. Með svari Hafrannsóknarstofnunar, dags. 14. janúar 2021, var beiðni kæranda synjað. Í svarinu var vísað til þess að Hafrannsóknarstofnun liti svo á að stofnuninni væri ekki heimilt að afhenda umrædd gögn þar sem um væri að ræða veiði fyrir einstakar jarðir. Í því sambandi var vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 26. apríl 2000 í máli nr. 94/2000. Öðru máli gegndi þegar um væri að ræða veiði á svæðum eða í vatnsföllum/stöðuvötnum þar sem um væri að ræða veiði fyrir landi fleiri en einnar jarðar.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um aflatölur yfir stangveiði síðustu tíu ára fyrir jarðir við Hvítá og Ölfusá.

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skal mál skv. 20. gr. borið skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnunum var tilkynnt um ákvörðun stjórnvaldsins. Hafrannsóknarstofnun synjaði beiðni kæranda með bréfi dags. 14. janúar 2021 en kæra barst úrskurðarnefndinni 11. mars 2021. Hún barst því tæpum mánuði eftir að kærufrestur skv. 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga rann út. Í svari Hafrannsóknarstofnunar til kæranda var honum þó hvorki leiðbeint um kæruheimild þá sem kveðið er á um í 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga né kærufrest samkvæmt 1. mgr. 22. gr. svo sem áskilið er í 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá ef hún berst að liðnum kærufresti, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Eins og hér stendur á telur úrskurðarnefndin skilyrði ákvæðisins ekki uppfyllt, enda þótt Hafrannsóknarstofnun hafi ekki leiðbeint kæranda um kærurétt og kærufrest. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því ekki talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá telur úrskurðarnefndin ekki vera fyrir hendi veigamiklar ástæður sem mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, enda kemur niðurstaða þessi ekki í veg fyrir að kærandi geti snúið sér aftur til stjórnvaldsins með sjónarmið sín og óskað eftir umræddum upplýsingum aftur og eftir atvikum leitaði til úrskurðarnefndar um upplýsingamál innan lögbundins 30 daga kærufrests verði beiðni hans synjað á ný. Verður samkvæmt þessu ekki hjá því komist að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 6. mars 2021, á hendur Hafrannsóknarstofnun er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira