Hoppa yfir valmynd

988/2021. Úrskurður frá 30. mars 2021.

Úrskurður

Hinn 30. mars 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 988/2021 í máli ÚNU 20100023.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 21. október 2020, beindi A erindi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og fór þess á leit að nefndin úrskurðaði um að það teldist synjun á að afhenda upplýsingar þegar Vestmannaeyjabær afgreiddi slíkar beiðnir með því að vísa til þess að upplýsingar væri að finna á vefslóð. Í því sambandi vísaði kærandi til þess að hann ætti hvorki prentara né tölvu. Þá væri ráðhús Vestmannaeyja í ólöglegu húsnæði sem ekki væri aðgengilegt fötluðu fólki.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að bera synjun um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Hið sama gildir um synjun á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er.

Úrskurðarnefndin er upplýst um að kærandi hefur í gegnum tíðina lagt fram fjölda beiðna um aðgang að gögnum og upplýsingum hjá Vestmannaeyjabæ. Nefndinni er líka kunnugt um að sveitarfélagið hafi í sumum tilvikum brugðist við beiðni kæranda með því að vísa til þess að umbeðnar upplýsingar séu aðgengilegar á vefsvæði sveitarfélagsins. Ljóst er af samskiptum kæranda við sveitarfélagið um langa hríð að hann telji þá afgreiðslu sveitarfélagsins ekki fullnægjandi þar sem hann eigi ekki tölvu og eigi þess því ekki kost að nálgast gögn og upplýsingar á vefsvæði sveitarfélagsins. Úrskurðarnefndin leggur þann skilning í erindi kæranda sem hér er til meðferðar að hann óski þess að nefndin úrskurði um hvort sveitarfélaginu sé almennt heimilt að afgreiða beiðnir um upplýsingar með því að vísa á vefslóð þar sem umbeðnar upplýsingar sé að finna.

Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi. Valdsvið nefndarinnar nær því ekki til þess að fjalla með almennum hætti um afgreiðslu sveitarfélagsins á beiðnum um aðgang að gögnum eða eftir atvikum hvernig aðgengismálum er háttað af hálfu sveitarfélagsins. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarnefndin telur þó rétt að benda á að í 2. mgr. 19. gr. upplýsingalaga segir að þegar beiðni um aðgang að gögnum sé afgreidd með vísan til þess að umbeðnar upplýsingar séu þegar aðgengilegar almenningi, og án þess að umbeðin gögn séu afhent, skuli tilgreina nákvæmlega hvar og með hvaða hætti upplýsingarnar séu aðgengilegar.

Í athugasemdum við 18. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir að séu upplýsingar þegar aðgengilegar almenningi, til dæmis á vef stjórnvaldsins eða á annarri vefslóð, sé almennt fullnægjandi að vísa á upplýsingarnar þar.

Úrskurðarorð

Kæru A dags. 21. október 2020, um hvort Vestmannaeyjabæ sé almennt heimilt að afgreiða beiðnir um upplýsingar með því að vísa á vefslóð þar sem umbeðnar upplýsingar sé að finna er vísað frá úrskurðarnefndinni.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Símon Sigvaldason Sigríður ÁrnadóttirÚrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira