Hoppa yfir valmynd

990/2021. Úrskurður frá 30. mars 2021.

Úrskurður

Hinn 30. mars 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 990/2021 í máli ÚNU 20120028.

Kæra og málsatvik

Með kæru, dags. 28. desember 2020, kærði A, blaðamaður, ákvörðun Ferðamálastofu um að synja beiðni hans um upplýsingar um fjölda komu- og brottfararfarþega.

Með erindi, dags. 23. desember 2020, óskaði kærandi eftir upplýsingum um hversu margir hefðu komið til landsins síðustu sjö daga. Í erindinu er vísað til þess að hann hefði fyrr þennan dag óskað eftir umræddum upplýsingum í síma en fengið neitun. Með erindinu fór hann fram á að beiðni hans yrði afgreidd formlega.

Ferðamálastofa synjaði beiðni kæranda með bréfi, dags. 28. desember 2020, á þeim grundvelli að tölur um fjölda komu- og brottfararfarþega sem stofnunin fengi frá Isavia ohf. væru þeirra eign og því mætti stofnunin ekki láta þær af hendi.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 29. desember 2020, var kæran kynnt Ferðamálastofu og henni veittur frestur til að koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni.

Í umsögn Ferðamálastofu, dags. 18. janúar 2021, kemur fram að upplýsingar um fjölda komu- og brottfararfarþega fái Ferðamálastofa frá Isavia og þær séu merktar sem trúnaðarmál. Af þeirri ástæðu geti Ferðamálastofa ekki veitt slíkar upplýsingar og beri stofnuninni að halda trúnað sé eftir því leitað. Það sé því Isavia sem sé réttur aðili til að snúa sér til með beiðni um upplýsingar. Eftir að Ferðamálastofa hafnaði beiðni kæranda hefði hann átt að beina kröfu sinni að eiganda gagnanna um aðgang að ofangreindum upplýsingum. Ferðamálastofa sjái í raun ekki ástæðu þess að umbeðnar upplýsingar séu ekki veittar en þar sem það sé ákvörðun eiganda gagnanna, Isavia, að upplýsa ekki um þær þá geti Ferðamálastofa ekkert aðhafst frekar. Það sé mat Ferðamálastofu að almennar upplýsingar varðandi ferðamenn og ferðaþjónustuna sem atvinnugrein séu opinberar upplýsingar og eigi að vera öllum aðgengilegar ekki bara stjórnvöldum. Upplýsingar sem þessar geti nýst öðrum, t.d. ferðaþjónustunni við nýsköpun, vöruþróun og markaðssetningu. Loks er vísað til þess að eitt af lögbundnum hlutverkum Ferðamálastofu sé að afla, miðla og vinna úr upplýsingum, þar á meðal tölfræðilegum gögnum um ferðamál og ferðaþjónustu. Í því sambandi er vísað á vefsíðu stofnunarinnar þar sem finna megi ítarlegar tölfræðiupplýsingar um ferðaþjónustuna.

Með bréfi, 20. janúar 2021, var kæranda sent afrit af umsögn Ferðamálastofu og veittur kostur á því að koma á framfæri athugasemdum í ljósi hennar. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, 21. janúar 2021, þar sem m.a. kemur fram að kærandi telji svör Ferðamálastofu stappa nærri tæknilegri hindrun þess að upplýsingarnar verði látnar af hendi.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um hversu margir hefðu komið til landsins sjö daga fyrir 23. desember 2020.
Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er tekið fram að skylt sé, ef þess er óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Í athugasemdum við 1. mgr. 5. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga er tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. Stjórnvöldum sé ekki skylt að útbúa ný gögn á grundvelli upplýsingalaga.

Ákvörðun Ferðamálastofu er reist á því að umbeðnar upplýsingar séu eign Isavia ohf. og séu merktar sem trúnaðarmál. Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að réttur til aðgangs að upplýsingum er lögbundinn og verður ekki takmarkaður nema á grundvelli ákvæða laganna. Stjórnvaldi er því ekki fær sú leið að víkja frá ákvæðum þeirra með því að heita trúnaði eða flokka tiltekin gögn sem trúnaðarmál eða með vísan til þess að þau séu eign annars aðila. Slíkt verður ekki gert nema upplýsingarnar falli ótvírætt undir eitthvert af undanþáguákvæðum laganna. Það hefur því ekki þýðingu við úrlausn þessa máls þótt Isavia hafi við afhendingu umræddra upplýsinga merkt þær sem trúnaðarmál eða að öðru leyti gert áskilnað um trúnað. Hið sama gildir um þá afstöðu Ferðamálastofu að umbeðnar upplýsingar séu eign Isavia ohf. Þegar stofnuninni berast upplýsingar eða gögn frá utanaðkomandi aðila ber henni að skrá þau og vista í skjalasafni hennar í samræmi við ákvæði laga nr. 77/2014. Við það verða gögnin hluti af málaskrá Ferðamálastofu og teljast af þeim sökum fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.

Í ljósi framangreinds verður ekki séð að Ferðamálastofa hafi tekið rökstudda afstöðu til beiðni kæranda um aðgang að gögnum, sbr. 15. gr. upplýsingalaga. Þannig verður hvorki ráðið af ákvörðun Ferðamálastofu né gögnum málsins að öðru leyti að lagt hafi verið mat á umbeðnar upplýsingar gögn með tilliti til þess hvort þau séu þess eðlis að takmarka beri aðgang að þeim á grundvelli upplýsingalaga, eftir atvikum ákvæða 9. gr. upplýsingalaga, að öðru leyti en því að Ferðamálastofa lýsti í umsögn þeirri afstöðu sinni að hún sæi því ekkert til fyrirstöðu að umræddar upplýsingar yrðu afhentar.

Meginmarkmiðið með kæruheimildum til úrskurðarnefndarinnar er að treysta réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Hafi mál ekki hlotið efnislega umfjöllun á lægra stjórnsýslustigi, eða það afgreitt á röngum lagagrundvelli, getur stjórnvaldi á kærustigi því verið nauðugur sá kostur að heimvísa málinu til lögmætrar málsmeðferðar í stað þess að leitast við að bæta sjálft úr annmörkunum. Að öðrum kosti fengi stjórnsýslumálið ekki umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum eins og stefnt er að með kæruheimild.

Að mati úrskurðarnefndarinnar skortir því á að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda, líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir. Þar af leiðandi verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir Ferðamálastofu að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Ferðamálastofu, dags. 28. desember 2021, um að synja beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um fjölda þeirra sem komu til landsins sjö daga fyrir 23. desember 2020 er felld úr gildi og lagt fyrir Ferðamálastofu að taka beiðnina til nýrrar meðferðar.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigríður Árnadóttir Símon Sigvaldason












Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum