Hoppa yfir valmynd

1000/2021. Úrskurður frá 28. apríl 2021.

Úrskurður

Hinn 28. apríl 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð
nr. 1000/2021 í máli ÚNU 20120009.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 7. desember 2020, fór A fram á endurupptöku allra mála er varða Herjólf ohf. og nefndin hefur ýmist vísað frá eða úrskurðað Herjólfi ohf. í vil. Meðfylgjandi erindinu var viðtal við formann bæjarráðs Vestmannaeyja sem birtist á vefmiðlinum eyjar.is sem kærandi telur upplýsa svo ekki verði um villst hver beri ábyrgð og áhættu af rekstri Herjólfs ohf.

Í tilefni af erindinu var kæranda ritað bréf, dags. 19. mars 2021, þar sem fram kom að ekki yrði fyllilega ráðið af erindinu að hvaða máli eða málum beiðni hans um endurupptöku sneri og eftir atvikum hvernig þær upplýsingar sem fram komu í umræddu viðtali sem fylgdi erindinu leiddu til þess að skilyrði endurupptöku væru fyrir hendi, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Til þess að úrskurðarnefndin gæti fengið gleggri mynd af því að hvaða málum beiðnin sneri og tekið afstöðu til þess hvort skilyrði endurupptöku væru fyrir hendi var þess óskað að kærandi veitti nefndinni frekari upplýsingar um þau mál, með tilvísun til málsnúmera, sem hann óskaði að yrðu endurupptekin.

Í svari kæranda, dags. 8. apríl 2021, kom fram að það kæmi glöggt fram í umræddu viðtali að útsvarsgreiðendur í Vestmannaeyjum borgi brúsann af Herjólfi ohf. Þeim sem greiði komi málið einfaldlega við. Af erindinu verður ráðið að kærandi telji úrskurðarnefndina almennt taka afstöðu með Herjólfi ohf. í þeim málum sem henni berast en gegn almenningi sem sæki sinn rétt.

Niðurstaða

Í erindi kæranda til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að hann óski endurupptöku þeirra mála sem úrskurðarnefndin hefur ýmist vísað frá eða úrskurðað Herjólfi ohf. í vil. Eins og fram hefur komið fór úrskurðarnefndin þess á leit við kæranda að hann skýrði nánar að hvaða málum beiðni hans um endurupptöku sneri. Í svari kæranda til úrskurðarnefndarinnar er ekki að finna slíka afmörkun. Úrskurðarnefndin leggur því þann skilning í erindi kæranda að hann telji að þær upplýsingar sem fram komi í umræddu viðtali við formann bæjarráðs leiði almennt til þess að úrskurðarnefndinni beri að endurupptaka öll mál þar sem kæru kæranda hefur verið vísað frá eða ákvörðun Herjólfs ohf. staðfest.

Fyrirmæli um endurupptöku stjórnsýslumála koma fram í 24. gr. stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. þess ákvæðis segir svo:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Kærandi hefur á liðnum árum beint fjölmörgum kærum til úrskurðarnefndarinnar vegna afgreiðslu Herjólfs ohf. á beiðnum hans um upplýsingar eða gögn. Þannig kvað úrskurðarnefndin upp úrskurði í níu slíkum málum á einu ári fram að því að kærandi lagði fram beiðni um endurupptöku, dags. 7. desember 2020. Í beiðni kæranda er hvorki að finna nánari upplýsingar um þau mál sem hann óskar að verði endurupptekin né er þar að finna skýringar á því hvernig þær upplýsingar sem fram koma í umræddu viðtali leiði til þess að skilyrði endurupptöku séu fyrir hendi. Slík afmörkun getur m.a. haft þýðingu vegna þess skilyrðis sem fram kemur í 2. mgr. 24. gr. um að mál verði ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá því að aðila var tilkynnt um málið nema veigamiklar ástæður mæli með því. Úrskurðarnefndin leggur því þann skilning í beiðni kæranda að hann telji umrætt viðtali varpa nýju ljósi á tengsl Vestamannaeyja og Herjólfs ohf. sem leiði til þess að fyrri úrlausnir úrskurðarnefndarinnar hafi almennt byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum. Af því tilefni skal tekið fram að úrskurðarnefndinni er kunnugt um tengsl Herjólfs ohf. og Vestmannaeyja en félagið er í eigu Vestmanneyjabæjar og fellur þar af leiðandi undir gildissvið upplýsingalaga, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna, þar sem fram kemur að lögin taki til aðila sem teljast að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera, ríkisins eða sveitarfélaga.

Að mati úrskurðarnefndarinnar leiða umræddar upplýsingar í framangreindu viðtali ekki til þess að þeir úrskurðir sem úrskurðarnefndin hefur kveðið upp í málum er snúa að afgreiðslu Herjólfs ohf. séu byggðir á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik þannig að kærandi eigi rétt á endurupptöku þeirra samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga.

Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir atvikum að vera rétt og heimilt að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir veltur skylda til slíkrar endurupptöku, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurði hennar séu verulegir annmarkar að lögum. Úrskurðarnefndin telur röksemdir kæranda ekki leiða í ljós slíkar vísbendingar. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er hafnað beiðni um endurupptöku úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál í málum sem snúa að Herjólfi ohf.

Úrskurðarorð:

Beiðni A, dags. 7. desember 2020, um endurupptöku úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem varða Herjólf ohf. og úrskurðarnefndin hefur vísað frá eða staðfest ákvörðun félagsins, er hafnað.

Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira