Hoppa yfir valmynd

1008/2021. Úrskurður frá 11. maí 2021.

Úrskurður

Hinn 11. maí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1008/2021 í máli ÚNU 20110030.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 25. nóvember 2020, beindi A erindi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og fór þess á leit við nefndina að félagsþjónustan í Vestmannaeyjum yrði úrskurðuð til að veita umbeðnar upplýsingar. Engin frekari gögn eða upplýsingar fylgdu kærunni. Í því skyni að öðlast gleggri mynd af efni kærunnar ritaði úrskurðarnefndin kæranda bréf, dags. 19. mars 2021, þar sem þess var farið á leit við kæranda að hann skýrði frekar að hverju hún lyti, þ.e. hvort og þá að hvaða ákvörðun sveitarfélagsins hún sneri. Þá var þess óskað að kærandi sendi nefndinni afrit af upplýsingabeiðni sinni til sveitarfélagsins og eftir atvikum svar þess ef það lægi fyrir.

Þann 12. apríl 2021 barst úrskurðarnefndinni svar kæranda. Í svarinu kom fram að kærandi sendi úrskurðarnefndinni undantekningarlaust afrit af erindum til viðkomandi stjórnvalds. Það væri hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í samræmi við lög. Engar frekari upplýsingar eða gögn fylgdu svarbréfi kæranda.

Með bréfi, dags. 5. maí 2021, til Vestmannaeyjabæjar var óskað upplýsinga um hvort sveitarfélaginu hefði borist erindi varðandi félagsþjónustuna í nóvember 2020 og eftir atvikum hvort því hefði verið svarað. Í svari Vestmannaeyjabæjar, dags. sama dag, kom fram að sveitarfélaginu bærust að meðaltali 30 bréf á mánuði frá kæranda. Einhver erindanna vörðuðu félagsþjónustu sveitarfélagsins og því væri nauðsynlegt að vita að hvaða erindi kæran beindist í því skyni að ganga úr skugga um hvort og þá með hvaða hætti honum kynni að hafa verið svarað.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni kæranda um upplýsingar. Af kæru verður ráðið að hún beinist að því að sveitarfélagið hafi ekki brugðist við erindi kæranda.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga skal taka ákvörðun um það hvort orðið verði við beiðni um aðgang að gögnum svo fljótt sem verða megi. Hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar skal skýra aðila frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Af 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga leiðir að heimilt er að kæra óhæfilegan drátt á meðferð beiðni um aðgang að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Til þess að úrskurðarnefndinni sé fært að úrskurða um hvort um óhæfilegan drátt á afgreiðslu upplýsingabeiðni sé að ræða þurfa ákveðnar lágmarksupplýsingar að liggja fyrir. Þannig er nauðsynlegt að fyrir liggi upplýsingar annars vegar um hvenær beiðni kæranda var lögð fram og hins vegar hvort hugsanlega hafi verið brugðist við henni af hálfu sveitarfélagsins. Það leiðir af ákvæðum stjórnsýslulaga að úrskurðarnefndinni er almennt ekki fært að vísa kæru rakleiðis frá á þeim grundvelli að efni hennar sé ábótavant eða ekki sé ljóst hvað í henni felst. Við þær aðstæður ber nefndinni með vísan til leiðbeiningarreglu 7. gr. og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til að veita kæranda færi á að bæta úr annmarkanum. Sinni kærandi ekki tilmælum kærustjórnvalds um að bæta úr eða leggja fram nauðsynlegar upplýsingar þrátt fyrir slíkar leiðbeiningar kann nefndinni hins vegar að vera nauðugur sá kostur að vísa málinu frá.

Eins og fyrr segir er kæra kæranda afar óljós og verður hvorki af henni ráðið að hvaða beiðni kæranda til sveitarfélagsins hún lýtur né hvenær hún var lögð fram. Við meðferð málsins leitaði úrskurðarnefndin eftir frekari upplýsingum hjá kæranda þar sem þess var m.a. óskað að hann legði fram afrit af umræddri beiðni til sveitarfélagsins. Kærandi hefur hins vegar ekki orðið við þeirri beiðni.

Í svari sveitarfélagsins við beiðni úrskurðarnefndarinnar um frekari upplýsingar kom fram að ekki væri unnt að ganga úr skugga um hvort erindi kæranda hefði verið svarað án þess að vita hvenær það hefði verið lagt fram. Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að rengja fullyrðingu sveitarfélagsins um fjölda erinda sem berast frá kæranda í hverjum mánuði. Í ljósi framangreinds liggur ekki fyrir hvenær beiðni kæranda var lögð fram. Af þeim sökum er ekki ljóst hvort henni hafi verið svarað af hálfu sveitarfélagsins.

Í ljósi þess sem að framan er rakið verður ekki ráðið af gögnum málsins að hvaða ákvörðun stjórnsýslukæra kæranda beinist í þessu máli. Þar sem kærandi hefur ekki upplýst úrskurðarnefndina um þetta atriði, þrátt fyrir beiðni þar um, er henni ekki fært að úrskurða um hvort um óhæfilegan drátt á afgreiðslu beiðninnar sé að ræða. Verður kærunni því vísað frá úrskurðarnefndinni. Úrskurðarnefndin tekur fram að kæranda er að sjálfsögðu fært að leita til nefndarinnar á ný með kæru, ásamt nauðsynlegum gögnum, vegna afgreiðslutafa Vestmannaeyja á beiðni kæranda sé þeim til að dreifa.

Úrskurðarorð

Kæru kæranda, dags. 25. nóvember 2020, sem lýtur að afgreiðslutöfum Vestmannaeyjabæjar er vísað frá úrskurðarnefndinni.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum