Hoppa yfir valmynd

1009/2021. Úrskurður frá 11. maí 2021.

Úrskurður

Hinn 11. maí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1009/2021 í máli ÚNU 20120029.

Kæra og málsatvik

Þann 29. desember 2020, kærði A, fréttamaður RÚV, afgreiðslu ríkisskattstjóra, dags. 2. desember 2020, á beiðni hans frá 23. nóvember 2020 um gögn um skráningu raunverulegra eigenda félaganna B ehf. og C ehf.

Með tölvubréfi, dags. 23. nóvember 2020, óskaði kærandi eftir aðgangi að öllum gögnum varðandi raunverulegt eignarhald félaganna B ehf. og C ehf. frá upphafi skráningar. Óskað var eftir öllum gögnum sem tengdust skráningu raunverulegra eigenda félaganna og borist hefðu ríkisskattstjóra á grundvelli f-liðar 2. mgr. 4. gr. laga nr. 82/2019, um skráningu raunverulegra eigenda. Jafnframt var óskað eftir gögnum sem ríkisskattstjóri kynni að hafa aflað að eigin frumkvæði og upplýsinga sem félögin kynnu að hafa veitt. Þá óskaði kærandi eftir öllum gögnum sem tengdust því að C ehf. var skráð gjaldþrota í fyrirtækjaskrá síðla árs 2019, og því að sú skráning var síðar dregin til baka, að því er virðist í október 2020. Óskað var eftir bréfaskiptum við skiptastjóra, forsvarsmenn félagsins og aðra. Einnig fylgigögnum á borð við beiðni um gjaldþrotaskipti og gjaldþrotaúrskurðinum sjálfum og frekari gögnum sem kynnu að eiga við.

Ríkisskattstjóri afhenti kæranda umbeðin gögn varðandi skráningu raunverulegs eignarhalds B ehf. með, tölvubréfi, dags. 2. desember 2020. Þar kom fram að til þess að tryggja að þagnarskyldar upplýsingar yrðu afmáðar með fullnægjandi hætti hefðu gögnin verið prentuð út og þagnarskyldar upplýsingar verið afmáðar handvirkt. Því næst hefðu gögnin verið skönnuð yfir á pdf. form. Í svari ríkisskattstjóra varðandi félagið C ehf. kom fram að sá einstaklingur sem væri skráður raunverulegur eigandi félagsins hefði verið skiptastjóri þess og farið á þeim tíma með forræði búsins. Ríkisskattstjóri hefði skráð hann sem raunverulegan eiganda á grundvelli hlutverks hans sem skiptastjóra. Samkvæmt upplýsingum úr Lögbirtingarblaði lauk skiptum á félaginu 24. september 2020 með því að allar lýstar kröfur voru afturkallaðar og félaginu skilað á ný til eigenda þess. Engin ný tilkynning hefði borist ríkisskattstjóra um breytingu á skráningu raunverulegs eignarhalds. Fyrirtækjaskrá hefði óskað eftir því við félagið að það leiðrétti skráninguna. Hvað varðar umbeðin gögn er snúa að gjaldþrotaskráningu C ehf. kom fram í svari ríkisskattstjóra að þau féllu undir sérstaka þagnarskyldureglu 20. gr. laga nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda. Af þeim sökum var beiðni kæranda varðandi þau gögn synjað.

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun ríkisskattstjóra að afhenda hluta gagna varðandi félagið B ehf. með því að afmá tilteknar fjárhæðir. Auk þess var kærð sú ákvörðun ríkisskattstjóra að afhenda þau gögn sem hafa að geyma útstrikanir ekki á upprunalegu, rafrænu formi. Þá laut kæran að synjun ríkisskattstjóra á að afhenda gögn sem vörpuðu ljósi á raunverulegt eignarhald C ehf., þar með talið beiðni ríkisskattstjóra um leiðréttingu á skráningu, sem minnst var á í svari ríkisskattstjóra til kæranda. Loks var kærð synjun ríkisskattstjóra á afhendingu gagna sem tengjast því að C ehf. var skráð gjaldþrota í fyrirtækjaskrá síðla árs 2019, og því að sú skráning var síðar dregin til baka.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 4. janúar 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna kærunnar auk þeirra gagna sem kæran laut að.

Í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 27. janúar 2021, eru málavextir raktir og afstaða tekin til röksemda kæranda. Þar kemur m.a. fram varðandi raunverulegt eignarhald C ehf. að engin fylgigögn liggi fyrir að baki skráningu C ehf. Hvað varðar þann þátt kærunnar er snýr að afhendingarformi er í umsögninni vísað til 18. gr. upplýsingalaga og tekið fram að ákvæðið taki ekki á því þegar um sé að ræða afhendingu gagna sem bundin séu trúnaði og geymi upplýsingar sem beri að afmá. Um afhendingu slíkra gagna sé fjallað í 14. gr. laganna og veiti ákvæðið ákveðið svigrúm til að grípa til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar séu til að tryggja öryggi afmáðra upplýsinga.

Þá vísar ríkisskattstjóri til þess að með úrskurði í máli nr. 935/2020 hafi ríkisskattstjóra verið gert að afmá hluta af þeim upplýsingum sem óskað var eftir með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Gögnin sem um ræði séu hlutafjármiðar og vottorð úr fyrirtækjaskrá Möltu þar sem tilgreind eru númer vegabréfa og nafnvirði hlutafjár. Í framangreindum úrskurði úrskurðarnefndarinnar segi að skylda til að afhenda gögn varðandi raunverulegt eignarhald eigi ekki við um afrit af vegabréfum eða fjárhæð hlutafjármiða.

Ríkisskattstjóri hafi orðið að færa gögnin á pappírsform í þeim tilgangi að afmá úr þeim með öruggum hætti þær upplýsingar sem ríkisskattstjóra hafi ekki verið heimilt að veita aðgang að. Ríkisskattstjóri hafi metið það svo að þessi aðferð við útstrikun viðkvæmra upplýsinga væri öruggust þar sem það væri tryggt að ekki væri hægt að afmá útstrikunina. Þá er vísað til þess að gögnin hafi hvorki verið í miklu magni né hafi þau haft að geyma mikinn texta. Öll önnur gögn sem afhent voru hafi verið véllæsileg. Við mat á því hvaða aðferð bæri að notast við hvað varðaði útstrikun upplýsinga hafi embættið m.a. farið eftir þeim verklagsreglum sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi sett í kjölfar úrskurðar persónuverndar í máli 2014/1470. Þó er tekið fram að ríkisskattstjóri hafi ekki haft aðgang að umræddum verklagsreglum en vísað er til fréttar ríkisútvarpsins frá 10. janúar 2016 varðandi nánara efni þeirra. Loks er tekið fram að á ríkisskattstjóra hvíli rík skylda til að tryggja öryggi þessara gagna og það sé því mat embættisins að það sé best gert með þeim hætti sem lýst er í umsögninni. Með vísan til þessa verði umrædd gögn því ekki afhent með öðrum hætti en þegar hafi verið gert.

Varðandi þann þátt kærunnar er snýr að því að C ehf. hafi verið skráð gjaldþrota í fyrirtækjaskrá er áréttað að umrædd gögn falli undir sérstaka þagnarskyldu 20. gr. laga nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda. Gögnin sem óskað er eftir falli undir sérstaka þagnarskyldu og séu gögn sem leynt skuli fara og varði m.a. efnahag gjaldenda. Fallist nefndin hins vegar ekki á að gögnin falli undir framangreind ákvæði 20. gr. laga nr. 150/2019 er byggt á því að gögnin séu gögn sem eðlilegt og sanngjarnt sé að leynt fari. Þá er upplýst að gjaldþrotaúrskurðurinn sé ekki varðveittur hjá embættinu og því ekki unnt að afhenda hann.

Umsögnin var kynnt kæranda, með bréfi, dags. 27. janúar 2021, og honum veittur kostur á að koma að frekari athugasemdum. Í athugasemdum kæranda, dags. 19. febrúar 2021, við umsögn ríkisskattstjóra er í fyrsta lagi vísað til rökstuðnings kæranda sem fylgdi beiðni hans um endurupptöku úrskurðar nr. 935/2020. Þar kemur fram að upphæðir þær sem koma fram á hlutafjármiðum sýni hlutafjáreign hvers og eins aðila í tilteknu félagi. Þótt ýmsar fjárhagslegar upplýsingar um einstaklinga séu almennt taldar geta verið viðkvæmar, þar á meðal upplýsingar um launakjör, bankaviðskipti og skuldastöðu, hafi slíkt ekki verið talið gilda um hlutabréfaeign. Þvert á móti hafi sjónarmið um gagnsæi í viðskiptum verið talin vega það þungt að upplýsingar um hlutafjáreign eigi að vera aðgengilegar í opinberum gögnum. Fyrirtækjum sé skylt að skila árlega ársreikningi til opinberrar birtingar hjá ársreikningaskrá. Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra haldi utan um ársreikningaskrána, og ársreikningar séu aðgengilegir á vefsvæði embættisins án endurgjalds. Samkvæmt 3. mgr. 65. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga skuli fyrirtæki láta fylgja með ársreikningi skrá yfir nöfn og kennitölur allra hluthafa félagsins í stafrófsröð, ásamt upplýsingum um hlutafjáreign hvers og eins og hundraðshluta hlutafjár í árslok. Upplýsingar um hlutafjáreign hvers einasta hluthafa í tilteknu félagi séu þannig aðgengilegar öllum á vefsíðu fyrirtækjaskrár. Þá er bent á að þar sem umræddar upplýsingar séu nú þegar aðgengilegar almenningi á opnu vefsvæði geti upphæðir á hlutafjármiðum einfaldlega ekki talist viðkvæmar upplýsingar sem falli undir 9. gr. upplýsingalaga.

Þá gerir kærandi athugasemdir við að engin gögn liggi að baki skráningu félagsins C ehf. og telur að ætla megi að skráningin hafi verið byggð á einhverjum gögnum. Þá er ítrekuð ósk hans um aðgang að bréfi því sem ríkisskattstjóri sendi félaginu þar sem farið er fram á að skráning raunverulegs eignarhalds þess verði leiðrétt. Þá lýsir kærandi þeirri afstöðu sinni að hann telji sérstakt þagnarskylduákvæði 20. gr. laga nr. 150/2019 ekki eiga við um starfsemi fyrirtækjaskrár. Kærandi bendir einnig á að ríkisskattstjóri hafi ekki sýnt fram á hvernig birting umbeðinna upplýsinga myndi valda félaginu tjóni, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Jafnvel þótt talið yrði skipta máli að skráningin hafi verið afturkölluð beri að mati kæranda að líta til þess að líkur á því að afhending gagnanna valdi félaginu tjóni hljóti að teljast takmarkaðar enda félagið eignarhaldsfélag sem virðist ekki hafa neina starfsemi. Eini tilgangurinn virðist vera að vera milliliður í ógagnsæju eignarhaldi á jörðinni […]. Í því sambandi er bent á að almennt gildi sú regla að upplýsingar um eignarhald jarða og annarra fasteigna séu opinberar. Hér sé um það að ræða að eigandi jarðar hefur komið eignarhaldi fyrir í gegnum röð félaga og endi slóð eignarhaldsins í Lúxemborg. Synjun ríkisskattstjóra á beiðni kæranda um aðgang að þeim gögnum sem gjaldþrotaskráning C ehf. hafi verið byggð á sé að mati kæranda til þess fallin að auka leynd um eðli eignarhalds jarðarinnar […]. Því getur að mati kæranda ekki talist sanngjarnt og eðlilegt, í skilningi 9. gr. upplýsingalaga, að þau gögn sem óskað var eftir fari leynt.

Niðurstaða

1.
Í máli þessu er í fyrsta lagi deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum sem afmáðar voru úr gögnum varðandi raunverulegt eignarhald félagsins B ehf. Nánar tiltekið er um að ræða nafnverð hlutafjár á hlutafjármiðum og númer vegabréfa sem fram koma á vottorði úr fyrirtækjaskrá Möltu. Synjun ríkisskattstjóra er reist á því að samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar upplýsingamál í máli nr. 935/2020 sé embættinu skylt að afmá upplýsingar um fjárhæðir sem fram koma á hlutafjármiðum einstaklinga sem og númer vegabréfa.

Í fyrrgreindum úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 935/2020 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ríkisskattstjóra væri óheimilt að veita kæranda aðgang að upphæðum á hlutafjármiðum og upplýsingum um vegabréfsnúmer með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Nánar tiltekið var það afstaða úrskurðarnefndarinnar að í þeim fælust upplýsingar um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 977/2021 frá 22. febrúar 2021 synjaði úrskurðarnefndin beiðni kæranda um endurupptöku úrskurðarins.

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin ótvírætt að um sé að ræða upplýsingar sem óheimilt er að veita aðgang að með vísan til 9. gr. upplýsingalaga, sbr. m.a. framangreindan úrskurð úrskurðarnefndarinnnar í máli nr. 935/2020. Með hliðsjón af framangreindu verður hin kærða ákvörðun ríkisskattstjóra staðfest að þessu leyti.

2.
Í öðru lagi er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum er varða skráningu raunverulegs eignarhalds C ehf. Hvað varðar gögn er snúa að skráningu raunverulegra eigenda kemur fram í umsögn ríkisskattstjóra að engum fylgigögnum sé til að dreifa sem varpi ljósi á raunverulegt eignarhald þess. Skráður raunverulegur eigandi sé fyrrum skiptastjóri félagsins. Eftir að allar kröfur voru afturkallaðar og félaginu skilað á ný til eigenda þess hafi engin leiðrétting borist ríkisskattstjóra á raunverulegu eignarhaldi þess.

Úrskurðarnefndin telur að ekki séu forsendur til að rengja þær staðhæfingar ríkisskattstjóra að engin fyrirliggjandi gögn hafi legið fyrir varðandi raunverulegt eignarhald félagsins þegar beiðni kæranda var lögð fram. Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi. Þegar svo háttar til að gagn er ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða synjun á aðgangi að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður því að vísa þessum þætti kærunnar frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Þrátt fyrir að ekki liggi fyrir gögn að þessu leyti liggur fyrir að ríkisskattstjóri átti í bréfaskiptum við fyrirsvarsmann C ehf. þar sem farið var fram á að félagið skilaði inn upplýsingum um raunverulega eigendur félagsins. Um er að ræða tölvupóst, dags. 25. nóvember 2020, þar sem farið er fram á að félagið leiðrétti skráningu raunverulegs eignarhalds félagsins. Með bréfi, dags. 21. janúar 2021, var beiðnin ítrekuð og því beint til félagsins að leiðrétta umrædda skráningu.

Ljóst er að umrædd gögn urðu til eftir að beiðni kæranda um upplýsingar var lögð fram og ekki fyllilega ljóst hvort ríkisskattstjóri hafi litið svo á að þau féllu undir upplýsingabeiðni kæranda. Þannig verður ekki séð að ríkisskattstjóri hafi lagt mat á gögnin og tekið afstöðu til þess hvort rétt væri að veita kæranda aðgang að þeim á grundvelli upplýsingalaga. Að mati úrskurðarnefndarinnar liggur því ekki fyrir synjun um beiðni um gögn sem kæranleg er til úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. Verður því að vísa frá þeim þætti í kærunni sem lýtur að umræddum gögnum. Kæranda er þó bent á að honum er fær sú leið að óska á ný eftir umræddum gögnum er varða skráningu raunverulegs eignarhalds félagsins.

3.
Í þriðja lagi er deilt um ákvörðun ríkisskattstjóra um að synja afhendingu gagna sem tengjast því að félagið C ehf. var skráð gjaldþrota í fyrirtækjaskrá árið 2019 og því að sú skráning var síðar dregin til baka. Um er að ræða kröfulýsingu ríkisskattstjóra, dags 13. janúar 2020, vegna opinberra gjalda í þrotabú félagsins, þar sem er að finna yfirlit yfir þing- og sveitarsjóðsgjöld, og tilkynningu ríkisskattstjóra, dags. 27. apríl 2020, um afturköllun kröfulýsingar og samskipti ríkisskattstjóra og fyrirsvarsmann félagsins í tengslum við kröfulýsingu ríkisskattstjóra.

Ríkisskattstjóri byggir á því að 20. gr. laga nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda, leiði til þess að ekki sé heimilt að afhenda gögnin.

Í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 150/2019 segir eftirfarandi:

„Á innheimtumanni ríkissjóðs hvílir þagnarskylda skv. X. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Innheimtumanni er óheimilt, að viðlagðri ábyrgð skv. XIV. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um brot í opinberu starfi, að skýra frá því sem hann kemst að í starfi sínu og leynt á að fara, þar á meðal um tekjur og efnahag gjaldenda. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af störfum.“

Í 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga segir að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Með gagnályktun frá ákvæðinu verður að telja að sérstök þagnarskylduákvæði geti, ein og sér, komið í veg fyrir að aðgangur verði veittur að gögnum í vörslum stjórnvalda hvað sem líður ákvæðum upplýsingalaga. Þegar um er að ræða sérákvæði laga um þagnarskyldu, þ.e. þegar upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar, fer það eftir efni og orðalagi þagnarskylduákvæðis hvernig slík ákvæði verða skýrð og samþýdd ákvæðum upplýsingalaga eins og segir í almennum athugasemdum frumvarps þess sem síðar varð að upplýsingalögum nr. 140/2012.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að líta beri á tilvitnað ákvæði sem sérstakt ákvæði um þagnarskyldu í framangreindum skilningi, að því er varðar þær upplýsingar sem innheimtumenn ríkissjóðs hafa undir höndum um tekjur og efnahag gjaldenda. Samkvæmt upplýsingum sem aflað var hjá ríkisskattstjóra stafa umrædd gögn frá lögfræðiinnheimtu ríkisskattstjóra en tengjast ekki fyrirtækjaskrá og hafa ekki verið send þangað. Af þeim sökum telur úrskurðarnefndin ekki hægt að leggja annað til grundvallar en að um sé að ræða gögn sem ríkisskattstjóra hafa borist í hlutverki ríkisskattstjóra sem innheimtumanns ríkisjóðs.

Nefndin telur engan vafa leika á því að upplýsingar um kröfulýsingu ríkisskattstjóra í þrotabú vegna innheimtu opinberra gjalda sem innheimtumanni ríkissjóðs er falið að innheimta á grundvelli laga nr. 150/2019 falli undir umrætt ákvæði. Verður réttur til aðgangs að þeim því ekki byggður á ákvæði 5. gr. upplýsingalaga. Þar sem gögn málsins lúta öll trúnaðarskyldu skv. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda sem er sérstakt þagnarskylduákvæði, taka upplýsingalög ekki til þeirra. Ber af þeirri ástæðu að vísa kærunni að þessu leyti frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

4.
Loks er deilt um hvort ríkisskattstjóra hafi við afhendingu umbeðinna gagna varðandi raunverulegt eignarhald B ehf. verið heimilt að synja kæranda um afhendingu hluta þeirra á rafrænu formi, nánar tiltekið á því formi sem þau voru upprunalega vistuð á, með það að markmiði að tryggja öryggi gagnanna sem best.

Í 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga segir að heimilt sé að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurði um ágreininginn. Samkvæmt seinni málslið 1. mgr. 20. gr. laganna gildir hið sama um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er.

Í 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga segir að eftir því sem við verði komið skuli veita aðgang að gögnum á því formi eða sniði, og á þeim tungumálum sem þau séu varðveitt á nema þau séu þegar aðgengileg almenningi, sbr. 2. mgr. 19. gr. Þegar gögn séu eingöngu varðveitt á rafrænu formi geti aðili valið á milli þess að fá þau á því formi eða útprentuð á pappír. Í athugasemdum við 1. mgr. 18. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 140/2020 segir eftirfarandi:

„Ákvæði 1. mgr. 18. gr. byggist á því að veita beri aðgang að upplýsingum á því formi eða með því sniði sem þær eru varðveittar á, nema þær séu þegar aðgengilegar almenningi. Af 2. mgr. 19. gr. leiðir síðan að sé beiðni afgreidd með vísan til þess að upplýsingar séu þegar aðgengilegar, þá skal í slíkri afgreiðslu tilgreina nákvæmlega hvar og með hvaða hætti þær eru það. Þegar upplýsingar eru varðveittar á rafrænu formi getur aðili valið á milli þess að fá þær á því formi eða útprentaðar á pappír. Almennt ætti það að vera til hagræðis fyrir þann sem hefur beiðni til afgreiðslu að geta afhent upplýsingar á rafrænu formi, en sé um upplýsingar að ræða sem falla undir 14. gr. frumvarpsins og eru viðkvæmar á einhvern hátt, ber eðli máls samkvæmt að tryggja viðeigandi öryggi þeirra gagnvart óviðkomandi. Þá er tiltekið í ákvæðinu að eftir því sem fært er skuli viðkomandi heimilað að kynna sér gögn á starfsstöð viðkomandi. Ræðst það auðvitað af aðstæðum að hvað marki þessi leið á við.“

Af framangreindu leiðir að ríkisskattstjóra ber að afhenda gögn á rafrænu formi sem varðveitt eru með þeim hætti ef þess er óskað. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að þrátt fyrir að ríkisskattstjóri hafi afhent kæranda umbeðin gögn hefur hluti þeirra ekki verið afhentur á því formi sem þau eru varðveitt á hjá embættinu í skilningi 1. mgr. 18. gr. svo sem kærandi fór fram á. Þau gögn sem um ræðir tengjast skráningu raunverulegra eigenda og munu almennt vera varðveitt með rafrænum hætti hjá ríkisskattstjóra, sbr. t.d. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 82/2019, um skráningu raunverulegra eigenda, þar sem segir að málsmeðferð við skráningu upplýsinga um raunverulega eigendur skuli vera rafræn sé þess kostur.

Af hálfu ríkisskattstjóra hefur því verið borið við að ekki sé unnt að tryggja nægjanlega öryggi þeirra upplýsinga í gögnunum sem undirorpnar eru 9. gr. upplýsingalaga með öðrum hætti en gert var við afgreiðslu á beiðni kæranda, þ.e. með því að prenta gögnin út og afmá handvirkt umræddar upplýsingar og loks skanna þau inn í tölvu áður en þau voru send kæranda. Úrskurðarnefndin tekur fram að vissulega megi fallast á með ríkisskattstjóra að rík skylda hvíli á embættinu að grípa til nauðsynlegra ráðstafana í því skyni að tryggja öryggi upplýsinga sem leynt skulu fara t.d. á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Hins vegar fær úrskurðarnefndin ekki séð að ríkisskattstjóra hafi verið ómögulegt að grípa til slíkra ráðstafana í því skyni að tryggja öryggi upplýsinganna en verða jafnframt við beiðni kæranda um afhendingu umræddra gagna á því formi sem þau eru varðveitt á hjá embættinu í samræmi við skýr fyrirmæli 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin horfir í því sambandi til þess að algengt er að stjórnvöld afhendi borgurunum gögn á rafrænu formi þar sem afmáðar eru viðkvæmar upplýsingar sem leynt eiga að fara.

Þá virðist ríkisskattstjóri enn fremur reisa afstöðu sína á verklagsreglum sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu setti starfsemi sinni í kjölfar úrskurðar persónuverndar sem upp var kveðinn árið 2015. Þrátt fyrir að efni verklagsreglnanna kunni að hafa almennt leiðsagnargildi við meðferð persónuupplýsinga áréttar úrskurðarnefndin að slíkar verklagsreglur eru ekki bindandi fyrir ríkisskattstjóra og getur efni þeirra þaðan af síður þokað ákvæðum upplýsingalaga varðandi afhendingu gagna.

Með vísan til þess sem að ofan greinir fellst úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki á að ríkisskattstjóra hafi verið heimilt að synja kæranda um afhendingu hluta af umbeðnum gögnum á því formi sem þau voru varðveitt á. Er það því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ríkisskattstjóra beri að afhenda kæranda umbeðin gögn á því formi sem þau eru varðveitt á, þ.e. rafrænu formi. Þessi niðurstaða er í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 994/2021 frá 30. mars 2021 þar sem reyndi á sambærileg málsatvik.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 2. desember 2020, um að synja beiðni kæranda um afhendingu umbeðinna gagna á því formi sem þau eru varðveitt á er felld úr gildi. Ríkisskattstjóra ber að afhenda umbeðin gögn á því formi sem þau eru varðveitt á, þ.e. rafrænu formi.

Kæru kæranda varðandi aðgang að gögnum í tengslum við skráningu C ehf. sem gjaldþrota er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Ákvörðun ríkisskattstjóra er að öðru leyti staðfest.Hafsteinn Þór Hauksson
formaðurKjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira