Hoppa yfir valmynd

1010/2021. Úrskurður frá 11. maí 2021.

Úrskurður

Hinn 11. maí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1010/2021 í máli ÚNU 21030017.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 4. mars 2021, fór A fram á endurupptöku máls ÚNU 21010020 sem lauk þann 22. febrúar 2021 með úrskurði nr. 979/2021. Í málinu var deilt um afgreiðslu Herjólfs ohf. á beiðni kæranda um afhendingu gjaldskrár Herjólfs ohf. Í málinu lá fyrir að Herjólfur ohf. hefði svarað kæranda og vísað til þess hvar umbeðnar upplýsingar væri að finna. Þar sem ekki lá fyrir synjun beiðni um aðgang að gögnum sem kæranleg var til úrskurðarnefndarinnar var kærunni vísað frá úrskurðarnefndinni.

Í erindi kæranda, dags. 4. mars 2021, kemur fram að gjaldskrá fyrir gámaflutninga sé ekki opinber á vefsvæði félagsins. Það séu hagsmunir íbúa sveitarfélagsins að geta kynnt sér slíkar upplýsingar. Þá sé það ekki hlutverk úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu gegn þeim sem leita réttar síns til upplýsingaöflunar hjá opinberum aðilum. Af þeim sökum sé þess krafist að úrskurðarnefndin taki málið upp og úrskurði kæranda í vil.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um þá niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál í úrskurði nr. 979/2021 að vísa frá kæru kæranda til úrskurðarnefndarinnar þar sem ekki lá fyrir kæranleg ákvörðun.

Fyrirmæli um endurupptöku stjórnsýslumála koma fram í 24. gr. stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. þess ákvæðis segir svo:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“

Ekki verður annað séð en að krafa kæranda um endurupptöku málsins sé á því byggð að niðurstaða þess hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál hafa engar nýjar upplýsingar komið fram í málinu sem breytt geta niðurstöðu nefndarinnar. Því eru ekki uppfyllt skilyrði fyrir endurupptöku málsins samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga.

Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir atvikum að vera rétt og heimilt að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir veltur skylda til slíkrar endurupptöku, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurði hennar séu verulegir annmarkar að lögum. Úrskurðarnefndin telur röksemdir kæranda ekki leiða í ljós slíkar vísbendingar. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er hafnað beiðni um endurupptöku máls ÚNU 21010020 sem lauk þann 22. febrúar 2021 með úrskurði nr. 979/2021.


Úrskurðarorð:

Beiðni A, dags. 4. mars 2021, um endurupptöku máls ÚNU 21010020 sem lauk þann 22. febrúar 2021 með úrskurði nr. 979/2021er hafnað.

Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira