Hoppa yfir valmynd

1015/2021. Úrskurður frá 26. maí 2021.

Úrskurður

Hinn 26. maí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1015/2021 í máli ÚNU 21010018.

Kæra og málsatvik

Með tölvupósti, dags. 21. janúar 2021, kærði A, fréttamaður á RÚV, synjun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á beiðni um aðgang að gögnum.

Með, tölvupósti, dags. 8. desember 2020, óskaði kærandi eftir afriti af öllum gögnum sem vörpuðu ljósi á samskipti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og ríkisskattstjóra í tengslum við aðgang almennings að upplýsingum um skráningu raunverulegra eigenda fyrirtækja. Í erindinu kom fram að óskað væri eftir öllum gögnum sem orðið hefðu til frá og með 21. maí 2020. Þar með talin samskipti sem tengdust beint eða óbeint úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 935/2020, svo og hverjum þeim gögnum sem tengdust beint eða óbeint efni fyrirspurnar fréttastofu RÚV sem fjallað var um í úrskurðinum. Jafnframt var óskað eftir öllum gögnum sem kynnu að hafa orðið til í tengslum við áðurnefnd samskipti og tengdust aðgangi almennings að upplýsingum um skráningu raunverulegra eigenda.

Í svari ráðuneytisins, dags. 22. desember 2020, kom fram að einu samskipti ráðuneytisins við ríkisskattstjóra sem lytu að því sem fyrirspurnin sneri að kæmu fram í tveimur tölvupóstum. Tölvupóstarnir væru dagsettir eftir að niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál lá fyrir og fjölluðu um að fulltrúar ráðuneytisins og ríkisskattstjóra hefðu hist á fundi til að ræða úrskurðinn og hugsanleg áhrif hans. Þeir fjölluðu efnislega um tilhögun fundarhalda. Ráðuneytið liti svo á að um væri að ræða gögn sem almennt féllu undir 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga, þ.e. væru vinnugögn sem undanþegin væru upplýsingarétti almennings. Auk þess væri ekki um að ræða gögn sem lytu að afgreiðslu tiltekins máls.

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins þess efnis að afhenda ekki afrit af samskiptum ráðuneytisins við embætti ríkisskattstjóra vegna úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 935/2020. Í kærunni er einnig bent á að ekki verði séð að ráðuneytið hafi tekið afstöðu til aukins aðgangs, eins og kveðið sé á um í 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga, sbr. 2. mgr. 11. gr. laganna. Ekki hafi heldur verið leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 25. janúar 2021, var atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess farið á leit að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af umbeðnum gögnum.

Í umsögn ráðuneytisins, dags. 21. apríl 2021, er málavöxtum lýst. Í umsögninni kemur fram að ráðuneytið líti svo á að tölvupóstar þeir sem um ræði séu vinnugögn í skilningi 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, sbr. 8. gr. laganna. Í umsögninni er ákvæði 8. gr. upplýsingalaga rakið og athugasemdir við ákvæðið í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum þar sem fram komi að til þess að gagn geti talist vinnugagn þurfi þremur skilyrðum að vera fullnægt. Ráðuneytið telji ljóst að skilyrði þess að gagn teljist vinnugang séu öll uppfyllt. Í því sambandi er tekið fram að tölvupóstsamskiptin séu undirbúningsgögn, þ.e. þeim sé ætlað að upplýsa um ákveðna stöðu sem er uppi og koma af stað skoðun á því hvort bregðast þurfi við þeirri stöðu. Þá hafi gögnin ekki að geyma ákvörðun í tilteknu máli. Hvað varðar skilyrði um að skjal sé útbúið eða ritað af starfsmanni stjórnvaldsins sjálfs og megi ekki hafa verið afhent öðrum þá sé um að ræða tölvupóstsamskipti á milli starfsmanna ráðuneytisins og ríkisskattstjóra. Ráðuneytið telji að þrátt fyrir að hér sé um að ræða tölvupósta sem útbúnir séu af sitthvoru stjórnvaldinu og farið hafi á milli þeirra þá sé um að ræða gögn sem séu þess eðlis að eðlilegt sé að hafna aðgangi að þeim, sbr. umfjöllun um ákvæði 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga í athugasemdum með frumvarpi því er varð að upplýsingalögum.

Umsögn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins var kynnt kæranda með bréfi dags. 28. apríl 2021 og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum sem tengjast samskiptum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og ríkisskattstjóra varðandi rétt almennings til aðgangs að upplýsingum um raunverulegt eignarhald. Af hálfu ráðuneytisins hefur komið fram að um sé að ræða tvo tölvupósta sem falli undir gagnabeiðni kæranda. Synjun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins er byggð á því að tölvupóstsamskiptin teljist vinnugögn í skilningi upplýsingalaga.

Í 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur fram að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki ekki til vinnugagna, sbr. 8. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 8. gr. eru vinnugögn skilgreind sem þau gögn sem stjórnvöld eða aðrir aðilar samkvæmt I. kafla laganna hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Í athugasemdum við 8. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, segir að af orðalagi 1. mgr. leiði að til að skjal teljist vinnugagn þurfi almennt þremur skilyrðum að vera fullnægt. Gagn þarf þannig í reynd að vera undirbúningsgagn, það skal ritað eða útbúið af starfsmönnum stjórnvaldsins sjálfs og má ekki hafa verið afhent öðrum.

Séu gögn afhent öðrum teljast þau ekki lengur til vinnugagna nema þau hafi einvörðungu verið afhent eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu. Samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 8. gr. teljast einnig til vinnugagna gögn sem berast milli aðila sem falla undir gildissvið laganna skv. I. kafla þegar einn sinnir ritarastörfum eða sambærilegum störfum fyrir annan, enda fullnægi þau að öðru leyti skilyrðum þeim sem fram koma í 1. mgr. 8. gr. Í athugasemdum við töluliðinn í frumvarpi því sem varð að lögunum kemur það eitt fram að raunhæft dæmi um tilvik sem falli undir þessa reglu sé þegar starfsmaður ráðuneytis sinnir ritarastörfum fyrir sjálfstæða úrskurðarnefnd.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið afhenti úrskurðarnefndinni tölvupóstssamskipti ráðuneytisins við ríkisskattstjóra sem dagsett eru 6. til 10. nóvember 2020. Það er mat nefndarinnar að gögnin uppfylli ekki skilyrði upplýsingalaga fyrir því að teljast vinnugögn. Stafar það fyrst og fremst af því að gögnin uppfylla ekki það skilyrði að hafa ekki verið afhent öðrum enda um að ræða samskipti tveggja stjórnvalda. Það er því niðurstaða nefndarinnar að kærandi eigi rétt til aðgangs að tölvupóstssamskiptunum, enda fær nefndin ekki séð að aðrar takmarkanir upplýsingalaga eigi við um gögnin.
Úrskurðarorð:

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu ber að veita kæranda aðgang að tölvupóstssamskiptum ráðuneytisins við ríkisskattstjóra, dags. 6. nóvember til 10. nóvember 2020.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira