Hoppa yfir valmynd

1019/2021. Úrskurður frá 14. júní 2021.

Úrskurður

Hinn 14. júní 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1019/2021 í máli ÚNU 21020012.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 1. febrúar 2021, kærði A afgreiðslu Skipulagsstofnunar á beiðni hennar um aðgang að gögnum.

Með erindi, dags. 17. apríl 2019, óskaði kærandi eftir skráningu á lista yfir þá sem heimilt er að sinna gerð skipulagsáætlana sem skipulagsráðgjafi. Beiðni kæranda var svarað með bréfi, dags. 27. febrúar 2020, þar sem fram kom að umsókn kæranda uppfyllti ekki skilyrði 2. tölul. 5. mgr. 7. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í bréfinu var kæranda veittur kostur á að koma á framfæri frekari upplýsingum um sérhæfingu á sviði skipulagsmála. Að fengnum frekari upplýsingum yrði tekin afstaða til umsóknar kæranda um skráningu á listann. Af gögnum málsins er ljóst að töluverð samskipti fóru fram á milli kæranda og stofnunarinnar í tengslum við umsókn kæranda í kjölfarið.

Með bréfi, dags. 11. desember 2020, óskaði kærandi eftir afhendingu afrits allra gagna sem tengjast máli sem skráð er undir málsnr. 201901056 hjá Skipulagsstofnun og varðaði umsókn kæranda um að hljóta skráningu á lista yfir þá sem heimilt er að sinna gerð skipulagsáætlana. Kærandi reisti beiðni sína á ákvæðum 16. – 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í bréfinu kom fram að beiðnin tæki til allra tölvupósta innan embættisins og tölvupóstsamskipta embættisins við þriðja aðila á tímabilinu 2019 til 2020 er vörðuðu málefni undir fyrrgreindu málsnúmeri, þar með talið þegar í hlut ættu nánar tilgreindir sex starfsmenn stofnunarinnar.

Í kæru kemur m.a. fram að dregið sé í efa að öll gögn málsins hafi verið afhent. Tekið er fram að takmarkaður aðgangur kæranda að upplýsingum hjá stofnuninni geri það að verkum að ekki sé með góðu móti hægt að glöggva sig á því hvaða meðferð mál kæranda hafi fengið hjá stofnuninni í því skyni að varpa ljósi á hvað raunverulega býr að baki þeirri afstöðu stofnunarinnar að synja kæranda um skráningu á umræddan lista.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 11. febrúar 2021, var kæran kynnt Skipulagsstofnun og frestur veittur til að senda umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Jafnframt var þess farið á leit að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.

Í umsögn Skipulagsstofnunar, dags. 25. febrúar 2021, kom fram að stofnunin hefði tekið afstöðu til beiðni kæranda með bréfi, dags. 5. janúar 2021. Í tölvupóstinum hefðu verið talin upp þau gögn sem skráð væru á mál nr. 201901056 í málaskrá stofnunarinnar og vörðuðu erindi kæranda sem lytu ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012 um afhendingu gagna. Síðan hefði verið tekið fram að þar sem öll erindi hefðu farið á milli Skipulagsstofnunar og kæranda hefði kærandi væntanlega öll gögn undir höndum og því óþarft að taka þau sérstaklega saman og senda kæranda. Samkvæmt þessu hefði ekki verið um eiginlega synjun á gagnabeiðni kæranda að ræða. Í þessu sambandi var minnt á 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga þess efnis að heimilt væri að bera synjun á beiðni um aðgang að gögnum undir úrskurðarnefndina. Þá sagði að í tölvupósti stofnunarinnar, dags. 18. janúar 2012, til kæranda hefði verið tekið fram að bréf og tölvupóstar, sem hefðu farið á milli stofnunarinnar og kæranda yrðu prentuð úr málaskrá og send kæranda kæmi fram ósk um slíkt frá kæranda. Slík ósk hefði ekki komið fram.

Þá var ítrekað af hálfu stofnunarinnar að þau gögn sem skráð væru á umrætt mál nr. 201901056 og vörðuðu erindi kæranda væru þau gögn sem nefnd væru í tölvupósti stofnunarinnar frá 5. janúar 2021.

Með bréfi, dags. 26. febrúar 2021, var kæranda veitt færi á að koma á framfæri athugasemdum í ljósi umsagnar Skipulagsstofnunar. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 4. mars 2021. Í athugasemdum kæranda er dregið í efa að öll gögn málsins hafi verið afhent. Í því sambandi er bent á að í umsögn stofnunarinnar vegna kærunnar komi fram að í svari stofnunarinnar til kæranda séu talin upp öll gögn sem varði erindi kæranda og „lúta ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012 um afhendingu gagna“. Það sé mat kæranda að ummælin bendi til þess að tiltekin gögn og upplýsingar séu að mati stofnunarinnar ekki talin varða erindi kæranda og lúti ekki ákvæðum laganna.

Úrskurðarnefndin ritaði Skipulagsstofnun tölvupóst, dags. 27. apríl 2021, þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort undir umrætt mál í málaskrá stofnunarinnar væru skráð önnur gögn sem ekki lytu ákvæðum upplýsingalaga og eftir atvikum hvaða laga. Þá var óskað eftir upplýsingum um hvort Skipulagsstofnun liti á ákvörðun um skráningu á lista Skipulagsstofnunar, samkvæmt 8. mgr. 7. gr. skipulagslaga sem stjórnvaldsákvörðun, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í svari Skipulagsstofnunar, dags. 30. apríl 2021, kom fram að á hverju ári væri stofnað safnmál í málaskrá stofnunarinnar fyrir öll erindi sem bærust um skráningu á lista yfir skipulagsráðgjafa. Á umræddu málsnúmeri væri því fjöldi skjala sem ekki varðaði erindi kæranda en sérstök mappa væri útbúin utan um erindi hvers og eins umsækjanda. Í möppu kæranda, fyrir utan þau gögn sem nefndin hefði nú þegar fengið aðgang að og vikið væri að í tölvupósti stofnunarinnar til kæranda, væri að finna vinnugögn sem undanþegin væru upplýsingarétti, sbr. 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Hvað varðar síðari spurningu úrskurðarnefndarinnar kom fram að synjun erindis um skráningu á listann fæli í sér að viðkomandi einstaklingur gæti ekki verið í forsvari fyrir gerð skipulagsáætlana, heldur eingöngu sinnt afmörkuðum verkþáttum skipulagsgerðar eða unnið að skipulagsgerð á ábyrgð aðila sem uppfyllti hæfisskilyrði 5. mgr. 7. gr., sbr. 8. mgr. sömu greinar skipulagslaga. Að sama skapi þyrfti einstaklingur að uppfylla umrædd skilyrði til að geta sinnt starfi skipulagsfulltrúa sveitarfélaga.

Í kjölfarið var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af umræddum vinnugögnum sem vikið var að í svari stofnunarinnar, dags. 30. apríl 2021. Umbeðin gögn bárust úrskurðarnefndinni með tölvubréfi, dags. 3. maí 2021.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Skipulagsstofnunar á beiðni kæranda um afhendingu allra gagna sem tengjast máli sem skráð er undir málsnr. 201901056 hjá Skipulagsstofnun og varða umsókn kæranda um að hljóta skráningu á lista yfir þá sem heimilt er að sinna gerð skipulagsáætlana.

Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur fram að kærandi hafi þegar undir höndum þau gögn sem beiðnin lýtur að og því sé ekki um synjun á beiðni um upplýsingar að ræða sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga.

Eins og að framan greinir lagði kærandi fram umsókn um að vera skráður á lista yfir þá sem heimilt er að sinna gerð skipulagsáætlana. Um slíkan lista er kveðið í skipulagslögum nr. 123/2010 en þar segir í 8. mgr. 7. gr. að auk skipulagsfulltrúa sé heimilt að fela öðrum þeim sem uppfylla sömu hæfisskilyrði og skipulagsfulltrúi gerð skipulagsáætlana séu þeir á lista Skipulagsstofnunar, sbr. 9. mgr. 45. gr. laganna. Í 2. málsl. 9. mgr. 45. gr. laganna segir að í skipulagsreglugerð skuli kveðið á um útgáfu og skráningar á lista Skipulagsstofnunar yfir starfandi skipulagsfulltrúa og þá sem uppfylla skilyrði 5. mgr. 7. gr. til gerðar skipulagsáætlana. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 59/2014, sem færðu ákvæði 9. mgr. 45. gr. í núgildandi horf segir m.a. eftirfarandi

„Er gerð tillaga um að heimilt verði að fela öðrum þeim sem uppfylla sömu hæfisskilyrði og skipulagsfulltrúar gerð skipulagsáætlana séu þeir á lista sem Skipulagsstofnun gefur út og kveðið er á um í ákvæði 9. mgr. 45. gr. laganna. Í b-lið 18. gr. frumvarps þessa er lögð til sú breyting á 9. mgr. 45. gr. að þar verði að finna heimild fyrir ráðherra til kveða á um útgáfu og skráningu á lista Skipulagsstofnunar yfir starfandi skipulagsfulltrúa og þá sem uppfylla hæfisskilyrði 5. mgr. 7. gr. til gerðar skipulagsáætlana í skipulagsreglugerð. Í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 var gerð krafa til þeirra sem falin er gerð skipulagsáætlana að uppfylla viss hæfisskilyrði, þau sömu og skipulagsfulltrúar þurfa að uppfylla. Sams konar ákvæði er að finna í núgildandi skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Talin er þörf á að tryggja lagastoð fyrir framangreindu ákvæði skipulagsreglugerðar. Nauðsynlegt er talið að í skipulagslögum sé að finna ákvæði um að sömu hæfisskilyrði gildi fyrir skipulagsfulltrúa og aðra þá sem koma að gerð skipulagsáætlana til að tryggja fagmennsku í gerð skipulagsáætlana. Benda má á að ítarlegri kröfur eru gerðar um hæfi mannvirkjahönnuða en skipulagsráðgjafa þótt mikilvægi menntunar og reynslu sé ekki minna fyrir gerð skipulagsáætlana.“

Eins og að framan greinir var við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni óskað eftir afstöðu Skipulagsstofnunar til þess hvort ákvörðun um hvort orðið yrði við umsókn um skráningu á lista yfir starfandi skipulagsfulltrúa og þá sem uppfylla skilyrði 5. mgr. 7. gr. skipulagslaga til gerðar skipulagsáætlana teldist ákvörðun um rétt eða skyldu í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í svari stofnunarinnar kom fram að synjun erindis um skráningu á listann fæli í sér að viðkomandi einstaklingur gæti ekki verið í forsvari fyrir gerð skipulagsáætlana, heldur gæti viðkomandi eingöngu sinnt afmörkuðum verkþáttum skipulagsgerðar eða unnið að skipulagsgerð á ábyrgð aðila sem uppfylli hæfisskilyrði 5. mgr. 7. gr., sbr. 8. mgr., sömu greinar skipulagslaga.

Í ljósi þess lagagrundvallar sem ákvörðun Skipulagsstofnunar um skráningu byggist á svo og þeirrar afstöðu sem stofnunin hefur lýst til réttaráhrifa slíkrar ákvörðunar verður að líta svo á að stofnuninni hafi verið rétt að líta svo á að ákvörðun um hvort orðið yrði við umsókn um slíka skráningu fæli í sér ákvörðun um rétt eða skyldu í skilningi 1. málsl. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Sem umsækjandi um að hljóta skráningu á umræddan lista er kærandi því aðili máls í skilningi stjórnsýslulaga og nýtur því réttar til aðgangs að gögnum þess máls samkvæmt ákvæðum IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga kemur fram að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Af þessu leiðir að ákvarðanir um aðgang að gögnum í slíkum tilvikum verða ekki bornar undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Samkvæmt framangreindu fellur kæra þessi því utan gildissviðs upplýsingalaga og verður því að vísa henni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 1. febrúar 2021, vegna afgreiðslu Skipulagsstofnunar á beiðni hennar um afhendingu allra gagna sem tengjast máli sem skráð er undir málsnr. 201901056 hjá Skipulagsstofnun og varða umsókn kæranda um að hljóta skráningu á lista yfir þá sem heimilt er að sinna gerð skipulagsáætlana er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira