Hoppa yfir valmynd

1023/2021. Úrskurður frá 28. júní 2021.

Úrskurður

Hinn 28. júní 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1023/2021 í máli ÚNU 21010009.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 30. nóvember 2020, kærði A til úrskurðarnefndar um upplýsingamál töf á afgreiðslu gagnabeiðni sinnar til Kópavogsbæjar frá júní sama ár. Í erindi kæranda, dags. 4. júní 2020, hafði hann óskað eftir aðgangi að öllum gögnum sem vörðuðu skipulagsvinnu á Hamraborgarsvæði og Traðarreit í Kópavogi, þ.m.t. bréfum, fundargerðum, samningum, og umfjöllunum nefnda og ráða sveitarfélagsins um framangreind svæði, frá árinu 2012 fram til þess dags.

Kópavogsbær svaraði kæranda með erindi, dags. 11. nóvember 2020. Í erindinu var fjallað um skipulagsbreytingar sem gerðar hefðu verið á Hamraborgarsvæði og Traðarreit frá upphafi. Kom þar fram að fyrirhugað skipulag væri fyrsta heildarskipulag svæðisins. Kæranda var bent á tilteknar vefsíður, þ.m.t. vefgátt bæjarins, þar sem hægt væri að finna nánari upplýsingar um málið.

Í kjölfar erindis úrskurðarnefndarinnar til Kópavogsbæjar, þar sem skorað var á sveitarfélagið að taka ákvörðun um afgreiðslu beiðni kæranda, áttu kærandi og Kópavogsbær frekari samskipti. Fram kom í erindi Kópavogsbæjar, dags. 10. desember 2020, að gögn um skipulag á umræddu svæði væri að finna á vefsíðu sem kæranda hefði verið bent á. Ef það væru ekki þau gögn sem hann leitaðist eftir þyrfti hann að skilgreina beiðni sína ítarlegar. Gögnin sem bent hefði verið á væru þau gögn sem til væru um skipulag á svæðinu frá upphafi.

Í svari kæranda, dags. 11. desember 2020, gagnrýndi hann vefinn sem Kópavogsbær hafði bent honum á; hann væri takmarkað tól sem réði ekki við að finna öll þau gögn sem beðið væri um þar sem hann væri vefgátt en ekki skjalakerfi. Kópavogsbær svaraði kæranda hinn 21. desember 2020. Svarinu fylgdu þau gögn sem sveitarfélagið taldi að heyrðu undir gagnabeiðni kæranda og vörðuðu aðalskipulagsbreytingu og deiliskipulag á miðbæjarsvæði Kópavogsbæjar. Gögnin væru jafnframt aðgengileg gegnum vefgátt bæjarins sem kæranda hefði verið bent á. Loks voru kæranda afhentar allar þær afgreiðslur sem málið varða fram til 21. desember 2020.

Í erindum til úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. og 29. desember 2020, kom fram að kærandi teldi afhendingu Kópavogsbæjar vera ófullnægjandi. Engu væri svarað varðandi bréf, samninga, eða umfjöllun nefnda og ráða bæjarins. Aðeins ein fundargerð bæjarstjórnar sem varðaði framangreind skipulagssvæði hefði verið afhent, en á vefsíðu Kópavogsbæjar hefði kærandi hins vegar fundið 19 fundargerðir sem vörðuðu svæðin. Það sýndi að ekki hefði verið lögð nægjanleg vinna í að afgreiða beiðni kæranda. Þar að auki óskaði kærandi eftir aðgangi að gögnum sem hann virtist ekki hafa aðgang að gegnum vefsvæði bæjarins. Með erindi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. janúar 2021, kom fram að kærandi teldi ljóst að ekki fengjust frekari svör frá Kópavogsbæ og því þyrfti að úrskurða í málinu.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Kópavogsbæ með bréfi, dags. 15. janúar 2021, og sveitarfélaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn Kópavogsbæjar, dags. 27. janúar 2021, kom fram að kærandi hefði þegar fengið aðgang að umbeðnum gögnum sem vörðuðu skipulagsvinnu á viðkomandi skipulagssvæði. Kærandi hefði fengið ítarlegan upplýsingapóst um hvaða skipulagsbreytingar hefðu verið gerðar á svæðinu. Þá hefði kærandi fengið afrit af skipulagsgögnum sem til meðferðar væru hjá skipulagsyfirvöldum Kópavogsbæjar en þau gögn væru jafnframt aðgengileg á heimasíðu bæjarins vegna lögbundinnar kynningar á skipulagi.

Þá kom fram að Kópavogsbær myndi veita kæranda aðgang að þeim gögnum sem ekki hefðu þegar verið afhent, að því gefnu að þau væru ekki undanþegin aðgangi á grundvelli 6. til 10. gr. laga nr. 140/2012. Kærandi þyrfti einnig að afmarka beiðni sína með ítarlegri hætti. Honum hefði verið leiðbeint um það.

Umsögn Kópavogsbæjar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 2. febrúar 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Athugasemdir kæranda bárust 3. febrúar sama ár. Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um hvort afgreiðsla Kópavogsbæjar á gagnabeiðni kæranda hafi verið fullnægjandi. Fyrir liggur að Kópavogsbær hefur afhent kæranda þau gögn sem sveitarfélagið telur að falli undir gagnabeiðni hans. Komið hefur fram að um sé að ræða öll þau gögn sem til séu um skipulagsvinnu á umræddu svæði frá upphafi.

Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 140/2012 er gert ráð fyrir því að þegar umbeðnar upplýsingar séu þegar aðgengilegar sé hægt að afgreiða gagnabeiðni með því að tilgreina nákvæmlega hvar og með hvaða hætti upplýsingar eru aðgengilegar. Í málinu liggur fyrir að Kópavogsbær hefur leiðbeint kæranda um það hvar þau gögn sem hann óskaði eftir sé að finna. Þá tók sveitarfélagið einnig sömu gögn saman fyrir kæranda og afhenti honum. Loks leiðbeindi sveitarfélagið kæranda um að ef hann teldi afhendinguna ófullnægjandi hefði hann kost á að afmarka beiðni sína nánar, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 140/2012.

Af hálfu kæranda hefur komið fram að hann hafi sjálfur fundið fleiri gögn á umræddu vefsvæði en honum hafi verið afhent og hann telur falla undir beiðni sína. Í ljósi þess að kæranda hefur verið leiðbeint um það hvar hann geti nálgast umrædd gögn telur nefndin ekki tilefni til þess að fjalla nánar um þennan þátt í erindi kæranda. Það er þannig mat úrskurðarnefndarinnar að kæranda hafi ekki verið synjað um aðgang að gögnum frá sveitarfélaginu í skilningi upplýsingalaga. Úrskurðarvald nefndarinnar er samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laganna bundið við þau tilvik þegar synjað er um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum. Verður því að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 15. janúar 2021, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira