Hoppa yfir valmynd

1025/2021. Úrskurður frá 28. júní 2021.

Úrskurður

Hinn 28. júní 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð
nr. 1025/2021 í máli ÚNU 21020011.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 5. febrúar 2021, kærði A afgreiðslu embættis ríkislögmanns á beiðni kæranda um aðgang að samningum sem embættið hefur gert vegna krafna um greiðslu skaða- og/eða miskabóta á nánar tilgreindum tímabilum.

Beiðni kæranda var upphaflega borin upp þann 3. júlí 2020 og beindist þá að öllum slíkum samningum sem embættið gerði á tímabilinu 16. júní 2019 til og með 15. júní 2020. Eftir að embætti ríkislögmanns synjaði beiðninni óskaði kærandi eftir sömu gögnum á styttra tímabili, þ.e. frá 16. desember 2019 til og með 15. júní 2020. Til vara óskaði kærandi eftir samningum sem dagsettir væru frá 16. mars 2020 til og með 15. júní 2020 og til þrautavara frá 1. maí 2020 til og með 15. júní 2020.

Beiðninni var synjað með ákvörðun embættisins, dags. 7. júlí 2020, með vísan til 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga og 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. laganna. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál felldi ákvörðun embættisins úr gildi þann 17. desember 2020 með úrskurði nr. 952/2020 og vísaði málinu til embættisins til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.

Með nýrri ákvörðun embættis ríkislögmanns, dags. 11. janúar 2021, sem hér er deilt um, var kæranda veittur aðgangur að umbeðnum samningum á tímabilinu 16. mars 2020 til og með 15. júní 2020. Strikað var yfir persónugreinanlegar upplýsingar í samningunum. Í kjölfarið ritaði kærandi embætti ríkislögmanns tölvupóst, dags. 11. janúar 2021, þar sem óskað var eftir staðfestingu embættisins á því að með ákvörðun sinni hefði embættið synjað beiðni hans um afrit samninga annars vegar á tímabilinu 16. júní 2019 til og með 14. mars 2020 og hins vegar á tímabilinu 16. desember 2019 til og með 14. mars 2020.

Í svari ríkislögmanns, dags. 12. janúar 2021, kom m.a. fram að vinnsla beiðni kæranda hefði þegar útheimt töluverða vinnu. Upphaflega hefði verið lagt upp með að finna samninga sem gerðir voru á stysta tímabilinu samkvæmt beiðni hans, þ.e. frá 1. maí 2020 til 15. júní 2020, en ákveðið að taka fyrir lengra tímabil, þ.e. frá 16. mars 2020 og þar með sýna fleiri tegundir af samningum. Þá er tekið fram að þeir samningar sem afhentir voru gæfu mjög raunhæfa mynd af þeim samningum sem gerðir væru hjá embættinu. Með þessari afhendingu ætti kærandi að geta myndað sér skoðun á samningum vegna bótakrafna á hendur ríkinu á sama hátt og ef veitt væru gögn yfir lengra tímabil. Ef finna ætti til gögn yfir lengra tímabil myndi það útheimta gríðarlega vinnu en embættið hefði ekki mannafla í það. Loks var óskað eftir afstöðu kæranda til þess hvort hann héldi kröfu um afhendingu samninga á nánar tilgreindum lengri tímabilum til streitu.

Í svari kæranda, dags. 12. janúar 2021, tók kærandi fram að í svari ríkislögmanns hefði ekki komið fram hvernig brugðist hefði verið við beiðni kæranda um afrit af samningum á öðrum tímabilum. Þá kom fram að kærandi væri ekki sannfærður um að afrit af samningum á því tímabili sem hann fékk afhent gæfu rétta mynd af þeim samningum sem gerðir væru hjá embættinu. Það væri hins vegar ekki ætlun kæranda að valda embættinu óþarflega mikilli vinnu og því lagði hann til hvort heppilegra væri ef beiðni hans yrði afmörkuð við þá samninga á tímabilinu sem eftir stæði þar sem ekki væri um að ræða bætur vegna aðgerða lögreglu/saksóknara vegna líkamstjóns.

Í svari ríkislögmanns, dags. 15. janúar 2021, kom fram að afgreiðsla embættisins á beiðni kæranda vegna lengri tímabila myndi að lágmarki taka jafnlangan tíma og fyrri afgreiðsla, þ.e. 4,5 vinnudaga. Embættið mætti ekki verða við því að missa starfsmann frá öðrum verkefnum í svo langan tíma. Þá var þess farið á leit við kæranda að hann útskýrði nánar eftir hverju hann væri að leita en þá væri mögulega unnt að afgreiða beiðnina með öðrum hætti. Að öðrum kosti yrði að hafna beiðninni með vísan til 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga.

Í svari kæranda, dags. 18. janúar 2021, kom fram að kærandi hefði þegar afmarkað beiðni sína nánar með því að óska eingöngu eftir þeim samningum þar sem ekki væri um að ræða líkamstjón vegna aðgerða lögreglu/saksóknara. Ekki væri unnt að útskýra nánar beiðnina. Þá ítrekaði hann fyrri beiðni sína um afrit af samningum sem gerðir voru á tímabilinu 16. júní 2019 til og með 14. mars 2020 en til vara samningum sem gerðir voru á tímabilinu 16. desember 2019 til og með 14. mars 2020. Í svarinu kom einnig fram að kærandi teldi yfirstrikanir ríkislögmanns á upplýsingum í þeim samningum sem afhentir voru óhóflegar.

Í kæru er málavöxtum lýst allt frá því úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 952/2020 var kveðinn upp. Þá segir að farið sé fram á að úrskurðarnefndin úrskurði um aðgang kæranda að þeim hluta þeirra upplýsinga sem var yfirstrikaður í þeim gögnum sem embætti ríkislögmanns afhenti kæranda. Með tölvubréfi, dags. 8. febrúar 2021, upplýsti kærandi úrskurðarnefndina um að ríkislögmaður hefði endurskoðað fyrri afstöðu sína varðandi yfirstrikanir á upplýsingum í þeim gögnum sem þegar hefðu verið afhent. Af þeim sökum féll kærandi frá þeim þætti kærunnar er sneri að yfirstrikunum embættis ríkislögmanns.

Í kæru segir að einnig sé farið fram á að úrskurðarnefndin felli úr gildi ákvörðun embættisins um að neita að afhenda afrit samninga frá 16. júní 2019 til og með 14. mars 2020, þar sem ekki er um að ræða bætur vegna aðgerða lögreglu/saksóknara eða vegna líkamstjóns. Loks er til vara, ef ekki verður fallist á framangreinda kröfu, farið fram á að ákvörðun ríkislögmanns um að neita að afhenda afrit samninga um sama efni frá 16. desember 2019 til 16. júní 2020 verði felld úr gildi. Í því sambandi er tekið fram að embætti ríkislögmanns hafi sjálfstæðar skyldur til að haga skjalastjórn sinni á þann hátt að mögulegt sé að fara að upplýsingalögum nr. 140/2012. Skjalastjórnun eins og embættið lýsi henni beri vott um að það vanræki skyldur sína að skrá ákvarðanir sínar á þann hátt að embættið geti sinnt skyldum sínum samkvæmt upplýsingalögum. Þá eru gerðar athugasemdir við þá afstöðu ríkislögmanns að embættið megi ekki við því að missa starfsmann frá öðrum verkefnum.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 11. febrúar 2021, var kæran kynnt embætti ríkislögmanns og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Í umsögn embættisins, dags. 24. mars 2021, kemur fram að embætti ríkislögmanns hafi endurskoðað fyrri afstöðu sína er snýr að þeim þætti kærunnar er lýtur að yfirstrikunum embættisins á upplýsingum. Þar sem kærandi hafi í kjölfarið fallið frá þeim þætti kærunnar standi eftir tveir liðir hennar, þar sem krafist er afhendingar á afritum af samningum, þar sem ekki er um að ræða bætur vegna aðgerða lögreglu/saksóknara eða vegna líkamstjóns, annars vegar sem gerðir voru á tímabilinu 16. júní 2019 til og með 14. mars 2020 og hins vegar sem gerðir voru á tímabilinu 16. desember 2019 til og með 14. mars 2020.

Embætti ríkislögmanns telur sér ekki fært að verða við beiðni kæranda að því er varðar tímabilin sem eftir standa, það er frá 16. júní 2019 til og með 14. mars 2020 og 16. desember 2019 til og með 14. mars 2020. Frekari afmörkun
kæranda, þar sem undanskildir eru samningar vegna aðgerða lögreglu/saksóknara eða vegna líkamstjóns, breyti ekki þeirri niðurstöðu. Því sé kröfu kæranda hafnað með vísan til 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í því sambandi er bent á að í lögunum sé gert ráð fyrir að stjórnvald geti hafnað beiðni ef ljóst þyki að meðferð hennar tæki svo mikinn tíma eða vinnu að ekki teljist af þeim sökum fært að verða við henni. Embættið bendir á að beiðni kæranda, jafnvel eftir frekari afmörkun, útheimti afar umfangsmikla vinnu fyrir embættið. Tekið er fram að starfsmaður embættisins hafi eytt rúmum fjórum vinnudögum í að taka saman samninga sem afhentir voru kæranda þann 11. janúar 2021.

Þá er vísað til þess að kærandi telji það ekki trúverðugt að svo mikill tími hafi farið í að taka saman umbeðin gögn þar sem ekki hafi verið afhent tímaskráning vegna þessarar vinnu. Þá hafi hann deilt þeim stundafjölda niður á samninga. Af því tilefni er tekið fram að starfsmenn embættisins haldi ekki formlega tímaskráningu fyrir þann tíma sem fari í hvert og eitt mál, enda þótt viðkomandi starfsmaður hafi skráð óformlega hjá sér þann tíma sem fór í að finna til umbeðin gögn. Afar rangt sé að deila þeim tíma niður á samninga og endurspeglist þar mikil vanþekking kæranda á því hvað felist í að afgreiða beiðni hans. Vinnan felist í því að finna til viðkomandi gögn og er fjöldi samninga, eða afrakstur þeirrar vinnu, engan veginn mælikvarði á þann tíma sem afgreiðsla beiðninnar taki.

Þá hafnar embætti ríkislögmanns þeirri staðhæfingu að skjalastjórn embættisins sé ekki í samræmi við ákvæði upplýsingalaga. Embættið noti málaskrárkerfið GoPro, rétt eins og ráðuneyti og flestar ríkisstofnanir. Í því kerfi séu mál flokkuð í fjóra meginflokka: dómsmál, bótamál, erindi og önnur mál. Hvert mál sé skráð eftir nafni og kennitölu og fái sitt númer. Hægt sé að leita í kerfinu með einföldum hætti eftir þessari flokkun. Kerfið bjóði aftur á móti ekki upp á leit eftir frekari undirflokkum, svo sem efni mála, það er hvort um sé að ræða mál vegna þvingunarráðstafana, læknamistaka, starfsmannamál o.s.frv. Þegar málum ljúki sé þeim lokað í GoPro, en hins vegar komi ekki fram við einfalda leit hverjar séu lyktir hvers máls, þ.e. hvort þeim ljúki með samkomulag, dómi o.s.frv. Slíkt komi hins vegar fram í gögnum hvers máls. Til þess að nálgast þessar upplýsingar þurfi hins vegar að opna hvert mál í málaskránni handvirkt. Þess beri þó að geta að frá og með síðustu áramótum hafi starfsmaður skráð handvirkt í excel frekari flokkun í því skyni að geta brugðist við og dregið úr vinnu við að afgreiða beiðnir á grundvelli upplýsingalaga og fyrirspurnir frá Alþingi svo fátt eitt sé nefnt. Verði hins vegar ekki annað séð en að slíkt sé umfram skyldu, enda noti embættið GoPro-málaskrárkerfið og uppfylli skráning í það kerfi þær skyldur sem á embættinu hvíla um skjalastjórnun. Tekið er fram að um mikinn fjölda mála sé að ræða og forsendur að baki slíkum samkomulögum afar misjafnar og torvelt að afgreiða slíka beiðni með einföldum hætti.

Embætti ríkislögmanns bendir einnig á að í athugasemdum í greinargerð með upplýsingalögum segi jafnframt að til að hægt sé að afgreiða beiðni verði hún að vera sett fram með nægilega nákvæmum hætti til að stjórnvald geti, til dæmis með einfaldri orða- eða efnisatriðaleit í málaskrá sinni, fundið það mál sem lýtur að því málefni sem aðili óskar að fá upplýsingar um.
Til þess að afgreiða beiðni kæranda í janúar síðastliðnum fletti starfsmaður embættisins upp á öllum greiðslubeiðnum embættisins á því tímabili sem um ræddi. Að því loknu þurfti að opna
öll mál á tímabilinu og bera saman við greiðslubeiðnir. Þá hafi verð hægt að finna tilheyrandi samninga, prenta út og afmá persónuupplýsingar. Á árinu 2020 hafi nýskráð mál hjá embættinu verið 727. Þessum málum hafi 8-9 lögmenn (8,33) sinnt og starfsmenn í einu og hálfu stöðugildi skrifstofumanns. Nú um áramót hafi verið bætt við einum skrifstofumanni. Ljóst sé að afgreiðsla á beiðni kæranda, það er þau tímabil sem eftir standa, sbr. upphaflega aðal- og varakröfu kæranda, muni taka umtalsverðan tíma. Fara þurfi í gegnum sama ferli og lýst hafi verið. Þar sem mál séu ekki skráð í GoPro-kerfinu eftir því um hvers konar bótakröfur og/eða dómsmál er að ræða myndi nánari aðgreining kæranda frekar auka fyrirhöfn og vinnu ef eitthvað er. Telur embættið sér því ekki fært að verða við beiðni kæranda.

Með bréfi, dags. 26. mars 2021, var umsögn embættis ríkislögmanns kynnt kæranda og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 29. mars 2021, er bent á að í umsögn embættis ríkislögmanns sé hvergi lagt mat á það hversu langan tíma það taki starfsmann að afgreiða beiðni kæranda sem nú er til umfjöllunar. Þá sé ekki heldur rökstutt hvernig afgreiðsla á beiðni kæranda komi til með að valda umtalsverðri skerðingu á starfsemi embættisins. Þá kemur fram að kærandi telji embættið í umsögn sinni þar sem fram komi að frá áramótum hafi embættið skráð mál handvirkt í excel viðurkenna í verki að skráning þess á ákvörðunum hafi verið haldið ágöllum. Tekið er fram að umræddir samningar feli í sér ákvarðanir stjórnvalds sem ekki séu aðgengilegar annars staðar og því mikilvæg skjöl. Í þeim komi fram ráðstöfun fjármuna sem ekki fari hefðbundna leið fjárlaga.

Niðurstaða

1.
Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um samninga („samkomulög“) sem embætti ríkislögmanns hefur gert um greiðslu skaða- og/eða miskabóta úr ríkissjóði sem ekki varða bótagreiðslur vegna aðgerða lögreglu/saksóknara eða vegna líkamstjóns. Nánar tiltekið lýtur beiðni kæranda að öllum slíkum samningum sem embættið gerði á tímabilinu 16. júní 2019 til og með 14. mars 2020. Til vara óskaði kærandi eftir samningum um sama efni sem dagsettir væru frá 16. desember 2019 til og með 14. mars 2020. Áður hafði ríkislögmaður afhent kæranda samninga sem dagsettir voru frá 16. mars 2020 til 19. júní 2020. Beiðni kæranda var synjað með vísan til 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga.

Samkvæmt ákvæðinu má í undantekningartilfellum hafna beiðni ef meðferð hennar tæki svo mikinn tíma eða krefðist svo mikillar vinnu að ekki teldist af þeim sökum fært að verða við henni. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 kemur skýrt fram að ákvæðið geti aðeins átt við í ýtrustu undantekningartilvikum. Þá segir að til þess að skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt þurfi umfang upplýsingabeiðni, eða fjöldi þeirra frá einum og sama aðilanum, að vera slíkt að vinna stjórnvalds við afgreiðslu hennar mundi í raun leiða til umtalsverðrar skerðingar á möguleikum stjórnvalds til að sinna öðrum hlutverkum sínum.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur lagt á það áherslu að fara verði fram raunverulegt mat á þeirri vinnu sem nauðsynleg sé til að afgreiða beiðni og gera verði strangar kröfur til þess að stjórnvald rökstyðji vandlega hvaða ástæður liggi til þess að ákvæðinu verði beitt, sbr. t.d. úrskurði úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 663/2016 og 551/2014. Í síðara málinu var ekki fallist á að stjórnvaldi væri heimilt að beita ákvæðinu en rökstuðningur stjórnvaldsins laut að því að leit í málaskrárkerfi stofnunar hefði skilað 1.800 niðurstöðum. Í úrskurði nefndarinnar nr. 745/2018 var fallist á að beita heimildinni varðandi aðgang að öllum úrskurðum í umgengnismálum í vörslum dómsmálaráðuneytisins. Í niðurstöðu nefndarinnar segir meðal annars að áætlaður heildarblaðsíðufjöldi úrskurðanna væri á annað þúsund. Með vísan til eðlis málaflokksins féllst nefndin á að vinnan við að afmá viðkvæmar upplýsingar úr úrskurðunum væri slík að dómsmálaráðuneytinu væri heimilt að beita undanþáguákvæðinu.

Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem lýst er í athugasemdum við ákvæði 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 verður að leggja til grundvallar að ákvæðinu verði einungis beitt þegar sýnt þykir að vinnsla beiðni um upplýsingar myndi í raun leiða til umtalsverðrar skerðingar á möguleikum stjórnvalds til að sinna öðrum hlutverkum sínum.

2.
Í máli þessu er um það að ræða að kærandi óskar eftir því að fá afhent afrit af öllum samningum sem embætti ríkislögmanns hefur gert á tilteknu tímabili vegna krafna um greiðslu skaða- og/eða miskabóta sem ekki varða bætur vegna aðgerða lögreglu/saksóknara eða vegna líkamstjóns.

Embætti ríkislögmanns hefur í fyrsta lagi haldið því fram að sú vinna sem embættið þyrfti að inna af hendi í því skyni að verða við beiðni kæranda sé umtalsverð. Í því sambandi er bent á að það hafi tekið starfsmann embættisins rúmlega fjóra vinnudaga að afgreiða beiðni kæranda varðandi tímabilið 16. mars 2020 til 15. júní 2020 og ljóst sé að beiðni kæranda sem hér er til umfjöllunar myndi útheimta sambærilega vinnu.

Að öðru leyti er ekki gerð nánari grein fyrir þeirri vinnu sem embættið sér fram á að beiðni kæranda sem hér er til umfjöllunar komi til með að útheimta. Þá er þar ekki rökstutt með hvaða hætti afgreiðsla beiðninnar komi til með að valda umtalsverðri skerðingu á starfsemi þess. Af umsögn embættisins verður ráðið að ástæða þess hversu tímafrek afgreiðsla á beiðni kæranda sé stafi fyrst og fremst af því hvernig skráningu mála sé háttað hjá embættinu og flokkun þeirra í málaskrá og skortur á starfsfólki til að afgreiða upplýsingabeiðni. Samkvæmt því sem fram kemur í umsögninni eru mál flokkuð í fjóra meginflokka í málaskrá embættisins og virðist því ekki unnt að kalla fram með einfaldri orðaleit mál sem varða beiðni kæranda. Af þeim sökum útheimti beiðni kæranda svo umfangsmikla vinnu að heimilt sé að synja beiðninni með vísan til 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fær ekki betur séð en að umræddri beiðni kæranda hafi fyrst og fremst verið hafnað á þeirri almennu forsendu að sá háttur sem hafður er á skráningu mála hjá embættinu bjóði ekki upp á að gögn séu tekin saman án umtalsverðrar fyrirhafnar. Þá hefur embættið jafnframt lýst þeirri afstöðu sinni að frekari afmörkun kæranda á beiðninni við samninga af tilteknum toga myndi ekki breyta niðurstöðunni. Tekið skal fram að ekki er útilokað að heimilt sé að synja beiðni um upplýsingar á grundvelli 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga með vísan til sjónarmiða þess efnis að torvelt sé að kalla fram með einfaldri orðaleit þau mál eða gögn sem óskað er eftir. Á það ber hins vegar að líta að ákvæðið felur í sér þrönga undantekningu frá meginreglunni um rétt almennings til aðgangs að fyrirliggjandi upplýsingum, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarnefndin tekur fram að í beiðni kæranda er tilgreint skýrlega efni þeirra mála sem umbeðin gögn tilheyra auk þess sem hún er afmörkuð við tiltekin tímabil. Í því sambandi skal minnt á að í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 952/2020 þar sem fjallað var um beiðni kæranda um sömu upplýsingar sem að mestu leyti sneri að sama tímabili kom fram að ekki væri unnt að fallast á það með embætti ríkislögmanns að kærandi hefði ekki uppfyllt kröfu 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Þá horfir úrskurðarnefndin til þess að gerð samninga í tengslum við uppgjör bótakrafna á hendur íslenska ríkinu er á meðal þeirra verkefna sem ríkislögmanni eru falin með lögum, sbr. 2. gr. laga nr. 51/1985. Þannig snýr beiðni kæranda að málum sem falla undir málaflokk sem telja verður veigamikið viðfangsefni embættisins. Telja verður að almenningur hafi almennt ríka hagsmuni af því að kynna sér slíkar upplýsingar.

Úrskurðarnefndin fellst því ekki á að unnt sé að synja beiðni kæranda á grundvelli 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga á þeirri almennu forsendu að það sé vandkvæðum bundið að kalla fram þau mál sem beiðnin lýtur að. Í því sambandi skal tekið fram að þrátt fyrir að það falli utan valdsviðs nefndarinnar að fjalla um hvernig stjórnvöld haga skráningu og vistun gagna í málaskrá þá samrýmist það ekki markmiðum upplýsingalaga að láta þann er fer fram á upplýsingar og setur beiðni sína fram í samræmi við þær kröfur sem leiða af 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga bera hallann af því ef slíkri skráningu er abótavant.

Úrskurðarnefndin fellst á að það kunni vissulega að útheimta allnokkra vinnu af hálfu embættisins að skoða þau mál sem skráð eru í málaskrá embættisins á umræddu tímabili með það fyrir augum að finna út hverjum þeirra hafi lokið með gerð samnings um greiðslu skaða- eða miskabóta. Úrskurðarnefndin telur hins vegar að embættið hafi ekki rökstutt nægilega að umfangi þeirrar vinnu sé þannig háttað að undantekningarregla 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga eigi við í málinu.

Það hvort embættinu beri skylda til þess að hreinsa þessa tilteknu samninga af persónugreinanlegum upplýsingum og afhenda kæranda hlýtur að ráðast af fjölda þeirra, þ.e. umfangi þeirrar vinnu sem embættið þyrfti að ráðast í við afhendingu þeirra. Fjöldi samninganna liggur hins vegar ekki fyrir eins og áður segir. Það er því niðurstaða nefndarinnar að embættinu beri að taka þennan þátt í beiðni kæranda til nýrrar meðferðar, þ.e. kalla fram mál í málaskrá embættisins þar sem um er að ræða samninga vegna krafna um greiðslu skaða- og/eða miskabóta þar sem ekki er um að ræða bætur vegna aðgerða lögreglu/saksóknara eða vegna líkamstjóns og taka í kjölfarið afstöðu til þess hvort embættinu sé fært að fjarlægja persónugreinanlegar upplýsingar úr þeim og afhenda eða hvort fjöldi þeirra sé slíkur að beiðnin falli eftir sem áður undir undantekningarákvæði 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Er kærunni því vísað til nýrrar afgreiðslu embættis ríkislögmanns.

Úrskurðarnefndin tekur fram að þrátt fyrir að ekki sé fallist á að heimilt sé að synja beiðni kæranda á þessum grundvelli kann umfang beiðninnar þó að verða til þess að vinnsla hennar taki nokkurn tíma umfram þá sjö daga sem almennt er miðað við, sbr. 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. Mikilvægt er hins vegar að kærandi sé upplýstur um gang mála og honum greint frá ástæðum þess ef verulegar tafir verða á afgreiðslu beiðninnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun embættis ríkislögmanns um að synja beiðni kæranda, A, um aðgang að afritum af öllum samningum sem embætti ríkislögmanns hefur gert vegna krafna um greiðslu skaða- og/eða miskabóta og dagsettir eru á tímabilinu 16. júní 2019 til og með 14. mars 2020 og á tímabilinu 16. desember 2019 til og með 14. mars 2020, er felld úr gildi og lagt fyrir embætti ríkislögmanns að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.

Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum