Hoppa yfir valmynd

1036/2021. Úrskurður frá 27. ágúst 2021.

Úrskurður

Hinn 27. ágúst 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1036/2021 í máli ÚNU 21040002.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 8. apríl 2021, kærði A synjun Garðabæjar á beiðni um aðgang að upplýsingum er varða störf starfsmanns sveitarfélagsins í tengslum við málefni dóttur hans þegar hún var nemandi eins af skólum bæjarins.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi kvartað undan störfum tiltekins starfsmanns sveitarfélagsins með erindi dags. 20. október 2020. Í framhaldinu hafi kærandi óskað eftir upplýsingum frá bæjarstjóra Garðabæjar um hvernig tekið hefði verið á kvörtuninni þar sem kærandi taldi ósennilegt að ítarleg könnun á störfum viðkomandi starfsmanns hefði farið fram.

Með bréfi Garðabæjar, dags. 27. janúar 2021, svaraði bæjarstjóri erindinu og ítrekaði að hann bæri fullt traust til viðkomandi starfsmanns, annarra starfsmanna bæjarins og utanaðkomandi aðila sem að málinu hefðu komið. Kvörtunum kæranda í garð starfsmanna bæjarins sem komið hefðu að úrvinnslu máls dóttur kæranda hefði áður verið svarað, m.a. með tölvupóstum dags. 12. nóvember 2020 og 3. desember 2020. Segir enn fremur að bæjarstjóri hafi fylgst með því að starfsmennirnir sinntu störfum sínum af fagmennsku, kostgæfni og heilindum. Ekkert í starfi viðkomandi starfsmanns eða annarra starfsmanna Garðabæjar hefði gefið nokkra ástæðu til áminninga eða beitingu viðurlaga. Þá vakti bæjarstjóri athygli kæranda á því að réttur almennings til aðgangs að upplýsingum um málefni starfsmanna Garðabæjar samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012 tæki ekki til gagna er vörðuðu framgang í starfi eða starfssamband þeirra að öðru leyti við bæjarfélagið.

Í kæru kemur fram að kvartað sé undan sinnuleysi bæjarstjóra Garðabæjar er varðar kvörtun kæranda. Upphaflega hafi kærandi leitað til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins sem vísað hafi til þess að ráðuneytið hafi ekki eftirlit með starfsmannamálum sveitarfélaga, sbr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Ráðuneytið hafi leiðbeint kæranda um að hægt væri að beina kvörtun til umboðsmanns Alþingis teldi aðili sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu stjórnvalda eða sveitarfélaga. Þá væri jafnframt hægt að leita til úrskurðarnefndar um upplýsingamál vegna synjunar á beiðni um aðgang að gögnum.

Kærandi telur að þau lög sem bæjarstjóri Garðabæjar vísi til eigi ekki við í málinu og það sé réttur hans að fá upplýsingar frá bæjarfélaginu um það hvernig brugðist hafi verið við kvörtuninni.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Garðabæ með bréfi, dags. 8. júní 2021, og sveitarfélaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn Garðabæjar, dags. 29. júní 2021, kemur fram að bæjarstjóri Garðabæjar hafi svarað erindi kæranda vegna viðkomandi starfsmanns með bréfi, dags. 27. janúar 2021. Í bréfinu hafi verið vakin athygli á því að réttur almennings til aðgangs að upplýsingum um málefni starfsmanna Garðabæjar samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012 tæki ekki til gagna sem vörðuðu framgang í starfi eða starfssamband þeirra að öðru leyti við bæjarfélagið. Eins og fram kæmi í bréfinu nyti viðkomandi starfsmaður fyllsta trausts og benti ekkert annað til þess en að hann sinni starfi sínu af fagmennsku, kostgæfni og heilindum. Því væri engum gögnum til að dreifa um starfsmannamál sem kæra sneri að. Meðfylgjandi umsögninni var bréf bæjarstjóra til kæranda dags. 27. janúar 2021.

Umsögn Garðabæjar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 7. júlí 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

Niðurstaða

Í málinu óskaði kærandi eftir gögnum sem orðið hefðu til í tilefni af kvörtun hans til bæjarstjóra Garðabæjar vegna framgöngu tiltekins starfsmanns sveitarfélagsins. Af hálfu sveitarfélagsins hefur komið fram að umrætt erindi kæranda til bæjarins hafi ekki leitt til neinnar gagnagerðar eða söfnunar gagna af hálfu bæjarins og því sé engum gögnum til að dreifa sem falli undir kæruna til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nær aðeins til fyrirliggjandi gagna, sbr. orðalag 1. mgr. 5. gr. laganna. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga er m.a. tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggi á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang sé sett fram og í þeirri mynd sem þau séu á þeim tíma. Þeim sem falla undir lögin sé því ekki skylt á grundvelli laganna að útbúa ný skjöl eða önnur gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. Ef takmarkanir 6.-10. gr. laganna á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli þó veita aðgang að öðrum hlutum þess, sbr. 3. mgr. 5. gr.

Í ljósi framangreindra skýringa sveitarfélagsins hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til annars en að leggja það til grundvallar að gögn sem tengjast kvörtun kæranda vegna framgöngu viðkomandi starfsmanns Garðabæjar séu ekki fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu.

Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi. Þegar svo háttar til að gagn er ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða synjun á aðgangi að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 8. apríl 2021, um afgreiðslu Garðabæjar á beiðni um aðgang að gögnum er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum