Hoppa yfir valmynd

1044/2021. Úrskurður frá 29. nóvember 2021.

Úrskurður

Hinn 29. nóvember 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1044/2021 í máli ÚNU 21020030.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 25. febrúar 2021, kærði A afgreiðslu Borgarholtsskóla á beiðni hans um aðgang að gögnum.

Kærandi óskaði eftir upplýsingum um launamál starfsmanna með erindi, dags. 5. október 2020, en kærandi var fulltrúi kennara í samstarfsnefnd um endurskoðun stofnanasamnings Borgarholtsskóla og Kennarasambands Íslands. Hann átti í nokkrum samskiptum við stjórnendur skólans þar sem hann ítrekaði beiðni sína en þann 17. nóvember 2020 sendi kærandi skólameistara Borgarholtsskóla uppfærða upplýsingabeiðni í fimm liðum þar sem óskað var eftir eftirfarandi:

1. Upplýsingum um föst launakjör og fastar greiðslur allra sem þiggja laun samkvæmt samningum Kennarasambands Íslands og eiga undir stofnanasamning Borgarholtsskóla.
2. Upplýsingum um launakjör æðstu stjórnenda.
3. Gögnum sem lágu að baki yfirlýsingu fjármálastjóra um yfirvinnu á einstaka sviðum.
4. Gögnum úr ársskýrslu um laun, launatengd gjöld og starfsmannakostnað í Borgarholtsskóla vegna áranna 2015 og 2016.
5. Gögnum um skipun, störf og niðurstöðu sanngirnisnefndar.

Þann 22. desember 2020 ítrekaði kærandi beiðnina og tók fram að tafla með föstum launakjörum, sbr. 1. lið, væri komin fram en að önnur gögn hefðu enn ekki verið afhent. Þá bætti kærandi við beiðni sína samkvæmt 5. lið og óskaði að auki gagna vegna viðbótarlauna sem komu til eftir að beiðnin var lögð fram. Sama dag svaraði Borgarholtsskóli því að öllum spurningum hefði verið svarað og að um laun embættismanna væri fjallað á vef Stjórnarráðsins og Félags forstöðumanna ríkisstofnana en það væru allt opinberar tölur. Sanngirnisnefndin væri hópur starfsfólks sem fenginn hefði verið til ráðgjafar fyrir ákvarðanatöku skólameistara, væri ekki formlegri nefnd en það. Varðandi upplýsingar um rekstrarkostnað skólans var vísað í ársreikninga. Viðbótarlaun hefðu verið ákvörðuð af skólameistara vegna annarlegs ástands í samfélaginu sökum farsóttar sem torveldað hefði eðlileg störf kennara.

Í kæru segir að kærandi hafi einungis fengið gögn sem heyri undir fyrri helminginn af 1. lið í beiðni hans, þ.e. upplýsingar um „föst launakjör“ starfsmanna, en önnur umbeðin gögn hafi ekki verið gerð aðgengileg. Þá kemur fram að í aðdraganda jafnlaunavottunar Borgarholtsskóla í júní 2020 hafi verið haldnir kynningafundir og námskeið fyrir starfsmenn og þá hafi vaknað margar spurningar um laun sem ekki hafi náðst að spyrja eða fá svör við. Síðasta vetur hafi svo komið í ljós af samanburðagögnum frá Kennarasambandi Íslands að laun í Borgarholtsskóla væru að lækka, bæði grunn- og heildarlaun, miðað við aðra skóla, sem vakið hafi enn fleiri spurningar. Kærandi hafi verið kosinn sem fulltrúi Kennarafélags Borgarholtsskóla í samstarfsnefnd og skoðun á stofnanasamningi sem kallað hafi á enn fleiri gögn. Að lokum hafi skólameistari sett á fót „sanngirnisnefnd“ vegna Covid-19 sem hafi úthlutað skattfrjálsum heilsustyrk. Kennurum hefði verið mismunað við úthlutunina og styrkurinn numið allt frá 10.000 til 60.000 kr. án þess að nokkrar skýringar kæmu fram. Greiðslurnar hafi verið utan kjarasamnings en skólameistari neiti bæði aðgengi að gögnum um á hvaða forsendum ákvörðun hafi verið tekin og að gefa skýringu á mismunandi greiðslum. Því hafi kærandi óskað allra gagna málsins en kærandi vísar í 7. gr. upplýsingalaga þar sem fjallað er um rétt almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna og 8. gr. þar sem fjallað er um vinnugögn sem beri að afhenda.

Málsmeðferð

Kæran var send Borgarholtsskóla með bréfi, dags. 9. mars 2021, þar sem því var beint til kærða að afgreiða beiðni kæranda, sbr. 17. og 19. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þann 23. mars 2021 barst úrskurðarnefndinni afrit af erindi skólans til kæranda þar sem fjallað var um beiðnina og farið yfir það hvaða upplýsingar kæranda hefðu þegar verið veittar. Í fyrsta lagi hefðu nú upplýsingar um föst launakjör til allra starfsmanna verið veittar. Fastar greiðslur væru engar til starfsfólks sem þiggi laun samkvæmt kjarasamningi KÍ fyrir utan að stjórnendur fengju greiddan farsímakostnað. Í öðru lagi væri skólameistari einn æðsti stjórnandi og var vísað á vef Stjórnarráðsins um upplýsingar um starfskjör embættismanna. Skólameistari teldi óheimilt að veita upplýsingar um laun fjármálastjóra. Í þriðja lagi væru gögn sem lægju að baki yfirlýsingu um yfirvinnu vinnugögn og ekki skylt að útbúa ný skjöl vegna beiðni þar um. Í fjórða lagi varðandi laun, launatengd gjöld og starfsmannakostnað vegna áranna 2015 og 2016 var vísað á vef skólans þar sem ársreikningar væru birtir. Í fimmta lagi varðandi gögn um skipun, störf og niðurstöðu sanngirnisnefndar sagði að yfirstjórn hefði leitað til nokkurra kennara frá ólíkum deildum skólans um ráðgjöf. Ekki hefði verið um eiginlega nefnd að ræða heldur hefði nafnið sanngirnisnefnd verið vinnuheiti fyrir ferlið við að ákveða viðbótarlaun. Greitt hefði verið samkvæmt starfshlutfalli kennara á vorönn 2020 og upphæðin hefði verið ákvörðuð af skólameistara með hliðsjón af fjárheimildum skólans.

Kærandi gerði athugasemdir við þessa afgreiðslu skólans, þann 30. mars 2021. Þar segir að öllum beiðnum kæranda nema þeirri fyrstu sé enn ósvarað. Varðandi 2. liðinn telji kærandi að veita beri upplýsingar um greidd heildarlaun æðstu stjórnenda, sbr. ákvæði upplýsingalaga. Ekki sé fullnægjandi að skólinn vísi í launatöflu skólameistara hvað heildarlaun varði og ekki séu veittar upplýsingar um laun fjármálastjóra. Varðandi 3. liðinn er því mótmælt að um vinnugögn geti verið að ræða og vísað á umfjöllun um jafnlaunavottunarferlið á vef Stjórnarráðsins þar sem m.a. er rætt um gagnsæi og réttlæti. Varðandi 4. liðinn segir að í ársreikningum 2015 og 2016 komi ekki fram sundurliðun á kostnaði vegna launa, launatengdra gjalda og starfsmannakostnaðar, eins og fram komi 2017 og eftir það. Varðandi 5. liðinn segir að skólameistari vísi í nefnd kennara sem hafi lagt fram hugmyndir en kennarar í nefndinni segi allar ákvarðanir hafi verið skólameistara. Um sé að ræða opinbert fé sem sé greitt kennurum eftir ákvörðun skólameistara. Í ljós hafi komið að kennurum hafi verið mismunað með greiðslur og því sé óskað eftir öllum gögnum málsins með vísun í upplýsingalög.

Athugasemdir kæranda voru kynntar skólanum þann 23. apríl 2021 en úrskurðarnefndin óskaði þá jafnframt eftir umsögn frá skólanum um kæruna og afritum af umbeðnum gögnum. Í umsögn Borgarholtsskóla, dags. 7. maí 2021, kemur fram að skólinn telji sig hafa eftir fremsta megni orðið við beiðnum kæranda og jafnframt lagt sig fram um að brjóta ekki persónuverndarlög eða önnur lagaákvæði. Í umsögninni segir að skólinn telji sig ekki hafa heimild til að veita upplýsingar um heildarlaun starfsmanna skólans, sbr. 2. lið beiðni kæranda. Þá segir varðandi 3. liðinn að gögn sem liggi að baki yfirlýsingu fjármálastjóra um yfirvinnu séu vinnugögn við undirbúning jafnlaunavottunar. Borgarholtsskóli standi í þeirri trú að ekki beri að veita aðgang að almennum vinnuskjölum. Hvað varði þau gögn sem óskað sé eftir undir 4. lið beiðninnar segir að skólinn hafi lítið að gera með birtingarform ársreikninga og ekkert sé því til fyrirstöðu að birta umbeðna sundurliðun. Varðandi 5. liðinn kemur fram að svokölluð sanngirnisnefnd hafi aldrei verið skipuð og hafi þar af leiðandi ekkert erindisbréf. Yfirstjórn skólans hafi ákveðið að einn fulltrúi í yfirstjórninni, þ.e. áfangastjóri, skyldi hóa saman fjórum kennurum úr ólíkum deildum til samráðs um hugmyndir. Málið hafi síðan verið rætt á fundi yfirstjórnar þar sem áfangastjóri hafi lagt fram minnisblað og skólameistari tekið ákvörðun út frá þeirri umræðu og upplýsingum um fyrirkomulag viðbótarlauna. Það fyrirkomulag hafi öllum verið gert ljóst á starfsmannafundi og ekkert undanskilið í þeim efnum. Greidd hafi verið viðbótarlaun að ákveðinni upphæð eftir starfshlutfalli starfandi kennara á viðkomandi önn og hafi það þótt sanngjarnt.

Umsögn skólans var send kæranda með bréfi, dags. 10. maí 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 25. maí 2021, er því mótmælt að skólameistara sé óheimilt að birta heildarlaun stjórnenda með vísan til 4. tölul. 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Varðandi 3. liðinn segir kærandi að gögnin geti ekki talist vinnugögn þar sem þau hafi verið búin til vegna jafnlaunavottunar skólans og niðurstöður kynntar á fjölmennum fundi starfsmanna. Þar sem búið sé að „afhenda“ gagnið öðrum eða kynna niðurstöðurnar á fundi þá teljist gagn ekki lengur vinnugagn. Einnig bendir kærandi á að samkvæmt 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga skuli veita aðgang að skjali komi upplýsingar ekki fram annars staðar og almenningur eigi rétt á að kynna sér gögn þar sem fram komi lýsing á vinnureglum eða stjórnsýsluframkvæmd á viðkomandi sviði. Varðandi 4. liðinn bendir kærandi á að þó að skólameistari segist tilbúinn að birta umbeðna sundurliðun hafi hún enn ekki verið afhent. Þá komi heildarlaunakostnaður áranna 2015 og 2016 ekki fram á ársreikningi þeirra ára. Varðandi 5. liðinn hafi skólameistari rakið málið með sanngirnisnefnd og minnist á mörg gögn en neiti að afhenda gögnin. Yfirstjórn skólans hafi „ákveðið“ (væntanlega sé til fundargerð), áfangastjóri hafi lagt fram „minnisblað”, skólameistari hafi tekið „ákvörðun“ um fyrirkomulag viðbótarlauna. og greidd hafi verið viðbótarlaun að „ákveðinni upphæð“. Því óski kærandi eftir að fá í það minnsta eftirfarandi gögn: a) allar fundargerðir yfirstjórnar sem fjalli um málefni sanngirnisnefndar, b) minnisblað áfangastjóra, c) afrit af ákvörðun skólameistara, d) lista með upphæðum sem greiddar hafi verið og önnur gögn um sanngirnisnefndina, með vísun til 5. mgr. 7. gr. upplýsingalaganna.

Niðurstaða

1.
Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum sem varða launamál starfsmanna Borgarholtsskóla. Kærandi setti beiðni sína, dags. 17. nóvember 2020, fram í fimm liðum og sneri sá fyrsti að föstum launum og föstum greiðslum til starfsmanna. Við meðferð málsins veitti skólinn kæranda upplýsingar þar að lútandi og kemur sá hluti kærunnar því ekki til frekari umfjöllunar.

2.
Í beiðni kæranda var í öðru lagi óskað eftir gögnum með upplýsingum um launakjör æðstu stjórnenda, með vísan til 4. tölul. 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Í svörum Borgarholtsskóla sagði að skólameistari teldist einn til æðstu stjórnenda og að upplýsingar varðandi launakjör hans væru aðgengilegar á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins eins og allra annarra embættismanna ríkisins en skólinn lét fylgja tengla á reglur um starfskjör forstöðumanna, grunnmat launa og röðun starfa í launaflokka. Í öðru svari skólans kom fram að skólinn teldi sér ekki heimilt að veita upplýsingar um heildarlaun einstakra starfsmanna skólans.

Réttur kæranda til aðgangs að gögnum er reistur á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga þar sem kveðið er á um rétt almennings til aðgangs að gögnum. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. sömu laga tekur sá réttur ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Frá þeirri reglu eru undantekningar sem meðal annars koma fram í 2. mgr. 7. gr. laganna. Samkvæmt 3. tölul. ákvæðisins er skylt að veita almenningi upplýsingar um föst launakjör starfsmanna. Þá er skylt að veita almenningi upplýsingar um launakjör æðstu stjórnenda samkvæmt 4. tölul.

Í athugasemdum við 7. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 140/2012 er tekið fram að með föstum launakjörum er m.a. átt við ráðningarsamninga og aðrar ákvarðanir eða samninga sem kunna að liggja fyrir um föst laun starfsmanns. Rétturinn til aðgangs nær þannig til gagna sem geyma upplýsingar um allar fastar greiðslur sem starfsmaðurinn á rétt til. Jafnframt felst í þessu að óheimilt er að veita upplýsingar um greidd heildarlaun opinbers starfsmanns, hvort sem þau eru hærri en föst laun hans, t.d. sökum unninnar yfirvinnu, eða þá lægri af einhverjum ástæðum, svo sem vegna launafrádráttar af sérstökum ástæðum. Hvað varðar upplýsingar um launakjör æðstu stjórnenda hjá stjórnvöldum segir hins vegar í athugasemdunum að veita skuli upplýsingar um greidd heildarlaun. Samkvæmt framangreindu á almenningur rýmri rétt til aðgangs að upplýsingum um launakjör æðstu stjórnenda heldur en annarra opinberra starfsmanna.

Um afmörkun á því hvaða starfsmenn teljist til æðstu stjórnenda hjá ríkinu segir:

„Við mat á því hvort um er að ræða æðstu stjórnendur hjá ríkinu má almennt ganga út frá því að um sé að ræða forstöðumenn ríkisstofnana. Er í því sambandi eðlilegt við nánari afmörkun að líta til fyrirmæla 2. tölul. og 5.–13. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Utan þeirrar upptalningar falla þó almennir lögreglumenn og sendifulltrúar í utanríkisþjónustunni. Til æðstu stjórnenda ber hér einnig að telja skrifstofustjóra í Stjórnarráðinu, enda fara þeir alla jafna með stjórnunarheimildir gagnvart öðrum starfsmönnum í umboði ráðuneytisstjóra, sbr. 17. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, með síðari breytingum.“

Í 13. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins segir að forstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja, áður ótaldir, teljist starfsmenn ríkisins. Þá sker ráðherra úr því hvaða starfsmenn falla undir 13. tölul. 1. mgr. sbr. 2. mgr. 22. gr. laganna og skal hann fyrir 1. febrúar ár hvert birta lista í Lögbirtingarblaði yfir þá starfsmenn. Samkvæmt lista yfir forstöðumenn, dags. 1. febrúar 2021, sem fjármála- og efnahagsráðuneytið birti, er skólameistari Borgarholtsskóla forstöðumaður skólans.

Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla segir að ráðherra skipi skólameistara í framhaldsskólum til fimm ára í senn. Þá veitir skólameistari framhaldsskóla forstöðu sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Af athugasemdum við 6. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 92/2008 er einnig ljóst að „forræði og ábyrgð skólameistara sem forstöðumanns ríkisstofnunar og almennt stjórnunarumboð hans er skýrt og telst áþekkt því sem almennt gerist um forstöðumenn ríkisstofnana.“

Í ljósi þessa telst skólameistari Borgarholtsskóla einn til æðstu stjórnenda skólans og er skólanum skylt að veita upplýsingar um heildarlaun hans. Þannig nægir ekki að vísa á almennar upplýsingar um launakjör, svo sem launatöflur embættismanna. Verður afgreiðsla skólans að þessu leyti felld úr gildi og lagt fyrir skólann að veita kæranda aðgang að umbeðnum upplýsingum. Þetta ber skólanum að gera jafnvel þótt þær sé ekki að finna í gögnum sem tilheyra tilteknu máli, sbr. 5. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, heldur ber að taka þær sérstaklega saman í tilefni af beiðni kæranda.

Hvað varðar beiðni kæranda um upplýsingar um laun fjármálastjóra skólans er skylt að veita upplýsingar um föst launakjör hans eins og annarra opinberra starfsmanna, en ætla má að það hafi þegar verið gert, sbr. umfjöllun um 1. lið í beiðni kæranda.

3.
Í þriðja lagi óskaði kærandi eftir gögnum sem lágu að baki yfirlýsingu fjármálastjóra um yfirvinnu á einstaka sviðum. Borgarholtsskóli synjaði beiðni kæranda með vísan til þess að þau gögn sem legið hefðu að baki yfirlýsingu fjármálastjóra hefðu verið vinnugögn við undirbúning jafnlaunavottunar.

Samkvæmt 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga eru vinnugögn undanþegin upplýsingarétti. Hugtakið vinnugagn er skilgreint í 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga en samkvæmt málsgreininni eru vinnugögn þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Í 2. málslið málsgreinarinnar er tekið fram að gögn teljist ekki lengur til vinnugagna hafi þau verið afhent öðrum, nema afhending hafi verið til eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu. Ákvæði 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr. laganna, felur í sér undantekningu frá meginreglunni um rétt almennings til aðgangs að gögnum sem skýra ber þröngri lögskýringu.

Í athugasemdum við 8. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir um 1. mgr. ákvæðisins að stjórnvöldum sé falið að taka ýmsar matskenndar ákvarðanir og móta tillögur um áætlanir eða aðrar aðgerðir. Eins geti verið að stjórnvöld þurfi að undirbúa ýmsar aðrar ákvarðanir, svo sem um samninga við einkaaðila. Oft geymi lög ekki að öllu leyti þau skilyrði sem þurfi að fullnægja svo slíkar ákvarðanir verði teknar, eða þau sjónarmið eða markmið sem að skuli stefnt. Þegar stjórnvöld standi frammi fyrir slíkum verkefnum verði þau iðulega að vega og meta ólík sjónarmið og velja svo á hvaða grundvelli úr máli skuli leyst. Af því leiði að það taki einatt einhvern tíma að móta afstöðu til fyrirliggjandi mála og á því tímabili kunni ólík sjónarmið að hafa mismunandi vægi og breytast, t.d. ef fram komi nýjar upplýsingar. Í athugasemdunum er tekið fram að gögn sem til verði í slíku ferli þurfi ekki að endurspegla réttilega að hvaða niðurstöðu sé stefnt. Því sé eðlilegt að stjórnvöldum sé heimilt að hafna aðgangi að þeim þótt stjórnvöldum sé einnig á grundvelli reglunnar um aukinn aðgang að gögnum heimilt að afhenda slík gögn, standi reglur um þagnarskyldu því ekki í vegi. Enn fremur er tekið fram að þessi afmörkun á upplýsingaréttinum sé í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

Í athugasemdum við 8. gr. kemur enn fremur fram að til þess að skjal teljist vinnugagn þurfi þremur skilyrðum að vera fullnægt. Gagn þurfi að vera undirbúningsgagn í reynd, það skuli útbúið eða ritað af starfsmönnum stjórnvaldsins sjálfs og það megi ekki hafa verið afhent öðrum. Tekið er fram að í öðru skilyrðinu felist það m.a. að gögn sem útbúin séu af utanaðkomandi sérfræðingum, svo sem verktökum, fyrir stjórnvald teljist ekki til vinnugagna. Í þriðja skilyrðinu, þ.e. að gagn hafi ekki verið afhent öðrum, felst það m.a. að hafi skjal verið afhent einkaaðila eða stjórnvaldi t.d. með tölvupósti eða öðrum hætti, teljist það almennt ekki lengur til vinnugagna.

Af ákvæði 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga leiðir að meta þarf heildstætt á grundvelli framangreindra sjónarmiða hvort umbeðin gögn uppfylli það skilyrði að teljast í reynd vinnugögn. Teljist þau til vinnugagna að hluta eða öllu leyti þarf síðan að taka afstöðu til þess hvort veita beri aðgang að þeim á grundvelli 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarnefndin fékk afhent afrit af minnisblaði fjármálastjóra sem ber yfirskriftina „Heildarlaun og það sem hefur áhrif á þau“ þar sem meðal annars er fjallað um yfirvinnu, sbr. beiðni kæranda. Í minnisblaðinu eru nokkrar staðreyndir um launamál starfsmanna skólans en engar tillögur, sjónarmið eða annað sem getur beinlínis talist hluti af undirbúningi ákvörðunar í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Verður skjalið því ekki undanþegið upplýsingarétti almennings á grundvelli 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin fær ekki séð að aðrar takmarkanir upplýsingalaga eigi við um það og er Borgarholtsskóla því gert að veita kæranda aðgang að minnisblaðinu samkvæmt meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna.

4.
Í beiðni kæranda var óskað eftir gögnum úr ársskýrslu um laun, launatengd gjöld og starfsmannakostnað í Borgarholtsskóla vegna áranna 2015 og 2016. Í svari Borgarholtsskóla, dags. 23. mars 2021 var kæranda bent á ársreikninga á vef skólans en í skýringum Borgarholtsskóla til úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. maí 2021, kom m.a. fram að ekkert væri því til fyrirstöðu að birta umbeðna sundurliðun launa- og starfsmannakostnaðar fyrir árin 2015 og 2016. Þá fékk úrskurðarnefndin afhent afrit af umbeðnum gögnum og beinir nefndin því til skólans að afhenda kæranda gögnin sömuleiðis, hafi það ekki þegar verið gert.

5.
Loks óskaði kærandi jafnframt eftir öllum gögnum um skipun, störf og niðurstöðu sanngirnisnefndar, sem bregðast átti við auknu álagi og kostnaði kennara vegna Covid-19. Af hálfu skólans hefur komið fram að eitt skjal heyri undir þessa beiðni en að öðru leyti hafi undirbúningur málsins verið óformlegur. Ákvörðun skólans um að synja beiðni kæranda um aðgang að skjalinu byggist á því að það sé vinnugagn og þar með undanþegið upplýsingarétti á grundvelli 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, sbr. 8. gr. laganna. Í skjalinu sé ekki að finna endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls.

Borgarholtsskóli afhenti úrskurðarnefndinni skjalið sem áfangastjóri lagði fram en þar eru tillögur að greiðslum, forsendur og útreikningur vegna viðbótarlauna starfsmanna skólans. Að mati úrskurðarnefndarinnar ber skjalið með sér að vera undirbúningsgagn vegna hugsanlegra ákvarðana eða lykta máls og er ekki að sjá að það hafi verið sent út fyrir skólann eða að það stafi frá utanaðkomandi aðilum. Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til annars en að staðfesta ákvörðun skólans að þessu leyti.

Úrskurðarorð:

Borgarholtsskóla er skylt að veita kæranda, A, aðgang að eftirfarandi gögnum:

1. Upplýsingum um launakjör æðsta stjórnanda.
2. Skjali fjármálastjóra sem ber yfirskriftina „Heildarlaun og það sem hefur áhrif á þau.“
3. Gögnum sem sýna sundurliðun launakostnaðar vegna áranna 2015 og 2016.

Ákvörðun Borgarholtsskóla, dags. 22. desember 2020, um að synja beiðni kæranda um skjal vegna undirbúnings greiðslu viðbótarlauna er staðfest.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigríður Árnadóttir Símon SigvaldsonÚrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum