Hoppa yfir valmynd

1046/2021. Úrskurður frá 29. nóvember 2021.

Úrskurður

Hinn 29. nóvember 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1046/2021 í máli ÚNU 21030005.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 5. mars 2021, fór A, f.h. Stapa ehf., fram á endurupptöku máls ÚNU 18050022 sem lauk þann 5. apríl 2019 með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 779/2019. Í málinu vísaði úrskurðarnefndin frá kæru vegna afgreiðslu Vegagerðarinnar á beiðni kæranda um aðgang að glærum sem starfsmaður Vegagerðarinnar sýndi á erlendri ráðstefnu á þeim grundvelli að umbeðin gögn teldust ekki stafa frá stofnuninni. Er það krafa kæranda að úrskurðarnefndin úrskurði um skyldu Vegagerðarinnar til þess að afhenda honum umrædd gögn.

Beiðni sinni til stuðnings vísar kærandi í álit umboðsmanns Alþingis frá 3. mars 2021, í máli nr. 10055/2019, en þar komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að úrskurðarnefndin hefði ekki leyst úr máli kæranda í samræmi við lög. Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til nefndarinnar að hún tæki málið til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá kæranda, og leysti úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem lýst var í álitinu. Í beiðni kæranda, dags. 5. mars 2021, segir jafnframt að honum finnist úrskurðarnefndin ekki hafa staðið rétt að fyrri úrskurðum og ekki fært fyrir því nægilega sterk rök að synja honum um aðgang að umbeðnum gögnum.

Með erindi, dags. 22. mars 2021, upplýsti kærandi úrskurðarnefndina um að í kjölfar álits umboðsmanns hefði kærandi verið í samskiptum við Vegagerðina. Þann 5. mars 2021 sendi kærandi Vegagerðinni bréf þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um viðbrögð Vegagerðarinnar við áliti umboðsmanns og fór fram á að fá glærurnar afhentar. Þann 7. mars 2021 óskaði kærandi eftir frekari upplýsingum og gögnum. Vegagerðin svaraði kæranda þann 15. mars 2021 og afhenti honum jafnframt glærurnar. Í erindi sínu til úrskurðarnefndarinnar segir kærandi að þrátt fyrir þetta telji hann óhjákvæmilegt að nefndin afgreiði beiðni um endurupptöku í samræmi við tilmæli umboðsmanns. Annað væri ekki ásættanlegt þar sem kærandi hafi í framhaldinu óskað eftir því að Vegagerðin afhenti honum fleiri glærur sem viðkomandi starfsmaður hefði sýnt á öðrum ráðstefnum sem stofnunin hefði kostað hann á. Tæki úrskurðarnefndin málið ekki til málefnalegrar afgreiðslu myndi hann kæra slíkan gjörning til umboðsmanns Alþingis og fylgja þeirri kæru til fullnustu.

Málsmeðferð

Í ljósi niðurstöðu umboðsmanns Alþingis frá 3. mars 2021, í máli nr. 10055/2019, taldi úrskurðarnefnd um upplýsingamál rétt að fallast á endurupptökubeiðni kæranda.

Í framangreindu áliti umboðsmanns Alþingis kom m.a. fram að úrskurðarnefndinni hefði borið að leggja mat á efnisleg tengsl innihalds glæranna við viðfangsefni starfsmannsins hjá Vegagerðinni og þar með hvort og hvernig hann greindi þar frá verkefnum stofnunarinnar og hvort slík upplýsingagjöf teldist þáttur í starfi hennar. Með erindi, dags. 29. apríl 2021, óskaði úrskurðarnefndin því eftir því að Vegagerðin upplýsti nefndina um hvort og þá hvaða efnislegu tengsl innihald glæranna hefði við störf og verkefni umrædds starfsmanns hjá Vegagerðinni.

Í umsögn Vegagerðarinnar, dags. 12. maí 2021, segir að stofnunin hafi synjað beiðni kæranda um að afhenda glærurnar á þeim grundvelli að þær væru eign viðkomandi starfsmanns. Vegagerðin vísar til þess að í leiðbeiningum Þjóðskjalasafns komi fram að ekki eigi að vista í skjalasafni ráðstefnugögn vegna ráðstefna sem ekki séu haldnar af viðkomandi stofnun eða varði ekki beint starfsemi hennar. Skylda til afhendingar viðkomandi gagna sé því ekki fyrir hendi. Tekið er fram að stofnunin leggist ekki gegn afhendingu ráðstefnuglæra almennt, heimili viðkomandi starfsmaður afhendinguna. Í ljósi framangreinds sé það afstaða Vegagerðarinnar, þrátt fyrir álit umboðsmanns Alþingis, að fyrri afgreiðsla á málinu hafi verið lögum samkvæm.

Þá fjallaði Vegagerðin um tengsl glæranna við störf starfsmannsins hjá stofnuninni og rakti umfjöllunarefni fyrirlestrarins í umsögn sinni til úrskurðarnefndarinnar. Þar sagði m.a. að það hefði þýðingu fyrir starf starfsmannsins hjá Vegagerðinni að hann tæki virkan þátt í ráðstefnum á sínu fagsviði í því skyni að afla sér nýrrar þekkingar og tengsla í fræðaheiminum. Þekking sem þannig væri aflað gæti haft þýðingu við úrlausn vandamála í verkefnum hans hjá Vegagerðinni. Í fyrirlestrinum hefði þó ekki verið vikið sérstaklega að tilgreindum verkefnum starfsmannsins hjá Vegagerðinni. Fyrirlesturinn hefði ekki haft beina tengingu við starfsemi Vegagerðarinnar heldur alfarið verið hugverk viðkomandi starfsmanns og meðfyrirlesara hans. Í umsögninni segir jafnframt að Vegagerðin hafi, að fengnu samþykki starfsmannsins, veitt kæranda aðgang að ráðstefnuglærunum. Því sé það afstaða Vegagerðarinnar að kærandi hafi enga hagsmuni af því að fá málið endurupptekið.

Umsögn Vegagerðarinnar var kynnt kæranda með erindi, dags. 19. maí 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar.

Í athugasemdum kæranda, dags. 31. maí 2021, lýsir kærandi því að talsvert af því efni sem sýnt hafi verið í ráðstefnuerindi starfsmanns Vegagerðarinnar og meðfyrirlesara hans sé ekki þeirra hugverk heldur kæranda, þrátt fyrir staðhæfingar í umsögn Vegagerðarinnar. Þá fjallar kærandi um verkefni sín og reynslu af grjótnámurannsóknum og segir að hann en ekki viðkomandi starfsmaður Vegagerðarinnar hafi borið hitann og þungann af grjótnámurannsóknum fyrir þróun íslenska Bermugarðsins sem fjallað var um í fyrirlestrinum.

Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Í máli þessu óskaði kærandi eftir því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál endurupptæki mál ÚNU 18050022 sem lauk þann 5. apríl 2019 með úrskurði nr. 779/2019 og gerði Vegagerðinni skylt að afhenda þær glærur sem fjallað er um í umræddum úrskurði

Í ljósi niðurstöðu umboðsmanns Alþingis frá 3. mars 2021 í máli nr. 10055/2019 taldi úrskurðarnefndin rétt að verða við endurupptökubeiðni kæranda og taka málið til nýrrar meðferðar. Í umræddu áliti umboðsmanns Alþingis var komist að þeirri niðurstöðu að úrskurðarnefndin hefði ekki rannsakað málið nægilega vel og leitaði því nefndin að nýju til Vegagerðarinnar um frekari upplýsingar líkt og rakið er í málsmeðferðarkafla hér að framan.

Við hina endurteknu málsmeðferð kom í ljós að Vegagerðin hefur nú afhent kæranda þær glærur sem fjallað var um í máli ÚNU 18050022 sem lauk þann 5. apríl 2019 með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 779/2019 og fjallað var um í áliti umboðsmanns Alþingis.

Kærandi telur engu að síður tilefni til þess að úrskurðarnefndin úrskurði í málinu þar sem slíkur úrskurður kunni að hafa þýðingu fyrir afgreiðslu Vegagerðarinnar á frekari beiðnum um gögn sem hann hefur nú lagt fram eða hyggst leggja fram hjá stofnuninni.

Samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012 er heimilt að bera „synjun beiðni um aðgang að gögnum“ samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Þegar svo háttar til að stjórnvald afhendir umbeðin gögn til kæranda er ekki litið svo á að honum hafi verið synjað um gögnin og leiðir það til þess að kæru er vísað frá úrskurðarnefndinni. Gildir þetta hvort sem stjórnvald fellst á afhendingu fyrir eða eftir kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Að því er varðar aðrar beiðnir kæranda um gögn hjá Vegagerðinni, eða þær beiðnir sem hann kann að leggja fram í framtíðinni, er það að segja að honum er eftir atvikum heimilt að kæra synjanir á þeim til úrskurðarnefndar um upplýsingamál séu kæruskilyrði samkvæmt lögum að öðru leyti uppfyllt.

Í ljósi framangreinds verður ekki hjá því komist að vísa erindi kæranda frá kærunefndinni.

Úrskurðarorð:

Beiðni A, dags. 5. mars 2021, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingmál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður ÁrnadóttirÚrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum