Hoppa yfir valmynd

1054/2021. Úrskurður frá 30. desember 2021.

Úrskurður

Hinn 30. desember 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1054/2021 í máli ÚNU 21050016.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 20. maí 2021, kærði A ákvörðun Barnaverndarstofu um synjun á beiðni um aðgang að gögnum varðandi vistun hennar á meðferðarheimilinu Laugalandi.

Með gagnabeiðni kæranda, dags. 6. apríl 2021, var óskað eftir öllum þeim gögnum sem Barnaverndarstofa kynni að búa yfir um mál kæranda á árabilinu 2000-2004.

Með bréfi, dags. 23. apríl 2021, tók Barnaverndarstofa ákvörðun um afhendingu hluta umbeðinna gagna. Í bréfinu kom m.a. fram að í tilteknum gögnum hefðu viðkvæmar persónuupplýsingar sem vörðuðu aðra verið afmáðar á grundvelli 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 enda væri um að ræða einkamálefni annarra. Í bréfinu var kærandi jafnframt upplýst um að Barnaverndarstofa teldi rétt að synja í heild aðgangi að tilteknum gögnum er vörðuðu kæranda og veru hennar á meðferðarheimilinu á árabilinu 2000-2004. Á meðal þeirra gagna sem Barnaverndarstofa synjaði kæranda um aðgang að eru handritaðar vaktaskýrslur rekstraraðila meðferðarheimilisins og handritaðar fundargerðir starfsmannafunda á árunum 2001-2003. Ákvörðunin var byggð á 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, þar sem skýrslurnar og fundargerðirnar hefðu að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra skjólstæðinga heimilisins á tímabilinu.

Í kæru kemur fram að kærð sé synjun á afhendingu eftirfarandi gagna:

1. Handritaðra vaktskráninga/dagbókaskráninga starfsmanna á Laugalandi, dags. 4. september 2001 – 11. maí 2002.
2. Handritaðra vaktskráninga/dagbókaskráninga starfsmanna á Laugalandi, dags. 13. maí 2002 – 17. október 2002.
3. Handritaðra fundargerða starfsmannafunda, dags. 4. september 2001 – 2. maí 2002.
4. Handritaðra fundargerða starfsmanna, dags. 16. maí 2002 – 19. maí 2003.

Kærandi gerir athugasemdir við þau rök Barnaverndarstofu fyrir synjun á aðgangi að umræddum gögnum að í þeim sé að finna upplýsingar um einkamálefni annarra þeirra sem vistaðir voru á Laugalandi á tímabilinu. Í því sambandi bendir kærandi á að á grundvelli 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga hafi viðkvæmar persónuupplýsingar sem varða aðra en kæranda verið afmáðar úr þeim skjölum sem henni voru afhent. Kærandi sættist ekki á þá túlkun Barnaverndarstofu að ekki sé hægt að gera slíkt hið sama við þau gögn sem kæranda var synjað um afhendingu á. Þá telur kærandi röksemdir stofunnar um að hagsmunir annarra mæli með því að upplýsingum um kæranda sé haldið frá henni fráleitar og bendir á að um þessar mundir sé hafin rannsókn á því hvort kærandi og aðrar stúlkur sem vistaðar voru á meðferðarheimilinu hafi verið beittar ofbeldi og harðræði. Slík rannsókn sé trauðla sett af stað af léttúð eða án þess að ástæða liggi fyrir því. Kærandi geti enda vitnað um það og hafi gert svo opinberlega í viðtali við Stundina, að hún hafi sannarlega verið beitt ofbeldi og harðræði á meðan vistun stóð á Laugalandi. Minnir kærandi á að sú vistun hafi verið á ábyrgð Barnaverndarstofu. Hagsmunir kæranda séu því gríðarlega miklir af því að fá í hendur gögn um eigið líf, sem hugsanlega varpi ljósi á það ofbeldi sem kærandi hafi orðið fyrir af hálfu fólks sem Barnaverndarstofa bar ábyrgð á. Telur kærandi að synjun Barnaverndarstofu standist ekki lög og fer fram á að stofunni verði gert að afhenda umbeðnar upplýsingar.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 20. maí 2021, var Barnaverndarstofu kynnt kæran og veittur frestur til að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn Barnaverndarstofu, dags. 3. júní 2021, kemur fram að umbeðin gögn innihaldi viðkvæmar persónuupplýsingar sem teljist til einkamálefnis þeirra einstaklinga sem í hlut eiga, þ.e. fyrrum skjólstæðinga meðferðarheimilisins Laugalands, sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Sé það jafnframt mat Barnaverndarstofu að hagsmunir annarra einstaklinga, sem upplýsingarnar varða, vegi þyngra en hagsmunir kæranda af aðgangi að gögnunum. Þá varði gögnin mestmegnis aðra skjólstæðinga meðferðarheimilisins en aðeins lítill hluti þeirra varði kæranda. Sé það jafnframt mat stofunnar að eðli og framsetning umbeðinna upplýsinga sé slíkt að ekki sé unnt að afmá viðkvæmar persónuupplýsingar um aðra einstaklinga. Um sé að ræða handrituð gögn þar sem upplýsingum um skjólstæðinga meðferðarheimilisins séu í mörgum tilvikum settar fram án skýrrar aðgreiningar milli einstaklinga auk þess sem handritun þeirra geri það að verkum að upplýsingarnar séu oft á tíðum torlæsilegar og erfitt að greina merkingu þeirra. Það sé því afstaða Barnaverndarstofu að kærandi eigi ekki rétt á að fá aðgang að vaktskráningum/dagbókarskráningum og fundargerðum starfsmanna á því tímabili sem kærandi var vistuð á meðferðarheimilinu Laugalandi, með vísan til 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.

Með erindi, dags. 3. júní 2021, var umsögn Barnaverndarstofu kynnt kæranda og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að vaktskráningum/dagbókarskráningum og fundargerðum starfsmanna á því tímabili sem hún var vistuð á meðferðarheimilinu Laugalandi. Ákvörðun Barnaverndarstofu um að synja beiðni kæranda byggir á því að óheimilt sé að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum með vísan til 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Auk þess sé eðli og framsetning umbeðinna upplýsinga slíkt að ekki sé unnt að afmá viðkvæmar persónuupplýsingar um aðra einstaklinga.

Í 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga segir að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafi að geyma upplýsingar um hann sjálfan Réttur samkvæmt 1. mgr. 14. gr. takmarkast hins vegar af 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Í ákvæðinu segir að heimilt sé að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum.

Í athugasemdum við 3. mgr. 14. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga kemur fram að í aðstæðum líkt og þeim sem uppi eru í máli þessu sé líklegt að reyni á andstæða hagsmuni, annars vegar þess sem upplýsinga óskar og hins vegar annarra þeirra sem hlut eiga að máli og kunna að eiga réttmæta hagsmuni af því að tilteknum atriðum er þá varða sé haldið leyndum. Kjarni reglunnar í 3. mgr. felist í því að vega skuli og meta þessa gagnstæðu hagsmuni, en síðarnefndu hagsmunirnir séu að meginstefnu hinir sömu og liggi að baki 9. gr. upplýsingalaga. Þá segir orðrétt í athugasemdum:

„Aðgangur að gögnum verður því aðeins takmarkaður ef talin er hætta á því að einkahagsmunir skaðist ef aðila yrði veittur aðgangur að upplýsingum. Aðila verður því ekki synjað um aðgang að gögnum á grundvelli hugleiðinga um að aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga sé almennt til þess fallinn að valda einhverju tjóni, heldur verður að leggja mat á aðstæður í hverju máli fyrir sig. Regla 3. mgr. byggist á því að við hagsmunamatið sé ljóst hverjir verndarhagsmunirnir eru. Oft verður því að leita álits þess sem á andstæðra hagsmuna að gæta, en yfirlýsing hans um að hann vilji ekki að upplýsingarnar séu veittar er þó ein og sér ekki nægjanleg ástæða til að synja beiðni um upplýsingar.“

Í 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga segir að ef ákvæði 6.–10. gr. laganna um takmarkanir á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess. Með vísan til þessa ákvæðis hefur úrskurðarnefnd margsinnis kveðið á um að stjórnvöld skuli afhenda tiltekinn hluta umbeðins gagns eða lagt fyrir stjórnvöld að strika yfir ákveðnar upplýsingar og afhenda gagn þannig.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fékk afhent gögn málsins og hefur kynnt sér efni þeirra. Nefndin fellst á það með Barnaverndarstofu að í gögnunum er að finna margvíslegar upplýsingar um einkamálefni annarra en kæranda, í skilningi 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, sbr. 9. gr. laganna, sem stofnuninni er óheimilt að afhenda kæranda. Að mati nefndarinnar hefur kærandi hins vegar sérstaklega ríka hagsmuni af því að fá aðgang að gögnunum að því leyti sem þau fjalla um hana sjálfa og aðstæður hennar á meðferðarheimilinu. Þannig gilda önnur sjónarmið um rétt kæranda til aðgangs að gögnunum heldur en rétt almennings til aðgangs að sömu gögnum.

Í úrskurði nefndarinnar nr. 1039/2021 frá 18. október 2021 staðfesti úrskurðarnefndin synjun Barnaverndarstofu á beiðni blaðamanns um dagbókarskráningar/vaktskráningar frá sama meðferðarheimili frá tímabilinu 1997-2007 með vísan til undantekningarreglu 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt ákvæðinu má í undantekningartilfellum hafna beiðni ef meðferð hennar tæki svo mikinn tíma eða krefðist svo mikillar vinnu að ekki teldist af þeim sökum fært að verða við henni. Í því máli var um að ræða 1.800 blaðsíður sem Barnaverndarstofa hefði þurft að fara yfir í því skyni að afmá upplýsingar um einkamálefni einstaklinga, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Í því máli sem nú er til meðferðar er um mun styttra tímabil að ræða eða rúmlega eitt og hálft ár í stað tíu ára og er blaðsíðufjöldinn sem er undir í þessu máli því töluvert minni eða 359 síður. Í því máli sem lauk með úrskurði nr. 1039/2021 hefði þar að auki lítið staðið eftir, hefðu allar upplýsingar um einkamálefni verið afmáðar, en í því máli sem nú er til meðferðar er eins og áður segir hluti af umbeðnum gögnum umfjöllun um málefni kæranda sjálfs.

Úrskurðarnefndin fellst ekki á það með Barnaverndarstofu að eðli og framsetning umræddra gagna sé slíkt að það sé ekki hægt að afmá viðkvæmar persónuupplýsingar um aðra einstaklinga. Að mati nefndarinnar skortir því á að tekin hafi verið efnisleg afstaða til beiðni kæranda í samræmi við upplýsingalög. Verður ekki hjá því komist að fella ákvörðun Barnaverndarstofu úr gildi og leggja fyrir stofnunina að taka málið til nýrrar afgreiðslu þar sem farið verður efnislega yfir gögnin og afmáðar upplýsingar um einkamálefni annarra, sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Barnaverndarstofu, dags. 23. apríl 2021, um að synja beiðni kæranda, A, um aðgang að gögnum er felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.

Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum