Hoppa yfir valmynd

1076/2022. Úrskurður frá 31. mars 2022

Hinn 31. mars 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1076/2022 í máli ÚNU 21100009.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 20. október 2021, kærði A, f.h. Félags um foreldrajafnrétti, synjun Hagstofu Íslands á beiðni um aðgang að upplýsingum um foreldra sem hafa andast. Með erindi, dags. 19. október 2021, óskaði formaður Félags um foreldrajafnrétti eftir aðgangi að upplýsingum í tengslum við töfluna „Fjöldi foreldra sem andast eftir kyni, aldursflokkum og dánarorsök samtalanna áranna 2009–2019“, sem finna mætti á vef Hagstofunnar. Nánar tiltekið var þess farið á leit að fá að sjá töfluna þannig að upplýsingarnar væru sundurgreindar eftir árum, þ.e. fyrir hvert ár á bilinu 2009 til 2019 auk ársins 2020. Beiðninni var synjað sama dag. Kom þar fram að Hagstofa Íslands gæfi ekki út tölurnar sundurgreindar eftir árum þar sem þá yrðu upplýsingarnar persónugreinanlegar.

Í kæru kemur fram að krafist sé aðgangs að upplýsingum sem sýni fjöldatölur fyrir hvert ár framangreinds tímabils, fyrir allar flokkunarbreytur sem liggja töflunni til grundvallar. Ástæða þess að félagið óski eftir upplýsingunum sé sú að það vinni að rannsókn á fjárhags- og heilsufarslegum högum foreldra á Íslandi. Einn þáttur rannsóknarinnar sé að kanna dánarmein (tíðni og dreifingu) einstaklinga sem eigi börn. Meta þurfi dánartíðni og tíðni einstakra dánarmeina foreldra í samanburði við tíðni og dreifingu meðal samanburðarhóps af sama kyni og aldursbili. Vísbendingar séu um tengsl efnahagsástands við tíðni ákveðinna dánarmeina en árlegar tölur séu forsenda fyrir því að hægt sé að full kanna slík tengsl og hvort það að vera foreldri hafi áhrif umfram samanburðarhóp.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Hagstofu Íslands með erindi, dags. 21. október 2021, og stofnuninni veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna.

Umsögn Hagstofu Íslands barst úrskurðarnefndinni hinn 5. nóvember 2021. Í henni kemur fram að ákvörðun Hagstofunnar lúti að því að vinna ekki sérvinnslu um árlegar tölur með skiptingu í allar flokkunarbreytur fyrir fjölda foreldra sem andist eftir kyni, aldursflokkum og dánarorsökum. Í 1. mgr. 10. gr. laga um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, nr. 163/2007, komi fram að þagnarskylda ríki um allar upplýsingar sem Hagstofan safnar til hagskýrslugerðar og snerta tilgreinda einstaklinga eða lögaðila. Slíkar upplýsingar teljist trúnaðargögn og skuli þær einvörðungu notaðar til hagskýrslugerðar.

Þær hagtölur sem um ræðir hafi Hagstofan unnið á grundvelli gagna um dánarmein og lýðfræði íbúa. Hagtölurnar séu birtar á vef Hagstofunnar í töflu sem sýnir samtölur tímabilsins 2009–2019 vegna sex flokka dánarmeina. Við framsetningu gagna hafi verið lögð til grundvallar sjónarmið sem snúa að trúnaðarskyldum Hagstofunnar við miðlun hagskýrslna, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 163/2007 en þar stendur: „Við birtingu og miðlun hagskýrslna skal svo sem frekast er unnt komið í veg fyrir að rekja megi upplýsingar til tilgreindra einstaklinga eða lögaðila“. Vegna þess hve fá stök séu á bak við umrædda greiningu sé mikill greinanleiki í gögnum þó að persónuauðkenni séu fjarlægð og því mat Hagstofunnar að gögnum sé best miðlað með samanteknum upplýsingum fyrir lengra tímabil. Í því samhengi sé rétt að ítreka framangreinda lagaskyldu Hagstofunnar um að gæta að trúnaði við miðlun gagna sem enn fremur megi finna í öðrum samþykktum, lögum og reglum sem gilda um opinbera hagskýrslugerð. Þessi sömu sjónarmið eiga við um sérvinnslur og geti Hagstofan því ekki orðið við umræddri beiðni Félags um foreldrajafnrétti þar sem niðurstöður myndu fela í sér greinanleika umfram það sem ásættanlegt er.

Umsögn Hagstofunnar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 10. nóvember 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Í athugasemdum kæranda, dags. 25. nóvember 2021, er því hafnað að afhending upplýsinganna myndi fela í sér meiri greinanleika en það sem ásættanlegt geti talist. Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um árlegar tölur með skiptingu í allar flokkunarbreytur fyrir fjölda foreldra sem andast eftir kyni, aldursflokkum og dánarorsökum, sbr. töflu sem birt er á vef Hagstofu Íslands sem ber heitið „Fjöldi foreldra sem andast eftir kyni, aldursflokkum og dánarorsök samtala áranna 2009–2019“. Synjun Hagstofunnar byggist á 1. mgr. 10. gr. laga um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, nr. 163/2007, þar sem kveðið er á um þagnarskyldu um allar upplýsingar sem Hagstofan safnar til hagskýrslugerðar og snerta tilgreinda einstaklinga eða lögaðila.

Í 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga segir að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Með gagnályktun frá ákvæðinu verður að telja að sérstök þagnarskylduákvæði geti, ein og sér, komið í veg fyrir að aðgangur verði veittur að gögnum í vörslum stjórnvalda, hvað sem líður ákvæðum upplýsingalaga. Þegar um er að ræða sérákvæði laga um þagnarskyldu, þ.e. þegar upplýsingarnar sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar, fer það eftir efni og orðalagi þagnarskylduákvæðis hvernig slík ákvæði verða skýrð og samþýdd ákvæðum upplýsingalaga, eins og segir í almennum athugasemdum við frumvarpið sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012.

1. mgr. 10. gr. laga um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð hljóðar svo:

Þagnarskylda ríkir um allar upplýsingar sem Hagstofan safnar til hagskýrslugerðar og snerta tilgreinda einstaklinga eða lögaðila. Slíkar upplýsingar teljast trúnaðargögn og skulu þær einvörðungu notaðar til hagskýrslugerðar. Óheimilt er að afhenda þær öðrum stjórnvöldum, ákvæði annarra laga um aðgang stjórnvalda að gögnum víkja fyrir þessu ákvæði og þær lúta ekki aðgangi samkvæmt upplýsingalögum. Sama gildir um upplýsingar um einstaklinga og lögaðila í opinberum skrám sem Hagstofan nýtir til hagskýrslugerðar og upplýsingar sem verða til við samtengingu skráa skv. 9. gr. Þegar um stjórnsýsluupplýsingar er að ræða er Hagstofunni þó heimilt að veita hlutaðeigandi stjórnvaldi upplýsingar úr gögnum sem það hefur áður tekið þátt í að safna eða látið henni í té.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að líta beri á tilvitnað ákvæði sem sérstakt ákvæði um þagnarskyldu í framangreindum skilningi, að því er varðar upplýsingar sem Hagstofan safnar til hagskýrslugerðar og snerta tilgreinda einstaklinga eða lögaðila, auk upplýsinga um einstaklinga og lögaðila í opinberum skrám sem Hagstofan nýtir til hagskýrslugerðar og upplýsingar sem verða til við samtengingu skráa skv. 9. gr laga nr. 163/2007. Úrskurðarnefndin hefur áður slegið því föstu að um sérstakt þagnarskylduákvæði sé að ræða í úrskurði sínum nr. 754/2018. Að auki kemur það berum orðum fram að slíkar upplýsingar lúti ekki aðgangi samkvæmt upplýsingalögum.

Í skýringum Hagstofunnar hefur komið fram að þær hagtölur sem liggja að baki töflunni „Fjöldi foreldra sem andast eftir kyni, aldursflokkum og dánarorsök samtala áranna 2009–2019“ hafi Hagstofan unnið á grundvelli gagna um dánarmein og lýðfræði íbúa. Úrskurðarnefndin telur að það sé hafið yfir vafa að um sé að ræða upplýsingar sem Hagstofan hefur safnað til hagskýrslugerðar og snerta tilgreinda einstaklinga, í skilningi 1. mgr. 10. gr. laga nr. 163/2007, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Taka upplýsingalög því ekki til þessara gagna og réttur til aðgangs að þeim verður ekki byggður á upplýsingalögum. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð

Kæru A, f.h. Félags um foreldrajafnrétti, dags. 20. október 2021, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum