Hoppa yfir valmynd

1081/2022. Úrskurður frá 1. júní 2022

Hinn 1. júní 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1081/2022 í máli ÚNU 22010007.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 17. janúar 2022, kærði A, fréttamaður hjá Stundinni, synjun Úrvinnslusjóðs, dags. 23. desember 2021, á beiðni kæranda um aðgang að tveimur tölvupóstum frá framkvæmdastjóra sænska fyrirtækisins Swerec.

Í synjun Úrvinnslusjóðs kom fram að framkvæmdastjóra Swerec hefði verið gefinn kostur á að tjá sig um beiðni kæranda á grundvelli 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Hann legðist gegn afhendingunni. Annar pósturinn, dags. 30. júní 2020, innihéldi upplýsingar um viðskiptahagsmuni Swerec. Hinn pósturinn, dags. 28. október sama ár, innihéldi persónulegar hugleiðingar framkvæmdastjórans, sem hefði óskað eftir því í öndverðu að kæmust ekki á vitorð annarra en framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Úrvinnslusjóði með erindi, dags. 17. janúar 2022, og honum veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að Úrvinnslusjóður léti úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögnin barst úrskurðarnefndinni hinn 31. janúar 2022. Í umsögninni kemur fram að það séu ekki hagsmunir Úrvinnslusjóðs sem liggi til grundvallar synjun á beiðni kæranda, heldur sé með henni leitast við að sýna sendanda póstanna eðlilega tillitssemi. Framkvæmdastjóri Swerec hafi lagst gegn því að þeir yrðu afhentir. Eldri pósturinn innihaldi að mati framkvæmdastjórans upplýsingar af fjárhagslegum toga sem hann vilji ekki að verði gerðar opinberar. Upplýsingarnar varði viðskipti milli þjónustuaðila Úrvinnslusjóðs og Swerec, sem óheimilt sé að veita aðgang að samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Hinn pósturinn innihaldi persónulegar hugleiðingar framkvæmdastjórans sem óskað hafi verið eftir að fari leynt.

Umsögn Úrvinnslusjóðs var kynnt kæranda með bréfi, dags. 31. janúar 2022, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust hinn 15. febrúar. Í athugasemdunum kemur fram að kærandi telji 9. gr. upplýsingalaga ekki eiga við í málinu heldur skuli horft til VII. kafla upplýsingalaga um aðgang að upplýsingum um umhverfismál og sér í lagi 31. gr. laganna, þar sem fram kemur að þrátt fyrir ákvæði 6.–10. gr. og sérstök lagaákvæði um þagnarskyldu eigi almenningur rétt á því að fá aðgang að upplýsingum um mengandi losun út í umhverfið. Það eigi við í þessu tilfelli þar sem gífurlegt magn af íslensku plasti, sem Swerec var treyst fyrir og sagðist hafa endurunnið, endaði í vöruhúsi í Svíþjóð. Almenningur eigi því rétt á því að vita hver vitneskja Úrvinnslusjóðs og Swerec var á þessum tíma þar sem almannafé var notað til að greiða fyrir endurvinnslu á plastinu.

Niðurstaða

1.

Í máli þessu hefur kæranda verið synjað um aðgang að tveimur tölvupóstum frá framkvæmdastjóra sænska fyrirtækisins Swerec til framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs. Synjun um aðgang að fyrri póstinum, dags. 30. júní 2020, er á því byggð að hann innihaldi upplýsingar um mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni tiltekinna þjónustuaðila Úrvinnslusjóðs og fyrirtækisins Swerec.

Meginreglan um rétt almennings til aðgangs að gögnum kemur fram í 5. gr. upplýsingalaga, þar sem segir að sé þess óskað sé skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. laganna. Í VII. kafla upplýsingalaga er fjallað um aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Upplýsingar um umhverfismál eru skilgreindar í 29. gr. laganna. Þá er kveðið á um það í 30. gr. að um rétt almennings til aðgangs að fyrirliggjandi upplýsingum um umhverfismál fari samkvæmt ákvæðum II.–V. kafla. Það er því ljóst að ef upplýsingar varða umhverfismál fer um aðgang að þeim skv. 5. gr. upplýsingalaga með þeim takmörkunum sem fram koma í 6.–10. gr. sömu laga.

Í 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga kemur fram að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum sem varði mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpinu sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, kemur eftirfarandi fram:

Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.
Við beitingu ákvæðis 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga gera lögin ráð fyrir að metið sé í hverju og einu tilviki hvort viðkomandi upplýsingar varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi fyrirtækja eða annarra lögaðila að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda þeim tjóni, verði þær gerðar opinberar. Við framkvæmd slíks mats verður að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt það er að tjón muni verða ef aðgangur er veittur að upplýsingunum. Enn fremur verður að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafa fyrir þann lögaðila sem um ræðir á þeim tíma er matið fer fram.

Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra, hagsmunir viðkomandi lögaðila af því að upplýsingunum sé haldið leyndum eða þeir hagsmunir sem meginreglu upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings er ætlað að tryggja. Við mat á hagsmunum almennings skiptir almennt verulegu máli hvort og þá að hvaða leyti þær upplýsingar sem um ræðir lúta að ákvörðunum um ráðstöfun opinbers fjár og eigna.

Samkvæmt upplýsingum af vef Úrvinnslusjóðs gerir sjóðurinn samninga við þjónustuaðila um úrvinnslu úrgangs. Þjónustuaðili semur við söfnunar- og móttökustöðvar, sér um flutning úrgangs frá þeim, flokkar, (for)vinnur og ráðstafar síðan unnum úrgangi á viðurkenndan hátt í viðurkennda farvegi. Ráðstöfunaraðili tekur svo við úrgangi til endanlegrar ráðstöfunar. Swerec er viðurkenndur ráðstöfunaraðili samkvæmt Úrvinnslusjóði. Sjóðurinn á ekki í samningssambandi við ráðstöfunaraðila, heldur semja þjónustuaðilar við ráðstöfunaraðila um ráðstöfun úrgangs. Úrvinnslusjóður greiðir svo þjónustuaðila bæði endurgjald og svonefnt flutningsjöfnunargjald fyrir það magn úrgangs sem sent er til ráðstöfunaraðila, þegar staðfesting frá ráðstöfunaraðilanum liggur fyrir.

Tölvupóstur framkvæmdastjóra Swerec til framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs, dags. 30. júní 2020, inniheldur upplýsingar um magn plasts sem þjónustuaðilar á Íslandi sendu til Swerec á tímabilinu 1. janúar 2017 til 30. júní 2020. Upplýsingarnar eru sundurliðaðar eftir árum. Í þeim kemur fram hvað tilgreindir lögaðilar sendu mörg tonn af plasti til Swerec ár hvert. Fyrir liggur að þessir lögaðilar hafa gert samning við Úrvinnslusjóð um úrvinnslu úrgangs.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að upplýsingar um fjölda tonna sem þjónustuaðilar hafa sent Swerec til ráðstöfunar teljist upplýsingar um umhverfismál, sbr. 3. tölul. 29. gr. upplýsingalaga, og varði þannig ráðstafanir í tengslum við stefnumótun, löggjöf, skipulags- og framkvæmdaáætlanir og samninga á sviði umhverfismála sem hafa eða líklegt er að hafi áhrif á þá þætti sem um getur í 1. og 2. tölul. sömu greinar. Úrskurðarnefndin telur að upplýsingarnar varði ekki mikilvæga virka fjárhags- eða samkeppnishagsmuni viðkomandi lögaðila þannig að óheimilt sé að veita aðgang að þeim upplýsingum, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Nefndin fær ekki séð að ef upplýsingarnar yrðu gerðar opinberar ylli það tjóni fyrir viðkomandi lögaðila. Málefnið varðar augljóslega hagsmuni almennings og við það bætist að gögnin varða ráðstöfun opinberra fjármuna sem almenningur hefur ríka hagsmuni af að kynna sér, enda greiðir Úrvinnslusjóður viðkomandi lögaðilum fyrir þann úrgang sem sendur er til ráðstöfunaraðila. Verður Úrvinnslusjóði því gert að veita kæranda aðgang að tölvupóstinum ásamt viðhengi.

2.

Synjun Úrvinnslusjóðs um aðgang að síðari tölvupóstinum, dags. 28. október 2020, byggist á því að hann innihaldi persónulegar hugleiðingar framkvæmdastjóra Swerec, sem hafi verið settar fram undir því fororði að efni hans kæmi einungis fyrir augu framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs. Í póstinum er fréttaumfjöllun Stundarinnar um málefni fyrirtækisins, sem rituð er af kæranda, gerð að umtalsefni. Telur úrskurðarnefndin af þeirri ástæðu að um rétt kæranda til aðgangs að tölvupóstinum og viðhengi fari samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga, um rétt til aðgangs að upplýsingum um aðila sjálfan. Sá réttur er ríkari en sá sem leiðir af 5. gr. laganna.

Úrskurðarnefndin tekur fram að stjórnvald getur ekki heitið þeim trúnaði sem veitir því upplýsingar og takmarkað með því aðgang almennings að gögnum samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga í víðtækari mæli en leiðir af 6.–10. gr. upplýsingalaga. Trúnaði verður ekki heitið þegar gögnum er veitt viðtaka nema ótvírætt sé að upplýsingarnar, sem þau hafa að geyma, falli undir eitthvert af undanþáguákvæðum 6.–10. gr. upplýsingalaga eða sérstök lagaákvæði um þagnarskyldu. Þá geta aðilar ekki áskilið að með þau gögn er þeir afhenda stjórnvöldum skuli farið sem trúnaðarmál og þau undanþegin aðgangi almennings, nema að sömu skilyrðum fullnægðum. Úrskurðarnefndin telur það því þýðingarlaust í málinu að framkvæmdastjóri Swerec hafi óskað eftir því að tölvupóstur hans til framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs skyldi vera trúnaðarmál.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér tölvupóstinn. Í honum gerir framkvæmdastjóri Swerec að umtalsefni fréttaumfjöllun Stundarinnar frá því í október 2020 um málefni Úrvinnslusjóðs og Swerec og gagnrýnir fullyrðingar sem þar komu fram ásamt því að leggja fram leiðréttingar. Það er mat nefndarinnar að pósturinn innihaldi að hluta upplýsingar um umhverfismál í skilningi 1. og 2. tölul. 29. gr. upplýsingalaga, þar sem framkvæmdastjóri Swerec fjallar m.a. um aðferðir fyrirtækisins við að endurvinna plast, eldsvoða sem varð í Jurmala í Lettlandi árið 2017 auk geymslu á plasti í smábænum Påryd í Svíþjóð.

Nefndin hefur yfirfarið póstinn með hliðsjón af því hvort í honum sé að finna upplýsingar sem kunni að falla undir takmörkunarákvæði upplýsingalaga, svo sem 3. mgr. 14. gr., sbr. 9. gr. laganna, að því er varðar einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga eða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Það er mat nefndarinnar að svo sé ekki og verður Úrvinnslusjóði því gert að afhenda kæranda þennan tölvupóst ásamt viðhengi.

Úrskurðarorð

Úrvinnslusjóði er skylt að veita A aðgang að tveimur tölvupóstum framkvæmdastjóra Swerec til framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs, dags. 30. júní 2020 og 28. október 2020, ásamt viðhengjum.


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum