Hoppa yfir valmynd

1086/2022. Úrskurður frá 12. júlí 2022

Hinn 12. júlí 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1086/2022 í máli ÚNU 21100005.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 15. október 2021, kærði A lögmaður, f.h. Sýnar hf., ákvörðun fjarskiptasjóðs að synja félaginu um aðgang að gögnum botnrannsóknar sem fjarskiptasjóður gerði samkomulag um að Farice ehf. annaðist í tengslum við lagningu nýs fjarskiptasæstrengs milli Íslands og Írlands.

Í kæru kemur fram að hinn 12. apríl 2012 hafi fjarskiptasjóður, f.h. íslenska ríkisins, gert þjónustusamning við Farice um þjónustu í almannaþágu um að tryggja fjarskiptasamband Íslands við umheiminn. Með uppfærslu samningsins í desember 2018 hafi Farice verið falinn undirbúningur og framkvæmd botnrannsóknar fyrir nýjan fjarskiptasæstreng milli Íslands og Evrópu (Írlands). Áætlaður kostnaður við rannsóknina væri 1,9 milljónir evra. Lagning nýs sæstrengs væri í samræmi við stefnu stjórnvalda um að þrír virkir sæstrengir skyldu tengja landið við Evrópu frá mismunandi landtökustöðum, en þeir væru einungis tveir í dag.

Í kæru er því lýst að Sýn hafi um langt skeið sýnt lagningu nýs sæstrengs milli Íslands og Evrópu mikinn áhuga og átt í talsverðum samskiptum við íslensk stjórnvöld um undirbúning lagningar sæstrengs. Það hafi því komið Sýn á óvart þegar fregnir bárust af samningi um botnrannsóknir milli fjarskiptasjóðs og Farice. Hafi því verið lýst í bréfi til stjórnar fjarskiptasjóðs, dags. 16. janúar 2019. Í bréfinu komi fram það sjónarmið Sýnar að um gróflega mismunun sé að ræða gagnvart samkeppnisaðilum á markaði, að hafa ekki haft samband við Sýn um tilboð í gerð botnrannsóknarinnar. Ljóst sé að Farice fái með þessu forskot umfram aðra á markaðnum.

Í svari stjórnar sjóðsins við bréfinu, dags. 8. febrúar 2019, sé hins vegar skýrt tekið fram að botnrannsóknin sé sérstakt afmarkað verkefni sem verði gert upp sérstaklega gagnvart Farice. Svo segi orðrétt: „Afurð rannsóknarinnar verður eign fjarskiptasjóðs en ekki Farice. Mikilvægt er að blanda ekki saman afmörkuðum hagsmunum tengdum botnrannsókninni og öðrum viðskiptahagsmunum félagsins. […] Þá skal áréttað að afurð botnrannsóknar þeirrar sem nú er hafin, verður eign fjarskiptasjóðs.“ Samkvæmt upplýsingum frá Farice hafi botnrannsóknum fyrir lagningu á nýjum fjarskiptasæstreng lokið hinn 21. ágúst 2021.

Með erindi til fjarskiptasjóðs, dags. 2. september 2021, hafi kærandi óskað eftir öllum gögnum sem tengdust botnrannsóknunum. Með svari fjarskiptasjóðs, dags. 6. október 2021, hafi beiðninni verið hafnað. Í svarinu hafi komið fram að Farice hefði verið gefinn kostur á að tjá sig um beiðnina á grundvelli 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. Ákveðið hafi verið á stjórnarfundi að verða ekki við beiðninni, hvorki í heild né að hluta, og væri beiðninni hafnað með vísan til 9. gr. og 1. og 3. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Ekki þætti ástæða til að veita aukinn aðgang, sbr. 11. gr. sömu laga, enda væri það mat sjóðsins að gögnin gætu ekki nýst utanaðkomandi og gætu beinlínis raskað framkvæmd verkefnisins meðan það væri á undirbúningsstigi.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt fjarskiptasjóði með erindi, dags. 18. október 2021, og sjóðnum veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að fjarskiptasjóður léti úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögn fjarskiptasjóðs barst úrskurðarnefndinni hinn 16. desember 2021. Í henni er í upphafi fjallað um tilurð botnrannsóknar Farice, sem styrkt hafi verið af fjarskiptasjóði. Rannsóknin hafi verið gerð í tilefni af mögulegri lagningu nýs sæstrengs, en lagning nýs sæstrengs er ein af megináherslum fjarskiptaáætlunar, sbr. þingsályktun nr. 32/149 um stefnu í fjarskiptum fyrir árin 2019-2033. Lagning sæstrengs sé flókið verkefni af stærðargráðu sem erfitt sé að bera saman við lagningu annarra fjarskiptavirkja. Margir samverkandi þættir þurfi að ganga upp og framkvæmast í réttri röð svo að lagning sæstrengs gangi upp. Botnrannsóknin hafi verið ein af lykilforsendum þess að mögulegt hafi verið að skipuleggja verkefnið, afla tilskilinna fjölmargra leyfa, velja leið strengsins og jafnframt meta heildarkostnað verkefnisins. Rannsóknin var gerð af Farice og niðurstöður hennar varðveittar hjá félaginu.

Í umsögninni kemur fram að leitað hafi verið eftir afstöðu Farice til afhendingar gagnanna. Í afstöðu Farice, dags. 21. september 2021, er því lýst að félagið hafi gert könnun á hafsbotni frá ströndum Írlands að mörkum efnahagslögsögunnar þar sem hún skarast við efnahagslögsögu Bretlands. Að mati félagsins innihaldi gögnin upplýsingar um viðskiptahagsmuni Farice og viðskiptamanna Farice sem sanngjarnt og eðlilegt sé að fari leynt, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Þá sé það mat Farice að takmarka skuli aðgang að gögnunum þar sem þau hafi að geyma upplýsingar sem almannahagsmunir krefjast að haldið skuli leyndum, enda líti Farice svo á að gögnin innihaldi upplýsingar sem varði öryggi innviða í eigu íslenska ríkisins og efnahagslega mikilvæga hagsmuni þess sem geti skaðast ef gögnin verða gerð opinber, sbr. 1. og 3. tölul. 10. gr. upplýsingalaga.

IRIS-verkefnið sé að sögn Farice í miðju leyfisveitingarferli á Írlandi þar sem skipulögðu ferli sé fylgt varðandi upplýsingagjöf um verkefnið og hvernig gögn séu lögð fram til kynningar. Birting gagna er varði botnrannsóknina innan landhelgi Írlands utan leyfisferlisins geti haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir það ferli. Tafir í leyfisveitingarferli myndu að öllum líkindum leiða til talsverðs fjárhagstjóns fyrir Farice, þar sem félagið hafi gert samninga við aðila vegna lagningar sæstrengsins og gengist undir skuldbindingar um að halda tiltekna tímaramma í þeim efnum. Að mati Farice séu gögnin því sérstaklega viðkvæm á þessum tímapunkti.

Markmiðið með lagningu nýs sæstrengs sé að auka fjarskiptaöryggi til og frá Íslandi. Þá hafi íslenska ríkið skilgreint sæstrengi sem mikilvæga innviði. Mikilvægi öryggis sæstrengja sé óumdeilt. Alvarleg öryggisatvik er varða sæstrengi gætu þannig haft alvarlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir íslenska ríkið, fyrirtæki og almenning í landinu.

Gögn sem varði botnrannsóknir við strendur Írlands vegna lagningar nýs sæstrengs hafi að geyma ítarlegar og nákvæmar upplýsingar um öryggi strengsins og geti varpað ljósi á veikleika hans, ef einhverjir eru. Þau gögn sem beiðnin lúti að varði m.a. nákvæmar upplýsingar um staðsetningu strengsins. Á svæðinu sé strengurinn plægður og í raun grafinn niður í sjávarbotninn niður að 1500 metra dýpi. Þannig innihaldi gögnin m.a. upplýsingar um hvar hægt sé að plægja strenginn niður og hvar ekki, staðsetningu grjóts og/eða klappa, dýpislínur, staðsetningu aðskotahluta og nákvæmar upplýsingar um sjávarbotninn á leið strengsins. Þá séu einnig upplýsingar um skörun við aðra sæstrengi á hafsbotninum.

Farice telji afar varhugavert frá öryggissjónarmiði að upplýsingar sem geti varpað ljósi á veikleika í plægingu og staðsetningu strengsins verði gerðar opinberar. Með því að veita aðgang að rannsóknargögnum vegna strengsins yrðu opinberaðar upplýsingar um allar þær staðsetningar sem metnar hafi verið áhættusamar eða geti gert strenginn viðkvæman með einhverjum hætti.

Loks bendir Farice á að nákvæm rannsóknargögn botnrannsókna um fjarskiptasæstrengi séu aldrei birt opinberlega vegna öryggissjónarmiða. Einnig þurfi að hafa í huga hagsmuni sem tengist sérstaklega íslenska ríkinu og að átt sé við strenginn og hættu á skemmdarverkum eða hryðjuverkum.

Að mati Farice hafi félagið, viðsemjendur þess og hið opinbera ríkari hagsmuni af því að gögnunum verði haldið leyndum, en hagsmunir beiðanda af því að fá gögnin afhent, þar sem gögnin komi ekki til með að nýtast beiðanda að ráði.

Fjarskiptasjóður telur í umsögn sinni að um sérstaklega viðkvæm gögn sé að ræða, sem varpi ljósi á helstu veikleika fyrirhugaðs sæstrengs og framkvæmdin sé nú á viðkvæmu stigi. Jafnframt sé sérstaklega fjallað um öryggi sæstrengja í skýrslu þjóðaröryggisráðs um mat á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum frá 26. febrúar 2021, en í skýrslunni segi m.a. að ógerlegt sé að verja sæstrengina fyrir náttúruhamförum eða skemmdarverkum af ásetningi og að útilokað sé að vakta og tryggja heildaröryggi strengjanna.

Fjarskiptasjóður telur að eftir að strengurinn er lagður sé eðlilegt að almennar upplýsingar um legu sæstrengja séu birtar, sérstaklega gagnvart sjófarendum sem sigla yfir svæði þar sem sæstrengir liggja. Aftur á móti teljist nákvæmar upplýsingar um legu sæstrengja á sjávarbotni, sérstaka áhættuþætti og þess háttar eftir sem áður sérstaklega viðkvæmar og beri að tryggja að þær séu ekki aðgengilegar óviðkomandi. Nýr strengur sé þjóðaröryggismál og mikilvægt að tryggja framgang verkefnis um lagningu nýs sæstrengs, sem og öryggi fyrirhugaðs sæstrengs.

Umsögn fjarskiptasjóðs var kynnt kæranda með bréfi, dags. 16. desember 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Í athugasemdum kæranda, dags. 6. janúar 2022, er gagnrýnt að beiðni Sýnar sé þrengd við aðgang að „botnrannsóknargögnum við Írland“. Rannsóknin hafi einnig átt að fara fram innan íslenskrar lögsögu, sbr. þjónustusamning fjarskiptasjóðs við Farice, enda sé það nauðsynleg forsenda lagningar sæstrengsins.

Kærandi telur að vísun fjarskiptasjóðs til skýrslu þjóðaröryggisráðs um mat á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum styðji ekki við að synjað sé um aðgang að gögnunum á grundvelli 1. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Í skýrslunni komi ekki fram að sérstök ógn við þjóðaröryggi sé fólgin í upplýsingum um lagningu eða staðsetningu sæstrengja, heldur aðeins að ógnin felist í rofi á sambandi við umheiminn ef slíkir strengir bili eða skaðist.

Þá vísar kærandi til fjarskiptalaga, þar sem m.a. komi fram að þar sem fjarskiptastrengir liggi í sjó skuli sjófarendur sýna aðgæslu og gæta varúðar, og að skip skuli bera til sýnis alþjóðamerki eða önnur merki sem gefi til kynna að unnið sé við lagningu eða viðgerð strengs þegar svo ber undir, svo aðrir sjófarendur geti sýnt aðgæslu. Loks nefnir kærandi að lagning sæstrengja sé háð samþykki Umhverfisstofnunar, sbr. lög nr. 151/2004, og að yfirgripsmiklar upplýsingar séu veittar í tengslum við leyfisumsókn, m.a. í kynningarskyni. Þá sé við lagningu fjarskiptasæstrengja haft samráð við fjölda hagsmunaaðila, ekki síst á vettvangi sjávarútvegs m.a. um legu strengjanna.

Kærandi hafnar því að umbeðin gögn varði efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins, sbr. 3. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Lagning, eignarhald og rekstur fjarskiptasæstrengja sé ekki verkefni sem er falið ríkinu að lögum. Efnahagslegir hagsmunir samfélagsins séu fólgnir í órofnu fjarskiptasambandi Íslands við umheiminn. Markmið fjarskiptalaga sé að tryggja hagkvæm og örugg fjarskipti hér á landi og efla virka samkeppni á fjarskiptamarkaði. Í fjarskiptaáætlun sem sett sé á grundvelli laganna segi að lögð skuli áhersla á víðtækt samstarf markaðarins, neytenda, opinberra stofnana og ráðuneyta, að styrkja samkeppni á fjarskiptamarkaði og auka samkeppnishæfni Íslands, og að tryggja öryggi almennra fjarskiptaneta innan lands og tengingar Íslands við umheiminn.

Miðlun upplýsinga og gagna um botnrannsóknina til Sýnar sé því í samræmi við alla markmiðssetningu löggjafans á sviði fjarskipta. Með því að greiða fyrir lagningu Sýnar á fjarskiptasæstreng hljóti efnahagslega mikilvægir hagsmunir ríkisins að vera betur tryggðir en ella væri.

Kærandi mótmælir því að 9. gr. upplýsingalaga eigi við um gögnin. Verkefni sem fjarskiptasjóður fjármagni séu kostuð af almannafé og geti því aldrei talist varða einkahagsmuni Farice. Þá hafi komið fram af hálfu sjóðsins að afurð botnrannsóknarinnar yrði eign fjarskiptasjóðs, ekki Farice. Ummæli Farice að fyrirtækið gæti orðið fyrir fjártjóni ef gögn yrðu birt utan leyfisveitingarferlis sem fyrirtækið stæði í standist ekki, þar sem gögn er varða botnrannsóknir á Írlandi séu birtar á vef írskra stjórnvalda. Loks sé Farice að öllu leyti í eigu ríkisins og vandséð hvaða einkahagsmuni slíkt fyrirtæki hafi.

Með erindum, dags. 3. júní 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir skýringum frá Umhverfisstofnun, Samgöngustofu og Landhelgisgæslu Íslands í tengslum við lögbundið hlutverk þessara stofnana við samþykki fyrir lagningu og legu sæstrengja auk eftirlits með fiskiskipum og öðrum sjófarendum í nágrenni við fjarskiptasæstrengi. Svör bárust 10. og 13. júní 2022. Þá óskaði úrskurðarnefndin eftir skýringum frá Alþjóðlegri nefnd um vernd sæstrengja (e. International Cable Protection Committee, ICPC) m.a. um það hvort upplýsingar úr botnrannsóknum, þ.m.t. um nákvæma leið sæstrengja, væru að jafnaði gerðar opinberar. Í svari nefndarinnar, dags. 14. júní 2022, kom fram að svo væri ekki. Hins vegar væri gagnlegt að vissar upplýsingar um staðsetningu strengjanna væru opinberar, svo sem hnitasetning fyrir fiskiskip, enda væri ein algengasta orsök skemmda á sæstrengjum af þeirra völdum.

Úrskurðarnefndin óskaði eftir nánari upplýsingum með erindum til fjarskiptasjóðs og Farice, dags. 3. júní 2022. Meðal þess sem óskað var eftir voru upplýsingar um það hvers vegna botnrannsóknin hefði aðeins verið afmörkuð við strendur Írlands að mörkum efnahagslögsögunnar þar sem hún skarast við efnahagslögsögu Bretlands. Í svari Farice kom fram að framlag fjarskiptasjóðs til rannsóknarinnar hefði numið 1,9 milljónum evra. Ljóst hefði orðið í framhaldinu að kostnaður við botnrannsóknir á allri leiðinni yrði mun hærri en sem næmi framlagi fjarskiptasjóðs. Því var ákveðið að forgangsraða könnunarvinnunni með þeim hætti að byrjað yrði við strendur Írlands. Þá lá fyrir að leyfisveitingarferlið þar í landi tæki allt að 14 mánuði og því nauðsynlegt að ljúka könnuninni við Írland haustið 2020 ef leggja ætti sæstrenginn sumarið 2022. Ósamandregin gögn úr botnrannsókninni hefðu ekki verið meðal þeirra gagna sem lögð voru fram í leyfisveitingarferlinu.

Varðandi leyfisveitingarferli á Íslandi tæki það styttri tíma en á Írlandi og því hefði verið talið nægilegt að rannsaka sjávarbotninn hér við land sumarið fyrir lagningu sæstrengsins. Það hafi verið gert sumarið 2021. Sú rannsókn hefði hins vegar alfarið farið fram á vegum Farice án styrkveitingar fjarskiptasjóðs. Því væru gögn þeirrar rannsóknar hvorki eign sjóðsins né fyrirliggjandi hjá honum.

Þá kom fram í erindi Farice að mikilvægt væri að gera greinarmun á botnrannsóknum annars vegar og leiðarvali sæstrengsins hins vegar. Hluti af niðurstöðum botnrannsókna væru upplýsingar um endanlega leið strengsins í sjó. Leiðin væri að jafnaði birt opinberlega og skráð í sjókort til að koma í veg fyrir að strengir yrðu slitnir í ógáti. Hins vegar væri það aðeins hnitsetning strengjanna, en ekki upplýsingar sem vörpuðu ljósi á sjávarbotninn á hverjum stað fyrir sig sem gætu varpað ljósi á hugsanlega veikleika strengsins.

Niðurstaða

Í máli þessu hefur kæranda verið synjað um aðgang að gögnum botnrannsóknar sem fjarskiptasjóður gerði samkomulag um að Farice ehf. annaðist í tengslum við lagningu nýs fjarskiptasæstrengs milli Íslands og Írlands. Synjun fjarskiptasjóðs er byggð á 9. gr. og 1. og 3. tölul. 10. gr. upplýsingalaga.

Fram hefur komið í skýringum fjarskiptasjóðs og Farice að rannsókn á sjávarbotni í tilefni af lagningu sæstrengs milli Íslands og Írlands hafi verið tvískipt: annars vegar í efnahagslögsögu Írlands árið 2020 og hins vegar við Ísland árið eftir. Síðari rannsóknin hafi verið gerð án aðkomu fjarskiptasjóðs. Í samræmi við það liggja aðeins fyrir hjá fjarskiptasjóði botnrannsóknargögn úr rannsókninni árið 2020. Úrskurðarnefndin bendir kæranda á að Farice heyrir undir gildissvið upplýsingalaga, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna, og getur kærandi beint gagnabeiðni til félagsins um botnrannsóknargögn frá sumrinu 2021.

Farice á og rekur tvo fjarskiptasæstrengi sem tengja Ísland við umheiminn. Kærandi hefur sýnt því áhuga að leggja slíkan sæstreng til viðbótar þeim sem fyrir eru. Þótt það virðist óumdeilt í málinu er rétt að taka fram að þrátt fyrir áhuga kæranda og samskipti við stjórnvöld í tengslum við lagningu sæstrengs byggist réttur hans til gagna botnrannsóknarinnar á 5. gr. upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum, en ekki á 14. gr. laganna um rétt til aðgangs að gögnum sem varða aðila sjálfan.

Eitt af einkennum þeirrar reglu sem felst í 5. gr. upplýsingalaga er að allir njóta réttar til aðgangs að gögnum samkvæmt ákvæðinu og skiptir ekki máli í því sambandi hvort sá sem upplýsinga óskar er íslenskur ríkisborgari eða heimilisfastur hér á landi. Ekki skiptir heldur máli hvort um einstakling eða lögaðila er að ræða, eða hvaða starfi sá gegnir sem upplýsinga óskar. Sá sem byggir rétt á ákvæðinu þarf ekki að sýna fram á hagsmuni af því að fá eða nota umbeðnar upplýsingar, eða að tiltaka ástæður fyrir beiðni sinni. Að því leyti er reglan ólík flestum öðrum reglum um aðgang að gögnum hjá stjórnvöldum. Í samræmi við framangreint er gert ráð fyrir því að ef aðgangur að gögnum er heimill skv. 5. gr. megi viðkomandi hagnýta sér upplýsingarnar á hvern þann hátt sem hann kýs, þ.m.t með því að birta þær opinberlega, að virtum almennum reglum.

Af 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga leiðir að sé þess óskað er skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Í 10. gr. upplýsingalaga kemur fram að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um öryggi ríkisins eða varnarmál, sbr. 1. tölul. ákvæðisins.

Í athugasemdum við 10. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, kemur fram að með orðalaginu „þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast“ sé vísað til þess að beiðni um upplýsingar verði ekki synjað, hvorki í heild né að hluta, nema aðgangur almennings að upplýsingum muni skaða einhverja af þeim almannahagsmunum sem tilgreindir eru í ákvæðinu.

Þá segir um 1. tölul. ákvæðisins:

Með upplýsingum um öryggi ríkisins er eingöngu vísað til hinna veigamestu hagsmuna sem tengjast því hlutverki ríkisvaldsins að tryggja öryggi ríkisins inn á við og út á við. Upplýsingar um skipulag löggæslu, landhelgisgæslu, almannavarna og útlendingaeftirlits geta fallið hér undir.

Við túlkun á ákvæðinu verður að hafa í huga að því er ætlað að vernda mjög þýðingarmikla hagsmuni. Ef upplýsingar þeim tengdar berast út getur það haft afdrifaríkar afleiðingar. Þess vegna verður að skýra ákvæðið tiltölulega rúmt.

Í málinu hefur verið lögð áhersla á að afhending gagnanna geti verið til þess fallin að hafa áhrif á rekstraröryggi sæstrengsins því þau innihaldi upplýsingar um gæði sjávarbotnsins á hverjum stað. Upplýsingarnar séu notaðar til að leggja mat á hvort og þá hve djúpt sé hægt að plægja strenginn niður á hverjum stað í því skyni að vernda hann; þær geti hins vegar að sama skapi varpað ljósi á þá staði þar sem strengurinn sé viðkvæmur fyrir, til að mynda á stöðum þar sem ekki er unnt að plægja strenginn niður í sjávarbotninn og strengurinn þannig ekki eins vel varinn. Slíkt geti ógnað öryggi íslenska ríkisins m.a. með tilliti til þess að skemmdarverk séu unnin á sæstrengnum.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fellst á það með fjarskiptasjóði með vísan til framangreinds að mikilvægir öryggishagsmunir íslenska ríkisins geti staðið til þess að leynd ríki um framangreind gögn. Er það einnig í samræmi við þær upplýsingar sem úrskurðarnefndin aflaði hjá Alþjóðlegri nefnd um vernd sæstrengja um að yfirleitt séu ekki veittar upplýsingar um nákvæma leið sæstrengja. Með hliðsjón af því að 1. tölul. 10. gr. upplýsingalaga þurfi að skýra tiltölulega rúmt og að réttur kæranda til aðgangs að gögnunum byggi á 5. gr. laganna telur nefndin að fjarskiptasjóði hafi verið heimilt að synja kæranda um aðgang að gögnum úr botnrannsókn sem gerð var í efnahagslögsögu Írlands árið 2020.

Að fenginni þessari niðurstöðu er ekki þörf á að taka afstöðu til þess hvort 9. gr. eða 3. tölul. 10. gr. upplýsingalaga standi í vegi fyrir því að kæranda séu afhent umbeðin gögn.

Úrskurðarorð

Ákvörðun fjarskiptasjóðs, dags. 6. október 2021, að synja Sýn hf. um aðgang að gögnum úr botnrannsókn, er staðfest.

 

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum