Hoppa yfir valmynd

1091/2022. Úrskurður frá 29. ágúst 2022

Hinn 29. ágúst 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1091/2022 í máli ÚNU 21110014.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 26. nóvember 2021, kærði A lögmaður, f.h. Hugarafls—Notenda­stýrðrar starfsendurhæfingar (hér eftir Hugarafl) og B, þá ákvörðun félags- og vinnu­mark­aðs­ráðuneytis­ins (þá félagsmálaráðuneytisins) að synja beiðni kærenda um aðgang að afriti af greinar­gerð, dags. 6. júlí 2021, sem afhent var ráðuneytinu og inniheldur frásagnir fyrrverandi félags­manna Hugarafls vegna starfs- og stjórnunarhátta samtakanna og framkomu formanns þeirra gagnvart félags­mönnum.

Í kæru er útskýrt að Hugarafl séu félagasamtök fólks sem hafi upplifað persónulega krísu og vinni að bata sínum. Samtökin telji 270 félagsmenn og hafi vaxið mjög síðustu ár. Hinn 20. september 2021 hafi í sjónvarpsþættinum Íslandi í dag á Stöð 2 verið fjallað um „eitraða framkomu“ stjórnenda samtakanna. Jafnframt hafi verið birt frétt á vefmiðlinum Vísi um sama efni. Í umfjölluninni hafi verið vísað til greinargerðar sem send hafi verið félagsmála­ráðuneytinu. Innihald greinargerðarinnar sé mikill og ljótur persónulegur rógburður um stjórnendur samtakanna.

Með bréfi til ráðuneytisins, dags. 6. október 2021, óskaði Hugarafl eftir að fá afhent afrit af umræddri greinargerð ásamt öllum þeim gögnum sem henni tengdust. Ráðuneytið svaraði bréfinu með tölvupósti, dags. 29. október 2021, þar sem beiðninni var synjað með vísan til einkahagsmuna, sbr. 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.

Lögmaður kærenda sendi ítrekaða beiðni um aðgang að gögnunum til ráðuneytisins hinn 29. október 2021. Þar kom fram að umbjóðendur hans í málinu væru ekki aðeins samtökin Hugarafl heldur einnig B, einn stofnenda samtakanna. Áréttað var að beiðnin byggði annars vegar á 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og hins vegar á 2. mgr. 17. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónu­upp­lýs­inga, nr. 90/2018, að því er varðaði rétt B til aðgangs.

Til stuðnings beiðninni var vísað til þess að starfsemi Hugarafls væri þess eðlis að tekið væri á móti og unnið með viðkvæmar persónuupplýsingar um félagsmenn samtakanna, svo sem heilsufars­upp­lýs­ingar og aðrar viðkvæmar upplýsingar um áföll, afbrot, neyslu og hvaðeina sem félagsmenn lenda í og upp­lifa. Kærendur byggju nú þegar yfir miklu magni af viðkvæmum persónuupplýsingum um þá fyrr­verandi félagsmenn sem að erindinu stóðu og óskað væri aðgangs að. Hagsmunir þeirra aðila af því að þær upplýsingar færu leynt væru því hverfandi þar sem allar líkur væru á því að um væri að ræða upplýsingar sem nú þegar væru til staðar hjá kærendum. Eftir stæði að kærendur hefðu ríka hagsmuni af að fá upplýsingar um þær aðfinnslur og athugasemdir sem gerðar hefðu verið í þeirra garð við stjórn­völd.

Af hálfu ráðuneytisins var beiðninni synjað með tölvubréfi hinn 2. nóvember 2021. Þar var tekið fram að ekkert stjórnsýslumál væri til meðferðar í ráðuneytinu þar sem umrædd grein­ar­gerð væri á meðal gagna málsins, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þar af leiðandi væri ekki unnt að veita aðgang að gögnunum á grundvelli þeirra laga. Þá væri ekki unnt að veita kæranda B aðgang að greinargerðinni á grundvelli laga nr. 90/2018 þar sem ráðuneytið liti svo á að hagsmunir þeirra einstaklinga sem rituðu greinargerðina vægju þyngra en hagsmunir kærenda af því að fá greinar­gerð­ina eða hluta hennar afhenta. Var vísað til 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga því til stuðnings.

Hinn 16. nóvember 2021 sendi lögmaður kærenda bréf til félagsmálaráðuneytisins og óskaði eftir því að ráðu­neyt­ið endurskoðaði ákvörðun sína. Í bréfinu var m.a. vísað til þess að ef ákvæði 6.–10. gr. upplýsingalaga ættu aðeins við um gagn að hluta til ætti að veita aðgang að öðrum hlutum þess, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna.

Beiðninni var hafnað með bréfi, dags. 25. nóvember 2021. Í bréfinu kom fram að þótt hluti umbeðinna gagna hefði verið birtur í fjölmiðlum í tengslum við viðtal við fyrrum félagsmann Hugarafls fæli sú birting ekki í sér samþykki allra þeirra sem í hlut eiga. Hagsmunir þeirra af því að umbeðin gögn fari leynt vægju að mati ráðuneytisins þyngra en hagsmunir kærenda af því að fá aðgang að gögnunum, sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Þá væri ekki unnt að veita aðgang að hluta, þar sem takmörkunar­ákvæði upplýsingalaga ættu við um gögnin í heild. Loks var árétt­að að ekkert stjórnsýslumál væri til meðferðar í ráðuneytinu sem kærendur ættu  aðild að og umrædd gögn væru hluti af.

Í kæru er byggt á því að um rétt til aðgangs að greinargerðunum skuli fara skv. 1. mgr. 15. gr. stjórn­sýslulaga og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2018. Að mati kæranda sé óljóst hvort stjórnsýslumál sé til meðferðar hjá félagsmálaráðuneytinu.

Málsmeðferð

Með erindi, dags. 29. nóvember 2021, var kæran kynnt félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og ráðu­neyt­inu veittur frestur til 13. desember til þess að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögn ráðuneytisins barst úrskurðarnefndinni hinn 16. desember 2021. Þar er tekið fram að beiðn­um kærenda um aðgang að gögnum hafi annars vegar verið synjað með vísan til 9. gr. upplýsingalaga þar sem það var mat ráðuneytisins að eðlilegt og sanngjarnt væri að umræddar upplýsingar færu leynt enda væru þær, að mati ráðuneytisins, svo viðkvæmar að þær ættu ekkert erindi við allan þorra manna. Þá hafi beiðnum kærenda um aðgang að gögnum hins vegar verið synjað með vísan til 14. gr. upp­lýs­inga­laga. Að mati ráðuneytisins vegi hagsmunir þeirra einstaklinga sem rituðu umrædda greinargerð þyngra en hagsmunir kærenda af því að fá aðgang að umræddum upplýsingum, sbr. 3. mgr. 14. gr. upp­lýsingalaga. Þá segir að litið hafi verið til þess að um væri að ræða fyrrum félagsmenn samtakanna en ekki núverandi félagsmenn. Jafnframt hafi verið litið til efnis greinargerðarinnar sem væri persónu­legs eðlis og fæli í sér lýsingar fyrrnefndra einstaklinga og persónulegar upplifanir af tilteknum að­stæð­um. Í því sambandi hafi ráðuneytið lagt áherslu á þann aðstöðumun sem væri annars vegar á milli ein­staklinganna sem rituðu greinargerðina, sem væru fyrrum félagsmenn Hugarafls, og hins vegar B, sem væri í ráðandi stöðu í samtökunum. Auk þess er tekið fram að ráðuneytið telji það vera til þess fallið að valda umræddum einstaklingum skaða ef upplýsingar úr greinargerðinni verða á almannavitorði, einkum upplýsingar um heilsuhagi.

Ráðuneytið hafi leitað afstöðu þeirra sem rituðu greinargerðina til þess hvort þeir teldu að gögnin skyldu fara leynt. Var sérstaklega óskað eftir afstöðu þeirra, að lokinni yfirferð ráðuneytisins á greinar­gerðinni þar sem afmáð voru nöfn og viðkvæmar upplýsingar, hvort til greina kæmi að veita aðgang að gögnunum að hluta. Hafi viðkomandi einstaklingar lagst gegn afhendingu gagnanna. Því væri ljóst að ekki lægi fyrir samþykki þeirra fyrir afhendingunni.

Í umsögn ráðuneytisins er enn fremur fjallað um farveg málsins innan ráðuneytisins. Þar segir að við mat á hagsmunum kærenda að aðgangi að umræddum gögnum hafi verið litið til þess að á svipuðum tíma hafi ráðuneytinu borist fleiri ábendingar, bæði jákvæðar og neikvæðar, sem vörðuðu starfsemi Hugarafls. Þá hafi forsvarsmenn Hugarafls átt í samskiptum við ráðuneytið og farið m.a. fram á að gerð yrði óháð úttekt á starfsemi samtakanna. Þá segir að ráðuneytið hafi ákveðið hinn 8. desember 2021 að óska eftir því við Vinnumálastofnun að gerð yrði óháð úttekt á starfsemi samtakanna. Um væri að ræða úttekt sem framkvæmd væri af Vinnumálastofnun með sjálfstæðum hætti en þau gögn sem höfðu borist ráðuneytinu um starfsemi Hugarafls, þ.m.t. umrædd greinagerð, hefðu ekki verið afhent Vinnumálastofnun. Í ljósi þess farvegs sem málið væri í yrði ekki litið svo á að hagsmunir félaga­samtakanna Hugarafls af því að kynna sér efni greinargerðarinnar vægju þyngra en hagsmunir fyrrum félagsmanna samtakanna.

Umsögn ráðuneytisins fylgdi samantekt fyrrverandi félagsmanna Hugarafls. Samantektin var afhent úrskurðarnefndinni bæði í heild sinni, þ.e. án útstrikana, og með útstrikunum á nöfnum og viðkvæm­um upplýsingum að mati ráðuneytisins.

Umsögn ráðuneytisins var kynnt kæranda með tölvupósti, dags. 16. desember 2021, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Í athugasemdum kærenda, dags. 4. janúar 2022, kemur fram að kærendur vilji fá að kynna sér um­rædda greinargerð í heild eða eftir atvikum að hluta til að átta sig á því hvað fyrrum félagsmenn Hugar­afls séu raunverulega að gagnrýna. Kærendur gera jafnframt athugasemdir við það mat ráðuneytisins að upplýsingarnar sem um ræðir séu það viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna. Telja kærendur að mat ráðuneytisins gangi ekki upp þar sem m.a. hafi verið birtir hlutar greinar­gerðar­innar í tengslum við fjölmiðlaumfjöllun á Stöð 2 og Vísi.

Þá telja kærendur 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga ekki eiga við í tilviki kærenda og benda á að um sé að ræða undantekningu á meginreglu sem túlka beri þröngt. Tekið er fram að greinargerðin og umfjöllun í kringum hana hafi valdið kærendum miklum skaða. Auk þess hafi umfjöllunin skaðað starfsemi Hugar­afls og núverandi félagsmenn Hugarafls. Kærendur segjast ekki sammála því mati ráðuneytisins á beiðni kærenda um afhendingu á gögnunum að hagsmunir fyrrum félagsmanna Hugarafls vegi þyngra en hagsmunir kærenda.

Niðurstaða

1.

Mál þetta varðar synjun félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins á beiðni kærenda um aðgang að greinar­gerð, dags. 6. júlí 2021, sem sex fyrrverandi félagsmenn Hugarafls rituðu vegna starfs- og stjórn­­unar­hátta samtakanna og framkomu formanns gagnvart félagsmönnum. Kærendur telja að um rétt til að­gangs að greinargerðinni fari bæði samkvæmt 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2018, um persónu­vernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Í 15.–19. gr. stjórnsýslulaga er að finna ákvæði um rétt aðila máls til aðgangs að skjölum og öðrum gögnum sem mál varða. Réttur á grundvelli þessara ákvæða er ríkari en réttur samkvæmt upplýsinga­lögum, en grundvallast á því að til meðferðar sé stjórnsýslumál hjá hlutaðeigandi stjórnvaldi sem til greina kemur að ljúka með stjórnvaldsákvörðun, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Svo sem fram hefur komið í skýringum ráðuneytisins til kærenda er bréf, dags. 6. júlí 2021, með samantekt frásagna sex fyrrverandi félagsmanna Hugarafls, ekki gagn í slíku máli hjá ráðuneytinu. Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til draga það í efa og verður réttur kærenda til aðgangs því ekki byggður á ákvæðum stjórnsýslulaga. Þá fer um rétt B að greinargerðinni samkvæmt upplýsingalögum en ekki 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2018.  Í því sambandi verður að horfa til þess að ákvæði 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2018 tekur einungis til réttar einstaklings til að óska eftir persónupplýsingum um sig sjálfan. Þar sem beiðnin er samkvæmt efni sínu ekki takmörkuð við upplýsingar um B sjálfan heldur tekur einnig til upplýsinga um aðra, gilda ákvæði upplýsingalaga um úrlausn hans.

Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefndin að réttur kærenda til aðgangs að umbeðnum gögnum í málinu fari samkvæmt upplýsingalögum og ágreiningurinn heyri undir nefndina.

2.

Í 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga segir að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum að­gang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Í 3. mgr. sömu grein­ar kemur þó fram að heimilt sé að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir sem mæla með því að upplýs­ing­unum sé haldið leyndum þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnunum. Ákvæðið hefur verið skýrt svo að undir greinina falli ekki einvörðungu þau tilvik þegar maður óskar eftir aðgangi að gögnum með upplýsingum um sig sjálfan, heldur taki hún einnig til þess þegar upp­lýs­ingarnar varða hann með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnunum.

Greinargerðin fjallar um starfs- og stjórnunarhætti Hugarafls og framkomu, þar á meðal B, gagnvart félagsmönnum. Með hliðsjón af þessu telur úrskurðarnefndin ljóst að skjalið geymi upplýsingar um kærendur í skilningi 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Fer því um rétt þeirra til að­gangs að skjalinu eftir ákvæðum III. kafla laganna. Kemur þá næst til skoðunar hvort ákvæði 3. mgr. 14. gr. geti takmarkað aðgang kæranda að greinargerðinni.

Í 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga kemur fram að heimilt sé að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögn­um.

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögunum segir að í aðstæðum líkt og þeim sem uppi eru í máli þessu sé líklegt að reyni á andstæða hagsmuni, annars vegar þess sem upplýsinga óskar og hins vegar annarra þeirra sem hlut eiga að máli og kunna að eiga réttmæta hagsmuni af því að tilteknum atriðum er þá varða sé haldið leyndum. Kjarni reglunnar í 3. mgr. felist í því að vega skuli og meta þessa gagnstæðu hagsmuni, en síðarnefndu hagsmunirnir séu að meginstefnu hinir sömu og liggja að baki 9. gr. upplýsingalaga.

Í framhaldi af því segir í athugasemdunum að aðgangur að gögnum verði því aðeins takmarkaður ef talin sé hætta á því að einkahagsmunir skaðist ef aðila verði veittur aðgangur að upplýsingunum. Aðila verði því ekki synjað um aðgang að gögnum á grundvelli hugleiðinga um að aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga sé almennt til þess fallinn að valda einhverju tjóni, heldur verði að leggja mat á að­stæður í hverju máli fyrir sig. Regla 3. mgr. byggist á því að við hagsmunamatið sé ljóst hverjir vernd­ar­hagsmunirnir eru.

3.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér efni þeirrar greinargerðar sem kærendur hafa óskað aðgangs að. Grein­argerðin er 17 blaðsíður að lengd og geymir frásagnir sex fyrrverandi félagsmanna Hugarafls í tengslum við starfsemi og stjórnunarhætti innan samtakanna. Í inngangi greinargerðarinnar kemur fram að tilgangur hennar sé að vekja athygli á ógnarstjórnun, ein­elti og eitraðrar framkomu innan veggja samtakanna, einkum og sér í lagi af hálfu formanns gagn­vart félagsmönnum.

Frásagnir félagsmannanna eiga það sammerkt að fjalla um starfsemi Hugarafls og upplifanir félags­manna af starfseminni og framkomu stjórnenda samtakanna í sinn garð og annarra. Ljóst er að stjórn­völd hafa styrkt starfsemi samtakanna með fjárframlögum og þar á meðal hafa sam­tökin gert samninga bæði við Vinnumálastofnun og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, annars vegar um starfsendur­hæf­ingu fyrir einstaklinga með geðraskanir og hins vegar um opið úrræði Hugar­afls. Fyrir liggur að grein­ar­­­gerðin varð tilefni neikvæðrar fjölmiðlaumfjöllunar um samtökin og hugsan­lega til þess fallið að hafa áhrif á viðhorf þeirra sem kunna að nýta þjónustu samtakanna í framtíðinni.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að kærendur hafi ríka hagsmuni af því að fá aðgang að þeim upp­lýs­ingum í greinargerðinni sem varða samtökin sem slík og upplifanir félagsmanna af samtökunum og tilgreindu forsvarsfólki þeirra, og að hagsmunir kærenda vegi þyngra að því leyti en hagsmunir þeirra sem rituðu frásagnirnar. Þá telur úrskurðarnefndin það hafa þýðingu að þeir fyrrverandi félags­menn sem tjáðu sig í greinargerðinni hafi gert það að eigin frumkvæði og að þeir hafi ekki getað treyst því að greinargerðin færi að öllu leyti leynt gagnvart Hugarafli.

Í greinargerðinni má þó jafnframt finna upplýsingar sem varða persónuleg mál viðkomandi félags­manna sem teljast einkamálefni viðkomandi einstaklinga í skilningi 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, en þar á meðal eru upplýsingar um fjölskyldu- og heilsuhagi. Telja verður einsýnt að hagsmunir kær­anda af því að af því að fá aðgang að upplýsingum um slík persónuleg málefni hinna fyrrverandi félags­­manna, geti ekki vegið þyngra en hagsmunir þeirra af því að slíkar upplýsingar fari leynt.

Að því er varðar þá röksemd að það skapi kærendum á einhvern hátt meiri rétt til aðgangs að upp­lýs­ing­um í greinargerðinni að kærendur búi nú þegar yfir miklu magni persónuupplýsinga um félagsmenn sína, þar á meðal þá sem rituðu greinargerðina, telur úrskurðarnefndin að slík rök hafi ekki þýðingu í mál­inu. Það kemur skýrt fram í 9. gr. upplýsingalaga, sbr. 3. mgr. 14. gr. laganna, að það sé beinlínis óheimilt að veita aðgang að upplýsingum sem falla undir ákvæðin og teljast varða einkamálefni ein­stak­linga sem sann­gjarnt og eðlilegt sé að fari leynt, nema sá samþykki sem í hlut á. Ljóst er að slíkt sam­þykki liggur ekki fyrir í málinu. Sömu rök eiga við um áhrif þess að hlutar greinargerðarinnar hafi birst í umfjöllun um Hugarafl í sjónvarpsþættinum Íslandi í dag á Stöð 2; úrskurðarnefndin telur slíka birt­ingu ekki vera ígildi þess að upplýsingarnar hafi verið gerðar opinberar með þeim hætti sem kynni að rýmka svigrúm til að afhenda upplýsingar þrátt fyrir 9. gr. upplýsingalaga, sbr. 3. mgr. 14. gr. laganna. Enn fremur felur slík birting ekki í sér að þeir sem rituðu greinargerðina hafi með því samþykkt að upp­lýsingarnar yrðu afhentar.

Úrskurðarnefndin minnir ráðuneytið á að þótt sá sem upplýsingar varðar leggist gegn afhendingu þeirra er það sjálfstætt mat opinbers aðila sem heyrir undir gildissvið upplýsingalaga að leggja mat á það hvort skilyrði séu til þess að undanþiggja upplýsingar aðgangi á grundvelli 3. mgr. 14. gr., sbr. 9. gr. laganna. Tilgangur þess að óska eftir afstöðu þess sem upplýsingar varða er að upplýsa málið með full­nægjandi hætti en einnig að gera aðilanum viðvart um að óskað hafi verið eftir upplýsingunum. Slík álits­umleitun getur einnig leitt til þess að sá sem upplýsingar varða samþykki að þær verði gerðar opin­berar.

Samkvæmt framangreindu er ákvörðun félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins að synja kærendum um aðgang að greinargerðinni felld úr gildi og ber ráðuneytinu að veita kærendum aðgang að henni, með þeim útstrikunum sem nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu er skylt að veita A lögmanni, f.h. Hugarafls—Notenda­stýrðrar starfsendurhæfingar og B, aðgang að greinargerð, dags. 6. júlí 2021, vegna starfs- og stjórn­­unar­hátta samtakanna og framkomu formanns gagnvart félagsmönnum. Þó er ráðuneytinu skylt að afmá eftirfarandi upplýsingar:

 1. Fyrstu tvær línurnar í greinargerð C á bls. 1, fram að setningu sem hefst á orðunum […].
 2. Línur 14–17 í greinargerð C á bls. 1, frá orðinu […].
 3. Línur 5–7 á bls. 2, frá orðunum […].
 4. Línur 18–20 á bls. 2, frá orðinu […].
 5. Línur 22–35 á bls. 2, frá orðinu […].
 6. Línur 38–40 á bls. 2, frá orðinu […].
 7. Nafn einstaklings sem hefst í orði 6 í neðstu línu á bls. 2.
 8. Nafn einstaklings í fyrstu línu á bls. 3.
 9. Línur 24–27 í greinargerð D á bls. 3, fram að setningu sem hefst í línu 27 á orðunum […].
 10. Línur 7–8 á bls. 5, frá orðinu […].
 11. Línur 4–5 í greinargerð E á bls. 6, frá orðinu […].
 12. Lína 3 á bls. 7, frá orðinu […].
 13. Línur 8–9 á bls. 7, frá orðinu […].
 14. Línur 15–17 á bls. 7.
 15. Nafn einstaklings í línu 21 á bls. 7.
 16. Fyrstu fimm línurnar í greinargerð F á bls. 8, frá orðinu […].
 17. Lína 12 í greinargerð F á bls. 8, frá orðinu […].
 18. Línur 20–27 í greinargerð F á bls. 8, frá orðunum […].
 19. Línur 21–25 á bls. 9, frá orðunum […].
 20. Neðstu línuna á bls. 9, frá orðinu […].
 21. Línur 40–42 á bls. 10, frá orðunum […].
 22. Fyrstu tvær línurnar í greinargerð G á bls. 11, fram að setningu sem hefst á orðunum […].
 23. Línur 4–7 í greinargerð G á bls. 11, frá orðunum […].
 24. Línur 17–24 í greinargerð G á bls. 11, frá orðunum […].
 25. Línur 28–33 í greinargerð G á bls. 11, frá orðunum […].
 26. Setningu sem hefst í línu 8 á bls. 12, á eftir orðunum […].
 27. Fyrstu ellefu línurnar í greinargerð H á bls. 13.
 28. Línur 12–16 í greinargerð H á bls. 13, frá orðinu […].
 29. Línur 18–32 í greinargerð H á bls. 13, frá orðinu […].
 30. Nafn einstaklings í næstneðstu línu á bls. 13.
 31. Fyrstu 25 línurnar á bls. 14.
 32. Línur 9–13 á bls. 15, frá orðunum […].
 33. Eftirstöðvar bls. 15, frá orðunum […].
 34. Fyrstu sex línurnar á bls. 16, til og með orðinu […].
 35. Línur 10–14 á bls. 16, frá orðunum […].
 36. Lína 19 á bls. 16, frá orðinu […].
 37. Línur 20–21 á bls. 16, frá orðinu […].
 38. Línur 29–31 á bls. 16, frá orðunum […].
 39. Línur 32–33 á bls. 16, frá orðunum […].
 40. Línur 40–42 á bls. 16, frá orðunum […].
 41. Nafn einstaklings sem nefndur er þrívegis í línum 40, 42 og 43 á bls. 16.
 42. Línur 5–9 á bls. 17, frá orðunum […].
 43. Línur 22–23 á bls. 17, frá orðunum […].
 44. Línur 25–27 á bls. 17, frá orðinu […].

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum