Hoppa yfir valmynd

1092/2022. Úrskurður frá 29. ágúst 2022

Hinn 29. ágúst 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1092/2022 í máli ÚNU 21120007.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 14. desember 2021, kærði A afgreiðslu Garðabæjar á beiðni hans um gögn. Með erindi til Garðabæjar, dags. 15. október 2021, óskaði kærandi eftir öllum gögnum fyrir alla skóla­göngu dóttur kæranda í Garðaskóla frá tilteknum þroskaþjálfa sem vörðuðu kæranda, konu kæranda og dóttur þeirra. Sveitarfélagið afgreiddi beiðni kæranda hinn 28. október 2021 og afhenti honum umbeðin gögn.

Með erindi til Garðabæjar, dags. sama dag, óskaði kærandi eftir upplýsingum í fjórum liðum:

  1. Dagsetningum funda sem dóttir kæranda átti með þroskaþjálfanum veturinn 2019.
  2. Staðfestingu sveitarfélagsins á því að ekki lægju fyrir skriflegar upplýsingar af þeim fundum.
  3. Upplýsingum um hvenær tiltekið skjal um dóttur kæranda hefði verið búið til (skjalið væri ekki dagsett).
  4. Ástæðu þess að skjal, dags. 31. október 2019, stofnað af B, deildarstjóra í Garðaskóla, hafi ekki verið afhent kæranda og ástæðu þess að ekki hafi verið minnst á skjalið í erindi sveitarfélagsins til kæranda frá því í apríl 2021.
    • Erindi sveitarfélagsins var svar til kæranda í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar um upp­lýsingamál nr. 992/2021, þar sem beiðni um tiltekin gögn í tengslum við deildar­stjórann hafði verið vísað til Garðabæjar til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.

Kæranda var svarað hinn 5. nóvember 2021. Þar kom fram að dóttir kæranda hefði ekki átt eiginlega fundi með þroskaþjálfanum heldur hefði verið um að ræða kennslustundir í félagsfærni. Ekki væru ritað­ar fundargerðir úr slíkum kennslustundum (2. töluliður). Kæranda voru afhentar dagsetningar félags­­færni­tímanna (1. töluliður) og dagsetning skjals um dóttur kæranda (3. töluliður). Að því er varð­aði 4. tölulið hafði sveitarfélagið ekki litið svo á að umrætt skjal væri hluti af þeirri beiðni sem úrskurð­ar­nefndin hefði heimvísað og því hefði það ekki verið afhent.

Kærandi svaraði erindi Garðabæjar tveimur dögum síðar. Þar kom fram að sveitarfélagið hefði sent kæranda dagsetningar funda (1. töluliður) þar sem dóttir kæranda hefði ekki verið í skólanum. Því væri óskað eftir raunverulegum dagsetningum þar sem þessir fundir hefðu átt sér stað. Varðandi 2. tölulið bað kærandi um staðfestingu sveitarfélagsins á því að öll gögn í tengslum við þroskaþjálfann hefðu verið afhent. Loks bætti kærandi við í tengslum við 4. tölulið að hann teldi það lögbrot ef sveitarfélagið héldi ítrekað eftir gögnum og léti ekki uppi ástæður þess þegar gögn væru ekki afhent.

Garðabær svaraði kæranda hinn 19. nóvember 2021. Kom þar fram að um mistök væri að ræða, hefðu dagsetningar verið skráðar þar sem dóttir kæranda var ekki í skólanum. Þá kæmi fram í gögnum sem kærandi hefði fengið afhent að þroskaþjálfinn hefði átt samtöl við dóttur kæranda í tvígang og að ekki væri til skráning um dagsetningar annarra samtala, að undanskildum félagsfærnitímunum.

Í kæru beinir kærandi þeirri spurningu til nefndarinnar, í tilefni af því að Garðabær hafi sent sér dag­setningar félagsfærnitíma sem dóttir kæranda á að hafa sótt þrátt fyrir að hún hafi ekki verið í skólanum þann dag, hvort ekki sé um refsivert athæfi að ræða þegar röng gögn séu send og hver séu viður­lög við slíku. Viðvíkjandi fullyrðingu sveitarfélagsins að ekki liggi fyrir frekari gögn frá þroska­þjálfa en þau sem honum hefðu þegar verið afhent, beinir kærandi spurningu til nefndarinnar hvernig það megi vera að nefndin sannreyni ekki svör bæjarfélagsins, til að mynda með vettvangs­rannsókn líkt og tíðkast hjá Persónu­vernd. Dóttir kæranda hafi sagt kæranda að þroskaþjálfi hefði skráð niður athugasemdir í tímunum. Loks spyr kærandi nefndina hver séu viðurlög við því að Garðabær ákveði að afhenda ekki upp­lýsingar eða upplýsa kæranda ekki um að tiltekin gögn séu ekki afhent. Kærandi telur að sveitar­félagið taki úrskurðum nefndarinnar ekki alvarlega og kallar eftir því að nefndi fylgi úrskurðum sínum eftir eða beiti Garðabæ viðurlögum.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Garðabæ með erindi, dags. 15. desember 2021, og sveitarfélaginu veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að sveitarfélagið léti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögn Garðabæjar barst úrskurðarnefndinni hinn 3. janúar 2022. Í umsögninni eru ítrekuð þau sjónar­mið sem fram koma í svörum sveitarfélagsins til kæranda. Þá er rakið að Garðaskóli notist við skóla­skráningarkerfið Innu. Allir kennarar hafi aðgang að kerfinu og sé skylt að setja þar inn ýmsar upplýsingar. Nemendur og foreldrar hafi síðan aðgang að þessum upplýsingum. Kerfið sé notað til að halda utan um upplýsingar sem varða nám og ástundun nemandans á meðan hann stundar nám í skól­anum og tryggja örugg samskipti milli skóla og heimilis. Í dagsins önn tíðkist ekki að rita niður og skrá í kerfi hver einustu samskipti milli nemenda og kennara, eða tímasetningu þeirra.

Að því er varði skjal frá 31. október 2019 sem stafi frá B, deildarstjóra í Garðaskóla, þá liggi fyrir skýringar á því hvers vegna skjalið hafi ekki verið afhent í apríl 2021. Að því sögðu sé ekki loku fyrir það skotið að kærandi hafi fengið skjalið afhent frá Garðabæ á sínum tíma, en í fyrstu afgreiðslum gagnabeiðna kæranda hafi ekki verið haldið utan um lista yfir afhent gögn. Varðandi ásakanir um að sveitarfélaginu hafi ekki tekist að sanna að gögn séu til eða afhent er vísað til umsagnar í máli ÚNU 21070008, sem lyktaði með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýs­inga­mál nr. 1057/2022 hinn 3. febrúar 2022. Umsögninni fylgdu þau gögn sem kærandi fékk afhent hinn 28. október 2021. Ekki væri um frekari gögn að ræða í málinu.

Umsögn Garðabæjar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 3. janúar 2022, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Þær bárust daginn eftir. Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi fellir sig ekki við það hvernig Garðabær hefur staðið að afhendingu gagna um sig, konu sína og dóttur þeirra. Af því tilefni beinir kærandi spurningum til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sem lúta í megindráttum að því að svara því hvort um refsivert athæfi sé að ræða þegar aðili sem fellur undir gildissvið upplýsingalaga ýmist afhendir gögn sem eru efnislega röng eða upplýsir ekki beiðanda um það að tiltekin gögn sem liggja fyrir séu ekki afhent, og hver séu viðurlög við slíku. Þá óskar kærandi eftir því að úrskurðarnefndin fari í vettvangsrannsókn til að sannreyna svör Garðabæjar til kæranda og að nefndin fylgi úrskurðum sínum eftir gagnvart sveitarfélaginu eða beiti það viðurlögum, þar sem kæranda þyki ljóst að Garðabær taki úrskurðum nefndarinnar ekki alvar­lega og fari ekki eftir niðurstöðum hennar.

Fram hefur komið í skýringum Garðabæjar til kæranda og nefndarinnar, að því er varðar meintar rangar dagsetningar félagsfærnitíma, að hafi verið merkt við mætingu hjá dóttur kæranda en hún ekki verið viðstödd, sé um mistök að ræða. Þá hefur komið fram að ekki liggi fyrir frekari gögn frá þroska­þjálfa en þau sem kæranda hafa verið afhent, þrátt fyrir fullyrðingar dóttur kæranda að frekari gögn kunni að vera til. Loks hefur sveitarfélagið útskýrt að ástæða þess að bréf B, deildarstjóra í Garðaskóla, hafi ekki verið afhent sé sú að ekki hafi verið litið svo á að gagnið væri hluti af upphaflegri beiðni kæranda og það því ekki verið afhent.

Úrskurðarnefnd um upp­lýsingamál telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir eða draga í efa þær skýr­ing­ar sem sveitarfélagið hefur fært fram í málinu. Þá hefur nefndin ekki orðið þess áskynja að Garða­bær fari ekki að niður­stöðum nefndarinnar í úrskurðum sem beinast að sveitarfélaginu. Vakin er athygli á því að valdheimildir úrskurðarnefndarinnar eins og þær eru afmarkaðar í upplýsingalögum eru tak­mark­­aðar. Úr­skurð­ar­nefndin hefur ekki heimild til að beita aðila sem heyrir undir upp­lýsingalög viður­lögum. Hins vegar eru úrskurðir nefndarinnar aðfararhæfir, sbr. 3. mgr. 23. gr. upp­lýs­inga­laga, nema réttaráhrifum hafi verið frestað. Það þýðir að það kemur í hlut aðila sjálfs, ekki úrskurðar­nefnd­arinnar, að framfylgja þeim rétti sem eftir atvikum er kveðið á um í úrskurðarorði.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga er úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál af­mark­­­að við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lög­­unum. Í máli þessu liggur fyrir að kæranda hefur ekki verið synjað um aðgang að gögnum. Það er ekki hlutverk úrskurðarnefndarinnar að hafa eftirlit með því hvort gögn sem afhent eru séu efnislega rétt eða með hvaða hætti aðilar sem heyra undir gildissvið upplýsingalaga skrá upplýsingar um meðferð mála hjá sér. Það kemur í hlut annarra aðila að hafa eftirlit með því hvernig stjórnvöld sinna skyldum sínum að þessu leyti, einkum æðri stjórnvalda og umboðsmanns Alþingis. Kæra þessi snýr að atriðum sem falla utan valdsviðs nefndarinnar og verður henni vísað frá.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 14. desember 2021, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum