Hoppa yfir valmynd

1094/2022. Úrskurður frá 5. október 2022

Hinn 5. október 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1094/2022 í máli ÚNU 21120011.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 20. desember 2021, kærði A, fréttamaður hjá Frétta­stofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, ákvörðun Fiskistofu að synja kæranda um aðgang að upp­tökum úr dróna af brottkasti á fiski.

Kærandi óskaði með erindi, dags. 26. ágúst 2021, eftir upptöku þar sem drónar Fiskistofu hefðu náð myndefni sem sýndi brottkast á fiski í nokkrum tilvikum. Fiskistofa synjaði beiðni kæranda með erindi, dags. 12. október 2021.

Í ákvörðun Fiskistofu kemur fram að stofnunin hafi afmarkað beiðni kæranda við samsett myndskeið, 5 mínútur og 42 sekúndur að lengd, sem sýni fimm skip að veiðum. Nafn skipanna, umdæmisstafir og skipaskrárnúmer hafi verið gerð ógreinanleg. Í öllum tilvikum sjáist skipverjar um borð og hafi andlit þeirra í flestum tilvikum verið gerð ógreinanleg. Útgerðaraðilar skipanna séu allir lögaðilar. Mynd­skeið­ið sýni brottkast á fiski sem talist geti brot gegn 2. mgr. 2. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996, og varðað sviptingu veiðileyfis, sektum eða fangelsi, hvort sem brotið er framið af ásetningi eða gáleysi. Fiskistofa geti ekki útilokað að hægt sé að greina hvaða skip séu í myndskeið­inu og þar með hvaða skipverjar eigi í hlut, þrátt fyrir að andlit skipverja hafi í flestum tilvikum verið gerð ógreinileg og einnig tiltekin einkenni skipanna.

Myndskeið sem tekin séu upp við eftirlit Fiskistofu hafi þann tilgang að tryggja réttaröryggi við töku stjórnvaldsákvarðana um beitingu viðurlaga. Söfnun og varðveisla myndskeiða um brottkast geti talist til vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Vinnsla Fiskistofu á slíkum upplýsingum, m.a. um refsiverða háttsemi, falli undir lögbundið eftirlitshlutverk stofnunarinnar, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 90/2018.

Fiskistofa hafi óskað eftir afstöðu þeirra útgerðaraðila sem kæmu fyrir í myndskeiðinu. Þeir leggist allir gegn afhendingu þess, m.a. með vísan til friðhelgi einkalífs og persónuverndar skipverja. Þeir halda því fram að viðkomandi skip, útgerð og þar með skipverjar geti verið auðkenndir á grundvelli breytna sem samanlagðar gefi til kynna hvaða einstaklingar eigi í hlut. Stærð, lögun og litir skips séu til að mynda þættir sem geri skip auðkennanleg. Þá sýni myndskeiðið brottkast á fiski sem varðað getur viðurlögum.

Við mat á hagsmunum þeirra aðila sem upplýsingarnar varða verði að líta til þess að myndskeiðanna hafi verið aflað í tengslum við opinbert eftirlit sem hlutaðeigandi útgerðaraðilar sæta. Myndskeiðin sýni brottkast á fiski sem kunni að fela í sér refsiverða háttsemi. Hagsmunir útgerðaraðila og skipverja af leynd vegi þyngra en hagsmunir almennings af því að gagnið verði afhent. Því sé Fiskistofu óheimilt að afhenda myndskeiðið með vísan til 9. gr. upplýsingalaga hvað varði hlutaðeigandi útgerðaraðila en með vísan til 9. gr. upplýsingalaga auk 12. gr. laga nr. 90/2018 hvað varði skipverjana.

Kæran var kynnt Fiskistofu með erindi, dags. 20. desember 2021, og stofnuninni veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að Fiskistofa léti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Umsögn Fiskistofu barst úrskurðar­nefndinni hinn 4. janúar 2022. Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skal mál samkvæmt 20. gr. borið skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnunum var tilkynnt um ákvörðun stjórnvaldsins. Fiskistofa synjaði beiðni kæranda með bréfi, dags. 12. október 2021, en kæra barst úrskurðarnefndinni hinn 20. desember sama ár. Hún barst því um 40 dögum eftir að kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga rann út. Í svari Fiskistofu til kæranda var honum leiðbeint bæði um kæruheimild þá sem kveðið er á um í 1. mgr. 20. gr. upp­lýs­inga­laga og kærufrest samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laganna.

Eins og rakið er hér að framan tók úrskurðarnefnd um upplýsingalög mál þetta til efnislegrar meðferðar og óskaði m.a. umsagnar Fiskistofu. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, skal hins vegar vísa kæru frá ef hún berst að liðnum kærufresti, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Eins og hér stendur á telur úrskurðarnefndin skilyrði ákvæðisins ekki uppfyllt. Að mati úrskurðar­nefnd­arinnar verður því ekki talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Úrskurðarnefndinni er því ekki annað fært en að vísa máli þessu frá. Nefndin áréttar þó að kæranda er heimilt að leggja fram nýja beiðni til Fiskistofu. Ákveði kærandi að gera það leggur úrskurðarnefnd um upplýsingamál áherslu á að Fiskistofa afgreiði málið án tafar. Fari svo að beiðni kæranda verði synjað á nýjan leik og kærð til úrskurðarnefndarinnar mun afgreiðsla málsins fá flýtimeðferð hjá nefndinni.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 20. desember 2021, er vísað frá úrskurðarnefnd um upp­lýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum