Hoppa yfir valmynd

1099/2022. Úrskurður frá 19. október 2022

Hinn 19. október 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1099/2022 í máli ÚNU 21120010.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 17. desember 2021, kærði A lögmaður, f.h. B, afgreiðslu Ríkisútvarpsins ohf. á beiðni um tvo samninga í tengslum við móður kæranda, C. Byggist kæran á 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.

Lögmaður kæranda sendi gagnabeiðni til Ríkisútvarpsins hinn 20. maí 2021. Í erindinu kom fram að kær­andi væri rétt­hafi höfundarréttar að verkum C. Hinn 19. mars 2021 hefði kær­andi gert samning við fyrirtækið Storytel um dreifingu á hljóðritun Ríkisútvarpsins á verkinu […], í flutningi höfundar, í gegnum áskrift­arstreymisveitu Storytel. Samkvæmt upplýsingum í samn­ingnum hafi verkið verið hljóðritað á sínum tíma og gefið út af Ríkisútvarpinu sem hljóðbók (e. audio­book), og gert aðgengilegt almenningi samkvæmt samkomulagi milli Ríkisútvarpsins og höfund­ar.

Í samningi kæranda og Storytel er vísað til samnings sem fyrirtækið hafi gert við Ríkisútvarpið um heim­ild til að dreifa hljóðbókum Ríkisútvarpsins á streymisveitu Storytel. Framangreint samkomulag milli Ríkis­­útvarps­ins og C veiti stofnuninni hins vegar ekki heimild til að dreifa hljóðritun á […] út fyrir stofnunina. Þar af leiðandi sé þörf á að Storytel afli heimildar frá rétthafa verks­­ins til að streyma því á streymisveitu sinni, til viðbótar við samkomulag fyrirtækisins við Ríkis­út­varpið. Það sé tilefni samningsgerðar kæranda og Storytel.

Í erindi lögmanns kæranda til Ríkisútvarpsins frá 20. maí 2021 kom fram að misskilnings gætti í samn­ingi kæranda við Storytel; Ríkisútvarpið hefði aldrei öðlast rétt yfir verkum C sem heim­ilaði stofnuninni að dreifa þeim á streymisveitum. Þá hefði stofnunin ekki gefið verkið út sem hljóð­bók, líkt og tilgreint væri í samningnum. Ríkisútvarpið hefði aðeins tekið upp lestur höfundar á verk­inu og hafði samningsbundna heimild til þess eins að útvarpa þeim lestri í línulegri dagskrá á til­tekinn hátt.

Þóknunarákvæði í samningi kæranda og Storytel vekti sérstaka athygli, en þar kæmi fram að kærandi fengi greidda þóknun sem næmi […]% af heildarþóknun Ríkisútvarpsins frá Storytel, samkvæmt samn­ingi þeirra á milli, og Ríkisútvarpið […]% þóknunarinnar. Ríkisútvarpið fengi sem sagt […]% þóknun­ar­innar fyrir það eitt að afhenda Storytel upptöku verksins, sem væri með ólíkindum í ljósi þess að Ríkis­útvarpið hefði aldrei átt neinn rétt til verksins í áskriftarstreymi.

Ríkisútvarpið ætti tiltekinn rétt til hljóðritunarinnar, en sá réttur væri takmarkaður við samkomulag stofn­unar­innar við C, og ætti ekkert skylt við tekjur sem yrðu til af verkinu í gegnum áskrift­ar­streymi. Ríkisútvarpið væri ekki útgefandi verksins og hefði aldrei verið. Í samræmi við framangreint óskaði kærandi eftir annars vegar samningi Ríkisútvarpsins og Storytel, og hins vegar samkomulagi milli Ríkisútvarpsins og C.

Beiðni kæranda var ítrekuð í lok ágúst 2021 og hinn 6. október 2021 barst svar frá Ríkisútvarpinu. Í svarinu kom fram að málið væri byggt á misskilningi; Ríkisútvarpið hefði ekki veitt Storytel rétt til nýt­­ing­­ar á verkum C, heldur væri slíkt háð sérstökum samningi milli rétthafa og Storytel. Vísað var í því sambandi til ákvæðis úr samningi Ríkisútvarpsins og Storytel, þar sem fram kæmi að Story­tel bæri ábyrgð á því að afla leyfis höfundar áður en verki væri dreift gegnum streymis­veitu fyrir­tækis­ins.

Lögmaður kæranda svaraði erindinu samdægurs og beindi þeirri spurningu til Ríkisútvarpsins hvort það væri þá rangt að stofnunin fengi […]% af rétthafagreiðslum vegna verksins. Í svari Ríkisútvarpsins var því svarað til að samningur stofnunarinnar og Storytel væri í reynd afsprengi samninga sem Story­tel kynni að gera við rétthafa. Skýrt væri kveðið á um það í samningi Ríkisútvarpsins og Storytel að hinn síðar­nefndi aðili þyrfti að semja við höfund/rétthafa um rétt til áskriftarstreymis. Hið sama ætti við um greiðslur fyrir upplestur. Greiðslur Storytel til Ríkisútvarpsins tækju einungis til umræddrar hljóð­upp­töku og umsýslu sem henni tengdist, enda væri um að ræða hljóðupptöku sem framleidd hefði verið og unnin af Ríkisútvarpinu.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Ríkisútvarpinu með erindi, dags. 20. desember 2021, og stofnuninni veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að Ríkisútvarpið léti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögn Ríkisútvarpsins barst úrskurðarnefndinni hinn 7. janúar 2022. Í henni kemur fram að sam­komu­lag milli Ríkisútvarpsins og C hafi, þrátt fyrir víðtæka leit, hvorki fundist í skjala­safni stofnunarinnar né á Þjóðskjalasafni Íslands. Af þeim sökum sé ekki unnt að verða við beiðni kæranda um aðgang að samkomulaginu.

Í umsögninni kemur fram að Ríkisútvarpið hafi gert samning við Storytel sem veiti fyrirtækinu rétt til dreifingar á efni á streymisveitu Storytel, m.a. hljóðupptökum, sem Ríkisútvarpið hafi framleitt að því gættu að leyfi annarra rétthafa liggi fyrir, en um slíkt fari þá samkvæmt samningi viðkomandi rétthafa og Storytel.

Eftir atvikum megi, að mati Ríkisútvarpsins, fallast á að kærandi geti byggt rétt til aðgangs að samning­­num á 14. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Hins vegar telji stofnunin að bæði 2. og 3. mgr. sömu grein­ar standi beiðni kæranda í vegi. Samningurinn kunni augljóslega að varða einka-, fjár­­hags- og við­skipta­málefni Storytel, þar á meðal samningsforsendur og kjör, á þeim mörkuðum sem Story­tel starfi á, og um leið rekstrar- og samkeppnisstöðu fyrirtækisins, sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsinga­laga. Til þess sé einnig að líta að ekki sé verið að ráðstafa opinberum hagsmunum með beinum hætti, svo sem með ráð­stöfun á almannafé, sem kynni að gefa ríkari ástæðu en ella til þess að efni samningsins yrði gert opin­bert.

Ríkisútvarpið vísar einnig til 2. mgr. 14. gr., sbr. 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, til stuðnings þeirri afstöðu að takmarka skuli aðgang kæranda að samningnum. Í 4. tölul. 10. gr. komi fram að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum ef mikilvægir almannahagsmunir krefjist, enda hafi þau að geyma upplýsingar um viðskipti fyrirtækja eða stofnana í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau séu í samkeppni við aðra. Samningur Ríkisútvarpsins og Storytel lúti að hljóðupptökum og efni sem framleitt sé og unnið af Ríkisútvarpinu, sem stofnunin veiti svo Storytel rétt til dreifingar á, að fullnægðu samþykki rétthafa, gegn tiltekinni greiðslu. Starfsemi streymisveitna á borð við Storytel sé vaxandi markaður, þar á meðal fyrir fjölmiðla sem semji við slíkar veitur. Samningurinn varði í eðli sínu starfsemi af einkaréttarlegum toga á samkeppnismarkaði, sem standi aðgangi í vegi.

Umsögn Ríkisútvarpsins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 17. janúar 2022, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Í svari kæranda, dags. 20. janúar 2022, kom fram að ekki væru gerðar frekari athugasemdir.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál leitaði afstöðu Storytel Iceland ehf. til afhendingar samningsins, sbr. 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga, með erindi, dags. 25. maí 2022. Í svari sem barst nefndinni fyrir hönd fyrirtækisins, dags. 7. júlí 2022, er lagst gegn afhendingu samningsins.

Í erindinu er vísað til athugasemda við 9. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, varð­andi það að undir greinina falli upplýsingar um viðskiptaleyndarmál. Hugtakið viðskiptaleyndar­mál sé skilgreint í 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um viðskiptaleyndarmál, nr. 131/2020. Undir hugtakið hafi í framkvæmd verið felldar upplýsingar um verð. Í samningi Ríkisútvarpsins og Storytel sé ítarlega kveðið á um það verð sem fyrirtækinu beri að greiða fyrir þann rétt sem félaginu sé veittur með dreif­ingar­samningnum, sem og það greiðslufyrirkomulag sem gildi milli aðila. Þá sé að auki vikið ítarlega að öðrum viðskiptaskilmálum sem eigi við um réttarsamband aðilanna.

Umræddar upplýsingar séu þess eðlis að þær geti haft áhrif á samkeppnisstöðu Storytel verði þær gerð­ar opinberar enda yrði þá samkeppnisaðilum gert kleift að nýta sér upplýsingarnar með tilheyrandi tjóni fyrir Storytel. Atriði samningsins uppfylli að öllu leyti þær kröfur sem lög um viðskiptaleyndarmál geri til þess að upplýsingar og gögn teljist til viðskiptaleyndarmála. Upplýsingarnar séu ekki almennt þekkt­ar, þær hafi viðskiptalegt gildi auk þess sem gerðar hafi verið eðlilegar ráðstafanir til að halda þeim leyndum, en skýrlega sé tekið fram í samningnum að efni hans sé trúnaðarmál.

Niðurstaða

1.

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að dreifingarsamningi milli RÚV Sölu ehf., sem er dótturfélag Ríkisútvarpsins ohf., og Storytel Ice­land ehf. Kærandi óskaði einnig eftir aðgangi að samn­ingi sem Ríkisútvarpið gerði við móður kæranda, en í umsögn Ríkisútvarpsins kemur fram að sá samn­ingur hafi ekki fundist hjá stofnuninni. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að draga þá fullyrðingu í efa og verður þeim hluta kærunnar því vísað frá nefndinni.

Kærandi telur að um rétt sinn til aðgangs að samningi RÚV Sölu og Storytel skuli fara samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upp­lýs­ingalaga. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Ákvæðið hefur verið skýrt svo að undir það falli ekki eingöngu þau tilvik þegar einstaklingur eða lögaðili óskar eftir upplýsingum sem beinlínis fjalla um hann sjálfan, heldur taki hún einnig til þeirra tilvika þegar upplýsingarnar varða viðkomandi með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni umfram aðra af því að fá aðgang að gögnunum.

Í samningi sem kærandi hefur gert við Storytel um dreifingu á verkinu […] kemur fram að fyrirtækið hafi gert samning við Ríkisútvarpið um dreifingu á hljóðbókum í eigu stofnunarinnar, en að þörf sé á að gera leyfissamning við höfund eða rétthafa höfundarréttar áður en af dreifingu verksins geti orðið. Í samningi kæranda við Storytel er á nokkrum stöðum vísað til samnings Ríkisútvarpsins og Storytel varðandi nánari útfærslu á réttindum kæranda. Til að mynda kemur fram í þeim kafla samnings kæranda sem ber heitið „Veiting réttinda“ (e. Grant of Rights) að um þann rétt sem kærandi veiti Storytel til að dreifa verkinu á efnisveitu fyrirtækisins sé nánar fjallað í samningi Ríkisútvarpsins og Storytel. Þá kemur fram síðar í samningnum að kærandi fái tiltekið hlutfall af þeirri heildarþóknun sem Ríkis­útvarpið eigi rétt til samkvæmt samningi stofnunarinnar við Storytel.

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin ljóst að samningur Ríkisútvarpsins og Storytel innihaldi upplýsingar sem varði kæranda sérstaklega og veru­lega umfram aðra í skilningi 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Fer því um rétt kæranda til aðgangs að samn­ingnum eftir ákvæðum III. kafla laganna, en sá réttur er ríkari en upplýsingaréttur almennings samkvæmt II. kafla sömu laga.

Úrskurðarnefndin áréttar að aðgangur aðila að gögnum á grundvelli 14. gr. upp­lýsingalaga er annars eðlis en aðgangur almennings á grundvelli 5. gr. sömu laga. Niðurstaða um að aðgangur að gögnum sé heimill aðila á grundvelli 14. gr. felur ekki í sér að almenningur hafi sama að­gang, enda byggist 14. gr. á því að viðkomandi aðili hafi hagsmuni af afhendingu gagnanna sem al­menningur hefur ekki. Opin­ber birting upplýsinganna sem aðili hefur aflað á grundvelli 14. gr. kann eftir atvikum að brjóta gegn réttindum annarra, en til þess tekur úrskurðarnefndin ekki afstöðu í þessu máli.

2.

Kemur þá næst til skoðunar hvort ákvæði 3. mgr. 14. gr. geti takmarkað aðgang kæranda til aðgangs að samningnum. Í 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga kemur fram að heimilt sé að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum kemur fram að kjarni þessa ákvæðis felist í því að vega og meta þessa gagnstæðu hagsmuni, en síðarnefndu hags­munirnir séu að meginstefnu þeir sömu og liggja að baki 9. gr. upplýsingalaga. Aðgangur að gögnum verði því aðeins takmarkaður ef talin er hætta á því að einkahagsmunir skaðist ef aðila yrði veittur aðgangur að upplýsingunum. Aðila verði því ekki synjað um aðgang að gögnum á grundvelli hugleið­inga um að aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga sé almennt til þess fallinn að valda einhverju tjóni, heldur verði að leggja mat á aðstæður í hverju máli fyrir sig. Regla 3. mgr. byggist á því að við hags­munamatið sé ljóst hverjir verndarhagsmunirnir eru.

Ríkisútvarpið byggir synjun sína m.a. á vísun til þeirra hagsmuna sem verndaðir eru samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt þeirri grein er óheimilt að veita aðgang að gögnum sem varða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lög­aðila, nema sá samþykki sem í hlut á. Við beitingu ákvæðisins gera lögin ráð fyrir að metið sé í hverju og einu tilviki hvort við­komandi upplýsingar varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi fyrirtækja eða ann­arra lögaðila að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda þeim tjóni, verði þær gerðar opinberar. Við fram­kvæmd slíks mats verður að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt það er að tjón muni verða ef aðgangur er veittur að upplýsingunum. Enn fremur verður að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafa fyrir þann lögaðila sem um ræðir á þeim tíma er matið fer fram.

Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra, hagsmunir viðkomandi lögaðila af því að upplýsingunum sé haldið leyndum eða þeir hagsmunir sem meginreglu upplýsingalaga um upp­lýs­ingarétt almennings er ætlað að tryggja. Við mat á hagsmunum almennings skiptir almennt veru­legu máli hvort og þá að hvaða leyti þær upplýsingar sem um ræðir lúta að ákvörðunum um ráð­stöfun opin­bers fjár og eigna.

Í umsögn Ríkisútvarpsins er vísað til þess að samningurinn við Storytel innihaldi upplýsingar um samningsforsendur og -kjör á þeim mörkuðum sem fyrirtækið starfi á og að afhending geti skaðað rekstrar- og samkeppnisstöðu fyrirtækisins. Í afstöðubréfi Storytel til úrskurðarnefndarinnar er vísað til þess að upplýsingar um verð séu viðskiptaupplýsingar sem teljist til viðskiptaleyndarmála. Í samn­ing­num séu ítarlegar upplýsingar um það verð sem Storytel beri að greiða fyrir þann rétt sem félaginu er veittur með dreifingarsamningnum og gildandi greiðslufyrirkomulag milli aðila. Þá sé að auki vikið ítarlega að öðrum viðskiptaskilmálum Storytel sem eiga um réttarsamband Ríkis­útvarpsins og Storytel. Auk þess sé skýrlega tekið fram í samningnum að efni hans sé trúnaðarmál.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir samning Storytel Iceland ehf. við RÚV Sölu ehf. ásamt viðaukum (e. schedules) sem eru samningnum til fyllingar. Með samningnum er Storytel veittur réttur m.a. til að dreifa þeim rafbókum og hljóðskrám Ríkisútvarpsins sem stofnunin býður fram á samn­ings­tímanum. Samningurinn er í gildi og endurnýjast sjálfkrafa við lok samningstíma nema að nánari skilyrðum uppfylltum. Í viðauka 1 eru almennir skilmálar sem eiga við um samninginn, í viðauka 2 eru skilmálar sem varða útreikning á hlutfalli þóknunar og greiðslufyrirkomulag, í viðauka 3 eru upp­lýs­ingar um afhendingu verka og í viðauka 4 er listi yfir verk sem samningurinn tekur til.

Almennt má búast við því að vitneskja um kjör í viðskiptum fyrirtækja við hið opinbera geti haft nei­kvæð áhrif á samkeppnisstöðu þeirra. Það sjónarmið verður þó að jafnaði að víkja fyrir almennum fyrir­mælum upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings eða aðila sjálfs. Í því sambandi er m.a. rétt að líta til þess að fyrirtæki og aðrir lögaðilar sem gera samninga við aðila sem falla undir ákvæði upp­lýs­ingalaga verða hverju sinni að vera undir það búin að látið verði reyna á rétt til aðgangs að upp­lýs­ing­um um samn­ings­gerðina, innan þeirra marka sem upplýsingalög setja, þótt það kunni að valda þeim ein­hverju óhag­ræði. Hefur það margsinnis verið staðfest í úrskurðar­fram­kvæmd nefndarinnar.

Í samningi RÚV Sölu og Storytel koma fram upplýsingar sem geta varðað viðskiptahagsmuni Storytel. Í þeim er m.a. að finna upplýsingar um skiptingu tekna milli samningsaðila og greiðslufyrirkomulag. Það er afstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið sýnt fram á að umræddar upplýsingar nái til svo mikilvægra fjárhags- eða viðskiptahagsmuna að þær séu sérstaklega til þess fallnar að valda samningsaðilum tjóni verði þær afhentar kæranda. Kærandi hefur að mati nefndarinnar hagsmuni af því að geta kynnt sér það sem fram kemur í samningnum til að gæta sinna hagsmuna gagnvart Ríkisútvarpinu og eftir atvikum Storytel. Fyrir liggur að kærandi er rétthafi höfundarréttar að verkum móður sinnar og telur að Ríkisútvarpinu hafi ekki verið heimilt að ráðstafa verkum hennar með þeim hætti sem gert hefur verið.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál áréttar að Storytel kaus sjálft að vísa til samnings síns við RÚV Sölu í samningi sínum við kæranda. Þá lítur nefndin sérstaklega til þess að um er að ræða upplýsingar sem lúta með beinum hætti að ráð­stöfun opinberra hagsmuna. RÚV Sala er dótturfélag Ríkisútvarpsins, sem hefur þann tilgang sam­kvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, að styðja við starf­semi móðurfélagsins m.a. með því að taka saman, gefa út og dreifa hvers konar áður framleiddu efni í eigu Ríkisútvarpsins, og að selja birtingarrétt að efni Ríkisútvarpsins og að framleiða og selja vör­ur sem tengjast framleiðslu Ríkisútvarpsins á efni sem fellur undir 3. gr. lag­anna. Er sá tilgangur stað­festur í 2. gr. samþykkta fyrir RÚV Sölu. Með samningnum er verið að ráðstafa efni í eigu Ríkis­út­varps­ins, sem með vísan til þess að stofnunin er í opin­berri eigu, telst óhjákvæmilega fela í sér ráðstöfun opin­berra hags­muna.

Að því er varðar tilvísun Storytel til trúnaðar samningsaðila um efni samningsins tekur úrskurðar­nefnd­­in fram að af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að réttur til aðgangs að upplýsingum er lögbundinn og verður ekki takmarkaður nema á grundvelli ákvæða laganna. Aðili sem heyrir undir gildissvið upp­lýs­ingalaga getur ekki samið við aðila um að trúnaður ríki um það sem þeirra fer á milli, nema upp­lýs­ing­arnar falli ótvírætt undir eitthvert af undanþáguákvæðum laganna. Það hefur því ekki þýðingu við úr­lausn þessa máls þótt í samningi Storytel og Ríkisútvarpsins komi fram að hann skuli vera trúnaðar­mál.

Með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefndin að ákvörðun Ríkisútvarpsins að synja kæranda um aðgang að samningnum verði ekki byggð á 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.

3.

Ákvörðun Ríkisútvarpsins að synja beiðni kæranda styðst einnig við 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, sbr. 2. mgr. 14. gr. laganna, en í ákvæðinu kemur fram að heimilt sé að takmarka aðgang að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um viðskipti stofn­ana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra.

Úrskurðarnefndin hefur talið að til að heimilt sé að synja um aðgang á grundvelli ákvæðisins þurfi a.m.k. þremur skilyrðum að vera fullnægt. Í fyrsta lagi skal starfsemi þess aðila sem upplýsingabeiðni bein­ist að, eða upplýsingar tengjast að öðru leyti, í heild eða að hluta, vera í samkeppni við aðra aðila. Í öðru lagi þurfa þær upplýsingar sem beðið er um að tengjast þeirri starfsemi viðkomandi aðila sem telst til samkeppnisrekstrar hans. Í þriðja lagi að sú afstaða hafi verið tekin á grundvelli ígrundaðs mats að þeir samkeppnishagsmunir hinnar opinberu stofnunar eða fyrirtækis sem um ræðir séu það veru­leg­ir að réttlætanlegt sé að þeir gangi framar hagsmunum og rétti til aðgangs að umræddum upp­lýs­ing­um á grundvelli upplýsingalaga.

Ríkisútvarpið hefur vísað til þess að starfsemi streymisveitna á borð við Storytel sé vaxandi markaður þar á meðal fyrir fjölmiðla sem semja við streymisveitur. Stofnunin hefur að öðru leyti ekki rökstutt hvers vegna takmarka skuli aðgang að samningi við Storytel á grundvelli samkeppnishagsmuna Ríkis­útvarpsins. Úrskurðarnefndin tekur fram að beiðni um upplýsingar verður ekki synjað með stoð í ákvæðinu nema aðgangur leiði af sér hættu á tjóni á einhverjum þeim hagsmunum sem njóta verndar samkvæmt ákvæðinu. Ríkisútvarpið hefur ekki leitt líkur að því að tjón hljótist af verði kæranda veittur aðgangur að umbeðnum gögnum. Þá telur úrskurðarnefndin enn fremur vandséð hvernig afhending samnings­ins til kæranda sé til þess fallin að hafa skaðleg áhrif á samkeppnislega hagsmuni Ríkisútvarpsins á þeim markaði sem um ræðir.

Samkvæmt framangreindu er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að Ríkisútvarpinu hafi ekki verið heimilt að synja kæranda um aðgang að samningi RÚV Sölu og Storytel. Verður því lagt fyrir Ríkisútvarpið að veita kæranda aðgang að samningnum í heild sinni.

Úrskurðarorð

Ríkisútvarpinu ohf. er skylt að veita A lögmanni, f.h. B, aðgang að samningi Storytel Iceland ehf. og RÚV Sölu ehf. Að öðru leyti er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum