Hoppa yfir valmynd

1109/2022. Úrskurður frá 16. nóvember 2022

Hinn 16. nóvember 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1109/2022 í máli ÚNU 22060025.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 30. júní 2022, kærði A afgreiðslu Reykjavíkurborgar á beiðni hans um gögn. Í byrjun árs 2021 lagði kærandi bíl sínum í Bankastræti og fékk sekt fyrir stöðvunar­brot, þar sem hann teldist hafa lagt bílnum í göngugötu. Kærandi mótmælti þessu við borgina og kvað merkingar þess efnis hafa verið ófullnægjandi. Tveimur vikum síðar höfðu svo verið sett upp skilti í Bankastræti þess efnis að þar væri bannað að leggja. Einhverju síðar voru svo allar merkingar fjarlægð­ar.

Í tilefni af þessu sendi kærandi gagnabeiðni til Reykjavíkurborgar, dags. 1. mars 2021, og óskaði eftir gögnum sem lytu að uppsetningu merkinga í Bankastræti, þ.m.t. hvaða tilmæli starfsmenn hefðu fengið og frá hverjum varðandi uppsetningu merkinganna sem gæfu til kynna að hluti Bankastrætis væri göngugata, svo og tilmæli um breytingu merkinga. Í svari Reykjavíkurborgar, dags. 24. mars 2021, kom fram að ekki væru til gögn hjá borginni sem heyrðu undir beiðni kæranda.

Daginn eftir að kæra barst úrskurðarnefndinni fékk kærandi svar við annarri gagnabeiðni frá Reykja­víkur­­borg. Í þeim gögnum er vísað til annarra gagna í vörslum Reykjavíkurborgar sem kærandi telur að réttilega hafi átt að vera afhent honum í tilefni af beiðni hans hinn 1. mars 2021. Það sé því ekki rétt sem fram komi í svari Reykjavíkurborgar frá 24. mars 2021 að ekki væru til gögn sem heyrðu undir beiðni kæranda.

Með hliðsjón af gögnum málsins taldi úrskurðarnefndin ekki þörf á að kynna kæruna fyrir Reykjavík­urborg og óska eftir umsögn. Þá er óþarft að rekja það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum máls­ins.

Niðurstaða

Í máli þessu hefur kærandi óskað eftir gögnum um tilurð götumerkinga í Bankastræti. Í svari Reykja­víkurborgar frá því í mars 2021 kemur fram að engin gögn séu til sem heyri undir beiðni kæranda en í öðru svari frá því í byrjun júlí er gefið til kynna að raunar séu til gögn sem hafi átt að falla undir fyrri beiðnir kæranda.

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, skal mál samkvæmt 20. gr. borið skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnunum var tilkynnt um ákvörðun stjórnvaldsins. Reykjavíkurborg synjaði beiðni kæranda með bréfi, dags. 24. mars 2021, en kæra barst úrskurðarnefndinni hinn 30. júní 2022. Hún barst því rúm­lega 14 mánuðum eftir að kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga rann út. Í svari Reykja­vík­urborgar var kæranda leiðbeint um kæruheimild til nefndarinnar, en ekki um kærufrest.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, skal vísa kæru frá ef hún berst að liðnum kærufresti, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Þá segir í 2. mgr. sömu greinar að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var kynnt aðila. Í ljósi þessa er óhjákvæmilegt að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni. Nefndin vekur athygli kæranda á því að honum er fært að óska að nýju eftir þeim gögnum hjá Reykjavíkurborg sem hann telur að hefði réttilega átt að afhenda honum í kjölfar gagnabeiðni hans frá því í byrjun mars 2021. Fari það svo að beiðni kæranda verði synjað getur kærandi vísað málinu til úrskurðarnefndarinnar innan þess kærufrests sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 30. júní 2022, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum