Hoppa yfir valmynd

1112/2022. Úrskurður frá 5. desember 2022

Hinn 5. desember 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1112/2022 í máli ÚNU 22050013.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 20. maí 2022, kærði A synjun sveitarfélagsins […] á beiðni um aðgang að gögnum sem tengjast starfslokum kæranda hjá sveitarfélaginu.

Með erindi, dags. 5. nóvember 2021, óskaði kærandi eftir gögnum frá sveitarfélaginu sem varða kær­anda sjálfan […]. Kærandi tók fram að beiðnin næði til ályktana, trúnaðarmálabóka, minnisblaða og ann­arra skriflegra upplýsinga, hvort sem þær stöfuðu frá bæjarstjórn, bæjarráði eða skrifstofu sveit­ar­fél­agsins. Kærandi sagði kröfuna m.a. byggja á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og 15. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Með svarbréfi sveitarfélagsins, dags. 10. nóvember 2021, var kæranda tjáð að sveitarfélagið gæti ekki orð­ið við beiðninni. Vísað var í erindi persónuverndarfulltrúa sveitarfélagsins, þar sem fjallað var um rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónu­upp­lýsinga, stjórn­sýslu­lögum og upplýsingalögum. Sveitar­fél­ag­ið tók fram að engin stjórnvaldsákvörðun hefði verið tekin af hálfu sveitarfélagsins […]. Sveitarfélagið sagðist staðfesta að umbeðin gögn væru ekki fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu og af þeim sökum væri ekki unnt að verða við beiðni kæranda.

Hinn 12. apríl 2022 óskaði kærandi aftur eftir gögnum frá sveitarfélaginu, með sérstakri vísun í 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Kærandi sagði að það yrði að teljast misskilningur af hálfu sveitarfélagsins að ekki væru nein fyrirliggjandi gögn um kæranda hjá sveitarfélaginu, þar sem kærandi hefði verið […] starfs­maður sveitarfélagsins […].

[…]

Þá óskaði kærandi eftir gögnum sem vísað var til […], sem kærandi segir bera það augljóslega með sér að teknar hafi verið ákvarðanir sem lögum samkvæmt beri að skrásetja og því sé ljóst að gögn séu fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu um málið. Kærandi vísar til skyldu sveitarfélagsins um skráningu upplýsinga um máls­atvik og meðferð mála, sbr. 2. mgr. 27. gr. upplýsingalaga, og til ákvæða sveitar­stjórn­ar­laga, sbr. auglýsingu ráðherra um leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitar­stjórna. Kær­andi hafnar því að engin gögn séu fyrirliggjandi og krefst þess að fá öll gögn afhent, sérstaklega er óskað eftir öllum gögnum sem varða stjórnsýsluúttekt, sem gerð var fyrir sveitar­félagið […], þar á meðal fundargerðum frá fundum bæjarstjórnar og frá fundum kæranda með bæjarstjóra og eitt sinn með bæjarstjóra og fjármálastjóra þar sem kærandi óskaði sérstaklega eftir áheyrn og svörum vegna umræddrar stjórnsýsluúttektar. Þá bendir kærandi á leið­beiningarskyldu stjórn­sýslulaga og segir að persónuverndarfulltrúa hefði mátt vera ljóst að kæranda hafi verið heimilt að fá gögn sem vörðuðu [kæranda sjálfan] á grundvelli upplýsingalaga. Þegar af þeirri ástæðu sé einnig farið fram á það að fá afhent samskipti sveitarfélagsins við persónuverndarfulltrúann, sem varða kæranda, að öllu leyti en ekki að hluta til líkt og áður.

Í svari sveitarfélagsins, dags. 4. maí 2022, segir að gögn er varði kæranda sem sveitarfélagið varðveiti tengist ráðningu [kæranda], svo sem starfslýsing, ráðningarsamningur, starfsvottorð, námsgögn og einnig önnur gögn sem tengist starfslokum. Einnig sé um að ræða tölvupóstsamskipti á milli fjármálastjóra, […] og kæranda. Umrædd gögn ættu að vera í varðveislu kæranda nú þegar. Umfjöllun bæjarráðs er varði ráðningu og starfslok megi finna í tilteknum fundargerðum bæjar­ráðs og bæjarstjórnar. Þá afhenti sveitarfélagið kæranda framangreinda stjórnsýsluúttekt og einnig númer fundargerða þar sem úttektin fékk umfjöllun. Önnur gögn sem óskað hafi verið eftir í tengslum við út­tektina varði samtöl milli starfsmanna sem eigi í miklu samstarfi og ræði sín á milli ýmis mál er varði starfsemina. Slík samtöl hafi verið tekin nokkrum sinnum, bæði milli bæjarstjóra og kæranda og einnig milli fleiri aðila. Um óformleg samtöl hafi verið að ræða sem hafi ekki verið skrásett með neinum hætti, því sé ekki um að ræða gögn til afhendingar.

Varðandi ósk kær­anda um afrit af samskiptum við lögfræðing og persónuverndarfulltrúa sveitar­félags­ins segir sveitar­félagið slík gögn vera undanþegin upplýsingalögum samkvæmt 6. gr. upplýsingalaga og verði þau því ekki afhent. Að lokum segir, varðandi samskipti staðgengils bæjarstjóra við bæjarráð og bæjarstjórn, að málið hafi ekki verið tekið fyrir á formlegum fundum bæjarráðs eða bæjarstjórnar og sé því ekki skrá­sett í málakerfi eða á sameiginlegu svæði sveitarfélagsins og því séu engin gögn til afhendingar.

Í kæru kemur fram að […], líkt og rakið sé í annarri beiðninni sé augljóst að ákvarðanir hafi verið teknar innan stjórnsýslunnar og rök sveit­ar­félagsins um að engin gögn séu fyrir hendi séu að mati kær­anda rökleysa og vísar kærandi sér­staklega í skráningarskyldu sveitarfélaga, sbr. 2. mgr. 27. gr. upp­lýs­ingalaga. […]

[…]

Málsmeðferð

Kæran var kynnt sveitarfélaginu […] með erindi, dags. 23. maí 2022, og því veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að sveitarfélagið léti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögn sveitarfélagsins barst úrskurðarnefndinni hinn 3. júní 2022. Auk þess afhenti sveitarfélagið úrskurðarnefndinni í trúnaði gögn sem kæranda hafði verið synjað um aðgang að. Í umsögninni segir að ekki hafi verið um að ræða synjun um afhendingu gagna nema hvað varði gögn sem undanþegin séu upplýsingaskyldu samkvæmt upplýsingalögum. Kærandi hafi fengið öll gögn og upplýsingar sem varði [kæranda sjálfan] og liggi fyrir hjá sveitarfélaginu að undanskildum samskiptum við sérfræðinga.

Sveit­arfélagið kveður að ekki hafi verið stofnað stjórnsýslumál […] og því hafi engin stjórnvaldsákvörðun verið tekin af hálfu sveitarfélagsins. […]

[…]

Sveitarfélagið telur að kæranda hafi verið afhent öll þau gögn er falli undir beiðni [kæranda] og fyrir­liggj­andi séu hjá sveitarfélaginu að undanskildum gögnum sem séu undanþegin afhendingarskyldu sam­kvæmt 3. og 4. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Þar sé um að ræða tölvupóstsamskipti við lögmann, per­sónu­­verndarfulltrúa sveitarfélagsins og sérfræðing í almannatengslum. […] Þrátt fyrir að ekki hafi komið til þess að sveit­arfélagið eða kærandi hafi þurft að leita atbeina dómstóla vegna ágreinings þeirra á milli sé það lagt til grundvallar af hálfu sveitarfélagsins að sú ráðgjöf sem fengin var hjá bæði persónu­vernd­ar­full­trúa og lögmanni sé trúnaðarmál vegna réttarstöðu sveitarfélagsins sem standi nægilega í tengsl­um við mögu­leika á höfðun slíks máls auk þess sem samskiptin tengist málefnum annarra starfs­manna að hluta, […].

Umsögn sveitafélagsins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 8. júní 2022, og kæranda veittur kostur á að koma á fram­færi athugasemdum um það sem þar kom fram. Engar frekari athugasemdir bárust úr­­skurðarnefndinni.

Niðurstaða

1.

Í máli þessu er deilt um afgreiðslu sveitarfélagsins […] á beiðni um aðgang að gögnum sem varða kæranda, sem starfaði hjá sveitarfélaginu, […]. Sveitarfélagið heldur því fram að öll umbeðin gögn hafi verið afhent kæranda fyrir utan tölvu­póstssamskipti við lögmann, persónuverndarfulltrúa sveitarfélagsins og sérfræðing í almanna­­tengslum sem séu undanþegin afhendingarskyldu samkvæmt 3. og 4. tölul. 6. gr. upplýsinga­laga, nr. 140/2012.

Réttur kæranda til aðgangs að gögnum byggir á 14. gr. upplýsingalaga þar sem kveðið er á um skyldu til þess að veita aðila aðgang að fyrirliggjandi gögnum, sé þess óskað, ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Í 2. mgr. 14. gr. kemur þó fram að ákvæði 1. mgr. gildi ekki um gögn sem talin eru í 6. gr. laganna. Samkvæmt 3. tölul. 6. gr. nær rétturinn til aðgangs að upplýsingum ekki til bréfaskipta við sérfróða aðila í tengslum við réttarágreining eða til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað og samkvæmt 4. tölul. 6. gr. eru gögn sem tengjast málefnum starfsmanna undan­þegin, sbr. 7. gr. upplýsingalaga.

Í athugasemdum við 3. tölul. 6. gr.  í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, kemur fram eftirfarandi:

Hér að baki býr það sjónarmið að hið opinbera geti, á sama hátt og hver annar aðili að dómsmáli, leitað ráðgjafar sérfróðra aðila án þess að þær upplýsingar sem þannig er aflað komist til vitundar gagnaðila. Ber að túlka ákvæðið þannig að það tryggi að hið opinbera standi ekki vegna upplýsingalaga höllum fæti í dómsmálum. Undanþágunni verður aðeins beitt um gögn sem verða til eða aflað er gagngert í þessu skyni og tekur því t.d. ekki til álits­gerða eða skýrslna sérfræðinga sem aflað er við meðferð stjórnsýslumála almennt.

Ákvæði 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga var breytt með lögum nr. 72/2019 og gildissvið þess útvíkkað svo það tæki auk dómsmála til annars réttarágreinings. Í almennum hluta greinargerðar í frumvarpi því sem varð að breytingalögunum segir eftirfarandi:

Í ljósi þess að ýmiss konar réttarágreiningur hins opinbera er útkljáður með öðrum hætti en máls­höfðun fyrir dómi, til að mynda fyrir sjálfstæðum úrskurðarnefndum, þykir rétt að breyta orðalagi 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga þannig að opinberir aðilar geti átt samskipti við sérfræðinga í tengslum við slíka málsmeðferð án þess að gagnaðili fái aðgang að þeim. Ítreka skal að verði frumvarpið að lögum verður áfram gerð sú krafa að undanþágunni verði aðeins beitt um gögn sem verða til eða aflað er gagngert í þessu skyni en ekki um álits­­gerðir eða skýrslur sem aflað er við meðferð stjórnsýslumála almennt.

Þá segir eftirfarandi um ákvæðið:

Opinberir aðilar hafa augljósa hagsmuni af því að geta átt samskipti við sérfræðinga, t.d. lög­­menn, í tengslum við slíka málsmeðferð án þess að gagnaðili fái aðgang að upplýsingum um þau. Þó ber að árétta að undanþáguna bæri að skýra þröngri lögskýringu með hliðsjón af meginreglu um upplýsingarétt almennings eins og aðrar undanþágur og takmörkunar­heim­­ildir upplýsingalaga. Henni yrði þannig aðeins beitt um upplýsingar um samskipti sem verða gagngert til í tengslum við réttarágreining sem er til meðferðar hjá lög- eða samnings­bundnum úrskurðaraðila eða til greina kemur að vísa til slíkrar meðferðar. Með hliðsjón af 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga verður líka að gera þá kröfu að aðgangur að umbeðnum upp­lýs­­ingum myndi að öllum líkindum leiða til skerðingar á réttarstöðu hins opinbera aðila sem um ræðir.

Orðalag ákvæðisins og athugasemdir í greinargerð benda ekki til þess að gerð sé krafa um að bréfa­skiptin eigi sér stað eftir að dómsmál er höfðað eða beinlínis í tilefni af ákvörðun um að höfða eða taka til varna í slíku máli. Samkvæmt sjónarmiðum sem fram koma í bréfi umboðsmanns Alþingis frá 13. desember 2002, í máli nr. 3643/2002, sem lýtur að skýringu sambærilegs ákvæðis í stjórn­­sýslulögum og athugasemdum í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, ber að skýra ákvæð­ið með það fyrir augum að tryggja jafnræði á milli aðila máls og viðkomandi stjórnvalds ef til dóms­máls kemur.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið nauðsynlegt að bréfaskipti stjórnvalds við sérfróðan aðila standi í beinum tengslum við mál sem þegar hefur verið höfðað eða þegar hefur verið tekin ákvörð­un um að höfða. Undir undanþáguna falla einnig bréfaskipti sem til koma vegna könnunar stjórn­valds á réttarstöðu sinni í tengslum við nærliggjandi möguleika á slíkri málshöfðun, enda lúti þau ekki með beinum hætti að meðferð stjórnsýslumála. Þá tekur undanþágan samkvæmt framansögðu einnig til réttarágreinings sem lagður er í annan farveg, t.d. fyrir sjálfstæðri úrskurðarnefnd, eða þegar til greina kemur að leggja ágreining í slíkan farveg.

Sem fyrr segir byggir synjun sveitarfélagsins að hluta á því að samskipti þess við lögmann, persónu­vernd­arfulltrúa og sérfræðing í almannatengslum sem varða málefni kæranda séu undanþegin upp­lýs­inga­rétti vegna réttarstöðu sveitarfélagsins sem hafi staðið nægilega í tengslum við möguleika á höfð­un slíks máls, enda þótt ekki hafi komið til dómsmáls.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér gögn málsins en um er að ræða:

  1. Samskipti við persónuverndarfulltrúa sveitarfélagsins í tengslum við afgreiðslu gagnabeiðni.
  2. Samskipti við almannatengil […].
  3. Samskipti við lögmann […].
  4. Nokkrar útgáfur af drögum […].

Samskipti við persónuverndarfulltrúa sveitarfélagsins áttu sér stað í kjölfar beiðni um aðgang að gögnum sem barst frá lögmanni kæranda hinn 5. nóvember 2021. Um er að ræða tölvu­pósts­samskipti þar sem fjármálastjóri og persónuverndarfulltrúi ræða afgreiðslu beiðninnar. Skilja verður beiðnina á þann veg að hún varði aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga, en ákvörðun um afgreiðslu slíkrar beiðni er ákvörðun um rétt eða skyldu samkvæmt 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslu­laga og því sjálfstætt stjórnsýslumál sem kærandi á aðild að. Um aðgang kæranda að gögnum sem lúta sérstaklega að því hvernig beiðni hans samkvæmt upplýsingalögum var afgreidd fer því samkvæmt 15.–19. gr. stjórn­sýslu­laga, sbr. 3. mgr. 19. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda lögin ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórn­sýslulögum en af þeim sökum verður að vísa þessum hluta kærunnar frá úrskurðar­nefnd­inni.

Varðandi samskipti sveitarfélagsins við almannatengil og lögmann, […] verður ekki séð að samskiptin séu þess eðlis að þau falli undir 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. […] Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér gögnin og fær ekki séð að þau feli að neinu leyti í sér sérfræðilega álitsgerð um réttarstöðu sveitarfélagsins vegna réttarágreinings eða dómsmáls sem hafi verið höfðað. Þá verður ekki talið að um sé að ræða könnun á réttarstöðu sveitarfélagsins við mat á því hvort slíkt mál skuli höfðað.

Með hliðsjón af þessu og efni gagnanna fær úrskurðarnefndin heldur ekki séð að það myndi raska jafnræði aðila í mögulegu ágreiningsmáli að þessar upplýsingar yrðu afhentar kæranda. Þá hefur sveitarfélagið ekki skýrt nánar með hvaða hætti það kunni að valda sveitarfélaginu réttarspjöllum verði gögnin afhent kæranda.

Nefndin áréttar að ákvæði 3. tölul. 6. gr. felur í sér undantekningu frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. upp­lýs­ingalaga um upplýsingarétt almennings og ber því að túlka ákvæðið þröngri lögskýringu. Í því ljósi og þar sem nefndin fær samkvæmt framansögðu ekki séð að afhending gagnanna muni leiða til skerð­ing­ar á réttarstöðu sveitarfélagsins fellst nefndin ekki á að heimilt hafi verið að synja kæranda um að­gang að framangreindum gögnum með vísan til 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga.

Sveitarfélagið vísar einnig til þess að umbeðin gögn tengist málefnum starfsmanna, […] en í 4. tölul. 6. gr. upplýsingalaga er mælt fyrir um að réttur almennings til aðgangs að gögnum nái ekki til gagna sem tengjast málefnum starfs­manna. Ákvæðið er útfært nánar í 7. gr. laganna. Þar segir í 1. mgr. að réttur almennings til að­gangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lögin taka til nái ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Ákvæðið felur í sér undantekningu frá meginreglunni um upplýsingarétt almennings sem birtist í 1. mgr. 5. gr. laganna og ber að skýra það þröngri lögskýringu.

Sveitar­félagið útskýrir ekki sérstaklega hvernig gögnin varða málefni umrædds starfsmanns en niður­staða úrskurðarnefndarinnar er sú að ekkert sem fram kemur í gögnunum geti talist varða málefni um­rædds starfsmanns í skilningi 7. gr. upplýsingalaga. Hins vegar er töluvert fjallað um málefni kær­anda sjálfs. Þá telur úrskurðarnefndin að önnur takmörkunarákvæði upplýsingalaga eigi ekki við um gögnin. Sveitarfélaginu er því skylt að afhenda kæranda umbeðin gögn.

2.

Sveitarfélagið kveður engin önnur samskipti í tengslum við mál kæranda hafa verið skráð og því sé ekki unnt að veita kæranda aðgang að þeim. Kærandi telur það rökleysu og vísar í skyldu sveitarfélags­ins sam­kvæmt 2. mgr. 27. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til þess að rengja þær staðhæfingar sveitarfélagsins að önnur samskipti hafi ekki verið skráð.

Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi. Þegar svo háttar til að gögn eru ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða synjun á aðgangi að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga ber stjórnvöldum, við meðferð mála þar sem taka á ákvörðun um rétt eða skyldu manna, að skrá upplýsingar um málsatvik sem veittar eru munnlega eða viðkomandi fær vitneskju um með öðrum hætti ef þær hafa þýðingu fyrir úrlausn mála og sé ekki að finna í öðrum gögn­um þess. Nefndin áréttar að samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 27. gr. á það sama við um helstu ákvarð­anir um meðferð máls og helstu forsendur ákvarðana, enda komi þær ekki fram í öðrum gögnum máls. Í 2. mgr. 27. gr. segir að stjórnvöld skuli gæta þess að haldið sé til haga mikilvægum upplýsingum, m.a. um samskipti við almenning og önnur stjórnvöld, svo sem með skráningu fundargerða eða minnis­blaða.

Í athugasemdum við 2. mgr. 27. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, kemur fram að ákvæðið feli aðeins í sér áréttingu á ólögfestri skyldu stjórnvalda til að tryggja eðlilega meðferð opinberra hagsmuna. Það fellur utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar og kemur í hlut annarra aðila að hafa eftirlit með því hvernig sveitarfélög sinna skyldum sínum um skráningu og vistun gagna. Vísast í þessu sambandi einkum til ráðuneytis sveitastjórnarmála og umboðsmanns Alþingis. Verður því að vísa þessum hluta kærunnar frá úrskurðarnefnd um upp­lýsingamál.

Úrskurðarorð

Sveitarfélaginu […] er skylt að veita kæranda, A, aðgang að sam­skipt­um sveitarfélagsins við almannatengil og lögmann […]. Að öðru leyti er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum