Hoppa yfir valmynd

1126/2023. Úrskurður frá 30. janúar 2023

Hinn 30. janúar 2023 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1126/2023 í máli ÚNU 22070024.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 28. júlí 2022, kærði A lögmaður, f.h. B, synjun ríkislögreglustjóra[…] á beiðni um aðgang að gögnum […].

[…]

Kæran var kynnt ríkislögreglustjóra með erindi, dags. 3. ágúst 2022, og embættinu veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að ríkislögreglustjóri léti úrskurðar­nefnd um upp­lýs­inga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Umsögn ríkislögreglustjóra ásamt gögnunum bárust úrskurðarnefndinni hinn 26. ágúst 2022.

Umsögn ríkislögreglustjóra var kynnt kæranda með bréfi, dags. 30. ágúst 2022, og honum veittur kost­ur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Þær bárust hinn 9. september 2022. Hinn […] lést kærandi. Úrskurðarnefndinni barst erindi frá lögmanni kæranda hinn 24. nóvember 2022 með ósk um að málið yrði tekið til úrskurðar á þeirri forsendu að erfingjar kæranda hefðu nú tekið við aðildinni. Erindinu fylgdi umboð frá erfingjum kæranda.

Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun ríkislögreglustjóra að synja kæranda um aðgang að gögnum[…]. Fyrir liggur hins vegar að kærandi lést meðan málið var til meðferðar hjá úrskurðar­nefnd um upplýsingamál.

Sá er talinn eiga aðild að stjórnsýslumáli sem á beinna, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls. Ef aðili kærumáls deyr við meðferð málsins er ekki lengur um lögvarða hagsmuni hans að ræða af efnislegri úrlausn málsins. Við þær aðstæður kann dánarbú kæranda að taka við aðildinni. Það á hins vegar ekki við í þeim tilvikum þegar mál snýst um persónubundin réttindi sem erfast ekki.

Úrskurðarnefndin telur að réttur kæranda til aðgangs að þeim gögnum sem deilt er um í máli þessu teljist varða persónubundin réttindi hans með þeim hætti að dánarbú hans eða erfingjar geti ekki átt lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins á sama grundvelli og kærandi. Af þeim sökum er óhjákvæmilegt að vísa málinu frá úrskurðar­nefnd um upplýsingamál. Nefndin vekur athygli á því að dánarbúi eða erfingjum kæranda er unnt að óska eftir gögnunum við ríkislögreglustjóra og eftir atvikum kæra synjun um aðgang að þeim til úr­skurðarnefndarinnar innan þess kærufrests sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.

Úrskurðarorð

Kæru A lögmanns, f.h. B, dags. 28. júlí 2022, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum