Hoppa yfir valmynd

1137/2023. Úrskurður frá 29. mars 2023

Hinn 29. mars 2023 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1137/2023 í máli ÚNU 22080001.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 2. ágúst 2022, kærði A afgreiðslu sveinsprófsnefndar í raf­iðngreinum (hér eftir einnig sveinsprófsnefnd) og Rafmenntar—fræðslu­seturs rafiðnaðarins (hér eftir einnig Rafmennt) á beiðni hans um aðgang að gögnum.

Á prófsýningu hjá Rafmennt hinn 1. júlí 2022 fór kærandi fram á að fá afhent afrit af sveinsprófum sínum í rafvirkjun ásamt skjölum sem sveinsprófsnefnd hefði notað til að meta færni hans og gefa honum einkunn, þ.m.t. Excel-skjölum með einkunnarreikniformúlum. Nefndin synjaði kær­anda munnlega um afhendingu gagnanna á prófsýning­unni. Með tölvupósti daginn eftir ítrekaði kær­andi gagnabeiðni sína skriflega og óskaði til við­bótar eftir afriti af einkunnaplaggi sveinsprófs síns. Því erindi hefði enn ekki verið svarað.

Í kæru segir að til viðbótar við þau gögn sem tilgreind voru í beiðninni hinn 2. júlí 2022 vilji kærandi að kveðið verði upp úr um rétt hans og annarra próftaka til aðgangs að afriti safna réttra svara í þeim próf­­um sem hann þreytti, og að kveðið verði upp úr um hvort próftakar í framtíðinni hjá sveins­prófs­nefnd eigi rétt til aðgangs að þeim svarabanka sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál úrskurðaði að próf­­takar ættu rétt á með úrskurði nr. A-392/2011.

Kæran var kynnt sveinsprófsnefnd og Rafmennt með erindi, dags. 5. ágúst 2022, og veittur kostur á að koma á fram­færi um­sögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrðu látin í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Umsögn sveinsprófsnefndar og Rafmenntar barst úrskurðarnefndinni 23. september 2022. Umsögnin var kynnt kæranda með bréfi, dags. 24. sep­tem­ber 2022, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Þær bárust hinn 4. október 2022.

Meðan málið var til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni voru kæranda, í samræmi við beiðni hans, afhent afrit af eigin sveinsprófum og einkunnaplagg sveinsprófs hans.

Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Kæru í máli þessu er beint að sveinsprófsnefnd í rafiðn­grein­um og Rafmennt—fræðslusetri raf­iðn­að­ar­ins. Samkvæmt 4. mgr. 30. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, lýkur námi í löggiltum iðngrein­um með sveinsprófi. Sveinsprófsnefnd í rafiðngreinum—sterkstraumi er skipuð af ráðherra á grund­velli laganna og reglugerðar um sveinspróf, nr. 698/2009. Samkvæmt 5. gr. reglu­gerð­ar­­innar er það hlut­verk sveinsprófsnefnda að sjá um framkvæmd sveinsprófa og mat á úrlausnum. Nánar er mælt fyrir um hlutverk sveinsprófsnefnda í 7. gr. sömu reglugerðar. Sveinspróf skiptast í tiltekna prófþætti og einkunn í sveinsprófi byggist á reiknuðu meðaltali prófþáttanna, sbr. 14. gr. sömu reglugerðar. Ráðherra er heimilt samkvæmt 19. gr. sömu reglugerðar að semja við umsýsluaðila um að annast framkvæmd sveinsprófanna. Rafmennt er slíkur umsýsluaðili að því er varðar rafiðngreinar.

Kærandi hefur óskað aðgangs að gögnum sem sveinsprófsnefnd notaði til að meta færni hans og gefa honum einkunn á sveinsprófi. Ljóst er að ákvörðun um einkunnagjöf, a.m.k. þegar um er að ræða ein­kunnir sem reiknast til lokaprófs, er ákvörðun um rétt eða skyldu í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórn­sýslu­­­laga, nr. 37/1993, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis í málum nr. 1852/1996 og 5649/2009. Er kærandi aðili að því stjórnsýslumáli sem varðar ákvörðun sveinsprófsnefndar um ein­kunn hans á sveinsprófi.

Um aðgang aðila stjórnsýslumáls að upplýsingum sem tengjast málinu gildir meginregla 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga, um að aðili máls eigi rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum sem mál varði. Takmarkanir á þeim rétti eru í 15.–17. gr. sömu laga. Upplýsingaréttur aðila máls samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga er víðtækari en sá réttur sem veittur er með ákvæðum upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd­in telur að þau gögn sem deilt er um í máli þessu séu hluti af stjórnsýslumáli kæranda.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda lögin ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórn­sýslu­lögum. Ákvarðanir um aðgang að gögnum í slíkum tilvikum falla þannig utan gildissviðs upp­lýs­inga­laga. Samkvæmt framangreindu fellur kæra þessi utan gildissviðs upplýsingalaga og er því óhjá­kvæmi­legt að vísa henni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Í kæru kom fram að kærandi óskaði einnig aðgangs að afriti safna réttra svara í þeim próf­um sem hann þreytti, og að kveðið yrði upp úr um hvort próftakar í framtíðinni hjá sveinsprófsnefnd ættu rétt til aðgangs að þeim svarabanka sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál úrskurðaði að próf­takar ættu rétt á með úrskurði nr. A-392/2011. Í tilefni af þessu tekur úrskurðarnefndin fram að úrskurðarvald hennar er takmarkað við synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum og synjun á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna. Nefndin getur því ekki úrskurðað um hugsanlegar gagnabeiðnir próftaka í framtíðinni. Enn fremur bera gögn málsins ekki með sér að kærandi hafi óskað eftir aðgangi að þess­um gögnum hjá sveinsprófsnefnd. Þá telur nefnd­in að safn réttra svara í þeim prófum sem kærandi hefur þegar þreytt séu einnig hluti af stjórn­sýslu­máli kæranda. Af þeim sökum verður að vísa þessum hluta kærunnar einnig frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 2. ágúst 2022, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsinga­mál.

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum