Hoppa yfir valmynd

1143/2023. Úrskurður frá 22. maí 2023

Hinn 22. maí 2023 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1143/2023 í máli ÚNU 22100014.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 30. september 2022, kærði A afgreiðslu Norðurmiðstöðvar (áður Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis) á beiðni hans um gögn. Í kæru kemur fram að úrskurðarnefnd um upplýsinga-mál hafi kveðið upp úrskurð kæranda í hag á sínum tíma, varðandi rétt hans til aðgangs að gögnum um sambýliskonu sína, sem er látin.

Í kjölfar uppkvaðningar úrskurðarins hafi kæranda verið afhent gögn í samræmi við úrskurðarorð. Gögnin hafi hins vegar ekki innihaldið þær upplýsingar sem kærandi hafi óskað eftir, heldur aðeins rugl og útúrsnúninga. Því hafi kærandi að nýju leitað til Norðurmiðstöðvar og óskað eftir nöfnum þeirra aðila sem báru ábyrgð á því að sambýliskona hans hefði verið tekin nauðug frá kæranda, og hvaða heimild þeir aðilar hefðu haft til þess óhæfuverks.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafði samband við Norðurmiðstöð með erindi, dags. 7. nóvember 2022, og óskaði eftir nánari skýringum varðandi efni kærunnar og samskipti kæranda við miðstöðina. Svar Norðurmiðstöðvar barst hinn 9. nóvember 2022. Svarinu fylgdu tíu skjöl sem innihéldu samskipti miðstöðvarinnar við kæranda. Í svarinu kemur fram að í kjölfar þess að úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð nr. 1071/2022, þess efnis að kæranda skyldu afhent tiltekin gögn frá miðstöðinni, hefði kærandi sett sig í samband hinn 17. mars 2022, og fengið gögnin afhent daginn eftir.

Hinn 25. mars 2022 hafi kærandi endursent gögnin ásamt þremur ódagsettum bréfum til miðstöðvar-innar. Þar sem ekki væri að öllu leyti ljóst hvað kærandi færi fram á eða hverju hann teldi ósvarað af hálfu Norðurmiðstöðvar var ákveðið af hálfu miðstöðvarinnar að hafa samband við kæranda símleiðis. Félagsráðgjafi á vegum Reykjavíkurborgar hefði átt símtal við kæranda hinn 26. apríl 2022. Að símtalinu loknu teldi félagsráðgjafinn að málinu væri lokið af hálfu borgarinnar, varðandi þann þátt sem sneri að Reykjavíkurborg. Norðurmiðstöð fengi ekki séð að beðið hefði verið um nein ný gögn í vörslum miðstöðvarinnar frá því úrskurður nefndarinnar nr. 1071/2022 var kveðinn upp.

Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Hinn 31. mars 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp úrskurð nr. 1071/2022. Beiðni kæranda í því máli var beint til Þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis og var um upplýsingar um sambýliskonu hans, m.a. um það hverjir bæru ábyrgð á því að sambýliskona kæranda var tekin nauðug frá honum. Synjun miðstöðvarinnar byggðist á því að gögnin vörðuðu einkamálefni sambýliskonunnar, sbr. 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, auk þess sem hluti gagnanna teldist vinnugögn, sbr. 5. tölul. 6. gr. sömu laga. Í umsögn miðstöðvarinnar í því máli var auk þess vísað til þess varðandi vitjanir frá heimahjúkrun að slíkar upplýsingar væru skráðar í sjúkraskrár hlutaðeigandi í Sögukerfi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem miðstöðin hefði ekki aðgang að.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að kæranda skyldu afhent öll þau gögn sem miðstöðin hefði afmarkað beiðni hans við og synjað honum um aðgang að. Kæranda voru í framhaldinu afhent gögnin, en hann fellir sig ekki við efni gagnanna og vill ekki una því að gögnin innihaldi ekki upplýsingar um það hverjir báru ábyrgð á því að sambýliskona hans var tekin frá honum og hvaða heimild þeir höfðu til þess.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Hið sama gildir um synjun beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Af því leiðir að úrskurðarvald nefndarinnar er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi.

Norðurmiðstöð hefur staðhæft að kærandi hafi ekki beðið um nein ný gögn hjá miðstöðinni frá því úrskurður nefndarinnar nr. 1071/2022 var kveðinn upp. Því til stuðnings hefur miðstöðin afhent nefndinni fyrirliggjandi samskipti við kæranda frá uppkvaðningu hans. Úrskurðarnefndin telur í samræmi við það að kæranda hafi ekki verið synjað um aðgang að gögnum. Þar af leiðandi hefur í málinu ekki verið tekin ákvörðun sem er kæranleg til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 20. gr. upplýsingalaga. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 30. september 2022, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum