Hoppa yfir valmynd

1148/2023. Úrskurður frá 26. júlí 2023


Hinn 26. júlí 2023 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1148/2023 í máli ÚNU 23060007.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 15. júní 2023, kærði A synjun barnaverndarþjónustu Garðabæjar á beiðni um aðgang að gögnum.

Með erindi, dags. 15. maí 2023, óskaði kærandi eftir aðgangi að öllum gögnum máls í barnaverndarmáli dóttur sinnar. Með bréfi barnaverndarþjónustu Garðabæjar, dags. 5. júní 2023, voru kæranda afhent tiltekin gögn en tekið fram að hugsanlega vantaði einn dagál um fund með skóla sem yrði sendur kæranda síðar. Í svari kæranda samdægurs kom fram að hann teldi fleiri gögn vanta og óskaði vinsamlegast eftir því að sér yrðu send öll gögn, ekki bara handvalin. Með bréfi barnaverndarþjónustu Garðabæjar, dags. 28. júní 2023, voru kæranda afhent gögn til viðbótar en synjað um nánar tilgreind gögn með vísan til 8. og 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Í kæru kemur fram að kærandi telji að barnaverndarþjónustan hafi kosið að senda honum aðeins hluta af gögnum. Kærandi hafi rökstuddan grun um að barnavernd Garðabæjar hafi brotið gróflega á rétti sínum og almennum mannréttindum sem forsjáraðila barns. Með kærunni fylgdi yfirlit yfir gögn sem kærandi fékk afhent þann 5. júní 2023.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt barnaverndarþjónustu Garðabæjar með erindi, dags. 15. júní 2023, og sveitarfélaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn barnaverndarþjónustu Garðabæjar, dags. 28. júní 2023, er vísað til þess að hinn 5. júní 2023 hafi kæranda verið afhent gögn úr barnaverndarmálinu en hann látinn vita að ekki væru öll gögn komin í málið og að honum yrðu send viðbótargögn síðar. Hinn 28. júní 2023 hafi kæranda síðan verði afhent öll gögn sem væri að finna í barnaverndarmáli dóttur kæranda, að undanskildum nánar tilgreindum gögnum með vísan til 8. og 9. gr. upplýsingalaga. Ýmist sé þar um að ræða vinnugögn eða gögn sem barnaverndarþjónusta Garðabæjar telur rétt að leynt skuli fara vegna einkahagsmuna annarra. Upplýsingar sem komi fram í þeim gögnum varði ekki barnið heldur persónulega hagi vistunaraðila. Þess megi geta að stúlkan sé vistuð utan heimilis með samþykki sínu og móður, sbr. 4. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í málinu hafi ekki þurft að beita íþyngjandi úrræðum á grundvelli barnaverndarlaga.

Umsögn barnaverndarþjónustu Garðabæjar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 29. júní 2023, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Í athugasemdum kæranda, dags. 7. júlí 2023, mótmælir kærandi því að barnaverndarþjónusta Garðabæjar haldi frá honum upplýsingum um málið. Við blasi að vinnubrögð barnaverndar séu ekki í samræmi við lög. Kærandi telji að á sér hafi ítrekað verið brotið og telji fullvíst að barnavernd hafi brotið gegn stjórnsýslu-, barnaverndar- og persónuverndarlögum og brotið gegn andmælarétti kæranda. Það sé því nauðsynlegt að kærandi fái öll gögn sem málið varði þar sem forsjárlaus manneskja hafi misnotað stjórnvald gegn forsjáraðila með skipulögðum hætti og barnavernd sýni samstarfsvilja með því að afhenda öll gögn sem kærandi telji að haldið sé frá sér til þess að verja starfshætti barnaverndar í málinu.

Niðurstaða

1.

Í máli þessu er deilt um afgreiðslu barnaverndarþjónustu Garðabæjar á beiðni kæranda um öll gögn varðandi barnaverndarmál dóttur kæranda hjá sveitarfélaginu. Samkvæmt skýringum Garðabæjar voru öll málsgögn afhent kæranda þann 5. og 28. júní 2023, að undanskildum tölvupóstsamskiptum milli félags¬ráðgjafa og rannsóknarlögreglumanns, dags. 22.-23. nóvember 2022, 28. nóvember og 7. desember 2022, tölvupósti til rannsóknarlögreglumanns, dags. 3. nóvember 2022, tveimur yfirlýsingum um afhendingu gagna í þágu rannsóknar lögreglu, dags. 26. október og 23. nóvember 2022 og óútfylltum drögum að meðferðaráætlun dags. 9. mars 2023, með vísan til 8. gr. upplýsingalaga. Þá voru einnig undanskildir tölvupóstar milli félagsráðgjafa og móður barnsins, dags. 25.-26. október 2022 og 25. nóvember 2022, auk dagála vegna símtala 25. október til 22. nóvember 2022, með vísan til 9. gr. upplýsingalaga.

Synjun barnaverndarþjónustu Garðabæjar á beiðni kæranda að því er varðar framangreind gögn byggðist á því að ýmist væri um að ræða vinnugögn eða gögn sem barnaverndarþjónusta Garðabæjar teldi rétt að leynt skyldu fara vegna einkahagsmuna annarra. Þær upplýsingar sem fram komi í þeim gögnum varði ekki barnið heldur persónulega hagi vistunaraðila.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda lögin ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Af þessu leiðir að ákvarðanir um aðgang að gögnum í slíkum tilvikum verða ekki bornar undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Fjallað er sérstaklega um upplýsingarétt og aðgang málsaðila að gögnum barnaverndarmáls í 45. gr. barnaverndarlaga. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að barnaverndarþjónusta skuli með nægilegum fyrirvara láta aðilum máls í té öll gögn sem málið varða og koma til álita við úrlausn þess, enda tryggi þeir trúnað. Í 2. mgr. segir að barnaverndarþjónusta geti með rökstuddum úrskurði takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef hún telur að það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra eða aðra. Þjónustan geti einnig úrskurðað að aðilar og lögmenn þeirra geti kynnt sér skjöl og önnur gögn án þess að þau eða ljósrit af þeim séu afhent.

Í ljósi þess sem að framan er rakið telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að um rétt kæranda til aðgangs að gögnunum sem kæra hans lýtur að gildi ákvæði 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samkvæmt 6. gr. barnaverndarlaga er heimilt er að skjóta úrskurðum og öðrum stjórnvaldsákvörðunum barnaverndarþjónustu til úrskurðarnefndar velferðarmála eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum.

Með vísan til þess að kveðið er sérstaklega á um rétt aðila barnaverndarmáls til aðgangs að gögnum í 45. gr. barnaverndarlaga og mælt er fyrir um sérstaka kæruleið til úrskurðarnefndar velferðarmála vegna úrskurða barnaverndarþjónustu um slíkan rétt telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að ekki sé rétt að nefndin fjalli efnislega um beiðni kæranda heldur beini hann kæru sinni til úrskurðarnefndar velferðarmála. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál að svo stöddu.

Úrskurðarorð

Kæru A vegna synjunar Garðabæjar á beiðni um aðgang að gögnum sem varða mál kæranda og dóttur hans, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum