Hoppa yfir valmynd

1152/2023. Úrskurður frá 20. október 2023

Hinn 20. október 2023 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1152/2023 í máli ÚNU 22070010.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 12. júlí 2022, kærði A, f.h. Foreldrajafnréttis, synjun félags- og vinnu­markaðsráðuneytis á beiðni hans um gögn. Kærandi átti í samskiptum við ráðuneytið í maí og júní 2022 í tengslum við beiðni um upplýsingar sem vörðuðu upphæðir fjárveitinga til almannatrygginga, sundurliðaðar eftir bótaflokkum og fjölda rétthafa.

Í erindi ráðuneytisins til kæranda, dags. 16. maí 2022, kom fram að ráðuneytið fylgdist með fjárhags­hreyf­­ingum bótaliða og fengi sendar mánaðarskýrslur frá Trygginga­stofnun um fjölda og þróun. Þá sendi Tryggingastofnun ráðuneytinu uppgjör fyrir bótaliði a.m.k. annan hvern mán­uð og léti ráðuneyt­ið vita ef stofnunin yrði vör við einhver frávik. Loks sendi Trygg­ingastofnun ráðuneytinu ítarlegra upp­gjör eftir hvern ársfjórðung með uppfærðri afkomuspá ársins. Ef einhverjar vangaveltur kæmu upp væri Tryggingastofnun beðin um frekari tölfræði og útreikninga. Auk framangreinds fengi ráðu­neyt­ið ítarlegri tölfræði árlega.

Kærandi óskaði hinn 31. maí 2022 eftir að fá afhent nýlegt eintak af hverri tegund af skýrslu sem vísað væri til í erindi ráðuneytisins. Í svari ráðuneytisins sama dag kom fram að ekki væri unnt að afhenda vinnugögn. Í erindi ráðuneytisins, dags. 10. júní 2022, kom fram að það hefði verið rangt að vísa til þessara gagna sem skýrslna, heldur væri um að ræða ítarleg excel-skjöl og töflur á ýmsu formi sem Tryggingastofnun afhenti ráðuneytinu vegna eftirlits með framkvæmd fjárlaga samkvæmt 27. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, eða 9. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, til að undir­byggja ákvarðanir ráðuneytisins. Gögnin væru undanþegin aðgangi með vísan til 8. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.

Hinn 16. júní 2022 óskaði kærandi eftir því að fá afhenta 1) eina mánaðarskýrslu frá árinu 2021, 2) eina ársfjórðungslega skýrslu frá árinu 2021, og 3) þá skýrslu sem teldist vera uppgjörs- eða lokaskýrsla ársins 2021. Með erindi ráðuneytisins, dags. 27. júní 2022, var fyrri afstaða ráðuneytisins frá 10. júní ítrekuð.

Í kæru kemur fram að tilefni beiðninnar til ráðuneytisins hafi verið að kanna hvort og þá hvernig gætt væri að því að fjárveiting til almannatrygginga færi saman við raunverulegan fjölda og réttindi rétthafa. Kærandi gerir athugasemd við að ráðuneyti sem hafi tilteknar fjárveitingar á sínu forræði geti valið að fela þá ábyrgð undirstofnun sinni og skilgreint sjálft sig sem eftirlitsaðila. Kærandi mótmælir túlkun ráðuneytisins á 8. gr. upplýsingalaga, þar sem ákvæðið heimili aðeins takmörkun aðgangs að vinnu­gögnum í þeim tilvikum þegar gögn eru „einvörðungu“ afhent eftirlitsaðila á grundvelli eftirlitsskyldu, sbr. orðalag ákvæðisins. Hér sé ekki um slíkt að ræða heldur byggist afhendingin jafnframt á samstarfi ráðuneytisins við Tryggingastofnun, stefnumótun og sameiginlegri stjórnun málaflokksins.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt félags- og vinnumarkaðsráðuneyti með erindi, dags. 13. júlí 2022, og því veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að ráðuneytið léti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögn ráðuneytisins barst úrskurðarnefndinni hinn 31. ágúst 2022. Í umsögninni kemur fram að þær „skýrslur“ sem kærandi hafi óskað eftir séu ekki til. Kæranda hafi verið beint á vefsíðu Trygginga­stofnunar þar sem finna megi ítarlegar samandregnar upplýsingar um rekstur, fjöldatölur og þróun bótaflokka. Þau excel-skjöl og töflur sem vísað sé til í erindi ráðuneytisins til kæranda frá 10. júní 2022 séu afhentar ráðuneytinu reglulega á grundvelli eftirlitsskyldu ráðuneytisins með Tryggingastofnun á grundvelli 3. mgr. 27. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, og séu af þeim sökum vinnugögn, sbr. 8. gr. upplýsingalaga.

Umsögn ráðuneytisins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 5. september 2022, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki.

Með erindi, dags. 8. mars 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir frekari skýringum um þau gögn sem deilt er um aðgang að í málinu. Nánar tiltekið hvort gögnin væru útbúin af Tryggingastofnun til að nota í eigin þágu, sem svo eru send ráðuneytinu ef óskað er eftir þeim, eða hvort gögnin væru einungis búin til í því skyni að upplýsa ráðuneytið um stöðu mála, samkvæmt beiðni ráðuneytisins þar um.

Svör félags- og vinnumarkaðsráðuneytis bárust hinn 14. mars 2023. Í svarinu kemur fram að ráðu­neyt­ið fái gögn afhent frá Tryggingastofnun til að sinna eftirliti með framkvæmd fjárlaga á grundvelli laga um opinber fjármál. Gögnin sem um ræði í máli þessu séu þrenns konar:

  1. Upp­lýs­ing­ar um rekstrar­stöðu fjár­laga­liða í umsjá stofnunarinnar. Ráðuneytið óski árs­fjórð­ungs­lega eftir upp­lýs­ingum frá Trygg­ingastofnun um rekstrarstöðu fjárlagaliða í umsjá stofn­unarinnar og skýr­ing­um á frá­vikum ef einhver eru vegna framkvæmdar fjárlaga og gerð árs­fjórðungsskýrslu sem send er fjármála- og efna­hags­ráðu­neyt­i. Yfirleitt berist upplýsingarnar í excel-skjali með lista yfir viðkomandi fjárlagaviðföng.
  2. Fjárhagsyfirlit úr greiðslu­kerfi Trygg­inga­­stofn­­­unar sem sýni út­gjöld samanborið við rekstrar­áætlun á rekstrarviðföngum stofn­un­­ar­inn­ar. Yfirlitið útbúi Trygg­inga­stofnun í eigin þágu til að fylgjast með þróun greiðslna, en ráðu­neyt­ið fái það til skoð­unar á grund­velli eftirlits­skyldu ráðuneytisins.
  3. Mánaðarlegt út­tak úr gagnagrunni Trygg­­ingastofnunar, í excel-formi, með upplýsingum um ör­orku- og endurhæfingarlífeyrisþega þannig að unnt sé að fylgjast með þróun og nýgengi ör­­orku- og endurhæfingarlífeyrisþega á hverju tímabili og breytingum frá mánuði til mánaðar. Skjal­ið sé ætlað starfsmönnum stofnunar­inn­ar og tengiliðum þess hjá ráðuneytinu með þekk­ingu á efninu. Upp úr skjalinu séu unnar töflur og myndir um þróun, til notkunar í ráðuneyt­inu.

Niðurstaða

1.

Í máli þessu hefur kærandi óskað eftir aðgangi að tilteknum skýrslum Tryggingastofnunar til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Ráðuneytið kveður þær skýrslur sem kærandi hefur óskað eftir ekki vera til, en vísar á hinn bóginn til þess að Tryggingastofnun afhendi ráðuneytinu ítarleg excel-skjöl og töflur á ýmsu formi vegna eftirlits með framkvæmd fjárlaga. Þau gögn séu vinnugögn í skilningi 8. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, og verði því ekki afhent kæranda.

Réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nær aðeins til fyrirliggjandi gagna, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi því sem varð að gildandi upp­­lýsingalögum er tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til að­­gangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggi á þeim tíma­punkti þegar beiðni um aðgang sé sett fram og í þeirri mynd sem þau séu á þeim tíma.

Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til að draga í efa að þær skýrslur sem kærandi hefur óskað eftir liggi ekki fyrir hjá ráðuneytinu. Hins vegar telur nefndin mega ráða af samskiptum kæranda við ráðu­neyt­­ið sem liggja fyrir í gögnum málsins að efni kærunnar lúti í reynd að þeim excel-skjölum sem berast á milli Tryggingastofnunar og ráðu­neytisins, þótt í kærunni sé vísað til skýrslna í því sam­­hengi. Miðast niður­staða úrskurðarnefndarinnar því við að taka afstöðu til réttar kæranda til að­gangs að þeim gögn­um.

2.

Til stuðnings synjun á beiðni kæranda hefur ráðuneytið vísað til þess að þau gögn sem óskað er eftir séu vinnugögn. Þau hafi aðeins verið afhent ráðuneytinu sem eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. upp­lýsingalaga, og missi því ekki stöðu sína sem vinnugögn af þeirri ástæðu. Um lagaskylduna vísar ráðuneytið til 3. mgr. 27. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015.

Samkvæmt 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nær réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til vinnu­gagna. Hugtakið vinnugagn er skilgreint í 1. mgr. 8. gr. laganna en samkvæmt ákvæðinu eru vinnugögn þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Þá er tekið fram að gögn teljist ekki lengur til vinnugagna hafi þau verið afhent öðrum, nema afhending hafi verið til eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu. Ákvæði 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr. laganna, felur í sér undantekningu frá meginreglunni um rétt almennings til aðgangs að gögnum sem skýra ber þröngri lögskýringu.

Í athugasemdum við 8. gr. í frumvarpi því sem varð að gildandi upplýsingalögum segir eftirfarandi:

Stjórnvöldum er að lögum falið að taka ýmsar matskenndar ákvarðanir og móta tillögur um áætl­anir eða aðrar aðgerðir. […] Oft geyma lög ekki að öllu leyti þau skilyrði sem þarf að full­nægja svo slíkar ákvarðanir verði teknar, eða þau sjónarmið eða markmið sem að skal stefnt. Þegar stjórnvöld standa frammi fyrir slíkum verkefnum verða þau iðulega að vega og meta ólík sjónarmið og velja svo á hvaða grundvelli úr máli skuli leyst. Af því leiðir að það tekur einatt einhvern tíma að móta afstöðu til fyrirliggjandi mála og á því tímabili kunna ólík sjónarmið að hafa mismunandi vægi og breytast, t.d. ef fram koma nýjar upplýsingar. Gögn sem til verða í slíku ferli þurfa ekki að endurspegla réttilega að hvaða niðurstöðu er stefnt. Eðlilegt er því að stjórnvöldum sé heimilt að hafna aðgangi að þeim þótt stjórn­völd­um sé einnig á grundvelli reglunnar um aukinn aðgang að gögnum heimilt að afhenda slík gögn, standi reglur um þagnarskyldu því ekki í vegi. […]

Í athugasemdum við 8. gr. kemur enn fremur fram að til þess að skjal teljist vinnugagn þurfi þremur skilyrðum að vera fullnægt. Gagn þurfi að vera undirbúningsgagn í reynd, það skuli útbúið eða ritað af starfsmönnum stjórnvaldsins sjálfs og það megi ekki hafa verið afhent öðrum. Tekið er fram að í öðru skilyrðinu felist það m.a. að gögn sem útbúin séu af utanaðkomandi sérfræðingum, svo sem verktökum, fyrir stjórnvald teljist ekki til vinnugagna. Í þriðja skilyrðinu, þ.e. að gagn hafi ekki verið afhent öðrum, felst það m.a. að hafi skjal verið afhent einkaaðila eða stjórnvaldi t.d. með tölvupósti eða öðrum hætti, teljist það almennt ekki lengur til vinnugagna.

Af ákvæði 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga leiðir að meta þarf heildstætt á grundvelli framangreindra sjón­ar­miða hvort umbeðin gögn uppfylli það skilyrði að teljast í reynd vinnugögn. Teljist þau til vinnugagna að hluta eða öllu leyti þarf síðan að taka afstöðu til þess hvort veita beri aðgang að þeim á grundvelli 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga.

Sam­kvæmt skýringum frá ráðuneytinu eru tvær af þremur tegundum þeirra gagna sem um er deilt í mál­inu búin til af Trygg­ingastofnun, ýmist fyrir ráðuneytið einungis eða fyrir starfs­menn stofnunar­inn­ar og tengiliði í ráðuneytinu. Annars vegar er um að ræða upplýsingar um rekstrar­stöðu fjárlagaliða í umsjá Tryggingastofnunar, sem stofnunin af­hend­ir samkvæmt beiðni ráðu­neytis­ins, og hins vegar mán­aðarlegt úttak úr gagnagrunni stofn­un­ar­inn­ar með upplýsingum um ör­orku- og endur­hæf­ing­ar­líf­eyris­þega, sem ætlað er starfsmönnum Trygg­inga­stofnunar og tengiliðum þess hjá ráðuneytinu. Þessi gögn uppfylla ekki það skilyrði 8. gr. upp­lýs­inga­laga að hafa verið rituð eða út­búin af stjórnvaldi til eigin nota þar sem þau eru öðrum þræði búin til fyrir ráðuneytið. Þau geta því ekki talist vinnugögn í skiln­ingi upplýsingalaga.

Fyrir liggur því að ráðu­neytið gat ekki byggt synjun sína á því að þessi gögn teldust vinnugögn. Hins vegar liggur ekki fyrir að ráðuneytið hafi að öðru leyti lagt mat á efni gagnanna með tilliti til þess hvort önnur takmörkunarákvæði upp­lýs­inga­laga eigi við um þau. Úrskurðarnefndinni er því ekki fært að taka nýja ákvörðun í málinu heldur skal beiðni kæranda að þessu leyti vísað til ráðuneytisins til nýrrar meðferðar og af­greiðslu.

3.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti kveður að fjárhagsyfirlit úr greiðslukerfi Tryggingastofnunar sem sýni útgjöld samanborið við rekstraráætlun á rekstrarviðföngum stofnunarinnar sé útbúið af stofnun­inni í eigin þágu, en að ráðuneytið fái yfirlitið til skoðunar á grundvelli eftirlitsskyldu ráðuneytisins. Því til stuðnings vísar ráðuneytið til 3. mgr. 27. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál.

Í 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga kemur fram að gögn teljist ekki lengur til vinnugagna hafi þau verið afhent öðrum, nema afhending hafi verið til eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu. Í athuga­semd­um við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að gildandi upplýsingalögum kemur fram að ýmsir eftir­lits­aðilar hafi að lögum heimildir til að krefja stjórnvöld um afhendingu gagna í málum, þar á meðal um afrit af vinnugögnum. Reynt geti á beinar lagaskyldur stjórnvalda til að afhenda gögn, svo sem til Ríkis­­endurskoðunar, umboðsmanns Alþingis eða annarra stjórnvalda en ráðherra.

Ráðherrar eru æðstu handhafar framkvæmdarvaldsins, hver á sínu sviði, og bera ábyrgð á stjórnar­fram­kvæmdum öllum eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum, sbr. 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. stjórnarskrárinnar. Þar sem ráðherra er æðsti handhafi framkvæmdarvalds er stjórnar­fram­kvæmd á hans málefnasviði jafnframt undir yfirstjórn hans, séu ekki á því gerðar undantekningar með lögum. Félags- og vinnumarkaðsráðherra fer með yfirstjórn Tryggingastofnunar, sbr. 8. gr. laga um almanna­trygg­ingar, nr. 100/2007. Í IV. kafla laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, er með al­mennum hætti mælt fyrir um inntak stjórnunar- og eftirlitsheimilda ráðherra gagnvart stjórnvöldum sem hafa á höndum framkvæmd stjórnarmálefna sem undir hann heyra.

Það felur það m.a. í sér að hann getur gefið stofnuninni almenn og sérstök fyrirmæli um starf­rækslu á verkefnum þess, fjár­reiður og meðferð eigna, enda mæli lög eða eðli máls því ekki í mót, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 115/2011. Þá skal ráðherra hafa eftirlit með starfrækslu, fjárreiðum og eignum á vegum stjórnvalda sem heyra undir almennar stjórnunarheimildir hans, sbr. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Loks getur ráðherra krafið stjórnvald sem heyrir undir yfirstjórn hans um hverjar þær upplýsingar og skýringar sem honum er þörf á til að sinna yfirstjórnarhlutverki sínu, sbr. 1. mgr. 14. gr. sömu laga.

Í IV. kafla laga um opinber fjármál er fjallað um framkvæmd fjárlaga. Í athugasemdum við kaflann í frumvarpinu sem varð að lögunum kemur fram að í honum séu ákvæði sem ætlað sé að stuðla að virkara eftirliti með stjórn og ráðstöfun opinbers fjár og leiða til aukins aga við framkvæmd fjárlaga með því að ábyrgð og skyldur á framkvæmd fjárlaga séu skýrðar. Í 3. mgr. 27. gr. laganna segir að hver ráðherra beri ábyrgð á og hafi virkt eftirlit með framkvæmd fjárlaga á sínu málefnasviði, og að hver ráðherra beri ábyrgð á að ráðstöfun fjárheimilda sé innan þess ramma sem Alþingi ákveður.

Úrskurðarnefndin hefur farið yfir fjárhagsyfirlit úr greiðslukerfi Tryggingastofnunar, sem sýnir útgjöld saman­borið við rekstraráætlun á rekstrarviðföngum stofnunarinnar, sem afhent var nefndinni. Nefnd­in telur að gagnið uppfylli skilyrði þess að teljast vinnugagn í skilningi upplýsingalaga. Þá er ljóst að gagn­­ið var afhent félags- og vinnumarkaðsráðuneyti til að ráðuneytið gæti sinnt eftirliti með fram­kvæmd fjárlaga á sínu málefnasviði, sbr. 3. mgr. 27. gr. laga um opinber fjármál, sbr. og 1. mgr. 13. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Úrskurðarnefndin telur í samræmi við framangreinda umfjöllun að ráðu­neyt­ið teljist eftirlitsaðili í skilningi ákvæðis 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga, og að Trygg­inga­stofn­un hafi verið skylt að lögum að afhenda ráðu­neytinu þau gögn sem um ræðir, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Samkvæmt þessu telur nefndin að gagnið hafi ekki misst stöðu sína sem vinnugagn með afhendingu þess til ráðu­neytis­­ins.

Á hinn bóginn er ljóst að ráðuneytið tók ekki afstöðu til þess í ákvörðun sinni hvort gagnið inni­héldi einhverjar þær upplýsingar sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga að geti leitt til þess að afhenda þurfi gagn þrátt fyrir að það teljist vinnugagn í skilningi laganna. Verður beiðni kæranda því vísað til ráðuneytisins til nýrrar meðferðar og afgreiðslu og lagt fyrir ráðuneytið að leggja mat á hvort 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga eigi við um gagnið.

Úrskurðarnefndin vekur athygli á því að í ákvörðun ráðuneytisins var ekki tekin afstaða til þess hvort veita ætti ríkari aðgang að umbeðnum gögnum en skylt er, en samkvæmt 2. mgr. 11. gr. upplýsingalaga er það skylt þegar ákvörðun byggist á 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr. laganna. Þá var kæranda ekki leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál svo sem skylt er að gera samkvæmt 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarorð

Beiðni A, dags. 16. júní 2022, er vísað til ráðuneytisins til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum