Hoppa yfir valmynd

1154/2023. Úrskurður frá 20. október 2023

Hinn 20. október 2023 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1154/2023 í máli ÚNU 23070015.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 25. júlí 2023, kærði A synjun Tækniskólans á beiðni hans um gögn. Samkvæmt kæru rekur kærandi upphaf málsins til þess að kennari við Tækniskólann hafi unnið verk­efni í meistaranámi í kynjafræði við Háskóla Íslands, þar sem fram kæmi að innan […] Tækniskólans væri karlremba og eitruð karl­mennska ríkj­andi. Kærandi […] hafi fengið þær skýringar frá höfundi verkefnis­ins að staðhæfingin væri raunar ekki byggð á rannsóknum eða gögnum.

Í framhaldi af þessu telur kærandi að borið hafi á breyttu viðhorfi í sinn garð sem kennara. Þá hafi hann verið kallaður á fund með stjórnendum þó nokkrum sinnum þar sem hann hafi verið upplýstur um kvartanir frá nemendum vegna framkomu kæranda. Kærandi hafi hins vegar ekki fengið neinar haldbærar sannanir fyrir því að fótur væri fyrir þessum kvörtunum. Kærandi hafi verið ósáttur við við­brögð skólastjórnenda, sem hann teldi ekki í samræmi við stefnur, markmið og gildi skólans. Því hafi hann óskað eftir að gerð yrði fagleg og hlutlaus rannsókn á fylgni skólans við lög og reglugerðir um vinnuvernd og nánar tilgreindar stefnur Tækniskólans. Í framhaldi af þeirri ósk hafi kærandi verið sendur í leyfi meðan málið væri til rannsóknar.

Sálfræði- og ráðgjafastofunni Lífi og sál hafi verið falið að gera rannsóknina. Hinn 22. júní 2023 hafi stjórnarformaður Tækniskólans tjáð kæranda að niðurstöður rannsóknarinnar lægju fyrir og að óskað væri eftir fundi með kæranda til að fara yfir þær. Daginn eftir hafi kærandi óskað eftir að fá skýrslu Lífs og sálar afhenta. Sú ósk hafi verið ítrekuð hinn 7. júlí 2023. Hinn 13. júlí 2023 hafi kærandi fengið þá skýringu að Tækniskólinn teldi sér óheimilt að afhenda skýrsluna í heild. Kærandi hafi fengið hluta hennar afhentan hinn 17. júlí 2023, þar sem upplýsingar um aðra en kæranda væru afmáðar.

Í kæru kemur fram að leitað sé liðsinnis úrskurðarnefndar um upplýsingamál til að meta hvaða gagna kærandi geti krafist að fá í hendur á þessu stigi málsins. Hann telji rétt að krefjast skýrslu Lífs og sálar án útstrikana, auk fleiri gagna.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Tækniskólanum með erindi, dags. 27. júlí 2023, og skólanum veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að Tækniskólinn léti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögn Tækniskólans og gögnin sem kæran lýtur að bárust úrskurðarnefndinni hinn 11. ágúst 2023. Í umsögninni eru gerðar athugasemdir við tiltekin atriði í lýsingu kæranda á málavöxtum. Þá er rakið að í skýrslu Lífs og sálar hafi niðurstaðan verið sú að stofan teldi hvorki að stjórnendur Tækniskólans hefðu lagt kæranda í einelti né vanrækt að sinna sínum skyldum varðandi sálfélagslega áhættuþætti á vinnustaðnum varðandi kæranda.

Tækniskólinn telur í umsögninni að vísa beri kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál, þar sem kæruefnið falli ekki undir gildissvið upplýsingalaga. Því til stuðnings er vísað til þess að Tækniskólinn sé einkaaðili og falli aðeins undir gildissvið laganna að svo miklu leyti sem gögn sem óskað er eftir hafi orðið til vegna framkvæmdar á opinberum verkefnum, eða tengist þeim með beinum hætti, sbr. 3. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.

Umsögn Tækniskólans var kynnt kæranda með bréfi, dags. 15. ágúst 2023, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Þær bárust hinn 30. ágúst 2023. Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurð­ar­nefnd­in hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að skýrslu sálfræði- og ráðgjafastofunnar Lífs og sálar í heild sinni. Skýrslan ber heitið „Skýrsla vegna beiðni um athugun á fylgni við lög og reglugerðir“. Í skýrslunni er rakið að Tækniskólanum hafi borist kvörtun frá kæranda, sem telji að stjórnendur auk stjórnarformanns skólans hafi brugðist skyldum sínum varðandi sálfélagslegt öryggi kæranda á vinnu­stað auk þess sem framkoma tiltekinna aðila gagnvart honum gæti flokkast sem einelti.

Í kæru er listi yfir gögn sem kærandi telji rétt að krefja Tækniskólann um afhendingu á. Samkvæmt skilningi nefndarinnar á gögnum málsins lýtur hin kærða ákvörðun aðeins að skýrslu Lífs og sálar. Af þeim sökum er í úrskurði þessum aðeins tekin afstaða til réttar kæranda til aðgangs að því gagni. Það fellur ekki innan verksviðs úrskurðarnefndarinnar að veita ráðgjöf eða aðstoð við undirbúning upplýs­inga­beiðni til aðila sem heyra undir gildissvið upplýsingalaga. Vísast í því sambandi til ráðgjafa um upplýsingarétt almennings, sem starfar á grundvelli 13. gr. a upplýsingalaga, nr. 140/2012.

Samkvæmt 2. gr. upplýsingalaga taka lögin til allrar starfsemi stjórnvalda og lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera. Samkvæmt 3. gr. laganna taka þau einnig til einkaaðila, hvort sem þeir eru í opinberri eigu eða ekki, að því leyti sem þeim hefur með lögum eða með ákvörðun eða samn­ingi sem byggist á heimild í lögum verið falið að taka stjórnvaldsákvörðun eða sinna þjónustu sem kveðið er á um í lögum að stjórnvald skuli sinna eða telst að öðru leyti liður í opinberu hlutverki stjórn­valds.

Tækniskólinn er einkahlutafélag sem er að öllu leyti í eigu einkaaðila, þ.e. Samtaka iðnaðarins, Samtaka fyrir­tækja í sjávar­út­vegi, Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík og Samorku, samtaka raforku-, hita- og vatns­veita. Skólinn starfar á grund­velli þjónustusamnings við mennta- og menningarmálaráðuneytið (nú mennta- og barnamálaráðuneytið) um kennslu á framhaldsskólastigi. Hann er að mestu leyti rekinn fyrir opin­bert fé og lög um framhaldsskóla, nr. 92/2008, gilda um starfsemi hans. Gögn í vörslum Tækni­skólans sem lúta að því þjónustuhlutverki sem skólinn sinnir á grundvelli þeirra laga kunna því eftir atvikum að falla undir gildissvið upplýsingalaga, sbr. 3. gr. laganna.

Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál geta starfsmannamál Tækniskólans hins vegar ekki talist vera hluti af þeirri opinberu þjónustu sem skólanum er falið að veita samkvæmt lögum nr. 92/2008 og eru starfsmenn hans ekki opinberir starfsmenn, sbr. lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.  Við túlkun 3. gr. upplýsingalaga verður að hafa í huga að ákvæðinu er fyrst og fremst  ætlað að tryggja samræmi og jafnræði borgaranna þegar kemur að framkvæmd opinberrar þjónustu. Í ákvæð­inu felst þannig að stjórnvöld geta ekki fært verkefni sem þeim eru falin með lögum og ella hefðu fallið undir upplýsingalög undan gildissviði laganna með því að semja við einkaaðila um rækslu þeirra.

Að mati nefndarinnar eiga framangreind sjónarmið ekki við um þau gögn sem deilt er um aðgang að í þessu máli. Verður þá að líta til þess að gögnin eru til komin vegna kvörtunar kæranda, sem var starfs­maður skólans, yfir háttsemi stjórnenda Tækni­skólans og varða því ekki framkvæmd opinberrar þjón­ustu gagnvart borgurunum. Með vísan til framangreinds fellur efni kæru í þessu máli utan gildis­sviðs upplýsingalaga og er því óhjá­kvæmi­legt að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 25. júlí 2023, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum