Hoppa yfir valmynd

1155/2023. Úrskurður frá 20. október 2023

Hinn 20. október 2023 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1155/2023 í máli ÚNU 23080006.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 10. ágúst 2023, kærði A lögmaður, f.h. Colas Ísland ehf., afgreiðslu Reykjavíkurborgar á beiðni um gögn. Málsatvik eru þau að Colas Ísland varð hlutskarpast í út­­boði Reykjavíkurborgar um fræsun á yfirborði malbikaðra gatna í Reykjavík vegna endurnýjunar mal­­­biksslitlaga. Félagið gekk í kjölfarið til samninga við borgina um verkið.

Á verkfundi með Reykjavíkurborg og eftirlitsaðila nokkru síðar kom fram að ráðstafa ætti hluta af fræsisvarfi til aðila sem sinna malbikun gatna (yfirlagna) hjá borginni. Colas Ísland ehf. mótmælti því fyrir­komulagi og benti á að það væri ekki í samræmi við það sem fram kæmi í útboðsgögnum um ráðstöfun fræsisvarfs.

Kærandi telur að framangreind ráðstöfun sé til þess fallin að hafa áhrif á félagið; þannig sé mál með vexti að Colas Ísland ehf. hafi tekið þátt í tveimur öðrum útboðum um malbiksyfirlagnir hjá Reykjavíkur­borg. Í báðum útboðum hafi félagið átt næstlægsta tilboðið. Í gögnum þeirra útboða hafi ekki verið til­greint að Reykjavíkurborg notaði fræsisvarf úr fræsiverkefnum borgarinnar í malbiksverkefni á hennar vegum. Félagið hafi ástæðu til að ætla að aðrir bjóðendur í þeim útboðum hafi vitað af þessu fyrir­komulagi og þar með getað boðið lægra verð, vitandi að hluti þess hráefnis sem þyrfti í verkið fengist frá Reykjavíkurborg.

Af þessu tilefni óskaði kærandi hinn 30. maí 2023 eftir aðgangi að upplýsingum og gögnum hjá Reykjavíkurborg í þremur töluliðum í tengslum við málið. Þar á meðal var eftirfarandi fyrirspurn:

Hvenær var það fyrirkomulag innleitt við vegagerð á vegum verkkaupa, Reykjavík­ur­borgar, að veita þeim verktökum sem sjá um malbikun (yfirlagningu) jafngildi þess fræsisvarfs sem þeir nýta af malbikskurli í nýtt malbik við yfirlagnir hjá borg­inni? Var slíkt fyrirkomulag við­haft og þá að hvaða magni á árunum 2020–2022?

Í svari Reykjavíkurborgar, dags. 16. júní 2023, kom fram um þennan lið erindisins að ekki væri um að ræða beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum heldur spurningu sem ekki yrði krafist svara við á grundvelli upplýsingalaga. Mögulega mætti afmarka beiðnina betur þannig að tilgreint væri hvaða gögnum væri leitað eftir, lægju þau fyrir. Sjálfsagt væri að aðstoða kæranda við slíka afmörkun. Svarinu fylgdi nokkuð magn gagna um fræsun malbiksslitlaga í Reykjavík fyrir árin 2020 til 2022, þar á meðal lokaskýrslur eftirlits, verkfundargerðir og lokaúttektargerðir.

Í svari kæranda, dags. 28. júní 2023, kom fram að það ættu að vera til gögn í tengslum við framan­greinda fyrirspurn um fyrirkomulag Reykjavíkurborgar um ráðstöfun fræsisvarfs. Væri beiðnin því ítrekuð. Í svari Reykjavíkurborgar, dags. 6. júlí 2023, kom fram að gögn um það sem óskað væri eftir í þriðja lið væru ekki til. Í svari kæranda, dags. 12. júlí 2023, kemur fram að ólíklegt sé að fyrirkomulag Reykja­víkurborgar um ráðstöfun fræsisvarfs hafi komist á munnlega án þess að slíkt væri rætt á fundum og skrásett. Væri beiðnin því ítrekuð. Í svari Reykjavíkurborgar, dags. 18. júlí 2023, kom aftur fram að gögnin væru ekki til.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Reykjavíkurborg með erindi, dags. 10. ágúst 2023, og borginni veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að Reykjavíkurborg léti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögn Reykjavíkurborgar barst úrskurðarnefndinni hinn 24. ágúst 2023. Í umsögninni kemur fram að ekkert fyrirkomulag eða vinnureglur séu til um fyrirkomulag Reykjavíkurborgar um ráðstöfun fræsi­svarfs sem kæran lýtur að. Gögn sem heyri undir beiðni kæranda séu ekki til.

Umsögn Reykjavíkurborgar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 31. ágúst 2023, og honum veittur kost­ur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Í athugasemdum kæranda, dags. 14. september 2023, er dregið í efa að ekki séu til gögn sem heyri undir beiðni kæranda. Reykjavíkurborg hafi í kæru­­máli kæranda hjá kærunefnd útboðsmála tekið fram í athugasemdum til nefndarinnar að með hliðsjón af umhverfissjónarmiðum hefði borgin lagt upp með í auknum mæli að endurnýta fræsisvarf í malbik­unarframkvæmdum. Ummælin beri með sér að einhvers konar vinnureglur eða fyrirkomulag hljóti að vera til.

Með erindi, dags. 3. október 2023, veitti úrskurðarnefndin Reykjavíkurborg færi á að bregðast við um­sögn kæranda. Í svari Reykjavíkurborgar, dags. 4. október 2023, kom fram að kærandi og borgin hefðu átt í samskiptum í septembermánuði vegna kærumála hjá kærunefnd útboðsmála og úrskurðar­nefnd um upplýsingamál. Í þeim samskiptum hefði kærandi fallist á þær röksemdir Reykjavíkurborgar að engin gögn væru til um fyrirkomulag um ráðstöfun fræsisvarfs.

Þar hefði einnig komið fram af hálfu Reykjavíkurborgar að í útboðum vegna fræsinga og malbiksyfir­lagna hefði alltaf verið unnið eftir þeim skilningi að borgin hefði rétt til að nýta það fræs sem til félli. Svo virtist sem notkun fræss og eftirspurn eftir því hefði nýlega aukist. Hjá borginni væri nú til skoð­unar hvort tilefni væri til að skerpa á útboðsskilmálum enn frekar varðandi áskilnað borgarinnar gagn­vart eignar- og ráðstöfunarheimildum yfir fræsisvarfi. Með því væri ekki ætlunin að víkja frá gildandi framkvæmd heldur árétta þann skilning sem borgin legði þegar til grundvallar og unnið væri eftir.

Niðurstaða

Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga veita lögin rétt til aðgangs að fyrirliggjandi gögn­um. Af þessari meginreglu leiðir að þegar aðilum sem falla undir upplýsingalög berst beiðni um upp­lýs­ingar þá ber þeim á grundvelli laganna skylda til að kanna hvort fyrir liggi í vörslum þeirra gögn með þeim upplýsingum sem óskað er eftir, sbr. 15. gr. laganna, og í kjölfarið taka rökstudda ákvörðun um hvort veita beri kæranda aðgang að gögnunum á grund­velli laganna í heild eða að hluta.

Af upplýsingalögum verður ekki leidd sambærileg skylda aðila sem heyra undir gildissvið laganna til að svara almenn­­um fyrir­spurn­um sem hafa ekki tengsl við gögn í vörslum þeirra. Ekki er útilokað að þeim aðil­um kunni að vera skylt að bregðast við slíkum fyrirspurnum þótt ekki liggi fyrir gögn með upplýs­ing­unum sem óskað er eftir, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og óskráða leið­beiningar­reglu þess efnis að stjórnvöldum sé skylt að veita þeim sem til þeirra leita nauð­synlega aðstoð og leið­beiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þeirra. Hins vegar er það almennt ekki í verka­hring úrskurðarnefndar um upplýsingamál að taka afstöðu til slíkra erinda miðað við hvernig hlutverk nefnd­arinnar er afmark­að í 20. gr. upp­lýs­inga­laga.

Reykjavíkurborg hefur afhent kæranda nokkurt magn af gögnum sem varða fræsun malbiksslitlaga í Reykjavík fyrir árin 2020 til 2022. Hins vegar er fullyrt af hálfu borgarinnar að engin gögn liggi fyrir sem heyri undir gagnabeiðni kæranda, svo sem vinnureglur eða önnur gögn sem útskýri fyrirkomulag borgarinnar varðandi ráðstöfun fræsisvarfs. Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til þess að rengja þær staðhæfingar Reykjavíkurborgar.

Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi. Þegar svo háttar til að gögn eru ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða synjun á aðgangi að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarnefndin áréttar loks að það kemur í hlut annarra aðila en nefndarinnar að hafa eftirlit með því hvernig sveitarfélög sinna skyldum sínum um skráningu og vistun gagna, sbr. 27. gr. upplýsingalaga. Vísast í þessu sambandi einkum til ráðuneytis sveitarstjórnarmála og umboðsmanns Alþingis.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 18. júlí 2023, er staðfest.

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum